Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

föstudagur, júlí 27, 2007

Saga um stelpu

Í litlu sætu húsi í fjarska hvílir kyrrð yfir öllu. Í fallegum dal þar sem sveitin angar af nýslegnu grasi og berjalyngi. Þarna búa ekki margir. Aðeins ein stelpa sem nýtur þess að kynnast sveitalífinu og lætur sér líða vel með sjálfri sér. Hún situr í gamaldags ruggustól á veröndinni og horfir á hestana sína hlaupa um á túninu. Hundurinn liggur í makindum sínum á grasflötinni og sleikir sólina. Flugurnar suða og kóngulærnar reyna að bjóða sig velkomnar en sjá að þeim er betra að halda sig fjarri. Þarna situr stelpan og hugsar. Hugsar um hvað lífið er yndislegt og hvað hún er heppin að fá að njóta þessa alls. Stelpan sem flutti úr skarkala bæjarins og settist að í sveitinni í þeim tilgangi að kynnast sjálfri sér og finna hvað hún virkilega vildi. Henni líkar vel að vakna við fuglasönginn og fara út að hlaupa í sveitakyrrðinni. Að baka pönnukökur og syngja og fylla þannig húsið af ómandi tónum. Að taka sér bók í hönd og láta fara vel um sig þangað til hún bíður eftir sunnudagsgestunum. Henni líkar vel að keyra í litla þorpið að kaupa inn og spjalla við sveitunga um daginn og veginn. Hún þýtur um sveitina á hestinum sínum og brosir við lífinu sem brosir við henni. Dugnaðar stelpa sem finnur sér alltaf eitthvað að gera. Hvort sem hún les, saumar, smíðar, málar eða ræktar grænmeti, hún elskar lífið sitt. Stundum koma dauðir tímar þar sem allt virðist svo tómlegt í einverunni. En hún rifjar upp að þetta var það sem hún valdi. Hún valdi að kynnast öðru lífi og að sjá að það er svo margt hægt að gera. Börnin á nærliggjandi sveitabæjum koma í heimsókn og hún elskar að sitja með þeim og tala um allt og ekkert. Eða þeytast með þeim um sveitina og velta sér í grasinu. Hún er hugmyndarík og skynsöm. Lifir lífinu og vill fá sem mest útúr því. Hún hlær og brosir og nýtur þess að fá fólk í heimsókn í sveitina sína í litla krúttlega húsið sem angar af hreinleika. Hún liggur í grasinu og horfir upp í stjörnubjartan himininn litríkan af norðurljósum. Þetta er yndislegt líf.

Mig langar að lifa svona. Nýjasta hugmyndin. Ég sé þetta fyrir mér og lifi mig inní þetta. Ég held að mér myndi vegna vel í sveitinni um tíma og hefði gott og gaman af því að vera þar. Ég gæti meira að segja tekið smá fjarnám í skóla og setið úti í ruggustólnum mínum og lesið á meðan lærdómsandinn myndi heltaka mig og gefa mér brennandi áhuga á náminu. Ég myndi gera upp lítið hús og hella mér í vinnu við að gera það flott og njóta þess að hafa frjálsar hendur. Ef þið vitið um fallegt hús í fallegum dal stutt frá Akureyri má endilega láta mig vita. (Svarfaðardalur, Skíðadalur kannski...) Já, litla ég er alltaf jafn hugmyndarík.

Bestustu kveðjur úr sveitinni í Noregi....

Valborg Rut

4 Comments:

  • Þú ert ótrúlega stubba mín !!
    En þetta er nú ansi líkt þér og getur svo vel passað þér. Falleg og notaleg hugmynd.

    En nýjasta fréttin að heiman nú þegar klukkan er að verða 1 að nóttu er sú að við Agnar vorum að koma frá tannlækninum fyrir stuttu síðan !!
    Já strákarnir voru úti í fótbolta. Með miklum hávaða koma þeir hlaupandi inn Baldur, Atli og Anton og segja að Agnar sé með brotna tönn..... og þá kemur Angar minn skælandi með blóð í munni og aðeins hálfa framtönn....;-( Ég sagði strákunum að fara og leyta að brotinu og þvílík heppni ...Anton fann brotið af tönninni á fótboltavellinum. Ég ákvað að hringja í Hauk tannlækni strax og spyrja hann hvað ég ætti að gera....hvort betra væri að gera eitthvað strax eða bara eftir helgi. Haukur ákvað að hitta okkur strax þó svo að hann væri rétt byrjaður í sumarfríi....ekkert smá góður.
    Þannig að við Agnar rukum af stað kl. 22 til tannlæknis og með brotið með okkur. Eftir myndatöku, deyfingu og fleira var brotið sett á tönnina aftur ásamt einhverju plasti og á að duga eitthvað áfram og kannski bara mjög lengi !! Frábært að þetta gekk svona vel.
    En það var nú hann Vigfús vinur Agnars sem gerði honum þetta alveg gjörsamlega óvart. Vigfús tók skupluna af Agnari og þá tók Angar húfuna af Vigfúsi.....þá tók Vigfús flíspeysuna sína og lamdi henni að öllum kröftum að Agnari og viti menn....rennilásinn lennti í tönninni og hún brotnaði og holdið við hliðina sprakk smá....ótrúlegt. Aumingja Vigfús er örugglega alveg miður sín og mamma hans hringdi víst hingað meðan við vorum hjá tannlækninum. Á morgun ætlum við Agnar því að fara til Vigfúsar og sýna honum að allt sé í lagi og engin sé reiður við hann.
    Þá höfum við Agnar bæði brotið í okkur framtönn :-(
    Farin að sofa.
    Bless, mamma.

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:04 e.h.  

  • Ji það er nú ekki í lagi með ykkur. En gott að brotið fannst og búið er að laga þetta! Það er vonandi að þið séuð rík, það kostar morðfjár að fara til tannlæknis, hehe, hvað þá að kalla hann úr sumarfríi að kvöldi til!

    By Anonymous Nafnlaus, at 2:25 f.h.  

  • Jamm tannlæknirinn er örugglega dýr en þar sem að hann var í sumarfríi þá nennti hann ekki að rukka mig og sagði að við myndum bara gera þetta upp eftir 3 vikur.

    En nú ætla ég að láta þig vita að við erum farin í enn eitt ferðalagið!! Erum farin í Laugafell og Landakot og verðum ekki í sambandi við umheiminn fyrr en seinni partinn á morgun.

    Hafðu það sem best.
    Kveðja frá okkur ferðafélögunum.
    Mamma.

    By Anonymous Nafnlaus, at 6:55 f.h.  

  • Mig langar líka í Laugafell og Landakot... en við tökum bara aðra ferð þegar ég kem heim ;)

    By Anonymous Nafnlaus, at 10:18 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home