Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

föstudagur, apríl 13, 2007

Úr brotum gamalla minninga

Ég man þegar við krakkarnir í Tjarnarlundinum tókum gráan lúsugan skógarkött í fóstur og leyfðum honum að búa í ruslageymslunni okkar.

Ég man þegar við fórum á ruslahaugana og komum heim með brúnt risastórt gólfteppi með rauðum rósum á og brúnan þungan stól. Gamall maður var svo vingjarnlegur að keyra okkur heim með dótið á bílkerrunni. Við ætluðum að byggja kofa en geymdum gólfteppið í skóginum á skólalóðinni þangað til. Foreldrarnir máttu náttúrlega ekkert vita. Hehe.

Ég man þegar við fórum í heimsókn til bæjarstjórans og báðum um kofaleyfi á einhverju túni. Maðurinn brosti út að eyrum yfir þessum krakkagríslingum og játaði því að auðvitað mættum við byggja okkur lítinn kofa á túninu. Seinna heyrðum við að þetta hefði verið skemmtilegasta heimsókn sem bæjarstjórinn hafði fengið á heimili sitt frá ókunnugum. Alla geta saklaus börn brætt inn að hjartarótum.

Ég man fyrsta skóladaginn minn. Ég var í peysu sem amma gerði handa mér og með nýju fjólubláu skólatöskuna og mamma tók mynd af mér. Þetta var á þeim tíma sem ég hélt að skólinn yrðu 10 skemmtileg ár.

Ég man þegar ég varð stóra systir í fyrsta skipti. Ég fékk að fara í pössun til Stebbu frænku á meðan barnið fæddist. Fór svo með henni á sjúkrahúsið og skoðaði litla bróður stoltust í geiminum. Og ég fékk að gefa honum snuddu í fyrsta skipti og hún virtist svo risastór.

Ég man þegar mér var alveg sama hvort það væri drasl í herberginu mínu eða ekki. Og þegar mér var alveg sama þó ég setti aldrei rúmteppið á rúmið og það lægi bara í hrúu á gólfinu í bland við dúkkur, pónýhesta, föt og kubba.

Ég man þegar við æfðum af lífs og sálarkröftum fyrir hvern öskudaginn á eftir öðrum. Og alla þá gleði þegar ég kom heim með risastóra nammipokann með mörgum kílóum að nammi. Nammiáhuginn hefur víst alltaf fylgt mér.

Ég man þegar ég passaði "annað hvert" barn á Akureyri og fannst æðislegt þegar ég fékk 50 krónur fyrir.

Ég man þegar ég fékk grænann 100 krónu seðil og fékk að fara út í búð að kaupa nammi fyrir svona stóran pening.

Ég man þegar ég átti fullt af litlum boltum sem geymdir voru í brúnni gamalli tösku sem mamma átti. Boltarnir voru 14 og hétu allir einhverjum skrítnum nöfnum. Þeir áttu líka æfingabók og ég gaf þeim einkunn þegar ég þóttist þjálfa boltana mína. Ótrúlegt en satt fóru ótal klukkutímar af nokkrum árum í þetta mikla áhugamál.

Ég man þegar ég, pabbi, Stebba, Unnur og Skundi löbbuðum uppí Fálkafell næstum á hverjum degi. Á þeim tíma sem alltaf var opið þar og þegar við Unnur blönduðum saman ólíklegustu kryddum við heitt vatn og sögðum svo pabba og Stebbu að þetta væri heitt kakó handa þeim. Þau trúðu okkur sjaldnast.

Ég man þegar konurnar á leikskólanum skipuðu mér að drekka mjólkina mína og ég kúaðist og fannst þetta svo ógeðslega vont. Og hvað ég öfundaði eina strákinn á allri deildinni sem mátti fá vatn að drekka. En þarna sat ég og píndi í mig vonda mjólk eða drakk ekki neitt.

