fimmtudagur, nóvember 29, 2007
miðvikudagur, nóvember 28, 2007
Ræktaðu græna tréð í hjarta þér handa söngfuglinum
Það er auglýsing í sjónvarpsdagskránni sem ég get öskrað yfir þegar hún mæti mér. Einn fjórði af blaðsíðu og fyrirsögnin alltaf falin í kílóafjölda. Og í dag stendur: Núna eru 51 kíló farin!!! Fyrir mér kemur þetta frekar óheilbrigt út. Ég veit vel að sumir einfaldlega þurfa að grenna sig til að geta lifað heilbrigðara lífi. Því við vitum jú öll að það er til meðalvegur. Ekki of grannur en ekki of feitur. En ég veit líka að það getur ekki verið mjög hollt að grennast svona hratt um svo mörg kíló. Því í hverri viku í nokkurn tíma hefur staðið þarna ný tala. Við höfum ekki séð manneskjuna sem er að missa þetta allt. Vitum ekki hvort það er kona eða karl. Hún gæti verið komin langt undir kjörþyngd. Hún gæti verið enn í yfirþyngd. Mér finnst þetta slæm auglýsing. Finnst hún hafa röng áhrif og gefa slæm skilaboð út í samfélagið. En ég veit vel að það eru ekki allir á sömu skoðun og ég, öllum er frjálst að hafa sína skoðun og sitt álit. Vafalaust er til fólk sem finnst slíkar auglýsingar frábærar.
Þið eruð eins og þið eigið að vera. Og þannig eruð þið lang best.
Valborg Rut.
mánudagur, nóvember 26, 2007
Reykjavík - Akureyri
Föstudagur, laugardagur, búðir, kaupa, kaupa meira, máta, máta meira, veskið léttist, pokarnir fylltu öll gólf íbúðarinnar í vesturbænum, landroverinn hlaðinn uppí loft á leið heim á sunnudaginn. Takk Helga fyrir skemmtilegan fimmtudag og föstudagskvöldið. Takk Abba fyrir æðislegan ísrúnt og spjall á laugardagskvöldið. Verðum að taka ferð á bláu þegar þú kemur norður um jólin. Ef eki sjáumst við vafalaust í kirkjunni okkar góðu. Og takk allir hinir fyrir góðar búðaferðir, endalaust labb á milli staða og svokallaða jólasveinaferð í borgina.
Jólin geta alveg komið. Er næstum búin að öllu. Ja nema náttúrlega að kaupa allar jólagjafirnar, pakka þeim inn, búa til jólakortin og skrifa á þau. Já ókey. Jólin mega kannski ekki koma alveg strax. Ég þyki vera að verða ögn sein að hlutunum. Mamma fyllist af stressi þegar ég nefni í rólegheitum mínum að ég eigi nú enn eftir að kaupa í jólakortin. Ég dró Helgu nú samt með mér í Föndru í borginni þar sem ég var viss um að finna eitthvað sniðugt. Nóg var að hugmyndum en svo varð nú að þrátt fyrir allar hugmyndirnar og klukkutíma viðveru í föndurbúð gekk ég út með ekki neitt. Tíminn líður, dagarnir, klukkutímarnir og mínóturnar þjóta hjá alltof hratt. En jólin koma. Jafnvel þó ég myndi steingleyma að ég ætti eftir að skrifa á jólakortin eða kaupa jólagjafirnar. En engar áhyggjur. Eins og sannur íslendingur segi ég bara; þetta reddast!
Nú ligg ég í hreina rúminu mínu í hreina herberginu og ætla mér að leggja aftur þreytt augun.
Góða nótt besta fólk...
