Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

mánudagur, júlí 30, 2007

Ári eldri :-)

Hann er oftast hljóðlátur og lætur ekki mikið fyrir sér fara. Hann er mikill Queen aðdáandi og ófá skiptin sem tónlistin úr stofunni heyrist langt út á götu. Hann syngur með af öllum krafti og lifir sig inn í líf þessara merku manna. Fjölskyldubíllinn ber þess merki að öll erum við alin upp við Queen tónlist og oftast er það sú eina sanna tónlist sem ómar úr græjunum í bílnum og rúðurnar í afturgluggunum eru alsettar merki góðrar hljómsveitar. Til að fullkomna allt á svo dóttir hans sama afmælisdag og söngvari hljómsveitarinnar.

Hann er dugnaðarforkur þó þyki hann eflaust svifaseinn við heimilisstörfin. Segist bara vera sannur karlmaður, enda hafi hann tvær góðar eldabuskur á heimilinu og ekki þurfi hann að kaupa uppþvottavél því hann eigi eina svo ansi góða (mamma). Hann hefur sagt mér frá því ég man eftir mér að Landroverbílar séu flottir bílar. Og þess vegna trúi ég því og hef vott af sömu dellu og faðir minn þó ég vilji nú alls ekki hvað sem er enda dóttirin smekkmanneskja. Hann liggur og sínir mér nýjustu snjósleðablöðin og fræðir mig um kraftmiklar vélar eða getu hvers og eins tæki. Hvað það væri geggjað að geta átt einn glænýjan úr kassanum. Dóttirin bara játar og sýnir þessu áhuga þó hún viti í raun ekkert í sinn haus um svona mál. En víst væri dóttirin meira en til í að eiga eitt stikki svona flott tæki.

Dóttirin spyr hann stundum hvort hann ætli virkilega að fara í "þessari" peysu. En að sama skapi spyr hann stundum dótturina hvort hún geti ekki farið í einhverju öðru. Get ég farið svona? Algeng setning á heimilinu frá öllum aðilum. Nema náttúrlega bræðrunum sem er nett sama í hverju þeir eru þó helst bara sömu hversdagsfötunum alla daga. Hann segir ekki mikið og þegar forvitin dóttirin reynir að komast til botns í einhverju virðist hann helst til of fámáll. Hann smellir fingrum á báðum höndum þegar dóttirin fer með í byko því hann veit að henni finnst þetta óþarfi þó hún hafi vanist þessu í gegnum tíðina eftir margar bykoferðirnar. Hann hristir hausinn yfir uppátækjasemi dótturinnar og vonar innilega að hún komi ekki með enn eina tillöguna um breytingar á herberginu eða íbúðinni. Dóttirin varð afar glöð þegar faðirinn fór á hestbak og sýndi hestamennskunni áhuga. Faðirinn vill ekki fá kanínu á heimilið og sagði hart nei þegar dóttirin bað um páfagauk. Samþykki fyrir báðu fékkst þó á endanum enda dóttirin ofdekruð frekjudós inná milli. Þess má þó geta að faðirinn var sá eini sem sýndi páfagauknum áhuga en dvaldi hann aðeins á heimilinu í tvær vikur. Gullfiskarnir hafa þó alltaf fengið samþykki og hlakka ég til að setja nýja fiskategund í stofudjásnið í ágúst :)



En.... elsku besti pabbi, til hamingju með afmælið í dag :)

Knús og kossar heim á klakann, Valborg Rut.

sunnudagur, júlí 29, 2007

Nýr dagur :)

Nýr dagur, ný tækifæri, nýjar hugsanir, nýjar hugmyndir, nýtt líf. Það góða við það að það kemur dagur á eftir degi er að maður getur byrjað uppá nýtt. Dagur sem áður var verður að fortíð og við getum byrjað uppá nýtt með nýjum degi. Það er það sem gerir lífið svo æðislegt. Jafnvel þó svo að sumir dagar séu frábærir og við óskum þess að þeir taki aldrei enda gera þeir það samt. Því bæði góðir og slæmir dagar taka enda. En við höfum alltaf tækifæri til að gera hvern dag að góðum degi og lifa hvern dag fyrir sig. Einn dag í einu þó svo að ég vilji oft lifa mánuði fram í tímann. En þá þarf maður að rifja það upp að þessi dagur kemur aldrei aftur. Þess vegna þarf maður að njóta hans og gera hann sérstakan á einhvern hátt. Nýr dagur og ég er ánægð.

Trú - von - kærleikur.

Er það ekki allt sem þarf?

