Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

mánudagur, maí 07, 2007

Hunangsfuglar og önnur skordýr...


.... og ef það er ekki með vængi, þá er það padda!


Mér er ekkert farið að lítast á blikuna hvað varðar flugur og önnur kvikindi hér í sveitinni. Hver skapaði eiginlega þessi dýr? Ég meina, flugur sem bíta og orma sem æða um gólfin? Æ æ æ, ef ég á ekki eftir að fara á taugum þegar líða fer á sumarið.

Ég horfði fram fyrir mig og sá eitthvað dökkt og stórt koma á fleygi ferð í áttina til mín. Vissi ekki hvað þetta eiginlega var. Nei ekki lítil húsfluga og ekki var þetta fugl. Svo kemur það nær. Og ennþá nær og ég sé að þetta er risastór randafluga. Sem kallast í mínum huga hunangsfugl í þessari stærð. Ji minn einasti. En mér er alveg sama ef þær setjast ekki á mig og halda sér í hæfilegri fjarlægð. Reyndar er mér alls ekki eins illa við hunangsfugla eins og geitunga. Þá hleyp ég öskrandi í burtu.


Þessa dagana þjóta líka svartar ógeðslegar, marfættar pöddur um gólfin. Geri ekki annað en að stökkva á fætur, sækja pappír og kremja kvikindin. Nei takk, mig langar alls ekki að vita af svona dýrum hér á heimilinu. Sennilega verð ég að kaupa eitthvað sem hægt er að nota sem flugnanet fyrir gluggana. Ekki sef ég nú mikið ef ég má búast við geitungafjölskyldu við rúmið þegar ég vakna aftur. Já nei takk.


En allt er þetta skárra en dauðir fuglar. Af nánast öllu finnst mér það skelfilegast. Ég gæti haft geitung í herberginu þyrfti ég að velja en dauðan fugl alls ekki. Ef ég mæti dauðum fugli á gangstrétt eða þar sem ég þarf að ganga eða keyra megiði búast við því að ég taki stóran sveig framhjá eða velji aðrar leiðir í framtíðinni. Og sýnin festist, víkur ekki burt í marga daga. Ég man staðinn endalaust lengi og gleymi því ekki að það var þarna sem ég fékk sjokk. Hroll um mig alla og yfirþyrmandi ógeðistilfinningu.


Ég er fegin að það er ekki köttur á heimilinu. Kettir eru æðislegir svo framarlega sem þeir eru innandyra eða með háværar bjöllur um hálsinn. Viti ég til þess að dýrið hafi rifið í sig fugl með góðri list á ég erfitt með að horfa á hann eða snerta. Í Danmörku var ég nú lengi að sættast við köttinn eftir að ég horfði á hann renna niður músinni. En sættumst þó að lokum, enda minn helsti vinur í kjallaranum.


Að ógleymdu því að á fugli og fjöðrum er aragrúi örsmárra kvikinda. Sjái ég fjöður á heimilinu mínu get ég alveg fengið kast. Þegar ég var yngri var mér þó alveg sama. En núna er ég bráðum að verða fullorðin. Og fyrir lifandi löngu hætt öllum fjöruferðum þar sem ég týndi skeljar og fjaðrir. Enda gæti ég hugsanlega rekist á dauðan fugl.


Skordýrakveðjur.... Valborg Rut


4 Comments:

  • Oj alveg sammála þessu með fuglana. Ég verð alveg hrikaleg ef ég sé dauðan fugl. Var að keyra á Reykjanesbrautinni á laugardaginn og sá þar risastóran máf á götunni, fékk vægt sjokk. Mávar eru hræðilegir, ég þoli ekki fugla, hvorki lifandi né dauða, skógarþrestir sleppa og svona litlir sætir sem syngja ef þeir eru langt frá mér..en máfar, kríur og dúfur!!! Nei takk! Mannstu nú hvernig fuglalífið var á golfvellinum...greyin voru fyrir slátturvélunum eða drukknuðu í polli. Oj, fæ alveg hroll við tilhugsunina. He he.
    Sjáumst ekki á morgun heldur hinn!!!! :D
    Kveðja spennta vinkonan. :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:18 f.h.  

  • Þetta var skemmtilegt og fallegt skordýra blogg. Var eiginilega farin að bíða eftir því....hlaut að koma að því.....

    Ég get víst lítið hughreyst þig þar sem að ég er alveg sama píslin og þú þegar kemur að eihverjum svona pöddum. En við verðum víst að reyna að hemja okkur fyrst við fáum sumarið í staðinn.

    kv. mamma

    By Anonymous Nafnlaus, at 5:56 f.h.  

  • Ég beið eftir þessu.Bíttu á jaxlinn.
    amma

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:56 f.h.  

  • Hehe nú þekkiði mig svona vel að vita að mér líkar ekki vel við skordýr?

    Vá Helga ég man sko eftir þessu á golfvellinum! Man þegar það var dauður fugl hliðiná hjólinu mínu ofan í polli og ég þorði engan vegin að ná í það!

    By Anonymous Nafnlaus, at 7:58 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home