Valborg Rut.
miðvikudagur, nóvember 21, 2007
Höfuðborgin á næsta leiti
Nú ligg ég uppí rúmi og horfi með öðru auganu á Herra Ísland. Verð nú að segja að ekki veit ég hvaða erindi rúmur helmingur þessara ágætis drengja voru að leggja leið sína í þessa keppni. En víst er gott að það hafa ekki allir sömu skoðun. Eflaust eru þeir allir fallegir að innan en það er víst útlitið sem á að grípa í þessu tilfelli. Svo álit mitt er ábyggilega annað en þeirra sem þekkja þá. Því ef þér líkar vel við einhvern, verður hann ósjálfrátt fallegur í þínum augum. En ég get aðeins byggt á sýn á bak við sjónvarpsskjá. Líklega er aldrei fallegasta fólkið í landinu sem tekur þátt í keppnum af þessu tagi. Alveg myndarlegt, en ekki helmingurinn af því útlitslega fallega fólki sem til er myndi láta sér detta í hug að keppa í fegurð.
Var niðrí vinnu til tíu í kvöld. Hefbundinn vinnudagur en að því loknu tók við einingarfundur, því næst starfsmannafundur og að lokum foreldrafundur. Magga Pála var mætt á svæðið og hélt manni algjörlega við efnið. Snillingur þessi kona. Alltaf gaman að hlusta á hana. Kemur með skemmtilegar lýsingar og frásagnir og hefur svo lifandi frásagnarmáta. Fínustu fundir þó vitanlega væri löngun heim og í rúmið síðustu mínóturnar.
Reykjavík á morgun, Akureyri á sunnudag.....
Njótið þess að vera til, nýtið samverustundirnar sem lífið gefur, látið stress samfélagssins sem vind um eyrun þjóta.
Valborg Rut.
sunnudagur, nóvember 18, 2007
Hólavatnsferð
Eftir komu í menningu bæjarins var farið í kaffi til ömmu. Alltaf gaman að hitta fólkið sem er manni mest en maður eyðir kannski þegar upp er staðið of lítlum tíma með. Fór svo í sunnuhlíðina þar sem var skúrað og skrúbbað. Óhreinindi sem safnast hafa upp í leti minni sem þrifnaðardama og vegna heilsuleysis. En get nú hætt að hafa þetta á samviskunni þangað til það verður skítugt næst. Kom svo loksins heim, flakka um netheima en mun bráðlega laga neglurnar mínar fyrir komandi daga.
Án þess að vita hvert ég stefni, á hvað eða hvernig, þá stefni ég hátt.
Lifið sátt við allt og alla....
Valborg Rut
föstudagur, nóvember 16, 2007
Dagur íslenskrar tungu
Fór annars í vinnu í dag í fyrsta skipti í vikunni. Eftir að hafa legið í veikindum síðan á laugardag. Hafði ekki tíma í þetta vesen lengur svo ég dreif mig í vinnu. Hefði nú kannski betur látið það ógert en harkaði daginn af mér sökum mikillar fjarveru starfsfólks. Kom svo heim næstum glær í gegn. En fór þá niðrí Listfléttu og náði í kertastjakann sem ég hef beðið eftir síðan í byrjun september. Svo nú á ég tvo stóra leirkertastjaka í mismunandi hæð á kommóðunni minni :) Ætlaði svo í Bónus í mikla verslunarferð fyrir ferðalag á morgun. En frestaði því til morguns sökum heilsuleysis.
Á morgun held ég á Hólavatn með 11 stelpur úr KFUK í farteskinu ásamt þremur góðum leiðtogum. Hlakka til. Vona að veðrið verði betra en búið er að spá. En við búum á Íslandi og erum viðbúin öllu. Vona að heilsan mín fari líka að koma til og verði komin í lag þegar ég vakna í fyrramálið.