laugardagur, júlí 28, 2007

Laugardagskvöld

Klukkan er ekki orðin tíu á þessu frekar drungalega laugardagskvöldi og ég bara sit hér í iðjuleysi mínu. Veit ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur þó eflaust gæti ég fundið eitthvað. Mig langar að mála mynd. Verst að ég kann bara ekkert að mála. En líklega er ekkert að kunna. Það geta allir málað. Og líka ég. Jafnvel þó ég myndi ekki gera eitthvað brjálað listaverk. En ég á ekki mállingu og engan pensil. Mig langar út að hlaupa en kemst ekki nema nokkur skref sökum heilsugalla minna sem tjá sig enn. Ég gæti lagað til en það er hvergi drasl og hvergi ryk í herberginu mínu. Og fataskápinn tók ég í gegn í fyrradag svo hann heldur sér enn. Ég gæti skrifað ljóð eða sögu en er of tóm til að koma einhverju á blað. Ég gæti skipulagt eitthvað en aldrei þessu vant hef ég ekkert að skipuleggja. Ég gæti krufið atvinnuauglýsingar á netinu en er komin með nóg af því að leita að vinnu. Enda virðist hvergi vanta í vinnu á Akureyri í starf sem hæfir mér og þóknast mér. Mig langar ekki að vera kassadama. Mig langar ekki að vinna skrifstofustarf. Mig langar ekki að vinna við eitthvað sem ég hef ekki áhuga á. Mig langar að vinna eitthvað sem gefur mér eitthvað á móti þegar ég gef af mér. Það virðist vera nóg að vinnu í Reykjavík og alls staðar vanta fólk á leikskóla eða í starf með börnum og unglingum. Kannski ég neyðist til að flytja í borgina. En það langar mig ekki því þá færi hver eyrir af lélegum launum í húsaleigu og skrefið úr sveitinni í brjálaða borg þar sem allir eru á þönum allan daginn og hafa aldrei tíma til að gera neitt eða allt tekur langan tíma.... úff ég held að það væri of stórt skref. Ég veit bara ekkert hvað mig langar. Er auðvitað með hugmyndir en held ég geti afskrifað þær allar. Hef eiginlega bara ekki áhuga á neinu. Langar bara að lifa og vera til. Ekki alltaf að skipuleggja allt, á þönum hingað og þangað, að láta aðra segja mér hvað ég á að gera, að hunskast í einhverja vinnu sem ég hef ekki áhuga á, að hugsa um það að ég verð ekkert ef ég læri ekkert, að breyta mér til að þóknast öðrum, að vera bara ég einhvernsstaðar og týna sjálfri mér í græðgi og ópersónulegum raunum samfélagsins. Mig langar bara að vera ég. En mér finnst ekki heillandi að vera ólærður hálviti þegar allir aðrir verða búnir með háskólanám og komnir í draumavinnuna, vel launaða og eigandi einbýlishús með stórum garði. Að þá verði ég bara enn að ákveða mig týnd í óvissu heimsins. Mig langar ekki í skóla. Ég get ekkert gert af því. Og hvað græðir maður á að fara í skóla ef maður hefur ekki áhuga á því? Akkurat ekkert því þá lærir maður heldur ekkert. Mest af öllu langar mig í heilbrigðan líkama með heilbrigðum líffærum. Þó ég sé nú ekki mikið gölluð þá sé ég alltaf betur og betur hvað maður er heppinn ef maður hefur þetta allt. En ég er þakklát fyrir að ég get í það minnsta staðið þrátt fyrir stanslausan sársauka. En það þýðir ekkert að kvarta. Þetta bara er. Lýtum á björtu hliðarnar. Það er það sem skiptir máli. En allir hafa rétt á því að vera neikvæðir stundum og við höfum rétt til þess að segja það sem við viljum. Og ég gaf mér leyfi til að skrifa neikvæða og bitra færslu. En núna vil ég fá góða skapið aftur og ætla að sætta mig við að ég get ekki farið út að hlaupa eða hreyft mig þó mig langi það mikið. Mig langar bara að vera ég.

Komment á þessa færslu eru vinsamlegast afþökkuð.

Valborg Rut.

föstudagur, júlí 27, 2007

Saga um stelpu

Í litlu sætu húsi í fjarska hvílir kyrrð yfir öllu. Í fallegum dal þar sem sveitin angar af nýslegnu grasi og berjalyngi. Þarna búa ekki margir. Aðeins ein stelpa sem nýtur þess að kynnast sveitalífinu og lætur sér líða vel með sjálfri sér. Hún situr í gamaldags ruggustól á veröndinni og horfir á hestana sína hlaupa um á túninu. Hundurinn liggur í makindum sínum á grasflötinni og sleikir sólina. Flugurnar suða og kóngulærnar reyna að bjóða sig velkomnar en sjá að þeim er betra að halda sig fjarri. Þarna situr stelpan og hugsar. Hugsar um hvað lífið er yndislegt og hvað hún er heppin að fá að njóta þessa alls. Stelpan sem flutti úr skarkala bæjarins og settist að í sveitinni í þeim tilgangi að kynnast sjálfri sér og finna hvað hún virkilega vildi. Henni líkar vel að vakna við fuglasönginn og fara út að hlaupa í sveitakyrrðinni. Að baka pönnukökur og syngja og fylla þannig húsið af ómandi tónum. Að taka sér bók í hönd og láta fara vel um sig þangað til hún bíður eftir sunnudagsgestunum. Henni líkar vel að keyra í litla þorpið að kaupa inn og spjalla við sveitunga um daginn og veginn. Hún þýtur um sveitina á hestinum sínum og brosir við lífinu sem brosir við henni. Dugnaðar stelpa sem finnur sér alltaf eitthvað að gera. Hvort sem hún les, saumar, smíðar, málar eða ræktar grænmeti, hún elskar lífið sitt. Stundum koma dauðir tímar þar sem allt virðist svo tómlegt í einverunni. En hún rifjar upp að þetta var það sem hún valdi. Hún valdi að kynnast öðru lífi og að sjá að það er svo margt hægt að gera. Börnin á nærliggjandi sveitabæjum koma í heimsókn og hún elskar að sitja með þeim og tala um allt og ekkert. Eða þeytast með þeim um sveitina og velta sér í grasinu. Hún er hugmyndarík og skynsöm. Lifir lífinu og vill fá sem mest útúr því. Hún hlær og brosir og nýtur þess að fá fólk í heimsókn í sveitina sína í litla krúttlega húsið sem angar af hreinleika. Hún liggur í grasinu og horfir upp í stjörnubjartan himininn litríkan af norðurljósum. Þetta er yndislegt líf.

Mig langar að lifa svona. Nýjasta hugmyndin. Ég sé þetta fyrir mér og lifi mig inní þetta. Ég held að mér myndi vegna vel í sveitinni um tíma og hefði gott og gaman af því að vera þar. Ég gæti meira að segja tekið smá fjarnám í skóla og setið úti í ruggustólnum mínum og lesið á meðan lærdómsandinn myndi heltaka mig og gefa mér brennandi áhuga á náminu. Ég myndi gera upp lítið hús og hella mér í vinnu við að gera það flott og njóta þess að hafa frjálsar hendur. Ef þið vitið um fallegt hús í fallegum dal stutt frá Akureyri má endilega láta mig vita. (Svarfaðardalur, Skíðadalur kannski...) Já, litla ég er alltaf jafn hugmyndarík.

Bestustu kveðjur úr sveitinni í Noregi....

Valborg Rut

:-)


Fyrir utan súkkulaði er gleði í hjarta það sem skiptir mestu máli.
(J. Northbay)
Knús á klakann......
Valborg Rut

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Rigning!!! oh!

