Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

sunnudagur, apríl 29, 2007

Draumar og fyrrum skólaminningar

Og það hringsnýst í huga mér. Í tíma og ótíma. Hvað er eiginlega að verða um mig? Er ég að drukkna í löngunum, hugsunum, pælingum, skipulaggningu, framtíðaráformum, bara nefnið það, ég hef velt því fyrir mér.

Enn og aftur velti ég því fyrir mér hvað mig langar í ósköpunum að gera. Mig langar að læra eitthvað. En hef ekki mikla trú á mér í þeim pakka. En ef ég punkta niður allt það sem ég gæti hugsað mér að læra og gera yrði það eitthvað í þessa áttina.

  • Ætli ég þyrfti ekki að byrja á að vinna í blómabúð til að undirbúa blómaskreitinganám á mjög góðum og skemmtilegum stað sem heldur mér við efnið og hrifsar til sín alla athygi mína.
  • Blómaskreytinganám tekur 3 ár, tvö í skóla og eitt samningsbundið nám með ítarlegum vinnudagbókarfærslum.
  • Svo væri gaman að læra útstillingar í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Hefur alltaf þótt það mjög spennandi.
  • Það er nú ekki nóg að vera blómaskreytir heldur væri gaman að mennta sig meira og verða blómaskreytingameistari. Það þarf að læra í Danmörku eða annarsstaðar í útlöndum.
  • Það væri gaman að taka einhvernskonar kennararéttindi. Uppeldisfræði, leikskóla eða grunnskólakennari. Mig langar að prófa að kenna lífsleikni áfanga. Ég myndi í það minnst standa mig betur en allir þeir kennarar sem hafa kennt mér þetta fag frá 8 bekk grunnskóla og þangað til á öðru ári í framhaldsskóla. Lífleikni er fag sem á að skilja eitthvað eftir og fá mann til að hugsa. Ja eða almenn réttindi svo ég gæti kennt útstillingar eða blómaskreytingar.
  • Mig langar að læra að veggfóðra. Hehe já þið lásuð rétt. Einhverntíman velti ég því fyrir mér að verða málari.
  • Væri gaman að vera með BA gráðu í sálfræði og guðfræði líka.
  • Margt hönnunnarnám finnst mér líka spennandi. Væri gaman að læra eitthvað um innanhússhönnun og arkitektúr.
  • Væri líka til í að læra stjórnun á vinnustað og viðskiptafræði. Væri gaman að prófa að vera með sitt eigið fyrirtæki eða stofnun.

En þetta eru aðeins hugmyndir drauma minna. Getið líklega sagt ykkur að þetta verður aldrei. Ég er ekki einu sinni stúdent. Og hvað ætli það taki mörg ár að komast í gegnum það? Vitiði, ég hef bara engan áhuga á því að halda áfram með þetta bölvaða stúdentspróf. Einhverra hluta vegna held ég að ég myndi standa mig betur í háskólanámi sem væri hnitmiðað og markvisst. En ég fer líklega aldrei í háskóla. Hvernig ætti ég svo sem að komast þangað inn? Smá útskýring.

Ég fór í grunnskóla. Hvað er það sem stendur eftir? Jú óskemmtilegar minningar um ósamheldna krakka, skelfilegar frímínótur, einelti, misjafna kennara, öskur og læti alla daga og neikvæðar ábendingar og gagnrýni frá kennurum. Í svona umhverfi er ekki skrítið að maður missi allan áhuga. Maður var bara krakki og þetta er uppeldisþáttur. Skólastarf og hvernig staðið er að högum hvers og eins innan skólastofunnar skiptir máli. Sumir þurfa meiri hvatningu en aðrir, sumir eru lengur að læra en aðrir, sumir taka eftir því neikvæða sem stöðugt er ýtt að manni. Við áttum ekki saman, lítið var gert í eineltismálum í bekknum og kennararnir upp til hópa óviðræðuhæfir. Það er ekki skrítið að fyrir mörgum árum hafi ég gefist upp á þessum lærdómi. Það er svo langt síðan mér varð alveg sama og nennti ekki að halda áfram að ég man það ekki einu sinni. Ég man þegar ég öskraði á kennarann þegar ég reiddist mikið. Ég man þegar ég reif skyndiprófin í stærðfræði í tætlur. Ég man þegar ég fékk núll í landafræðiprófi í 6 bekk. Ég man þegar borðum var hent um stofuna og stólarnir flugu um í loftinu. Ég man þegar ég fékk í mig grjótharða snjóbolta en öllum var sama. Ég man þegar það var frjáls tími en ég stóð og lagaði til bækurnar í bókahillunum og á bókaborðinu. Er skrítið að maður hafi ekki nennt að leggja sig fram? Ég missti áhugann og langaði ekkert til að leggja mig fram. Enda var þetta umhverfi ekki ólíkum einstaklingum bjóðandi.

