Harkaðu af þér
Sit hér í Hólmasólarbol og íþróttabuxum. Frekar skítug eftir daginn, litlir puttar hjálpuðu til við lúkk dagsins. Snjórinn hylur jörðina og allt er svo endalaust fallegt. Litlir fætur örkuðu um í snjónum með rauða nebba og þeir þrjóskustu með kalda fingur sökum vetlingaleysis. Snjórinn hangir á trjánum, svo hreinn og fínn. Horfði löngurnaraugum út í veturinn og nýfallinn snjóinn þar sem ég sat og kubbaði á gólfinu. Mikið langaði mig út að labba. Hugurinn leitaði uppí Fálkafell. Ófá skiptin sem ég hef arkað þangað en orðin einhver ár síðan. Gamla húsið með öllu gömlu hlutunum. Gaseldavélin og þunnu brúnu dýnurnar á svefnloftinu. Kamarinn sem ég hef aldrei þorað inná, og vatnsbrunnurinn þar sem klakinn gat orðið svo þykkur á veturnar. Í dag er hins vegar húsið lokað þar sem alltaf þurfa einhverjir að hafa vondar hendur. En fyrir utan er allt við það sama. Útsýnið yfir bæjinn og náttúra fjallsins. Stundum finnst mér eins og ég hafi verið skáti. Í skátana fór ég nú samt aldrei. En líklega fékk ég hlut af skátablóði móðurfjölskyldunnar þó ég hafi alltaf neita að taka mér þetta fyrir hendur.
Leið mín liggur fljótlega í sturtuna þar sem ég mun standa þangað til sandur, hor og annað tilfallandi verður horfið á braut. Eflaust mun ég standa við fataskápinn nokkra stund í leit að hæfandi fötum. Ég er ekki mikið fyrir slíkar samkomur, en ætla þó að harka af mér að fara með samstarfsfólki mínu á jólahlaðborð. Borða smá og halda svo heim. Ég kann nú lítið að dansa, held að ég sýni lítið af danshæfileikum við undirleik hljómsveitarinnar. Hvað fötin varðar, sama hversu fullur skápurinn er virðist alltaf vanta eitthvað. En svoleiðis er það líklega á fleiri stöðum. Geri mitt besta, set upp sparibrosið þar sem ég sit settleg og fín með einfaldan/einhæfan matardisk.
Plön helgarinnar eru mörg, margt sem þarf að gera, margt sem þarf að klára. Í fyrramálið set ég í fimmta gír og verð ofvirk í smá tíma.
Valborg Rut.
3 Comments:
Hæbb :-)
Þú varst mjög fín þegar þú fórst út með vinnufélögum þínum , skutlan mín.
Í dag höfum við verið nokkuð duglegar og komið ýmsu í verk og þú verið í fimmta gír eins og þú ætlaðir. Nú er bara að njóta aðventunnar og eins og þú veist þá klárar mamma þín allt í tæka tíð fyri jólin. Föru bara á kaffihús um næstu helgi !! En verðum samt áfram í flug gírnum á morgun .....hehe....
By Nafnlaus, at 2:42 e.h.
Ég var nafnlaus áðan .....prufa tvö.....mamma.
By Nafnlaus, at 2:43 e.h.
Áfram í fluggírnum á morgun... já bjóst mikið við því!
Á kaffihús næstu helgi... er líklegt að við höfum tíma til þess.... haha á eftir að sjá það!
By Nafnlaus, at 3:59 e.h.
Skrifa ummæli
<< Home