Ég skil ekkert í þessum maga mínum að vera að þessu veseni. Furðulegt að honum finnist svona gaman að kvelja mig. Að hann þurfi að láta mig finna stanslaust til og komnir tveir dagar. Og hann bara hlustar ekkert á mig þegar ég segi honum að hætta þessu eða bölva honum í hljóði fyrir þetta glataða uppátæki. Er hann ekki enn búinn að ná því að þetta er komið meira en nóg? Hann mætti allavega fara að ná því þar sem hann hefur séð mér fyrir þessari "skemmtun" í ár núna. Oh vesen. En það er víst ekkert að mér, það segja læknarnir allavega! En þeir vita nú greinilega ekkert í sinn haus um þetta mál. Held að þeir hafi bara ekki getað ímyndað sér að flotti maginn minn væri gallaður inni! En ég meina, útlitið er ekki allt... hehe ;)

Annars hefur veðrið í dag verið einu orði sagt hræðilegt. Ekki viðlit að fara út úr húsi nema vilja lenda í ausandi rigningu og blottna frá toppi til táar. Svo dagurinn einkenndist af inniveru og miklu barnaöskri. Sennilega hafa yngri börnin tvö farið öfugumegin fram úr rúminu í dag í tilefni þess að byrjað er að rigna aftur. Hvar er eiginlega skandinavíska sumarið sem var búið að lofa mér? Ég er allavega enn að bíða!! Og finnst nú hálf glatað að vera hér í rigningunni þegar sólin er að missa sig í gleðinni þarna heima á Íslandi! En vonandi næ ég þó nokkrum sólardögum áður en ég kem heim :) Og mikið er ég fegin að búa í mikilli brekku þegar ég horfi á fréttirnar og sé öll flóðin og fólkið hangandi í ljósastaurum eða uppi á húsþökum til að halda sér á lífi. Og allt grænmetið og allur gróðurinn, mikið vorkenndi ég garðyrkjubóndanum að vera búinn að tapa heilu ræktunarsumri eins og það leggur sig. Hver einasti kálhaus ónýtur og allar jarðirnar hans og akrarnir líktust meira á en sáðlandi og grænmetisrækt. En svona er lífið.

Ég vildi óska þess að ég gæti lifað á því að vinna sjálfboðavinnu. Svo vill til að mikið af þeirri vinnu heillar mig og virðist athyglisverð. En heimurinn í dag er jú bara þannig að við lifum ekki á sjálfboðavinnu einni saman. Þess vegna getur maður ekki gefið sig allann í það. Leiðinlegt.

Einhverra hlusta vegna finn ég ekki snúruna af myndavélinni til að setja myndirnar í tölvuna. Á þó eftir að leita betur og aldrei að vita nema hún finnist að lokum. Ekki margir staðir sem koma til greina, nenni bara ekki að taka til í fataskápnum.... hehe. Mamma, tékkar kannski á því hvort það sé svona snúra í efstu skúffunni í hvítu kommóðunni í herberginu mínu heima.... ef ég hef óvart gleymt henni.... ;) Hef reyndar verið frekar löt við að taka myndir í júlí, en bæti vonandi úr því fljótlega :)

Farin í bili..... sveitastelpan :)

mánudagur, júlí 23, 2007

Ferðaþrá :)

Þá er það ákveðið. Planið er til og ég er næstum komin á flug, byrjuð að pakka og lögð af stað í enn eitt ferðalagið. Hvað er skemmtilegra en að nýta tímann á meðan maður er ungur og einstakur (ekki með kærasta í eftirdragi) í að ferðast og læra helling um lífið og heiminn annarsstar í veröldinni?

Já ég er komin á þá skoðun að fara í enskuskóla í Englandi í mars eða apríl. Hugsanlegt að Oxford yrði fyrir valinu þó mér finnist margir staðir koma til greina. Vancouver í Kanada finnst mér líka spennandi. Finnst reyndar eins og ég komi til með að henda peninunum út um gluggann. Rándýrt dæmi sem ég hef í raun ekki efni á þar sem ég vil geyma peningana mína í eitthvað gáfulegra. Margir myndu þó segja að þetta væri gáfulegt og alls ekki sóun á peningum. Ég meina, enska er nú bara eitthvað sem hvert normal mannsbarn á að geta lært án travala. En ég er greinilega ekki eitt af þeim jafn glatað og það nú er. Þessum hæfileika er afar ójafnt skipt á meðal manna. Svo ef ég ætla mér einhverntíman að læra þetta mál sem virðist augljóslega vera algjört möst til að komast eitthvað áfram í þessu skrítna lífi, eiga möguleika á að gera eitthvað af viti eða fara í skóla verður maður víst að harka af sér og læra þetta fjarndans mál og eyða í það meiri hluta peningaeigu sinnar.

En þegar ég mun loksins verða vonandi talandi skiljanlega ensku væri gaman að kíkja á aðrar slóðir. Sjálfboðaliðastarf í Suður-Afríku heillar mikið þessa stundina. Vinna á barnaspítölum, heimilum fyrir munaðarlaus börn eða leikskólum. Ójá þetta er spennandi. Eitthvað sem mig langar að gera og maður lærir án efa mikið af.

Væri æðislegt að geta tekið sér þetta fyrir hendur í svona mars, apríl og maí á næsta ári. EN.... það stóra EN. Mig vantar pening. Þetta kostar alveg milljón trilljón peninga. Ég þoli ekki hvað allt kostar mikið. Það snýst allt um peninga. Ef þú átt ekki peninga geturu ekki gert neitt og ekki lifað. Og ef þú talar ekki ensku getur heldur ekki gert neitt og ekki lært neitt. Vá hvað þetta er glatað. En ég get nú samt margt þó ég tali ekki þetta vonlausa tungumál allra manna. Peningar eru ekki allt og það er enska ekki heldur. Ég hef næstum allt nema þetta tvennt.