Niðurstaða: Ég útskrifaðist úr grunnskóla með fall í öllum fögum nema einu í samræmduprófunum og gat ekki verið meira sama. Ég þekki ekkert af því fólki í dag sem ég var með í bekk í 10 ár. Í raun finnst mér það allt í lagi. Við erum alltof ólík og betra að kynnast nýju fólki en þeim sem áður gerðu manni lífið leitt.

Ég lagði leið mína í VMA. Hækkaði mig í öllum fögum og nennti oftast að læra heima til að byrja með. En það var og er fast í mér að ég get ekki lært. Ég hef bara ekki áhuga eða það sem til þarf. Hef ekki þá athygli sem þarf til að detta ekki útúr í kennslustundum eða læra það sem stendur í bókunum. Enda þarf ég að lesa og lesa til að læra hlutina og jafnvel kannski bara brot af þeim. En ég mætti samt og hékk þarna mér til afþreygingar. Maður verðu jú ekki neitt ef maður hefur ekki menntun. En tíminn leið, verkleg fög gengu vel eins og við mátti búast en allt bóklegt fór úr skorðum. Ég nennti ekki að mæta, ekki að læra, þekkti engann og dimmar skólastofur heilla mig ekki. Þaðan fór ég með nokkur föll en náði þó flestu sem ég tók mér fyrir hendur. En þrátt fyrir að hafa verið þarna í 3 ár er ég næstum ekki búin með neitt.

Niðurstaða: Grunnskólaganga mín setti sitt mark á mig og mér líður ekki vel í skólabyggingum. Finn mig ekki í hvaða hóp sem er og líkar ekki við kuldalega og ópersónulega kennara. Ég tók mér frí frá skólanum og fann mér önnur verkefni.

Ég er ekki stolt af skólagöngunni minni. Það viðurkenni ég alveg. Ég er stolt af því að hafa komist út úr þessum skólum en er samt uppistandandi í dag. Ég hefði viljað að grunnskólinn minn hefði staðið betur að málefnum allra í skólanum og veitt hverjum og einum nemanda betri sýn. Ekki bara mér, heldur öllum. Fólk þarnfast ekki þess sama og kennarar verða að sjá það góða í öllum og ræða þau mál sem upp koma. Það er ekki lausn að lýta fram hjá vandanum. Jafnvel þó svo maður verði ekki fyrir honum sjálfur. Ég man þegar við vorum í 9. eða 10. bekk og einni stelpu var hrint á ganginum og hún rifbeinsbrotnaði. Við fórum nokkrar stelpur og spurðum skólastjórann hvort það væri ekki tími til að gera eitthvað í eineltismálum skólans. Við fengum einhverja ruglu um Regnbogabörn sem við trúðum auðvitað ekki að væri búið að panta að fá. Reyndist rétt, málið var þaggað niður og allt hélt áfram í sama fari.

En það er ekki hægt að kenna grunnskólaum um allt. Jafnvel þó svo að mikilvægustu ár í uppvexti barna myndi ég telja að væru á grunnskólagöngu þeirra. Ég sá bara ekkert að þessum hlutum áður enda var maður ekki vanur öðru.

Í dag kemur þetta í veg fyrir að ég fari með einkunnir síðastliðinna skólaára og sæki um í öðrum skóla. Ég skammast mín fyrir að koma með blað með verulega slæmum einkunnum á. Maður fyllist vonleysi og langar einfaldlega ekki að reyna meira. Enda kæmist ég ekki inn í nokkurn skóla með þann árangur sem ég hef á baki mér. Hvernig get ég svosem orðið eitthvað? Hvernig getur manneskja sem getur ekki fest athygli í bókum eða öðlast menntun orðið eitthvað? Kannski verð ég aldrei neitt. Það rætist örugglega aldrei neitt af þessu. Ég hef enga löngun né getu til þess að halda áfram. Fyrrum skólaár gerðu sitt. Skóli í minni merkingu táknar slæma hluti.

Fyrirgefið langt blogg.

Valborg Rut

7 Comments:

  • Frábært blogg.
    Man eftir þegar við fórum til skólastjórans útaf eineltinu, henni var alveg sama. Hef sjaldan verið eins hneyksluð. Og ég verð nú að viðurkenna að mér leið alls ekki vel þessi 2 ár sem ég var þarna. Það var eitthvað við neikvæða andrúmsloftið. Skóli getur verið öðruvísi, ég hef sönnun fyrir því. Ég var í frábærum grunnskóla í 7 ár og allar bestu minningar mínar frá barnaárunum eru þaðan, það er allt annað að hafa jákvæðan anda og skemmtilega kennara.
    Ég hef nú hætt tvisvar í MA, frekar fyndið en ég er samt ákveðin í að verða eitthvað, þó það taki mig 10 ár! Ég þekki nú eina konu sem tók stúdentsprófið rúmlega fimmtug og fór í háskóla og nú er hún sálfræðimenntuð og ég held að hún hafi kennt eitthvað.
    Allt er hægt! :) Mundu það kæra mín... og svo bæti ég nú við að ég þekki fáa sem ég var með í grunnskóla og það er bara allt í lagi, ég hef ÞIG! ;) :*

    By Anonymous Nafnlaus, at 12:59 e.h.  

