Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

fimmtudagur, desember 20, 2007

Númer 302

Nýtt blogg á www.123.is/valborgrut ;)

Annars gaman að segja frá því að þann 17. desember var akkurat ár síðan ég kom frá Danmörku. Og frá því að ég fór þangað, 4. september í fyrra hef ég skrifað hér 301 færslu. Ótrúlega er tíminn fljótur að líða.

Knús á ykkur öll

Valborg Rut.

mánudagur, desember 17, 2007

Atorkusamir vinnudagar

Ég hef brjálað að gera. Jólastressinu get ég lítið kennt um en vitanlega er margt sem þarf að gera og klára áður en jólin koma. Ég biðst hér með afsökunur á jólapökkum sem gætu skilað sér til útlanda í janúar. Ja eða kortum sem eru ekki enn komin í póst og enn á eftir að skrifa á nokkur. Jólagjafirnar eru þó allar komnar nema ein. Þó á eftir að pakka inn og senda eina á annan landshluta. Ég á líka eftir að vera sýnileg á heimili mínu þar sem ég gegni því hlutverki að vera bæði dóttir og systir. Dóttirin sem lagar til, þrífur og hjálpar til við bakstur. Systirin sem gerir eitthvað skemmtilegt sem bræður hafa áhuga á að gera. Auk þessa gerði ég mér lítið fyrir og tók að mér tiltekt og þrif á einu heimili fyrir jólin. Dágóður tími fer í það, hver einasti elshússskápur og stofuhlutur, allt frá geisladiskum til flottra listaverka og húsgagna hefur frískað uppá útlit sitt. Verkið mun sennilega klárast á miðvikudag. Skemmtilegt verkefni en tíminn er naumur. Stressið er nánast ósjáanlegt þó auðvitað langi mig að koma öllu í verk og hlutunum frá sem fyrst.

Einhvernveginn fann ég þó tíma til að dunda mér í netheimum í nokkrar mínótur í gær. Prófaði mig áfram á 123.is og fann þar til eins og eitt einkasvæði til viðbótar. Held mig þó hér enn sem komið er en endilega tékkið á www.123.is/valborgrut og segið skoðun ykkar á málinu. Þar er mjög einfallt kommentakerfi svo allir ættu að geta skilið eftir sig spor öðru hvoru ;)

En nú mun ég loka augunum svo ég geispi kannski ögn minna í vinnunni á morgun en ég gerði í dag. Ég vildi að ég gæti slept því að sofa þegar ég hef svona mikið að gera. En það gengur víst ekki.

Farið ykkur ekki að voða í undirbúningi jólanna....

Valborg Rut.

föstudagur, desember 14, 2007

Hvað sem verður, hvað sem er, hvernig svo sem lífið er.


Í herberginu loga kertaljós, úti er rigning. Rokið berst á glugganum og vatnsdroparnir búa til polla á ísilögðum götunum. Inni hljóma vel valin jólalög, skrifað er á jólakortin og jólapakkar líta dagsins ljós. Skápar fullir af leyndarmálum jólanna og spenningur er í loftinu. Jólasnjórinn er horfinn á braut og óvíst hvort hann láti sjá sig aftur fljótlega. Kannski missir hann af jólunum. Rigningin lætur á sér bera og virðist hafa tekið völdin. Allskyns jólasveinar og aðrir litlir jólahlutir prýða heimilið. Jólaljósin gera daga okkar bjartari í skammdeginu, lýsa upp lífið og tilveruna.


Á jólunum er meira en aðfangadagur. Dagurinn sem við kveðjum gamla árið og bjóðum það nýja velkomið. Það gamla verður fortíð, það nýja nútíð og framtíð. Sum ár viljum við helst ekki kveðja. Kveðjum það með trega og vitum ekki alveg hvort við eigum að fagna nýju ári eða lýta á það tortryggnum augum. Tilfinningarnar togast á hver við aðra og við reynum að sjá fyrir okkur hvað nýja árið mun bera með sér. Fyrst hugsa ég um aðal jóladagana. Þar á eftir hugsa ég um nýja árið. Áramótin hafa aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. En ég sætti mig við það sem ég get ekki breytt. Nýtt ár kemur hvort sem við erum tilbúin til þess að taka á móti því eða ekki. En ég tek á móti nýja árinu. Bjartsýn og vona bara það besta. Svo skrítið sem það er, mér finnst þetta ár bara ný byrjað. Það er svo stutt síðan ég hélt til Noregs. Svo stutt síðan rigningar sumarið mikla varð til í huga mínum. Svo stutt síðan ég kom heim. Og allt í einu er aftur að koma nýtt ár.