Svo væri stuð að fara í interrail-ferðalag. Væri gaman að koma til margra landa og skoða allt það merkilegasta og flottasta í ólíkum löndum. Langar mikið að skoða heiminn betur og sjá hvað hann er stór og hvað hann hefur uppá að bjóða. Að ferðast í góðra vina hópi, drulluskítugur, með bakpokann einann.... frábært. En ælti ég gæti það??? Aðeins ein leið til að komast að því ;) Þó ég hafi fulla trú á mér í slíku ferðalagi ef á myndi reyna :)

Já svona eru draumarnir og óhætt að segja að ferðalöngun sé til staðar og ógrinni hugmynda eins og svo oft áður. Mamma sagði nú bara: Oh Valborg, gat það verið að þú kæmir með eitthvað svona!!! Híhí.... ég er svo yndisleg ;) Ekki alveg allir sammála þessum hugmyndum.... jú enskuskólinn fékk auðvitað samþykki en Afríka fékk það nú ekki í fyrstu atrenu. En hvað verður mun tíminn að leiða í ljós :)

Læt þetta vera nóg í bili og fer út að hreyfa mig......... :)

Knús á klakann og víðar.....

Valborg í leit að reynslu og dásemdum heimsins :)

sunnudagur, júlí 22, 2007

Hugmyndir

Ég er með hugmynd. Hún er ennþá leyndarmál. En gæti átt eftir að verða að veruleika. Einhverntíman. Kannski. Kannski ekki. Ég er alltaf með hugmyndir. Hef aldrei átt í erfiðleikum með að ímynda mér hluti eða sjá þá fyrir mér. Þar af leiðandi fæ ég ógrinni hugmynda. Mis framkvæmanlegar. Myndu þó eflaust allar ganga ef ég léti verða af því að framkvæma þær. En allt krefst mikils tíma og þess að maður gefi sig allan í verkefnið. Hef ágætlega trú á sjálfri mér í mörg verkefni sem mér dettur í hug. En hvað segir hitt fólkið? Eflaust fengi ég að heyra eitthvað mjög misjafnar skoðanir á hugmyndum mínum og margir hverjir yrðu eflaust hneikslaðir. Hvað getur hún svosem gert? Ómenntuð stelpuskjáta sem hefur fátt annað gert en að passa börn og leika sér. Jú dugleg er hún, en hvernig á hún að geta gert eitthvað af viti? Jú kæra fólk, ég get ýmislegt get ég sagt ykkur. Miklu meira en þið haldið. Ég er eitthvað. Loksins. Ég er bara eins og ég á að vera. Ekkert meira, ekkert minna. Bara ég eins og ég er. Hef kosti og galla eins og allir aðrir en hef ákveðið að nota kostina meira en gallana. Hver veit nema ég geti gert heilan helling og fullt af góðum hlutum. Já, jafnvel þó svo ég sé hér um bil ómenntuð stelpuskjáta.

Hugsanir
Stundum er maður svo út úr heiminum.
Eins og við séum bara alls ekki hér.
Hugurinn kominn á flug á ný
og ekkert við því að gera.
Hugsanir og ímyndun,
stórar sem smáar.
Lífið í öðru ljósi.
Hvert eigum við að líta?
Hvað eigum við að gera?
Það er svo margt sem er svo afskaplega óskiljanlegt fyrir lítið sandkorn eins og mig.
En með hjálp þess stóra og mikla getum við kannski á endanum látið gott af okkur leiða.
(samið fyrir löngu)

Ég vildi óska þess að ég gæti sýnt ykkur út um gluggann minn. Útsýnið er ótrúlegt. Himininn og kvöldsólin er það fallegasta í heimi. Vildi að ég gæti sent ykkur brot af því sem ég fæ að sjá á næstum hverju kvöldi. Á verulega eftir að sakna þess að sjá ekki eitthvað þessu líkt út um gluggann minn heima. Þar sér maður bara næsta hús. Litir himinsins eru æðislegir. En ég hlakka samt líka til að horfa á norðurljósin og stjörnurnar á Íslandi.

Elskið ykkur sjálf og lifið hvern dag með bros í hjarta.

Amen.

laugardagur, júlí 21, 2007

Jazzfestival

Í gær lögðum við leið okkar á jazzhátíð sem stendur yfir í Molde alla vikuna. Gaman að sjá þessa umtöluðu hátíð og margt að skoða. Heilu göturnar voru lokaðar, sölubásar og allskyns tónlistaratrið um allan miðbæjinn. Þarna gengum við um í mannþvögunni, stoppuðum öðru hverju og hlýddum á góða tóna. Reyndar er jazz sem slíkur alls ekki í uppáhaldi og finnst mér það nú frekar furðuleg tónlist öðru hvoru. En margt var mun betra en annað. Finnst nú reyndar indjánatónlistin standa uppúr og minnir mig alltaf svolítið á bæjarlabbið í Danmörku með stelpunum fyrir jólin. Kíkum svo í tivolí, sem reyndist þó frekar mikið minna en búist var við. Engu að síður gátu sumir tapað sér í tækjunum og prófað hinar ólíkustu þrautir. Ég er þó á því að flest af þessum þrautum og rugli sé bara peningaplokk. Ójá, það var ekki sénst að hægt væri að vinna eitthvað með því að kasta litlum hringjum á glerflöskur. Já, stórir og smáir í hópnum hentu ekki nema 300 hringjum og ekki einn einast lenti á réttum stað. Furðulegt. Ég held mig þó alltaf með báða fætur á jörðinni í svona skemmtun og hætti mér ekki í eitt einasta tæki eins og fyrri daginn. Finnst samt alltaf fínt að horfa bara á hina öskra og skemmta sér. Öll eru þessi tæki best í fjarlægð finnst mér og heilla ekki á nokkurn hátt. Já já ég má vel vera jarðbundin með eindæmum.

Það kom loksins sól í dag. Jibbý!! Henni var fagnað og farið út í sólbað og trampolínið fékk þónokkurn slatta af hoppum í dag. Freknurnar létu sjá sig og er ekki frá því að ég hafi fengið smá lit. Sólin á þó ekki að vera lengi, rigningin lætur sjá sig fljótlega aftur. En elsku besta sól, þú mátt endilega skína vel á okkur þangað til í lok ágúst ;)

Vá það er svo stutt þangað til lok ágúst er. Tvær vikur í heimsmeistaramót, þrjár vikur í mömmu og pabba og minna en mánuður þangað til ég flyt til Íslands. Það er alveg stórfurðulegt að sé að koma að þessu. Er búin að búa ég í 6 mánuði. Skrítið. Enn skrítnara er að ég hef ekki búið heima síðan í maí í fyrra nema viku og viku því ég er alltaf á flakki. Hvað ætli ég endist lengi næst?