  • Allt tekur sinn tíma og það er ekkert sem þú getur ekki gert. Ég hef kynnst þér nógu mikið til að vita að þér eru allir vegir færir. Þú verður bara að trúa á það sjálf. Síðan er líka gott að vera með vini sem minna þig á það hvað þú ert frábær. En þér verður að finnast það líka.

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:59 e.h.  

  • Elsku kerlingin mín þetta eru miklar pælingar og erfiðar.
    en ég hef mikið álit á þér og þú hefur svo margt gott fram að færa og ef þú ert ákveðin að gera eitthvað gerir þú það alltaf vel.
    Hafðu trú á sjálfri þér og mundu ég vil ég skal og vertu þú sjálf þá farnast þér vel.
    Nú skaltu njóta tímans í Noregi með börnunum og góða fólkinu þar og koma glöð og ánægð heim í haust. Afi biður að heilsa.
    Líði þér vel vinan
    Knús frá ömmu.

    By Anonymous Nafnlaus, at 4:48 e.h.  

  • Elsku Valborg Rut. Það er ekki rétt að þú hafir aðeins fengið slæmar einkunnir og fall í VMA.
    Man ekki betur en að þú hafir fengið frábærar einkunnir fyrir verkefni þín t.d. í sálfræði og stóðst þig vel á prófum. Og ekki bara þar því oft stóðstu þig vel þó svo að aðrar greinar gengu ekki eins vel. En þannig er það oft og ekki bara hjá þér. Það sem okkur þykur gaman að ....það gegnur oftar betur en það sem okkur leiðist að gera eða læra. Þú getur þetta svo vel bara ef þér finnst þetta gaman. Það sjáum við svo vel eins og t.d. í öllum verklegu greinunum þínum í skólanum.

    Það er ekki sjálfsagður hlutur að öllum þyki gaman í skóla. Það eru ekki allir eins til allra lukku. Það er ekki nóg að vera góður á bókin og kunna síðan ekkert á lífið sjálft....

    Ef þig langar til að verða eitthvað getur þú það alveg...bara gefa því tima og þolinmæði, kjark og þor. (eitthvað sem mig vantar)

    Þú ert frábært stelpa sem ég er stolt af og þykur vænt um ....alveg sama hvort þú sért
    sprenglærð eða ekki.

    Hættu nú að hugsa um þetta í bili og njóttu lífsins við þitt góða starf í Noregi.

    Knús frá mér.
    Mamma.

    Ps. Þau eru nú ekkert smá heppin öll litlu börnin sem að þú hefur passað og allir krakkarnir sem að þú hefur verið með í æskulýðsstarfinu hér heima.
    Þú hefur allsstaðar verið vel liðinn í þeim verkefnum sem að þú hefur tekið þér fyrir hendur.
    Mundu það.

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:48 f.h.  

  • Takk fyrir góð komment ;) Þið eruð frábær!

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:54 f.h.  

  • Hæ Vabbý !
    Ég ætla nú bara að skamma þig aðeins!! - Hvað þýðir að velta sér upp úr þessu. Og sumt var líka þér sjálfri að kenna (eftir að þú komst í VMA). Ég man þegar ég var að hjálpa þér í dönsku og þú sagðist aldrei glósa orðin sem þú skildir ekki - hvernig ætlaðir þú að læra þau? - helstu að þau stykkju bara inn í þig ??
    Ég er annars sammála þeim sem hér hafa skrifað - þú getur það sem þú vilt - og farðu bara að trúa okkur !!
    Mér lýst sérstaklega vel á fyrstu fjóra liðina - þ.e. garðyrkjuskólann - gefur líka ýmsa möguleika á framhaldi - og fjölbreyttri vinnu - og svo áfram í útstillingar ef þú vilt.
    ----- Og það er orðin úrelt hugsun að allir séu búnir að læra 25 ára. - Eins og Helga sagði - "gamlar kellingar" taka upp á því að fara í nám þegar þær finna innri áhuga og tækifæri til. Aldrei of seint.
    Ég sé alltaf setningu á Land-Rover bíl sem á heima í Hamarstígnum. Hún er svona: One life - live it !! Eða " eitt líf - lifðu því". Njóttu því dagsins og stundarinnar. Hitt kemur síðar.
    Góðviðriskveðjur.
    Helga.

    By Anonymous Nafnlaus, at 8:55 f.h.  

  • Maður hefur ekki áhuga á að glósa ef maður hefur ekki áhuga á skólaum í heild. Hvernig átti maður þá að nenna að læra? Hvað átti að fá mann til þess að hafa áhuga á því? Ég gefst upp, ég fæ mér vinnu í ruslinu og læri ekki neitt.

    By Blogger Valborg Rut, at 9:20 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home