Í næstu viku verður farin fjölskylduferð til Reykjavíkur. Vá hvað ég hlakka til. Kvíði mest fyrir að það verði ekki til nóg og mikið af fötum handa mér. Enda er ég sérviskupúku og passa alls ekki í hvað sem er þó fólk virðist stundum halda að svo sé. Og ef ég finn ekki hin fullkomnu jólaföt tapa ég mér alveg. Þoli ekki vandæðafatajól. Hvað þá fataleit á þorláksmessu. Svo ég stefni að því að finna eitthvað, bæði hversdags og fínt, ef ekki þá kaupi ég efni og skelli saman einhverju voða fínu ;) Langar líka í nýju risastóru dótabúðirnar. Og dýrabúðina sem er stærst á norðurlöndunum. Og í nýju húsgagnabúðina. Vá, hef ég tíma í þetta allt?
Hér eru allir löngu sofnaðir nema faðirinn sem er á næturvakt. Eflaust ætti ég því að fara að dæmi hinna og svífa inní draumaheima.
Góða nótt elsku besta fólk....
Valborg Rut.
miðvikudagur, nóvember 14, 2007
Bókatíðindi
Eftir að hafa lesið mér til um nokkrar bækur sem vöktu athygli mína hugsaði ég til baka. Voru þetta ekki aðalega handbækur fyrir lífið sjálft? Sjálshjálparbækur og ævisögur úr heimum góðs og ills, þeirra sem áttu erfitt en gengur núna lífið vel? Mestmegnis voru bækurnar á þessa leið. Og ein uppskriftabók. Matarkynns, ekki uppskrift af góðu lífi.
- Listin að stjórna eigin lífi - um sjálsfstjórn í verki og tilfinningagreind.
- Litagleði fyrir heimilið - litir og gleði, innanhússhönnun.
- Kjúklingaréttir - 256 blaðsíður um matreiðslu kjúklinga.
- Aldrei aftur meðvirkni - alltaf gaman að vita meira um skugga umhverfisins.
- Postulín - bók eftir Ölmu og Freyju, að lifa með fötlun.
- Hvítt á svörtu - barn með heilahrörnun, sjálfsbjargarviðleitni fólks.
- Hjartað sem slær í brjósti mér er ekki mitt - um stelpu sem fékk nýtt hjarta, endurminning.
- Enginn má sjá mig gráta - frásögn Arons Pálma úr barnafangelsi í Texas.
- Þú ert það sem þú hugsar - alltaf gaman að vita meira.
- Draumalandið - þekkt bók eftir Andra Snæ, sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð.
- Tvíburarnir - skáldsaga.
- Súkkulaði - skáldsaga, nafnið greip mig um leið!!! Súkkulaðiverslun opnuð á móti kirkju.
- Á ég að gæta systur minnar - skáldsaga.
- Vetrarborgin - sennilega enn eitt snilldarverk Arnalds Indiða.
Líklega tóku allir eftir því að þarna var engin bók með galdrastráknum Harry eða öðrum fljúgandi furðuverum. Kannski því ég heillast ekki sérstaklega af því sem maður getur á engan hátt nýtt sér. Er meira í því sem getur gerst á jörðinni eða því sem maður getur tengt manni sjálfum. En allir hafa sinn stíl og sín áhugamál. Það er gott að við erum ekki öll eins.
Á meðan ég skrifaði þetta blogg borðaði ég tæplega hálfan líter af ís. Pínulitla rándýra ísboxið sem ég fjárfesti í á leið minni um Hagkaup um daginn. Ekta ítalskur súkkulaði ís. Gott til hátíðarbrigða. Slíkt dýrmeti kaupir maður ekki á hverjum degi.
Heilsan lætur bíða eftir sér. Er enn heima, fimmti dagurinn án krafts og útiveru. Get vonandi látið sjá mig í vinnu á morgun.
Gangið hægt um gleðinnar dyr og munið að jólin koma þó stressið sjáist ekki.....
Bestustu kveðjur um víða veröld....