Ég man þegar ég gat ekki opnað barnamatskrukkurnar þegar ég var lítil að passa bræður mína ein heima. Þá fór ég til konunnar í næstu íbúð og hún opnaði þær fyrir mig.

Ég man þegar amma saumaði á mig og mömmu eins kjóla. Minn var grænn og mömmu bleikur. Rosalega flottir. Svo fórum við út að labba í flottu kjólunum okkar með nýja bláa barnavagninn og nýja litla bróður minn.

Ég man þegar ég fór á fyrstu kóræfinguna mína í kirkjunni. Þegar ég fór með Stebbu frænku að syngja fyrir Svein Arnar í inntökuprófinu og ég kunni ekki textann við fann ég á fjalli lagið sem ég lærði samt í leikskóla.

Ég man þegar það var enginn skóli vegna veðurs. Vá hvað maður beið spenntur við útvarpið á morgnanna ef veðrir var vont til að tékka hvort það kæmi ekki örugglega tilkynning frá skólanum.

Ég man þegar ég eignaðist fyrstu vinkonu mína. Hún flutti í sama stigagang í blokkinni okkar. Þá vorum við á leikskóla. Við vorum feimnar og þorðum ekki að segja neitt. Mamma gaf okkur ís og við sátum framá gangi við hvíta smelluborðið okkar að borða ís því við þorðum ekki inn til hvor annarrar en höfðum opið inn í íbúðirnar. Í mörg ár lékum við alltaf saman en þekkjumst ekki neitt í dag.

Ég man svo afskaplega margt. Líklega er þó best að hætta þessu rugli og fá sér lion bar ís. Vá ég hefði getað hoppað hæð mína af gleði í búðinni þegar ég sá að loksins var yndilegi ísinn minn kominn til Noregs! Upp rifjuðust óteljandi danaveldisminningar frá ískaupum au-pair stelpnanna. En núna verð ég að sætta mig við að borða svona ís ein í fyrsta skipti á ævinni.

Kveðja úr sveitinní í æðislega góðu veðri og endalaust fallegu útsýni yfir sjóinn og fjöllin þar sem rauðir og appelsínugulir litir koma fram í allri sinni dýrð.

Valborg Rut

3 Comments:

  • Ég man líka þegar þú varst lítil og klipptir í sundur peysuna mína sem lá flöt á rúminu mínu eftir þvott !!
    Ég man líka þegar við vorum eitt sinn að koma út úr bílnum okkar á planinur í Tjarnarlundi....þú varst lítil og skapstór ..lagðist í palnið öskrandi og æpandi og ég fékk við ekkert ráðið....
    Ég man líka þegar þú varst lítið kríli ..við spurðum hvort þú værir lítið svín...og þá fytjaðir þú þvílíkt upp á nefið og þefaðir út í loftið....
    Ég man líka þegar þú komst í einn skápinn í eldhúsinu hjá ömmu Göggu og stráðir hveitinu á gólfið....
    Ég man líka þegar þú komst heim úr Kjarnaskógi með Þóru og þú aðeins í einum skóm....týndir honum víst í læknum....
    He, he gaman að þessu.
    Kveðja mamma.

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:20 e.h.  

  • Ég man eftir fyrstu kóræfingunni þinni. Þá ekki áheyrnarprófinu, enda var ég ekki þar, en ég man vel eftir fyrstu æfingunni.

    By Blogger Unknown, at 6:16 e.h.  

  • Hehe ég man líka þegar ég klifti köflótta ullarpeysu í tvennt! æ æ æ. Svo heg ég séð mynd af mér í öllu hveitinu á gólfinu hjá ömmu rétt um eins árs. Og ég man þegar ég týndi skónum mínum í læknum, hehe það var nú bara fyndið ;)

    Ég man líka eftir fyrstu kóræfingunni minni, ég var rosalega feimin en settist að lokum hjá Öbbu og Þóru. Þá var ekki aftur snúið, ég sat þar þangað til kapellunni var breytt í núverandi mynd!

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:50 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home