Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

sunnudagur, desember 02, 2007

Gleðilega aðvenntu :)

Við kveikjum einu kerti á,
Hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og jesúbarnið er.
Þennan söng er ég búin að syngja sex sinnum í dag. Dagurinn er sérstakur, fyrsti dagur aðventunnar. Ég söng þetta fyrst í messu í Akureyrarkirkju í morgun. Því næst söng ég þetta á kaffihúsasamveru kfum&k þar sem krakkarnir í deildarstarfinu settu mikinn svip á dagskránna. Aðventukvöldið í Akureyrarkirkju tók að lokum við og þar var þetta sungið tvisvar eins og í hin skiptin. Dagur tileinkaður aðventunni og upphafi jólaundirbúnins, auk góðvilja og heimsóknar. Auk þess söng ég Bjart er yfir Betlehem tvisvar sinnum. En jafnvel þó ég hafi sungið oft það sama finnst mér það alltaf skemmtilegt. Aðventan og jólin eru ekki á hverjum degi.
Snjórinn heldur áfram að falla til jarðar og göturnar fyllast af snjó. Glaðlyndir krakkar liggja í snjónum, búa til snjóengla. Aðrir gera snjókalla í öllum stærðum og gerðum. Börn sitja á snjóþotum, renna niður brekkur eða njóta þess að láta draga sig eftir gangstéttum bæjarins. Einstaka stelpukjáni er enn með bert á milli, þunnur bolurinn alltof stuttur. Flestir hafa þó tekið fram utanyfirflíkur og vettlingar eru í hávegum hafðir.
Í laginu er talað um kerti og spil. Hér eru logandi kertaljós auk litla bróður sem bíður þess að ég spili við sig.
Lifið í gleðinni....
Valborg Rut

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home