Valborg Rut
þriðjudagur, nóvember 13, 2007
Sandblásnar filmur
Í sumum húsum fer hugurinn á flug og puttarnir eiga erfitt með að vera kjurrir. Mig langar kannski bara rétt að færa einn hlut eða rétt aðeins að endurraða í hillur og skápa. Ja eða jafnvel
skipta um gólfefni, pússa veggi og mála. Í húsgagnabúðum get ég horft í kringum mig og hannað mitt eigið heimili í huganum. Raðað saman borðum, sófum og stólum. Stórum speglum og listaverkum. Þegar ég verð rík verður gaman að koma í heimsókn til mín í fína og flotta húsið mitt.
Mér hefur alltaf fundist gaman að koma inná mismunandi heimili. Þegar ég var 10 ára og fjölskyldan að leita sér að nýju heimili fóru foreldrarnir hvergi að skoða nema með dótturina á hælunum. Hoppandi af kæti yfir að mega fara með að skoða hús hjá öðru fólki. Þetta er svo gaman. Okkur finnst gaman að kynnast nýju fólki því allir eru svo ólíkir. Ekkert fólk er eins. Eins er það með heimilin. Ekkert heimili er eins og þess vegna svo gaman að kynnast því. Eins og við breytum ekki því fólki sem við kynnumst breytum við ekki þeim heimilum sem við komum inná. Heldur tökum allt það góða og jákvæða og beinum athygli okkar á það.
Mér finnst þetta ennþá skemmtilegt. Spyr stundum hvort við getum ekki farið og skoðað þetta hús og bendi á litla auglýsingu í dagskránni. Er svo bent á að maður fer ekki að skoða hús sem maður getur ekki keypt. En jafnvel þó svo ég hafi ekki efni á að kaupa mér hús á næstunni skoða ég samt alltaf allar fasteignaauglýsingarnar í dagskránni. Og ef mér leiðist finn ég mér fasteignavef á netinu og kynni mér hvað er í boði. Skrítið áhugamál en ætli það sé þá ekki bara í stíl við mig.
sunnudagur, nóvember 11, 2007
Fnjóskadalur
Vinnuvika að hefjast, heilsan vonandi að koma til. Ný verkefni, ný tækifæri. Nýjir dagar, nýjir klukkutímar.
Orkan er búin, betri skrif síðar.
Valborg Rut
fimmtudagur, nóvember 08, 2007
Fegurð og ávextir
Við erum öll svo ólík. Það er þess vegna sem er svo gaman að kynnast nýju fólki. Enginn er eins. Hver og einn er sérstakur og hefur sína kosti og hæfileika. Enginn annar hefur nákvæmlega sömu kosti og hæfileika og þú. Enginn lítur nákvæmlega eins út og þú og þannig greinumst við í sundur við fyrstu sýn. Kannski væri gaman að kynnast fólki án þess að sjá það. Ef við værum öll ósýnileg og hefðum þar af leiðandi ekkert til að mynda okkur skoðanir við fyrstu sýn. Við einfaldlega þyrftum að kynnast því sem innra er áður en við getum ákveðið hvort manneskjan höfði til manns á einhvern hátt.
Ég fer í búðina og ætla mér að kaupa ávexti. Stend fyrir framan eplin og vel mér fallegustu eplin úr hópnum. Geng að appelsínunum og vel þær sem eru fallegastar í laginu. Að lokum kaupi ég banana og vel þá sem eru fallega gulir. Ekki grænir og ekki með brúnar doppur. Og þetta gera fleiri en ég.
Það sem ég veit hins vegar ekki er hvort að ávextirnir mínir séu jafn góðir á bragðið og þeir eru fallegir. Fallegustu eplin eru ekki endilega alltaf best. Fallega appelsínan gæti verið skemmt inní. Bananinn gæti verið vondur á bragðið.
Þetta þurfum við að muna. Ef við stæðum fyrir framan hóp af fólki og ættum að velja úr eins og við veljum okkur ávexti er ég ekki viss um að niðurstaðan yrði góð. Kannski voru þeir fallegustu og þeir sem voru best vaxnir ekki endilega þeir sem gætu orðið okkar bestu vinir.