Bestu kveðjur, Valborg - loksins í sólinni :)

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Drullumall :)

Mig langar að drullumalla. Vera skítug frá toppi til táar í moldinni að baka köku. Gómsæta drulluköku skreytta með allskyns blómum og stráum. Nú veit ég ekki hversu mörg malbiksbörn lesa þetta og kannski ekki allir sem fengu að kynnast drullumalli í sveitinni eins vel og ég. En drullumallminningarnar í Svarfaðardalnum og Húsabakka eru ótrúlega góðar. Þarna var maður tímunum saman í litla húsinu sem breyttist í bakarí. Mold og vatni var sullað saman í fötu og hrært vel og lengi áður en því var hellt í kökuformið. Brosið var svo ánægt og lífið var svo yndislegt. Hvað er betra en að vera barn í sveit? Hendurnar voru alltaf brúnar af drullu og nöguðu neglurnar mínar svartar af skít. En það var náttúrlega bara hreinn skítur eins og fram kemur í Latabæ ;) Mig langar aftur að drullumalla. Vá hvað það eru mörg ár síðan ég sat í moldinni og gleymdi tímanum í leðju og skemmtun. Í raun man ég ekki til þess að ég hafi drullumallað mikið síðan á Húsabakka hér í den. Ætla að bæta úr þessu við fyrsta tækifæri. Það var of skemmtilegt að drullumalla til þess að gera það aldrei aftur. Hlakka mikið til þess dags sem ég tek með mér fötu og kökuform út í moldina, sit þar flötum beinum, leyfi mér að vera skítug og hræri í "deiginu" með fingrunum.

Hvernig væri að þið elsku bestu lesendur færuð út að drullumalla?

Ég skora á alla leynilega lesendur að skilja eftir sig spor í kommentunum..... ;)

Enn og aftur kveð ég úr ausandi rigningu..... Valborg Rut

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Spáð með stjörnum

Þetta segja stjörnurnar í dag:

Ein stærsta vöggugjöf þín er óbugandi kraftur og léttlynd bjarsýni sem mótar örlög þín án efa alla ævi. Hugaðu vel að jákvæðum eiginleikum þínum. Vald einkennir stjörnu þína á þessum árstíma. En vald er hæfileikinn til að valda breytingum eða hrindra þær. Þú ert fær um að koma í kring miklum breytingum hjá fólki sem þú umgengst og reyndar á öllu sem þú kemst í kynni við. Þú hefur án efa ríka þörf fyrir að vera ein(n) og svo fyrir vald þessa dagana.

Er ekki bara svolítið til í þessu? Eitt sem hefur náð að fanga athygli mína á þessari stjörnuspásíðu þar sem ég kíki á stjörnuspánna mína næstum á hverjum degi að þetta passar stundum óhugnarlega vel. Alltaf er verið að tala um einhvern bilandi dugnað, framkvæmdarsemi eða óbugandi kraft. Hef nú kannski ekki tekið eftir því en jú ætli það sé ekki mikið til í þessu og kannski er ég bara svona afskaplega áhrifamikil. Hehe.

Hér eru nokkrir partar út stjörnuspánni minni síðustu mánuði, safnaði þessu saman þónokkurn tíma til að tékka á niðurstöðum sem gætu verið sameiginlegar.

Þú hefur gáfurnar til að verða það sem þú þráir. Þú ert sjálfstæð/ur mjög og kannt illa við að utanaðkomandi manneskjur reyni að hafa áhrif á framgöngu mála. ...... Styrkur þinn er óbilandi og ekki síður öflugur og þú ert fær í flestan sjó ef þú aðeins leyfir þér að efla tilfinningar þínar og takast á við það sem býr innra með þér og þráir að komast út. ....... þú nýtur þess að fara með völd og ganga þann veg sem þú ein/n velur. Stjarna þín sýnir þig hér þar sem hugarorka þín er mikil og sérhver hugsun þín getur orðið að veruleika en einnig kemur fram að þú ættir að finna metnaði þínum og skipulagsgáfu útrás þessa dagana ...... löghlýðin/n með eindæmum ..... Þú ert fær um að leiðbeina öðrum samkvæmt eigin sannfæringu og kennir náunganum að leita svara við spurningum tilverunnar en átt það til að gleyma að hlusta á eigið hjarta ....... Eiginleikar þínir eru góðir og þú ættir umfram allt að efla þá til góðverka í framtíðinni ....... . Þú getur verið virk/ur og tekið frumkvæði, sagt álit þitt og gefið mikið af þér. Efldu sjálfsmat þitt og nýttu betur kosti þína. ......

Ég get nú varla verið annað en sátt við þessi orð og viðurkenni að ég tek staðfastlega mark á þeim.

En læt þetta nægja í bili og þakka lesturinn ef þið nenntuð að lesa þessa vitleysu ;)

Bestu kveðjur heim á besta landið, í besta bæjinn, besta dalinn og besta staðinn :)

Valborg Rut

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Rúllubaggar :)

Þegar ég lýt út um gluggann sé ég grænt og yndislegt sveitatún. Við enda þess eru rúllubaggar pakkaðir í hvítt plast. Grasið frá fyrsta slætti er komið í rúllur. Frá því ég sá þessa sjón fyrst hefur mig langað mikið að hlaupa niður túnið á tásunum og faðma rúllurnar. Hoppa svo á rúllunum og hlaupa fram og til baka á hvíta plastinu. Það var svo gaman að vera í feluleik í rúllunum þegar maður var lítill í sveitinni. Rúllurnar á teimur til þremur hæðum og það mynduðust litlar rifur á milli þar sem hægt var að fela sig. En maður varð að passa að detta ekki niður í ærslalátunum. En þetta var svo gaman. En ekki mjög vinsæll leikur hjá þeim sem þurfa að gera við götin ef eitthvað raskast. Mikið væri ég til í að gera þetta aftur. Líklega neyðist ég þó til að láta það ógert.