Bestu kveðjur til ykkar allra....
Valborg Rut.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Brjálæði samfélagssins

Fólk hleypur um, gengur hratt og hringsnýst í kringum sjálft sig. Margir hverjir að tapa sér í jólaundirnbúning og farnir að halda að þeir séu að missa af jólunum. Fólk með allskyns kaupæði æðir á milli búða, kaupandi fullar innkaupakörfur að mat og öðru sem það telur sig þarfnast. Í brjálæðinu sér maður fólk út undan sér og hugsar: vá eru þau að missa sig, þurfa þau virkilega allt þetta drasl og aukahluti? En svona er þetta. Við þurfum helst að kaupa allt, og ef það er á tilboði þurfum við örugglega aðeins meira. Allt frá litlum jólasveini eða matvöru til húsgagna og bíla.

Talandi um bíla. Finnst ykkur normalt að gefa bíl í jólagjöf? Bílasölur auglýsa hið ítrasta: Gefðu bíl í jólagjöf! Eða: Bílarnir okkar eru með rauðri jólaslaufu! Hversu rík sem ég væri, ég myndi ekki gefa bíl í jólagjöf. Auðvitað hefði ég sjálf ekkert á móti glænýjum bíl. En þetta er bara svo yfirdrifið. Þetta eru jólin. Þau snúast ekki um að þrífa sem mest, eyða sem mestum peningum, kaupa sem mest eða baka sem flestar sortir, hvað þá að kaupa risastórar og rándýrar gjafir.

Í gær langaði mig bara að henda þessum jólum í ruslið. Hætta við þetta allt saman og halda áfram hversdagslegu lífi. Ég verð þreytt og pirruð þegar ég horfi á allt þetta fólk hlaupandi í stresskasti um allt. Skil ekki þessa biluðu peningaeyðslu og allt þetta yfirdrifna umstang. Svo eru margir hverjir lengi að borga allar skuldir desembermánaðar. Höfum við efni á jólunum?

Í dag er ég hins vegar til í að halda uppá jólin. Ég þarf bara að gleyma þessu fólki sem er að tapa sér. Lifa í mínum eigin heimi og fara að eftir mínu höfði. Kannski þyki ég eitthvað á eftir, en engar áhyggjur. Ég vinn nú bara allan daginn og nenni enganvegin að drífa mig í búðir á meðal brjálaðs fólks strax eftir vinnu. En þetta hefst allt á endanum. Jólagjafirnar komast á rétta staði, jólakortin verða tilbúin fljótlega. Gerði jólakortin um helgina og hef lokið að skrifa á nokkur. Ég gef mér tíma til þess að liggja í leti, kveikja á kertum og vera til. Jólin eru ekki á morgun. Auk þess verða jólin ekki svo góð ef við verðum útkeyrð þegar klukkan loksins slær sex á aðfangadag. Hver hefur ekki heyrt um konuna sem sofnaði ofan í súpudiskinn?

Hægið á, lýtið í kringum ykkur, stoppið smá stund og gefið ykkur tíma til þess að anda. Jólin koma þrátt fyrir allt.

Í þungum þönkum,

Valborg Rut.

laugardagur, desember 08, 2007

Elsku besta hillan mín!

Dekur hillan mín er tilbúin, loksins.
Hvað í ósköpunum er ég búin að vera margar vikur að þessu?
Margar mínóturnar sem ég sat of horfði á hilluna, hreifði eins og tvo steina en óskaði þess svo að þetta gæti gerst af sjálfum sér.
Í dag var ég líka við það að taka þetta allt úr og setja bækur í staðinn.
En þolinmæðin hefur verið æfð og ætti ég að fá þolinmæðisverðlaun fyrir þetta verkefni.
En..... í kvöld kláraðist hillan mín og verð ég að segja að ég er mjög ánægð með útkommuna.
Hér koma nokkrar myndir af meistaraverkinu.... :-)



