Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

föstudagur, nóvember 16, 2007

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er í dag. Bróðir minn sem talar hvað mestar enskar slettur á heimilinu kom með það stimplað í hausinn heim úr skólanum í dag að það mætti bara tala íslensku í dag. Í kvöld var því talað um að það væru svínaborgarar í matinn í stað hamborgara. Hef nú aldrei heyrt þetta orð áður en ákvað að tjá mig ekki um málið. Fékk mér bara brauð og velt mér ekki uppúr þessum svínasetningum. Sletturnar gleymdust reyndar fljótt og voru mættar þegar tölvuveröldin tók við. Jónas Hallgrímsson hefði orðið 200 ára í dag. Ótrúlegt að enn sé verið að kenna um þennan löngu dauða kall. Og ekki lifði hann nú heilbrigðu lífi. Var það ekki hann sem datt niður stiga heima hjá sér blindfullur? Eða var það Davíð Stefánsson?

Fór annars í vinnu í dag í fyrsta skipti í vikunni. Eftir að hafa legið í veikindum síðan á laugardag. Hafði ekki tíma í þetta vesen lengur svo ég dreif mig í vinnu. Hefði nú kannski betur látið það ógert en harkaði daginn af mér sökum mikillar fjarveru starfsfólks. Kom svo heim næstum glær í gegn. En fór þá niðrí Listfléttu og náði í kertastjakann sem ég hef beðið eftir síðan í byrjun september. Svo nú á ég tvo stóra leirkertastjaka í mismunandi hæð á kommóðunni minni :) Ætlaði svo í Bónus í mikla verslunarferð fyrir ferðalag á morgun. En frestaði því til morguns sökum heilsuleysis.

Á morgun held ég á Hólavatn með 11 stelpur úr KFUK í farteskinu ásamt þremur góðum leiðtogum. Hlakka til. Vona að veðrið verði betra en búið er að spá. En við búum á Íslandi og erum viðbúin öllu. Vona að heilsan mín fari líka að koma til og verði komin í lag þegar ég vakna í fyrramálið.

Í næstu viku verður farin fjölskylduferð til Reykjavíkur. Vá hvað ég hlakka til. Kvíði mest fyrir að það verði ekki til nóg og mikið af fötum handa mér. Enda er ég sérviskupúku og passa alls ekki í hvað sem er þó fólk virðist stundum halda að svo sé. Og ef ég finn ekki hin fullkomnu jólaföt tapa ég mér alveg. Þoli ekki vandæðafatajól. Hvað þá fataleit á þorláksmessu. Svo ég stefni að því að finna eitthvað, bæði hversdags og fínt, ef ekki þá kaupi ég efni og skelli saman einhverju voða fínu ;) Langar líka í nýju risastóru dótabúðirnar. Og dýrabúðina sem er stærst á norðurlöndunum. Og í nýju húsgagnabúðina. Vá, hef ég tíma í þetta allt?

Hér eru allir löngu sofnaðir nema faðirinn sem er á næturvakt. Eflaust ætti ég því að fara að dæmi hinna og svífa inní draumaheima.

Góða nótt elsku besta fólk....

Valborg Rut.

3 Comments:

  • Heyrðu nú kerla mín. Mér finnst alveg sjálfsagt að láta lesa og læra eiihvað eftir Jónas H.
    Lestu kvæðið "Fýkur yfir Hæðir og frostkaldan mel" þetta er eitt af uppáhalds ljóðunum mínum ásamt mörgum öðrum eins og Smávinir fagrir folda skart , Þið þekkjið fold með blíðri brá. og mörg fleiri.
    Ég vona að þú hafir það gott á Hólavatni og látir þér batna pestin.

    Knús frá ömmu.

    By Anonymous Nafnlaus, at 3:04 e.h.  

  • Já já minnsta mál að kenna eitthvað um Jónas Hallgrímsson og önnur góð skáld. En hvor var það sem dó þegar hann datt í stiganum?

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:17 f.h.  

  • Það er bara orðið rosalega erfitt að nota bara íslenskuna, maður er farin að sletta alveg hrikalega mikið! :S Skrítið samt að taka ekki þátt í e-u skemmtilegu á þessum degi því ég hef gert það síðustu 14 ár! En ekki núna! Braut alveg eyðinn og talaði meira að segja norsku þann daginn!
    Jæja kona farðu nú að drífa þig upp í flugvél og komdu hingað! Getum farið í Alasund og fundið jólafötin á þig :) Gott plan??

    By Anonymous Nafnlaus, at 11:21 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home