Það þarf líklega ekki að taka það fram að það er ausandi rigning. Maður verður svo tómur í svona veðri. Er virkilega komin með löngun til að skrifa eitthvað gáfulegt. En það kemur bara ekkert þegar veðrið er ekki að gera sig og maður hangir inni mest allan daginn. Talandi um að láta utanað komandi hluti stjórna sér. En svoleiðis er það nú bara. Og líklega er það einfaldlega þannig að hugurinn er virkari á veturnar. Líklega þarf hann líka að fá sumarfrí. Mikið yrði hann allavega þreyttur án þess.

Gerðu þér grein fyrir að ytra líf þitt og lifnaðarhættir eru endurspeglun á innra lífi þínu. Þegar friður er innra með þér geislar þú af friði út á við. Þegar hjarta þitt er barmafullt af kærleika, getur þú ekki komist hjá því að endurspegla og geisla þeim kærleika umhverfist þig. Þú getur ekki falið það sem er djúpt innra með þér því ytra ástand þitt er spegill af innra lífi þínu.

Bestustu kveðjur heim í góða veðrið :)

Valborg Rut

POQbum .com Graphics
POQbum .com Graphics


Hver veit nema ég yrði svona í ræktinni..... hehe ;)

sunnudagur, júlí 15, 2007

Mér finnst rigningin góð...

Rólyndishelgi verður brátt liðin. Svo vill nú til að maður nennir engu og verður afskaplega þreyttur í svona veðri. Ausandi rigning og ekki er hún á förum næstu daga. Við erum að tala um rigningu stanslaust síðan ég kom út aftur. Ekki skrítið að heilu tjaldsvæðin og umhverfi séu á mörgum stöðum alþakin vatni og varnargarðar hafa verið reistir á nokkrum stöðum. En við búum í mikilli brekku svo sennilega lítill möguleiki á flóði hér. Í gær fengum við reyndar nokkuð þurran dag. Við nýttum tækifærið og fórum á tjaldsvæðið í Måndallen og þeir hörðustu léku sér í sjónum. Ég lét mér nægja að liggja í leti og njóta rigningarlausra mínótna. Það var þó engin sól, enda byrjaði fljótt að rigna, enn og aftur. Í lok næstu viku sést víst fyrir endann á þessu. Vá, vika í viðbót með leti og inniveru.

Stundum fyllist ég reyndar löngunar að fara út og dansa í rigningunni. Verða rennandi blaut og leyfa hárinu að klístrast við andlitið þegar ég hoppa í pollunum að alefli. Verst að það eru mörg ár síðan ég átti stígvél síðast. Það er alltaf gaman að verða stundum krakki aftur. Að hlaupa út þegar byrjar að rigna og hleypa út endalausri orku. Koma inn, kaldur og blautur, en með stórt bros og mikla ánægju. Yndislegt.

Knús á klakann,

Valborg Rut

föstudagur, júlí 13, 2007

Þolraunir og ákvarðanir

Ég á það til að vera ofvirk. Ég á það líka til að nenna ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. En sem betur fer er ég nokkuð atorkusöm manneksja og finnst lang skemmtilegast þegar ég hef nóg að gera. Jú vitanlega er alltaf gott að frá frí inná milli en það er annað mál. Orka kvöldsins fór í hreyfingu. Mikið er ég stolt af mér að vera loksins að bæta þetta þol mitt. Ekki að það hafi angrað mig eitthvað, enda var það afar sjaldan notað. Nema jú í endalausum gönguferðum með barnavagna upp og niður brekkur í þessu au-pair starfi mínu síðan í september. En ég er nú alveg á því að margir eru þeir sem eru í miklu verra formi en ég hef nokkurntíman verið. Ég verð enga stund að ná þessu upp. Kannski ég fari að lyft líka, þá verð ég nú rosa ánægð eftir einhverja mánuði ;) hehe. En ég borða nú bara ennþá nammið mitt, brauð og aðra óhollustu og þannig verður það áfram! Ætlunin er ekki að bæta neitt né laga nema þolið ;) Hver veit nema ég taki þátt í fitnessinu um næstu páska!! Nei ok djók.... hehe.

Ég þoli ekki ákvarðanir. En mest af öllu finnst mér erfitt að hafa hlutina óskipulagða eða eiga eftir að taka ákvarðanir. Svo líklega er best að drífa í þessu. Hvað í ósköpunum á ég að gera í haust? Ég er með hugmyndir, margar, ólíkar, smá framboð af vinnu, en þarf að geta pússlað þessu. Skrítið pússl. Ekki eins auðvelt og þessi í kassanum með mörgu kubbunum. Miklu flóknara en það. Þess má þó geta að ég hef ekki eina einustu þolinmæði í svoleiðis pússl.

Nú fer klukkan að nálgast miðnætti og ég ætla að finna ögn að borða. Hvernig stenndur á því að bloggin manns eru innihaldsríkari á veturnar? Jú og virðast nú eitthvað skemmtilegri. Bæði að skrifa þau og lesa. En hvað með það.

