Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Rigning tekur völdin

Þá er maður mættur í netheiminn og tekinn til við skriffinnskuna enn og aftur. Eftir svefnlausa nótt í gær hófst fínasti dagur. Auðvitað var maginn ekki alveg til friðs en hann fékk ekki að ráða öllu frekar en venjulega. Tók bara fáeinar verkjatöflur og gat gert allt sem mig langaði til ;) Við fórum til Åndalsnes í gær, kíktum á nokkra staði og skráðum mig inní kerfið hérna í Noregi. Ekki amalegt að eiga íslenska, danska og norska kennitölu! Hvert ætti ég að fara næst? Hehe æ kannski ég taki mér smá pásu frá frekari ferðalögum. Ja nema náttúrlega stutt skrepp hingað og þangað ;)

Annars hefur herbergið mitt verið að taka á sig heildarmynd og er alltaf að komast nær endalokum. Loksins er komið rúm og gardínur og gólflistarnir eru komnir á gólfið ;) Núna á bara eftir að klára þetta alveg svo ég geti nú flutt inn og losað ferðatöskuna en ég bý íennþá að hluta til í tösku ;)

Rigningin hefur tekið völdin og hrakið frostið og snjókommuna burtu við misjafnar vinsældir. En lgöturnar eru allavega að verða auðar svo þetta er nú bara nokkuð fínt ;) Annars er skíðafólk örugglega ekki alveg jafn ánægt en það er nú annað mál. Fínt að hafa snjó en það má samt ekki snjóa stanslaust! Þá fær maður nú alveg ógeð... hehe. Maður ætlar því að nýta sér pásu snjós og rigningar og skreppa út í smá göngu með krakkana. Langt síðan maður hefur hreyft sig eitthvað af viti. Ekki að ég geri það nú oft en um að gera að hanga ekki alltaf inni!! Það er nú samt til eitt stikki líkamsræktartæki hérna í stofunni en ég hef nú ekki verið neitt rosalega aktív á því frekar en aðrir, hehe. En ég er nú samt búin að prófa þetta og var alveg 5 mínótur! En þá fannst mér nú komið alveg nóg ;) Hver veit nema ég verð rosa dugleg að hlaupa og hreyfa mig þegar góða veðrið kemur...

Kannski hef ég ekki mikið annað að segja í bili svo ég kveð héðan frá snjóalandinu ;)

sunnudagur, janúar 28, 2007

Næturblogg á vökunótt

Jæja ætli ég noti ekki bara vökunóttina til þess að blogga smá. Um að gera þegar klukkan er 03:30 að nóttu til. En ekki get ég sofið því maginn minn er sko í hörku stuði get ég sagt ykkur. Þar af leiðandi lýtur ekki út fyrir að ég sofi næstu mínóturnar. Ætla nú samt rétt að vona að ég geti sofnað bráðum svo ég geti nú haldið mér vakandi á morgun eða ég meina á eftir þegar maður á að vakna! Ekki mín sérgrein að vakna um miðja nótt!

Annars hefur þetta verið rólyndishlegi. Hér er allt á kafi snjó og mér skilst að það hafi ekki komið svona mikill snjór hérna í mörg ár. Vegirnir sem áður voru þröngir að mér fannst eru nú ekki meira en einbreiðir. Eins gott að maður mæti ekki stórum bíl. Annars er snjórinn fínn en það mætti nú alveg hætta að snjóa bráðum. Á víst samt að snjóa meira næstu tvo daga. Ji minn kannski við snjóum í kaf!

Einhverra hluta vegna er ég í svakalega júróvísjónskapi. Líklega verður það nú samt löngu dautt þegar keppnin sjálf verður loksins haldin en nú er verið að velja lögin hér í Noregi og heima á Íslandi svo ég fylgist auðvitað með. Verð ég að segja að í síðustu viku voru lögin sem komust áfram í úrslitin í undankeppnina í Noregi nokkuð góð. En þegar ég horfði svo á lögin sem voru á Íslandi á sama tíma.... ji minn þau voru skelfilg öll sem eitt! En núna á laugardaginn fannst mér lögin heima nú bara mjög góð :) Loksins, ég var farin að óttast að Íslendingar væru alveg að tapa sér. Fannst nú svolítið fyndi að sjá Eirík Hauks þarna í fullu fjöri, en lagið hans fannst mér nú bara mjög gott og Jónsi var nú líka rosa flottur þrátt fyrir að mér þættu búningarnir kannski ekkert ofur! Friðrik Ómar ágætur svo við sendum alveg örugglega ekki pípúlið sem komast áfram í fyrsta þættinum, þess má geta að það virtist ekki einu sinni hitta á nóturnar og pínu falskt inn á milli .... En svo bíður maður bara núna eftir næstu viku og loksins úrslitunum í þessu öllu saman.

Var að rifja upp gömul júróvísjónlög frá Íslandi og búin að horfa á þau næstum öll á netinu. Ótrúelga fyndið að sjá í hverju fólkið okkar þarna var í í "gamla daga". Fötin alveg hrillileg en þóttu náttúrlega voða flott á sínum tíma! Gaman að rifja upp það sem vill gleymast. Hehe skil ekki ennþá framlag okkar þegar við sendum Pál Óskar liggjandi þarna í sófanum með gellurnar allt í kring, alveg hrikalegt! Horfði svo vitanlega á Sylvíu Nótt sem var nú ekki í miklu uppáhladi í fyrra en núna fannst mér þetta bara ótrúlega fyndið. Hehe það sem okkur getur dottið í hug. Held samt við ættum ekki að senda alveg svona mikið rugl næst.