Horfum á innrætið en ekki á útlitið. Við erum öll falleg. Falleg á okkar hátt.
Valborg.
þriðjudagur, nóvember 06, 2007
Á hraðferð
- Naglalakkið er að þorna á fingrunum svo með hraði get ég skrifað hér nokkra stafi.
- Hef haft brjálað að gera síðustu daga og bræður mínir og fjölskylda hrædd um að ég sé flutt að heiman.
- Svo er nú samt ekki.
- Ég kíki við á nóttunni og næstu kvöld ætla ég mér að hafa minna að gera.
- Hef afrekað svo mikið síðan á föstudag að ég man nánast ekkert hvar ég er búin að vera og hvar ekki.
- Hvað þá hvað ég er fyrr búin að skrifa og hvað ekki.
- Í gær vaknaði ég frekar þreytt eftir fimm tíma svefn.
- Tók mig til með hraði í vinnuna, henti gallabuxum og peysu í tösku og hélt af stað.
- Vann til fimm og skipti úr íþróttabuxunum í gallabuxur.
- KFUK fundum klukkan 5, borðað á leiðinni.
- Gerðum sykurmolahús og stelpurnar eru algjörir snillingar. Ótrúlega flott hjá þeim.
- Úr Sunnuhlíð var haldið á Hjálpræðisherinn á Gospelkóræfingu.
- Þar var fólk frá Noregi með námskeið.
- Ótrúlega skemmtilegt og þreytuhugsanir flugu út um gluggan.
- Í dag komst ég að því að tveggja ára strákar geta tekið forskot á gelgjuna.
- Já frekar skrítið en ég er viss um að þetta var smá undirbúningur í dag.
- Kom heim í sturtu, lagaði neglurnar.
- Er núna að verða of sein á skipulagsfund KNS.
- KNS stendur fyrir Kristilegt Næstum því Stúdentafélag.
- Já, við vorum í vandræðum með að finna nafn en þetta kom að lokum.
- Í raun allt í lagi, ja allavega þangað til maður útskýrir stafina.
- En allavega er þetta nýstofnað kristilegt félag fyrir fólk í framhaldsskólum.
- Hef þó ekki tíma til að vera þar til enda.
- Fer á kóræfingu aftur í kvöld og þem raddböndin aðeins.
- Á daginn syng ég með leikskólabörnum, stundum syngja þau með, stundum líður mér eins og einsöngvara.
- Á kvöldin virðist ég syngja meira fyrir mig sjálfa. Og syng ekki lagið um brunabílinn, hvað þá Óla í skóginum.
- En nú verð ég að þjóta, taka mig til að bruna á næsta áfangastað.
Hafið það gott, gætið þess í brjálæði heimsins og gleyma ekki ykkur sjálfum.
Knús á ykkur öll.....
Valborg Rut.
sunnudagur, nóvember 04, 2007
Leikfimi hugans og þú tekur þátt ;-)
Hugaleikfimi ;-) Hvað er á myndunum? Hvað tákna þær? Hvernig túlkar þú þessar myndir?
Nú er sá tími sem allir taka þátt og segja sína skoðun ;-)
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.
laugardagur, nóvember 03, 2007
Dagur óhollustu
Dagurinn er búinn að vera hálf kreisí. Leið þó hratt enda gátum við varla stoppað á milli atriða. Vakna - Elísa í afmæli - Elísa til ömmu - Ég og Sóley á furðufataball í Brekkuskóla - Til ömmu - Bíó með listhlaupadeild skautafélagssins - Panta pitsu - Borðað og horft á Latabæ - Náttföt - Sofa. Svo hér hafiði lýsingu á frænkudeginum. Nú sofa stelpurnar en ég eins og endranær tékka á netheimum.
