Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

föstudagur, júní 01, 2007

Njótið dagsins!

Sumarið er í einhverjum stórum vafa hvort það eigi að láta sjá sig hérna hjá okkur. Það veit ekki alveg hvort það vilji sýna sig og gleðja okkur með nærveru sinni. Þvílíkt góðir dagar inn á milli en svo er bara byrjað að rigna aftur. Man ekki eftir því að ég búi í regnskógunum en vonandi hættir bara að rigna fljótlega svo sólin geti fengið að komast að.

Ég ákvað að setja brúnkukrem á mig í gær. Er nú alltaf að tæknivæðast í þessum kvennmanns snyrtiheimi og ákvað nú að tékka á þessu þar sem ég verð nú aldrei brún. Ákvað þó að þetta yrði bara sett á fæturnar. Verð ég nú að segja að mér líður bara eins og ég sé skítug. Hehe, annað hvort er ég bara ekki vön því að vera með pínu lit á mér eða þetta krem var bara ekki alveg að virka. Svo setti ég augljóslega aðeins meira á tásurnar en hitt svo ég verð að vera í sokkum svo það lýti ekki út fyrir að ég hafi stigið í drullupoll. En annars kemur þetta nú bara nokkuð vel út held ég svo ef til vill get ég lagt það á mig að vera í stuttbuxum í sveitinni.

Agnes, Stian og Ísak héldu til Drammen í gær með tvo hesta í farteskinu á leið á hestamót. Ég, Fredrik og Leona ráðum því öllu hér í sveitinni þangað til á sunnudag. Hefur okkur nú gengið vel hingað til svo þetta verður örugglega ekkert mál. Á sunnudaginn mun ég fara með þau í fermingarveislu. Ég var nú ekki alveg að kaupa þá tillögu í byrjun en ákvað svo að ég gæti vel sýnt mig á meðal ættinga þeirra svona rétt til að sýna börnin. Mínar helstu áhyggjur eru þó eins og oft áður, í hverju á ég eiginlega að fara? Því eins og alltaf þá á ég bara alls ekki neitt þó ég eigi fullan skáp. En ekkert virðist hæfa þessu tilefni eða hrífur til sín löngun mína.

Stian sagði í gær að ég ætti örugglega aldrei eftir að vilja eiga börn eftir þessa dvöl mína hér. Ég fengi örugglega nóg af börnum fyrir lífstíð og myndi ekki nenna að eiga nein sjálf, þetta væri komið gott. Hef heyrt að þeir sem hafi farið út sem au-pair segi að þetta sé besta getnaðarvörn sem maður geti fengið og hún virki í minnst tvö ár. Ég er þó ekki alveg á sama máli. Mér finnst þetta nú eiginlega virka öfugt. Ég held að ég fái nú bara slæm fráhvarfseinkenni þegar ég fer héðan og heim á besta landið þar sem ég hef engin lítil börn til að knúsa lengur. Ég verð því að játa að þessi svokallaða getnaðarvörn er ekki að virka í þessu tilfelli. Það er því augljóst að einhver í fjölskyldunni verður að koma með krakka svo ég geti fengið að halda áfram þessu barnastússi.

Ætli hugmyndir mínar séu ekki á þrotum og líklega fer tími minn í tölvuveröld að renna út. Litla fiðrildið vaknar ef til vill á næstu mínótum og þá mun leið okkar liggja í búðina, svo heim að leika þangað til við sækjum Fredrik í leikskólann.

Njótið þess að vera til, þakkið fyrir það sem þið hafið og munið að brosa því það kemur margfallt til baka.

Knús úr sveitinni, Valborg Rut

1 Comments:

  • Blessuð,,,,
    þetta er skemmtilegt blogg, það verður gaman að vita vert ykkar barnabarnanna verður fyrst til að eiga barn en tíminn leiðir það í ljós.
    Ætli þú tímir nokkuð að koma heim frá börnunum þínum- allavega ekki frá litla fiðrildinu.
    Bestu kveðjur frá góðviðrisbænum Akureyri ;-)
    S.

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:27 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home