Hvað sem verður, hvað sem er, hvernig svo sem lífið er.
Í herberginu loga kertaljós, úti er rigning. Rokið berst á glugganum og vatnsdroparnir búa til polla á ísilögðum götunum. Inni hljóma vel valin jólalög, skrifað er á jólakortin og jólapakkar líta dagsins ljós. Skápar fullir af leyndarmálum jólanna og spenningur er í loftinu. Jólasnjórinn er horfinn á braut og óvíst hvort hann láti sjá sig aftur fljótlega. Kannski missir hann af jólunum. Rigningin lætur á sér bera og virðist hafa tekið völdin. Allskyns jólasveinar og aðrir litlir jólahlutir prýða heimilið. Jólaljósin gera daga okkar bjartari í skammdeginu, lýsa upp lífið og tilveruna.
Á jólunum er meira en aðfangadagur. Dagurinn sem við kveðjum gamla árið og bjóðum það nýja velkomið. Það gamla verður fortíð, það nýja nútíð og framtíð. Sum ár viljum við helst ekki kveðja. Kveðjum það með trega og vitum ekki alveg hvort við eigum að fagna nýju ári eða lýta á það tortryggnum augum. Tilfinningarnar togast á hver við aðra og við reynum að sjá fyrir okkur hvað nýja árið mun bera með sér. Fyrst hugsa ég um aðal jóladagana. Þar á eftir hugsa ég um nýja árið. Áramótin hafa aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. En ég sætti mig við það sem ég get ekki breytt. Nýtt ár kemur hvort sem við erum tilbúin til þess að taka á móti því eða ekki. En ég tek á móti nýja árinu. Bjartsýn og vona bara það besta. Svo skrítið sem það er, mér finnst þetta ár bara ný byrjað. Það er svo stutt síðan ég hélt til Noregs. Svo stutt síðan rigningar sumarið mikla varð til í huga mínum. Svo stutt síðan ég kom heim. Og allt í einu er aftur að koma nýtt ár.
2 Comments:
Ég er einmitt nýkomin til Noregs og ég er bara að fara aftur! Ótrúlega líður þessi tími hratt.
By Nafnlaus, at 3:24 e.h.
Einmitt! Vá þú ert bara alveg að koma heim!
By Nafnlaus, at 10:04 f.h.
Skrifa ummæli
<< Home