Kveðja heim á besta landið..... Valborg Rut

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Að veikum mætti

Af veikum mætti ég um strengi strýk,
en sterk er óskin mín, og vonin rík.
Að þú komir til mín, að ég finni þig,
að ást þín vilji snerta mig.
Greinaskil
Viltu vekja sönginn minn?
Vefja mér í faðminn þinn?
Því mín nótt er löng og þetta lag er bænin mín.
Viltu snerta andlit mittef ég hvísla nafnið þitt?
Verður þú hjá mér, ef ég er særð og þarfnast þín?
Greinaskil
Ég leita orða þeirra er allt fær tjáð,
sem óska ég um kærleik, frið og náð.
Að þú komir til mín, að ég finni þig,
að ást þín vilji snerta mig.
Textinn er fundinn. Var búin að gleyma því hvað hann er innihaldsríkur og segir í raun mikið. Takk Helga mín ;)
Greinaskil
Ég sat með tölvuna í fanginu, pikkaði hvert orðið á eftir öðru þegar ég stóð upp og náði í nammikassann minn. Settist og lét fara vel um mig, maulaði á súkkulaði og vafraði um netheima. Þangað til eldingu skaut niður í huga mér. Hvað er ég að gera? Ekki neitt. Bara sitja hér og láta mér leiðast og borða nammi í iðjuleysi mínu. Lagði frá mér tölvuna, setti nammið í skápinn og fór fram. Fimmtán gráður úti og pínu rigning. Gekk inní herbergið, fann til passlega ósamstæð íþróttaföt, tók hárið frá andlitinu og fór út. Í öskrandi grænu peysunni minni varð ég skyndilega hrædd. Hvað ef ég vek athyggli arnarins? Gerði allt sem ég gat til að gleyma þessari hugdettu. Staðföst á því að ég ætlaði hér eftir með síma meðferðis. Gekk áfram, hinn eina sanna veg. Upp brekkuna og útaf malbikinu. Hljóp þangað til ég gat ekki meir. Mikið var þetta vont. Ég hélt ég myndi deyja úr þreytu. Fór að Kormeset eins og svo oft áður, gangandi hratt eða skokkandi. Á bakaleiðinni þeyttist ég áfram eins hratt og ég gat þónokkra metra. Orkan var að renna út. Ef ég vildi komast á leiðarenda var mér hollast að ofgera mér ekki. En það er yndislegt að hreyfa sig. Aleinn með sjó, fjöllum, trjám, fuglum og skordýrum. Kvöld í iðjuleysi endaði með krafti og dugnað. Ég hrósa sjálfri mér fyrir stórgott framtak. Ætla mér að setja þennan þátt inní rútínu lífsins.
Greinaskil
Elskið allt og alla og ekki gleyma ykkur sjálfum.....
Greinaskil
Valborg Rut í rigningu í Norge - sem hrósar fyrirsögninni fyrir að virka á ný en greinaskilin hurfu!

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Ég óska eftir texta af lagi. Það er eintthvað á þessa leið: Að veikum mætti ég um strengi strýk, ef sterk er óskin mín og vonin rík, að þú komir til mín að ég finni þig...... og svo man ég ekki meira. Þannig ef svo vill til að þú eigir þennan texta má endilega láta mig vita :)

Það rignir endalaust. Líklega ekki í fyrsta skipti hér í Noregi en ég get nú alveg sagt að mig langar meira í sól ;) Samt ekki of mikinn hita, bara svona rétt passlegt svo maður geti farið út að hreyfa sig og svona!

En allavega, við erum komin heim af Noregsmeistaramótinu og Stian kom heim með þrefaldan noregsmeistaratitil. Ekki leiðinlegt það ;) Svo nú bíðum við bara eftir heimsmeistaramótinu :) Annars gekk þetta bara fínt og við komumst öll heil heim. Vá, ekkert smá ferðalag. Stanslaus keyrsla í 11 tíma, fimm ferjur og ausandi rigning allan tímann. Ég mæli semst ekkert voða mikið með að keyra frá Stord/Bergen til Vågstranda! En ef þið hafið nógan tíma, þolinmæði og gott veður er það eflaust ágætt.

Hugmyndaleysi hrjáir mig ásamt smá þreytu. Ætla að gera tilraun til þess að setja restina af júnímyndunum inná myndasíðuna.

Fjölskyldan mín er augljóslega í ferðalagi. Öll saman að leika sér í góða veðrinu á Íslandi. Hér lesa því ekki margir vegna sumarleyfa um víða veröld en hví að kvarta. Maður bloggar fyrir sjálfs síns ánægju þó maður fái næstum samviskubit ef maður skrifar ekkert.

Njótið sumarsins, það verður búið áður en við vitum af..... ;)

Valborg loksins heima í Jakobsgarden - vel á minnst, rosalega fer í mig að það virki ekki að setja fyrirsögn. Glatað. En ekki kvarta, ég þarf þá ekki að velta mér uppúr því hvað á að standa þar.

laugardagur, júlí 07, 2007


Á borðinu lágu tvö blöð/tímarit um það hvernig ætti að koma sér í gott form. Svona fitness blöð með myndum að flottu fólki framaná. Ég teigði mig eftir blöðunum og flétti í gegnum þau. Það rifjaðist upp fyrir mér hversu mikla óbeit ég hef á blöðum sem þessum. Það er eitthvað við innihald blaðanna sem ég er bara alls ekki að kaupa. Hver auglýsingin og hvert viðtalið á eftir öðru öll með sama innihaldi. Hvernig er best að halda sér í formi eða koma sér í gott form. Að mörgu leiti eru þetta kannski ágætis blöð. Heilbrigður lífsstíll og allt það.

En einhverra hluta vegna finnst mér þetta samt senda svo röng skílaboð út í samfélagið. Eins og það eigi allir að vera eins. Allir eigi að vera með flatan maga, glæsilega upphandlegsvöðva og vöðvabúnt á maganum, vel vaxnir, grannir og fit. Allt blaðið snýst um að fá sem flesta til að líta svona út. Áskorun um að hefjast handa, taka mataræðið í gegn, hreyfa sig meira og viti menn.... flatur magi eftir tvær vikur! Nei kommon. Inná hverja er þessi auglýsing stíluð? Við vitum alveg að við umturnum ekkert líkamanum okkar á tveimur vikum á heilbrigðan hátt. Svo ekki sé minnst á að það eru ekki allir gerðir til að vera grannir og falla pörfekt inní þetta sjúklega staðlaða útlit. Við eigum bara að vera eins og við erum. Auðvitað er gott að lifa heilbriðum lífsstíl, hreyfa sig og borða hollt, en við megum ekki tapa okkur í því. Við þurfum ekki að vera með þennan rosalega flotta maga eða mörg kíló af vöðvum og fitumagnið hvergi sjáanlegt. Svoleiðis er það bara ekki. Við erum ekki öll sköpuð eins.


Mér finnst ótrúlegt að það sé einfaldlega hægt að gefa svona tímarit út í hverjum mánuði, og ekki bara eitt fyrirtæki heldur mörg. Skrítið. Fólk virkilega kaupir þetta. Harðákveðið í að breyta sjálfum sér og kynna sér hvað þessi og hinn misstu mörg kíló á hinum eða þessum tíma. Ég hef ofnæmi fyrir svona blöðum. Eflaust alls ekki verra en slúðurtímaritin. En eitthvað er það með allar þessar líkamlegu útlitskröfur sem hrindir mér í burtu. Verum bara ánægð. Setjum okkur raunveruleg markmið sem hægt er að ná á heilbrigðan og venjulegan hátt. Þrátt fyrir kröfurnar og ítni samfélagssins megum við ekki láta endalaust undan. Verðum að standa fast á okkar.