Knús á ykkur öll.....
Valborg Rut

föstudagur, desember 07, 2007

Harkaðu af þér

Sit hér í Hólmasólarbol og íþróttabuxum. Frekar skítug eftir daginn, litlir puttar hjálpuðu til við lúkk dagsins. Snjórinn hylur jörðina og allt er svo endalaust fallegt. Litlir fætur örkuðu um í snjónum með rauða nebba og þeir þrjóskustu með kalda fingur sökum vetlingaleysis. Snjórinn hangir á trjánum, svo hreinn og fínn. Horfði löngurnaraugum út í veturinn og nýfallinn snjóinn þar sem ég sat og kubbaði á gólfinu. Mikið langaði mig út að labba. Hugurinn leitaði uppí Fálkafell. Ófá skiptin sem ég hef arkað þangað en orðin einhver ár síðan. Gamla húsið með öllu gömlu hlutunum. Gaseldavélin og þunnu brúnu dýnurnar á svefnloftinu. Kamarinn sem ég hef aldrei þorað inná, og vatnsbrunnurinn þar sem klakinn gat orðið svo þykkur á veturnar. Í dag er hins vegar húsið lokað þar sem alltaf þurfa einhverjir að hafa vondar hendur. En fyrir utan er allt við það sama. Útsýnið yfir bæjinn og náttúra fjallsins. Stundum finnst mér eins og ég hafi verið skáti. Í skátana fór ég nú samt aldrei. En líklega fékk ég hlut af skátablóði móðurfjölskyldunnar þó ég hafi alltaf neita að taka mér þetta fyrir hendur.


Leið mín liggur fljótlega í sturtuna þar sem ég mun standa þangað til sandur, hor og annað tilfallandi verður horfið á braut. Eflaust mun ég standa við fataskápinn nokkra stund í leit að hæfandi fötum. Ég er ekki mikið fyrir slíkar samkomur, en ætla þó að harka af mér að fara með samstarfsfólki mínu á jólahlaðborð. Borða smá og halda svo heim. Ég kann nú lítið að dansa, held að ég sýni lítið af danshæfileikum við undirleik hljómsveitarinnar. Hvað fötin varðar, sama hversu fullur skápurinn er virðist alltaf vanta eitthvað. En svoleiðis er það líklega á fleiri stöðum. Geri mitt besta, set upp sparibrosið þar sem ég sit settleg og fín með einfaldan/einhæfan matardisk.


Plön helgarinnar eru mörg, margt sem þarf að gera, margt sem þarf að klára. Í fyrramálið set ég í fimmta gír og verð ofvirk í smá tíma.


Valborg Rut.


þriðjudagur, desember 04, 2007

Jólalagapistill

Hvers vegna í ósköpunum eru til svona mörg skrítin jólalög?

Í vinnunni í dag vorum við að syngja um Adam sem átti synina sjö. Ég söng eins og ekkert væri, hann sá þig, hann sá þig.... þangað til ég sprakk úr hlátri og fattaði í fyrsta skipti að ég syng lagið kolvitlaust. Adam sá þig ekki, heldur var hann að sá í akurinn sinn. Já ég var ljóska dagsins sem fólkið hló af. Hvernig átti ég að vita að þessi Adam ætti einhvern akur? Ekki kemur það fram í laginu, sáði og klappaði saman lófunum, er samhengi í því? Ja eins líklegt gæti verið að hann hafi séð þig!

Eða um gamla manninn sem gekk yfir sjó og land og var spurður hvar hann ætti heima. Á hlælandi, hopplandi, klapplandi, grátlandi..... hvað í ósköpunum bendir til þess að þetta sé jólalag? Ekkert.

Eða aumingja kannan sem stóð uppá stólnum.

Göngum við í kringum einiberjarunn, þvoum þvot, hengjum upp, staujum, brjótum saman og göngum frá, eða hvað það nú var. Og jólatengingin í þessu er? Einiberjarunninn? Eða tengist það sérstaklega jólunum að þvo þvott og teigja?

Nú skal segja.... stelpurnar vagga brúðu, amma prjónar, strákar sparka í bolta, afi tekur í nefið..... hafiði pælt í kynjaskiptingunni? Af hverju er afi ekki að prjóna, stelpan að sparka bolta, strákurinn að vagga brúðunni og amma að taka í nefið? Og jólaboðskapurinn er hvar?

Eða Gunna sem var í nýju skónum, mamman að elda matinn og pabbinn hlaupandi um allt hús í leit að flibbahnappinum með kattargreyjið á hælunum, órótt í jólastressinu.

Kofinn í skóginum, og svo kom héraskinnið sem vildi komast inn því veiðimaðurinn var fast á eftir með byssuna sína og ætlaði að skjóta hann! Er það fallegt? En sem betur fer komst hérinn nú inn í húsið að lokum til góðhjartaða vinarinns.

