Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

þriðjudagur, júní 05, 2007

Að borða naglalakk

Kannski hef ég borðað of mikið af naglalakki upp á síðkastið. Síðan ég hætti að naga neglurnar hef ég alltaf þurft að passa vel uppá að hafa á þeim glært naglalakk og endurnýja það reglulega. Tilgangurinn með naglalakkinu er mikill og felst hann í því að í stað þess að naga get ég dundað við að kroppa eða skrapa það af með tönnunum. Já ég er nú ekki alveg svo klár ennþá að geta bara hætt að vera með hendurnar í andlitinu eða munninum. En neglurnar eru í það minnsta ekki nagaðar. Gallinn er hins vegar að ég held að ég borði mest af naglalakkinu þar sem það er erfitt að spíta því út úr sér þó svo ég reyni það nú oft. Og hefur þetta þann hæfileika að festast í hálsinum og valda manni óþægindum þangað til maður nennir að standa upp og fá sér að drekka. En einmitt þegar allt lakkið er búið af nöglunum er augljóslega tími til að setja nýtt, laga og pússa. Á eftir þessu bloggi verður það verkefnið. Dugleg er ég að vera að sigra baráttuna við neglurnar.

Í gærkvöldi sat ég hérna í tölvunni eins og flest önnur kvöld. Nema skyndilega gat ég ekki verið kjurr lengur og fór út að hlaupa. Þá var klukkan orðin ellefu en kvöldsólin leyfði mér að njóta nærveru sinnar þangað til hún sofnaði. Ég er á því að þessi aukna hreyfing sé við það að virka og í gær tókst mér að hlaupa alveg ótrúlega mikið. Allavega meira en ég átti von á hjá mér sem er/var með mínusþol. Í gær fór ég semsagt tvisvar að Kormeset og aftur til baka (um 6 km), fyrra skiptið um morguninn með litlu dísina og síðar labbandi, skokkandi eða sprettandi. Ótrúlega skemmtilegt finnst mér. Hvers vegna hef ég ekki verið aktívari við þessa hreyfingu um ævina? Ja kannski vegna þess að hlaupaleiðin hérna er alveg sérstaklega skemmtilegt og hæfir mér einstaklega vel, sem sé, maður hittir engann ;) Áfram með dugnaðinn!!!

Fékk Ísafold blaðið í póstinum í dag. Takk amma :) Tók daginn í að lesa það frá byrjun og til enda. Já ég sló líka persónulegt met og las þjóðmálakaflann líka (var reyndar frekar stuttur). Mest vakti þó athygli mína viðtal við Ágústu Evu fyrrverandi Sylvíu Nótt. Ég verð að segja að ég hef aðrar skoðanir á henni eftir þetta. Greinilegt að þau voru ekki alveg að koma hugsuðum boðskap á bak við persónuna til skila á meðan þessu furðulega ævintýri stóð. Margt hefur mér þó fundist fyrir neðan allar hellur og ekki vera borin virðing fyrir öllu fólki. En í raun hefur fólkið í samfélaginu ekki borið virðingu fyrir Sylvíu Nótt heldur, þó hún hafi jú vissulega fengið umdeilda athygli og aðdáun. Ég sá þó vel í viðtalinu hverju þetta átti að skila og fannst hugmyndin bara nokkuð góð. Margt sýnir líka hversu góð leikkona Ágústa Eva er þar sem þetta er jú ekki raunveruleikinn. Á bak við þetta skrautlega furðudýr hefur allan tíman verið ósköp venjuleg stelpa í leit að ævintýrum. Mest þykir mér þó aðdáunarvert að hafa haldist svona lengi í þessum óþolandi karakter og þurft marga daga í röð að vera einhver annar en hún í raun er. Ég yrði þreytt á sjálfri mér ef mér hefði verið falið þetta verkefni. Ég er þó nokkuð ánægð með að þessu rugli um Sylvíu Nótt sé lokið og orðið að fyndinni fortíð Íslendinga. En jafnframt hefur það sýnt okkur mikið og kennt okkur helling á ólíkan máta. Hvað verður hver og einn að finna út sjálfur.

En núna ætla ég að skella mér í hlaupafötin þar sem þetta fallega veður á bak við stóra gluggann minn heillar mig meira en netheimurinn restina af kvöldinu.

Bestustu kveðjur..... Valborg dugnaðarfárkur

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home