Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

föstudagur, ágúst 31, 2007

Karlmenn

Auðvitað á þetta ekki við um alla karlmenn. Sem betur fer. Þá yrði ég án efa piparjónka alla mína ævi. En hver veit. Kannski lærir maður með tímanum að sætta sig við allt. En eins og svo margir vita er ég kröfuhörð og læt helst ekki yfir mig ganga. Ja nema þá að láta í mér heyra. Við myndum okkur skoðanir á öllu. Sumt erum við ánægð með, annað ekki. Sumt getum við umborið, en annað alls ekki. Og það er svo gott að það eru ekki allir með sömu kröfur.

Á heimilinu mínu er kvennfólk í minnihluta. Ég og mamma á móti pabba og tveimur bræðrum. Karlmennirnir á heimilinu hafa af einhverjum ástæðum sloppið mjög vel við allt heimilishald, matargerð, tiltekt, uppvask og innkaup. Ótrúlegt. Kannski endar það með því að pabbi hendir mér út. Ég veit það ekki. En ég geri mitt besta í að siða hann til eftir öll þessi ár. Augljóst að mamma getur það ekki ein. Enda virðist faðir minn láta sérlega illa af stjórn. Eins og hann er nú liðlegur að gera eitt og annað fyrir mann. En þegar maður reynir að skipa honum að taka t.d. diskinn af borðinu er ekki séns að hann hlýði. Furðulegt.


Undanfarin kvöld hef ég beðið föður minn og bræður um að fara með diskinn, glasið og hnífapörin á bekkinn við hliðiná vaskanum áður en þeir láta sig hverfa úr eldhúsinu. Bræðurnir voru tregir til en létu að lokum undan. Faðirinn hins vegar sagði þvert nei og neitaði dóttur sinni alfarið um þetta verk. Það væri nú tveir kvennmenn í húsinu sem gætu vel tekið af borðinu. Faðirinn fór en eftir smá tíma sást hann á labbinu. Ég bað hann að koma aðeins og hann kom inní eldhúsið þar sem við mamma sátum enn að spjalla. En þegar hann komst að því að tilgangurinn var að láta hann taka diskinn af borðinu fór hann að hlægja og ætlaði augljóslega ekki að láta eftir þessari kröfuhörðu dóttur sem vill allt gera til að ala karlmenn heimilisins betur upp.

Ég bannaði mömmu að vaska upp diskinn hans pabba. Við gengum frá og vöskuðum allt upp (eigum ekki uppþvottavél!) nema einn disk, eitt glas, og ein hnífapör. Það var haft á sínum stað á borðinu og sagði ég að þetta yrði ekki tekið fyrr en pabbi tæki það sjálfur. Hann hló að þrjósku minni og ætlar sér líklega ekki að láta mig vinna þetta mál. Seint um kvöldið var diskurinn enn á borðinu og endaði þannig seint um síðir að mamma tók diskinn af borðinu. Faðirinn tekur greinilega ekki þátt í "kvennmannsverkum".

Ég ætla að minnast á þetta á hverju kvöldi, alveg þangað til allir hjálpast að við að ganga frá. Í það minnsta að hver taki sinn disk af borðinu. Kvennfólkið á heimilinu er ekki þjónustufólk. Karlmenn eiga líka að kunna að elda, þrífa, skreppa í búðina og að taka diskinn af borðinu og vaska upp. Ég er ekki hætt og ætla hér eftir að sjá til þess að bræður mínir læri þessa sjálfsögðu hluti. Og pabbi auðvitað líka. Já, hér stjórnar dóttirin með harðri hendi þangað til mér verður hent út.

Auðvitað gerir faðir minn marga ágætis hluti, t.d. fer hann með bílinn á verkstæði einstaka sinnum en vitanlega er sjálfsagður hlutur að hjálpa til við að halda heimilinu snyrtilegu og að taka diskinn sinn af borðinu.

Ef ég einhverntíman verð kennd við karlmann skal hann kunna að taka af borðinu, vaska upp og vera liðlegur við hinar ýmsu hliðar heimilishalds. Ég er kröfurhörð í takt við nútímann. Kynjaskipting fortíðar er liðin undir lok og jafnrétti á að gilda jafnt utan heimilis sem innan.

Ég stend föst á mínu og held áfram að siða karlmenn heimilisins til. Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja, en það er pottþétt hægt. Eins er það með illa upp alda karlmenn. Gengur hægt, en gengur samt ;)

Njótið þess að vera til elsku fólk :)

Valborg Rut

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home