Það er svo margt skrítið. Og þessi jólalög mun ég aldrei skilja. Veit ekki hvernig ég á að geta sungið þetta í vinnunni á hverjum degi til jóla. Ef það er ekki aðeins of mikið af því góða. En jú, þetta eru lögin sem landsmenn hafa sungið í tugi ára, ágæt, en gætu vafalaust verið betri.

Kveð úr þungum jólalagaþönkum....

Valborg Rut

sunnudagur, desember 02, 2007

Gleðilega aðvenntu :)

Við kveikjum einu kerti á,
Hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og jesúbarnið er.
Þennan söng er ég búin að syngja sex sinnum í dag. Dagurinn er sérstakur, fyrsti dagur aðventunnar. Ég söng þetta fyrst í messu í Akureyrarkirkju í morgun. Því næst söng ég þetta á kaffihúsasamveru kfum&k þar sem krakkarnir í deildarstarfinu settu mikinn svip á dagskránna. Aðventukvöldið í Akureyrarkirkju tók að lokum við og þar var þetta sungið tvisvar eins og í hin skiptin. Dagur tileinkaður aðventunni og upphafi jólaundirbúnins, auk góðvilja og heimsóknar. Auk þess söng ég Bjart er yfir Betlehem tvisvar sinnum. En jafnvel þó ég hafi sungið oft það sama finnst mér það alltaf skemmtilegt. Aðventan og jólin eru ekki á hverjum degi.
Snjórinn heldur áfram að falla til jarðar og göturnar fyllast af snjó. Glaðlyndir krakkar liggja í snjónum, búa til snjóengla. Aðrir gera snjókalla í öllum stærðum og gerðum. Börn sitja á snjóþotum, renna niður brekkur eða njóta þess að láta draga sig eftir gangstéttum bæjarins. Einstaka stelpukjáni er enn með bert á milli, þunnur bolurinn alltof stuttur. Flestir hafa þó tekið fram utanyfirflíkur og vettlingar eru í hávegum hafðir.
Í laginu er talað um kerti og spil. Hér eru logandi kertaljós auk litla bróður sem bíður þess að ég spili við sig.
Lifið í gleðinni....
Valborg Rut

laugardagur, desember 01, 2007

Jólagleði

Það er svo jólalegt. Fullt af nýjum snjó og hvert snjókornið af öðru svífur til jarðar. Að heyra stelpurnar syngja jólalög niðrá torgi áðan þar sem var verið að kveikja á jólatrénu gerði snjóinn enn betri. Var reyndar ekki sátt við hljóðkerfið þarna, fannst það alveg glatað. Og þessi maður sem talaði þarna var skelfingin ein. En jólin nálgast og aðventan byrjar á morgun. Það er ljúf tilhugsun. Kannski er ég svolítið jólabarn. En þó ekki það jólabarn sem hendist um allt og er búin að öllu löngu fyrir jól eða ofskreyti allt í kringum mig með alls kyns glingri. En mér finnst gaman að dunda mér á aðventunni við að skrifa á jólakortin, baka og finna smákökulyktina fylla húsið. Að finna allt fallega jóladótið mitt og koma því vandlega fyrir hér og þar. Við erum öll svolítið betri um jólin en á öðrum árstímum. Við mýkjumst og hugur okkar hugsar meira til þeirra sem eiga erfitt eða skortir eitthvað. Við komum öll aðeins betur fram við aðra og mörg hver brosum við í jólasnjónum. Hjartað okkar finnur frið og við gefum eflaust meira af okkur en aðra mánuði.

En við megum ekki gleyma því að á meðan við gleðjumst svo mikið eru líka margir sem eiga erfitt um jólin. Hræðast þessa miklu peningaeyðslu landsmanna og geta ekki leyft sér að kaupa góðan jólamat, ný föt eða heimsins bestu jólagjafir. En öll eigum við það sameiginlegt að halda jólin af sömu ástæðu. Frami fyrir Guði erum við öll jöfn. Þeir sem eiga mikið, þeir sem eiga ekkert.

Ég held áfram að drekka í mig kærleik aðventunnar, njóta hennar í nýföllnum snjónum, hlusta á fagra tóna með fallegum textum, og æfa mig í því að vera aðeins betri manneskja en aðra mánuði.

Ég held áfram að sækja menningarlega viðburði og ætla að halda á tónleika með Hymnodiu.

Bestu kveðjur um víða veröld...

Valborg Rut