Ég man þegar ég ákvað að hætta að trúa á Guð. Það kom allt í einu svo sterk minning þegar ég las Hann var kallaður “þetta”. Þetta var alveg örugglega árið sem ég var í 7. bekk. Árið áður en ég byrjaði í fermingarfræslu. Frá því ég man eftir mér hef ég trúað á eitthvað stærra og meira. Eitthvað sem mér var sagt að væri Guð. Góður maður sem skapaði heiminn, gaf öllu sem hreyft sig getur líf, heyrir allar bænir og þekkir okkur best af öllum. Og þessu trúði ég og trúi enn þann dag í dag.
En þegar manni finnst allt ganga illa, allt leiðinlegt og eins og ekkert sé að virka ákvað ég einn daginn að þetta hlyti bara að vera þessum Guði að kenna. Ég þoldi ekki þennan ömulega skóla sem ég var í, brjálaðist alltaf ef kennararnir ákváðu að hafa skyndipróf, nennti ekkert að læra og við krakkarnir í bekknum áttum alls ekki svo vel saman. Ég hraðaði mér heim úr skólanum til að varast ógnun bekkjarfélaganna. Eins gott að það var stutt heim. Hvar var þessi Guð eiginlega?
Ég velti þeim kostinum fyrir mér að hætta bara að trúa á Hann. Það yrði örugglega miklu betra. Um áramótin byrjaði það. Áramótaheitið var að gleyma þessum góða sem skapaði allt. Ég hætti að velta mér uppúr þessu og jú stolt af sjálfri mér fannst mér allt ganga miklu betur. Um haustið fór ég í fermingarfræðslu. Auðvitað velti ég því ekkert fyrir mér hvort ég ætti að hætta við að fermast. Þetta var jú sjálfsagður hlutur. Við fórum með prestunum úr kirkjunni á Vestmannsvatn part úr degi. Eftir smá fræðslu og leiki fengum við lítinn miða sem átti að skrifa á bænir. Bænirnar átti svo að setja á altarið í Grenjaðarstaðskirkju, færa Guði þær og svo ætlaði presturinn þar að brenna þær. Ég vissi nú ekkert hvað ég átti að skrifa og tók eftir því að margir voru bara að teikna eða skrifa brandara á blaðið. Akkurat þarna ákvað ég að byrja aftur að trúa á Guð. Skrifaði pínulitlum stöfum á allt blaðið. Guð var til. Guð er til. En einhverra hluta vegna ákvað ég að gleyma honum. Það besta er þó að ég sættist við hann aftur.
Maður má ekki hætta að trúa og biðja, jafnvel þó svo að allt sé ekki eins og við viljum. Dave í bókinni (síðasta færsla) hélt að Guði væri illa við sig. Fyrst hann þyrfti að þola allar þessar barsmíðar og þetta ömurlega líf væri enginn Guð til. Hann hélt þó alltaf áfram. Hélt áfram að biðja og vona. Varð reiður við Hann en gafst ekki upp. Dag einn losnaði hann. Ekki eftir einn dag, ekki eftir viku, heldur eftir mörg ár. Kannski var þetta bænunum að þakka.
Mér finnst skrítið að mér hafi dottið í hug að kenna Guði um allt. Ég átti allt og skorti ekkert. Fékk allt það sem börn þurfa. Samt var eitthvað sem sagði mér að hætta þessu “rugli” um manninn á himnum. Ég man ekki eftir því að mér hafi verið kenndar bænir heima. Líklega samt þar sem ég kunni lítil bænavers. En seinna lærði ég að biðja í sveitinni hjá vinkonu minni. Þar breiddi maður varla sængina yfir sig fyrr en búið var að koma og biðja með okkur. Eitthvað var það sem fékk mig til að halda því áfram, hvar sem ég var.
Þetta var leyndarmál. En leyndarmálið er afhjúpað. Segiði svo að börn geti ekki hugsað. Það sem veltist um í litlum kollum sem stundum virðast óttalega vitlausir og yfirborðskenndir getur verið meira en maður heldur. Maður fattar það bara ekki fyrr en eftirá.
.....og frelsa oss frá illu..... Amen.