Hinar einu sönnu gallabuxur
Mér hefur alltaf þótt skrítið þegar fólk er spurt í viðtölum hvers það gæti ekki verið án. Oft eru það föt sem eru umræðuefni greinarinnar. Og fólkið nefnir vissar flíkur, skó, peysu, buxur, bol... og þar fram eftir götunum. Hefur alltaf þótt þetta undarlegt að fólk geti bara alls ekki hugsað sér að missa einhverja "efnisdruslu." Það kemur þá alltaf önnur í uppáhald í staðinn.
En nú þegar gallabuxurnar mínar eru alvarlega að gefa upp öndina er ég alls ekki svo viss um að ég get lifað án þeirra. Þetta eru jú bara buxur og virðast eflaust ekki merkilegar. En jú það eru þær svo sannarlega. Þetta eru nefnilega þægilega gallabuxur. Frekar víðar en samt nokkuð þröngar um rassinn. Ekki þetta skelfilega þrönga snið sem virðist tröllríða tískuheiminum í dag.
Við Helga gerðum mikla gallabuxnaleit dagana sem hún var hérna. Við mátuðm og við mátuðum meira. Fundum fátt sem okkur líkaði og vorum ekki að fíla okkur í þessu skelfilega sniði. Ekki erum við nú feitar svo eitt er víst. En þessar þröngu buxur, að troða sér í þessi herlegheit, þröngar alla leið niður, vá mér fannst ég líta út eins og ég veit ekki hvað. Eins og lærin hefðu tvöfaldast, eins og ég hefði fitnað ískyggilega og eins og ég gæti ekki hreyft mig því þá gætu buxurnar rifnað. Eins og ég gæti ekki beigt mig, hvað þá látið mér líða vel. Hreint út sagt skelfileg tíska. Ég bara fæ það ekki skilið hvernig allir virðast geta gengið í þessu.
En hinar einu sönnu gallabuxur sem ég keypti eitt sinn fyrir marga þúsundkalla hafa alla kosti sem hafa þarf og enga galla. Mér finnst að diesel ætti að koma með fleiri útgáfur af þessum buxum. Ég hreinlega veit ekki hvað verður um mig þegar buxurnar klárast og þær rifna í sundur á rassinum. Buxurnar sem ég hef verið í án djóks nánast hvern einasta dag síðastliðið árið. Einhverjum fyndist það nú skelfing að vera alltaf í því sama. En æi er ekki málið að vera í einhverju sem manni líkar og líður vel í.
Þess má þó geta að ég á aðrar buxur í sama merki, sama sniði, sama númeri.... en þær eru ljósari á litinn. Hefur alltaf fundist aðeins meira passa við dökkt auk þess sem mér líður betur í dökkum buxum en ljósum. Draumurinn um hvítu buxurnar er allavega dáinn eftir að hafa mátað þónokkrar í Osló. Ji ég hefði ekki getað látið sjá mig í þessu. Ég fann reyndar einar sem ég heillaðist af. En því miður voru þær alltof stórar. Aðrar eins finnst líklega aldrei.
Núna skil ég fólkið í viðtölunum. Buxurnar mínar eru afar sérstakar. Ofnotaðar, snjáðar, slitnar og gamlar gallabuxur. En samt ekki eins og allar hinar buxurnar. Mínar hafa hæfileika. Hæfileika til þess að láta mér líða vel. Ég hata þessa innþröngu tísku og vil hafa buxurnar mínar passlega víðar niður. Það er óþarfi að þessi hátískuhörmung einoki markaðinn. Í hverju eiga þeir að vera sem langar ekki í svona buxur eða finnst þetta einfaldlega ekki flott?
Buxurnar mínar gætu í næstu viku sagt hingað og ekki lengra. En þær gætu líka enst til áramóta og leyft mér að njóta sín aðeins lengur. Ég vildi að þetta væru eilífðarbuxur. Buxur sem væru alltaf eins og þegar ég keypti þær fyrst en ekki margþvegnar í hinum ýmsu löndum.
Líklega þarf ég að venja mig á það að ganga í íþróttabuxum eða pilsi alla daga. Finnst það nú samt svolítið sorglegt. En í þessar hátískubuxur sem fylgja tískustraumnum í dag fer ég ekki. Ég gæti látið sauma á mig buxur. Eftirlíkingu af þeim sem ég sit hér í akkurat núna. En það gæti orðið svolítið dýr framkvæmd. En buxurnar mínar lifa ennþá og ég vona bara að þær lifi sem lengst!!!
Bestu kveðjur Valborg Rut gallabuxnaspekúlant.
4 Comments:
Hver veit nema að þú finnir nyjar og góðar gallabuxur heima á Akureyri. Líklega er bara best að versla hér heima ;-)
Vona að buxurnar endist fram að sumarfríi. ....
By Nafnlaus, at 2:56 e.h.
Blessuð,,,
ótrúlegt að það sé hæfgt að hafa öll þessi orð um buxur- og eiginlega bara einar sérstakar buxur, en gaman samt því þú kemur þessari visku skemmtilega frá þér.
Nú held ég bara að sumarið sé að koma á Akureyri, allavega er hitinn komin yfir 6 gráður. +Ég er á næturvakt eins og svo oft og að horfa hér út um gluggana, bæði í austur og norður er yndislegt. Kaldbakur hvítur og hreinn og sólseturslitir um allt en ég er ansi hrædd um að það sé kalt, vonandi hlýrra á morgun.
Allt gott að frétta, bestu kveðjur frá fallegasta staðnum
Stebba.
By Nafnlaus, at 6:09 e.h.
Þú ættir að sjá gömlu uppáhalds gallabuxurnar mínar! Þær eru meira og minna bættar. Ég er samt ekki búin að henda þeim ;) Þær eru alltaf inn í skáp þó ég notið þær nánast aldrei ;) hehe
By Nafnlaus, at 7:58 f.h.
Mamma: Hingað til hefur nú ekki fundist það sem prinsessan óskar heima í besta bænum en það má alltaf reyna!
Stebba: Já mörg orð um buxur en þetta eru náttúrlega undrabuxur!
Elín: Einmitt, maður getur nú ekki hent uppáhalds buxunum sínum! Úff ég ætla sko að geyma mínar lengi lengi lengi.... hehe
By Nafnlaus, at 6:09 f.h.
Skrifa ummæli
<< Home