Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

laugardagur, júlí 28, 2007

Laugardagskvöld

Klukkan er ekki orðin tíu á þessu frekar drungalega laugardagskvöldi og ég bara sit hér í iðjuleysi mínu. Veit ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur þó eflaust gæti ég fundið eitthvað. Mig langar að mála mynd. Verst að ég kann bara ekkert að mála. En líklega er ekkert að kunna. Það geta allir málað. Og líka ég. Jafnvel þó ég myndi ekki gera eitthvað brjálað listaverk. En ég á ekki mállingu og engan pensil. Mig langar út að hlaupa en kemst ekki nema nokkur skref sökum heilsugalla minna sem tjá sig enn. Ég gæti lagað til en það er hvergi drasl og hvergi ryk í herberginu mínu. Og fataskápinn tók ég í gegn í fyrradag svo hann heldur sér enn. Ég gæti skrifað ljóð eða sögu en er of tóm til að koma einhverju á blað. Ég gæti skipulagt eitthvað en aldrei þessu vant hef ég ekkert að skipuleggja. Ég gæti krufið atvinnuauglýsingar á netinu en er komin með nóg af því að leita að vinnu. Enda virðist hvergi vanta í vinnu á Akureyri í starf sem hæfir mér og þóknast mér. Mig langar ekki að vera kassadama. Mig langar ekki að vinna skrifstofustarf. Mig langar ekki að vinna við eitthvað sem ég hef ekki áhuga á. Mig langar að vinna eitthvað sem gefur mér eitthvað á móti þegar ég gef af mér. Það virðist vera nóg að vinnu í Reykjavík og alls staðar vanta fólk á leikskóla eða í starf með börnum og unglingum. Kannski ég neyðist til að flytja í borgina. En það langar mig ekki því þá færi hver eyrir af lélegum launum í húsaleigu og skrefið úr sveitinni í brjálaða borg þar sem allir eru á þönum allan daginn og hafa aldrei tíma til að gera neitt eða allt tekur langan tíma.... úff ég held að það væri of stórt skref. Ég veit bara ekkert hvað mig langar. Er auðvitað með hugmyndir en held ég geti afskrifað þær allar. Hef eiginlega bara ekki áhuga á neinu. Langar bara að lifa og vera til. Ekki alltaf að skipuleggja allt, á þönum hingað og þangað, að láta aðra segja mér hvað ég á að gera, að hunskast í einhverja vinnu sem ég hef ekki áhuga á, að hugsa um það að ég verð ekkert ef ég læri ekkert, að breyta mér til að þóknast öðrum, að vera bara ég einhvernsstaðar og týna sjálfri mér í græðgi og ópersónulegum raunum samfélagsins. Mig langar bara að vera ég. En mér finnst ekki heillandi að vera ólærður hálviti þegar allir aðrir verða búnir með háskólanám og komnir í draumavinnuna, vel launaða og eigandi einbýlishús með stórum garði. Að þá verði ég bara enn að ákveða mig týnd í óvissu heimsins. Mig langar ekki í skóla. Ég get ekkert gert af því. Og hvað græðir maður á að fara í skóla ef maður hefur ekki áhuga á því? Akkurat ekkert því þá lærir maður heldur ekkert. Mest af öllu langar mig í heilbrigðan líkama með heilbrigðum líffærum. Þó ég sé nú ekki mikið gölluð þá sé ég alltaf betur og betur hvað maður er heppinn ef maður hefur þetta allt. En ég er þakklát fyrir að ég get í það minnsta staðið þrátt fyrir stanslausan sársauka. En það þýðir ekkert að kvarta. Þetta bara er. Lýtum á björtu hliðarnar. Það er það sem skiptir máli. En allir hafa rétt á því að vera neikvæðir stundum og við höfum rétt til þess að segja það sem við viljum. Og ég gaf mér leyfi til að skrifa neikvæða og bitra færslu. En núna vil ég fá góða skapið aftur og ætla að sætta mig við að ég get ekki farið út að hlaupa eða hreyft mig þó mig langi það mikið. Mig langar bara að vera ég.

Komment á þessa færslu eru vinsamlegast afþökkuð.

Valborg Rut.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home