Við erum ekki öll gerð eftir sömu uppskriftinni. Hvert og eitt okkar á sína uppskrift. Ekkert eins og engum ætlað að vera eins.

Kveð úr heimi fitnesstímarita enn með líkamsræktarstöðvafóbíu og með nammiskál mér við hlið....

Valborg Rut

föstudagur, júlí 06, 2007

Því er lokið.


Öll börn gera fæðingu sína að goðsögn. Það er öllum mönnum sammerkt. Viltu þekkja einhvern? Hjarta hans, huga og sál? Biddu hann að segja þér frá því þegar hann fæddist. Það sem þú færð að heyra verður ekki sannleikurinn, það verður saga. Og ekkert segir eins margt um manninn og sögur. (Vida Winter)

Rétt í þessu var ég að ljúka lestri Þrettándu sögunnar. Hvað getur maður sagt annað en... Vá. Þetta er ótrúleg bók. Bók sem hrífur mann með sér og maður gleymir sér algjörlega. Lifir sig inní bókina og drekkir sér í heimi persónanna. Svo raunverulegt, akkurat eins og ég vil hafa það. Um tíma datt ég reyndar aðeins út svo mikill er söguþráðurinn. Smá stund skildi ég minna en ekki neitt en eftir andartak fékk ég þetta allt til að skiljast. Mikil hugun í þessari bók. Maður getur að minnsta kosti ekki verið sofandi við lesturinn því maður verður að grípa vel við öllu. 423 blaðsíðurnar sem ég hef lesið síðustu daga hafa því allt ekki í sér eftirsjá. Og endirinn. Hann er æðislegur. Ekki upplífgandi, en svo vel skrifaður og framsettur. Eins og bókin í heild reyndar. Frábær bók sem ég vona að sem flestir komi til með að lesa til að njóta þessara æðislegu frásagnarlistar.

Njótið lífsins, munið að allir hlutir hafa tilgang og ekki gleyma því að allir skipta jafn miklu máli.

Bestustu kveðjur af NM..... Valborg Rut

Skrifað frá Stord

Já Noregur er tæknivæddara land en ég bjóst við. Þráðlaust net um allar sveitir svo hér sit ég á hestamóti á eyju sem heitir Stord og flækist um netheima. Þessa stundina rignir en höfum nú verið nokkuð heppin með veður. Þvílíkur hiti í smá tíma í gær en svo erum við nú líka búin að rigna í kaf við og við. En við erum vassheld svo við lifum vel af smá bleitu. Annars gengur móti fínt bara eftir því sem ég best veit. Voða lítið og sætt eitthvað finnst mér, hehe.

Allavega komst ég loksins á leiðaredna eftir mikið ferðalag frá Akureyri. Einhvernegin svona: Akureyrarflugvöllur (40 mín) - Flug til Reykjavíkur (45 mín) - Umferðarmiðstöðin (2 tímar) - Rúta til Keflavíkur (45 mín) - Keflavíkurflugvöllur ( næstum 3 tímar) - Osló (6 að morgni til 8 að kvöldi) - smá skrepp í miðbæ Osló fyrir hádegið - Flug til Bergen (45 mín) - Keyrsla + ferja til Stord ( um 2 tímar) Eftir að hafa vakað frá sunnudagsmorgni til mánudagskvölds var ég dauðfegin þegar ferðalagi mínu var lokið í bili. En fyrir stafni eigum við margra klukkutíma keyrslu þegar við förum heim til Vågstranda á sunnudaginn.

Hef annars eitthvað voða lítið að segja. Lítið að frétta annað en flækningur og hestamótsfréttir. Höfuð það ágætt hérna og það er fínt að vera komin til Noregs aftur eftir fríið á Íslandi. Á nú eftir að vera hérna í ótrúlega stuttan tíma í viðbót að ég verð komin heim áður en ég geri mér grein fyrir því. Haustið enn óákveðið. Ef þú lesandi góður villt bjóða mér vinnu sem hæfir kröfuharðri mér endilega hafðu þá samband ;) En það er nú ýmislegt í boði, bara ef ég gæti látið það virka allt saman því það eru fáir tímar í einu á ólíkum stöðum. En þarfnast víst meiri vinnu en það svo ég geti nú verið ofurakív ;)

Svo vil ég óska afa mínum innilega til hamingju með daginn í dag! Og vona að öll heila fjölskyldan mín hafi það gott í ferðalaginu í vikunni :) Stefna þeirra er víst sett yfir kjöl og einhverjar fjallaleiðir og að Minniborgum. Á víst að vera ekki svo langt frá Skálholti að ég held.

Meira en nóg komið af löngum skrifum um ekki neitt.....

Ég á síma sem má alltaf hringja í.... norska númerið vitanlega í notkun núna ;)

Kveðja frá Stord, Valborg.

mánudagur, júlí 02, 2007

Oslo

Er a lestarstod i midbæ Oslo. Matti ekki breyta fluginu minu til Molde svo eg mun fljuga til Bergen i kvold og hitta Agnesi og co. Akvad ad kikja bara adeins i bæjinn en hef nu ekki mikla orku sokum svefnleysis. Hef ekkert sofid sidan eg vaknadi i gærmorgun. En arkadi samt i nokkrar budir, kom vid i bakarii og tok sma gonguferd. En nu er ausandi rigning svo akvedid var ad kikja i tolvu og fara svo bara aftur a flugvollinn. Gæti eflaust lagt mig a golfinu og reynt ad sofa sma. Liklegt. Eda hitt og heldur. A morgun er tad hestamotid. Sennilega ekki netkaffi tar to tad væri nu mikill kostur. Va hvad eg hlakka til ad sofna i kvold.

Bestu kvedjur heim til allra..........

Valborg Rut flækingsprinsessa.