Hvað varð um allar gáfulegu setningarnar sem sáust á þessu bloggi? Verð nú að segja að sjálfri finnst mér skemmtilegra að lesa eitthvað með innihaldi. En..... það verður víst ekki í dag.
Stutt lesning til tilbreytingar....
Valborg Rut.
föstudagur, nóvember 02, 2007
Eins og belja á svelli
Kíkti heim í smástund áðan og henti mér uppí hjónarúmið þar sem foreldrarnir sátu og mamma veiddi uppúr okkur hvað mætti eiginlega kaupa og við vildum að væri til. Hakk, kjúklingabringur, kex, skipulagskörfur, gólfsápa, baðherbergishreinsiefni með sítrónulykt svo eitthvað sé nefnt. Ég bað um nýjar gluggaþvottagræjur en fékk því ekki framgengt. Skyndilega stekkur pabbi á fætur og segist þurfa að sýna mér nýju nærbuxurnar sínar. Eitt vissi ég strax að þetta væru nú greinilega ekki venjulegar nærbuxur. Nei það voru sko alveg eðal IslandRover nærbuxur. Hló nú ekki lítið af þessu uppátæki þeirra Landroverfélaga. Hvenær ætli KFUK sendi mér nærbuxur merktar félaginu? Hehe. Þá held ég að peysurnar séu nú betri. Fannst þetta reyndar svolítið skemmtileg og skondin hugmynd. Maður á greinilega að vera vel merktur sínu félagi. Í Landrover ferðum getiði því alltaf vitað að karlkyns þátttakendur eru í eins peysum og eins nærbuxum.
Myrkrið hylur jörðina og klukkan á veggnum segir mér að draumaheimurinn sé handan við hornið.
Berið virðingu fyrir hvort öðru og lifið í sátt og samlyndi....
Valborg Rut.
fimmtudagur, nóvember 01, 2007
Með augun opin, hugann í lagi og heilbrigði í fyrirrúmi.
Það eru ekki komin jól. Það er ekki heldur föstudagur. Hvers vegna í ósköpunum var þá svona margt fólk á hlaupum og engin bílastæði að finna? Ef jólastessið er strax byrjað er mér nú allri lokið. Er með ofnæmi fyrir þessu stressi. Hvers vegna labbar fólk ekki bara rólega og tekur lífinu með ró? Í stað þess að stressa sjálfan sig upp og raska ró samfélagsins. Ótrúlegt að nenna þessu. En svona er þetta víst á okkar litla Íslandi.
Steinahillan mín er við það sama. Skyndileg þolinmæði gagnvart handklæði og steinum á gólfinu. Horfi á þetta á hverjum degi og hugsa að ég verði nú að farað klára þetta. Einhverra hluta vegna þarf sköpunargáfan að vera í hámarki og humyndaflugið líka. Og þolinmæði ef maður ætlar sér að pússla steinum og ljósaseríu saman þannig að engar snúrur sjáist. Vantar bara eitthvað til að brjóta þetta upp. Datt reyndar í hug að setja þurrkaðar rósir á milli steinanna. En tími ekki að taka þær sem ég á úr hinum hillinum. Finn út úr þessu. Er alveg að farað gefa mér tíma í þetta. Þoli ekki svona ókláruð verkefni.
Núna þarf ég að föndra. Teikna hringi á lituð karton og klippa út. Undirbúningur fyrir kfuk fund á mánudaginn. Stefnan er að láta stelpurnar búa til hús úr sykurmolum. Til þess þarf undirstöður og þar koma hringirnir til sögunnar. Hlakka eiginlega ótrúlega til að gera þetta. Man hvað við Helga skemmtum okkur vel eitt kvöldið við að búa til svona sykurmolahús úr útrunnum sykurmolum í sunnuhlíðinni. Veit reyndar ekki hvort að 10-12 ára stelpum í dag finnist þetta skemmtilegt, en það kemur allt í ljós!
Hafið augun opin, ekki er allt sem sýnist.....
Valborg Rut.