Kannski ég ætti að gera góðfúslega tilraun til þess að farað sofa. Annars gæti ég nú alveg farið á fætur núna bara, komin yfir mestu þreytuna á þessari vöku hérna en líklega ekki beint það gáfulegasta.

Hafið það gott um víða veröld..... sofið vel á nóttunni og njótið þess að vera til ;)

Valborg Rut sem er pínulítið gölluð hér og þar.

laugardagur, janúar 27, 2007

Matarleti?

Ég hef komist að því að matarvenjnur norðmanna eru svolítið furðulegar. Kannski svolítið letilegar ef svo má að orði komast. Hér snýst allt um að hafa allt fljótlegt og þæginlegt. Vissulega afar gott að þurfa ekki að eyða miklum tíma í eldamennskuna en líklega er nú til millivegur í öllu. Hægt er að kaupa allt tilbúið. Tilbúnar kjöt og fiskibollur, vagonpakkaðan tilbúin kjúkling sem þarf aðeins að hita, súpurnar frosnar, köku og vöffludeig í poka og meira að segja grjónagraut svo þú sleppir nú við að mæla hrísgrjónin. Auðvitað miklu fljótlegra en að búa allt til frá grunni. Grjónagrauturinn var ekki nema örfáar mínótur að fulleldast. En málið er að þetta er einfaldelga fljótlegt og gott. Svo eru líka heilu frystarnir í búðunum með tilbúnum pakkamat. Þar sem þú getur keypt bakka með kjöti, karteflum, sósu og grænmeti allt eldað og tilbúið. Þú þarf bara að hita þetta upp.

Kannski er þetta mikið heima líka en ég get sannfært ykkur um það að Íslendingar verða seint eins slæmir í þessu og norðmenn. Eitthvað skilst mér að norðmenn séu afar ófrumlegt í matargerð. Gott að búa á hálf íslensku heimili.

Í gær þegar við gæddum okkur á vöfflum með sultu og rjóma var mér sagt að í Noregi borðaði fólk aldrei rjóma á vöfflur. Ég alveg bara já okey skrítið, en nei nei kom þá ekki: þau borða sýrðan rjóma! Hehe oj bara ekki legg ég nú í að smakka það. Kannski er það svo þau sleppi við að þeyta vejnulegar rjóma. Alrei að vita hvað fólki dettur í hug. Kannski er sýrður rjómi samt góður á vöfflur, víst á maður ekki að dæma fyrr en maður hefur smakkað en vitiði, ég get alls ekki hugsað mér að borða sýrðan rjóma í miklu magni. Í mínu umdæmi er það aðalega notað í matargerð og annað slíkt.

En nóg er nú komið af matarhugleiðingum. Hvað þessi rólegi laugardagur felur í sér á eftir að koma í ljós. Veðrið ekki til að hrópa húrra fyrir svo ekki ítir það undir að ég fari út að labba. Í gærkvöldi ákvað ég að sofa í ullarfrottebol. Já það er sko ekkert djók hvað er kalt í öllum herbergjunum hérna. Ég alltaf kapplædd í hlýjum náttfötum og ullarsokkum og auðvitað með sæng og ullarteppi næstum upp fyrir haus. Þetta virkaði bara svona líka vel í rokinu sem virtist gola inn um harðlokaðan gluggann og mér var hlýtt í alla nótt.

Helgarkveðjur heim til besta landsins........

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Kórgella á ný ;)

Góða kvöldið háttvirktu lesendur og aðrir landsmenn heima á klakanum og víðsvegar annarsstaðar. Í fréttum er þetta helst að ég gerðist skyndilega félagsvædd í útlöndum og skellti mér á kóræfingu í gærkvöldi hjá gospelkór í Åndalsnes. Þarna stóð ég í strætóskýlinu hér fyrir ofan á þjóðveginum og beið eftir að einhver kona sem vitað var að væri í þessum kór næði í mig en enginn hafði hugmynd um hvernig hún liti út. En þar sem við búum vel frá Åndalsnes varð að finna einhver sem gat tekið mig með sem færi fram hjá. Fínasta kona og dóttir hennar leifðu mér að lokum að fljóta með svona á meðan ég rata ekki sjálf. Fórum í einhverja mjög svo krúttlega kirkju þarna og ég vitanlega kynnti mig fyrir öllum þeim sem forvitnir voru. Danskan kom á góðum notum svona á meðan ég er ekki svo góð í norskunni. Svo byrjaði maður að syngja, fékk bara nótur og ég er náttúrlega svo klár að ég var enga stund að ná þessum lögum ;) Furðulega raðað upp samt að hafa sópraninn fyrir aftan altinn svo að þær sungu alltaf beint upp í eyrun á hinum. Skrítið, þá er svo erfitt að heyra í hinum í röddinni sinni og læra eitthvað. En þetta gekk nú samt bara fínt ;) Maraþon æfing alveg, hlaupið upp og niður tröppur, hoppað og klappað á meðan maður var að syngja, hehe. Og stelpan sem er að stjóran var svo ofuraktíf að ég hef bara aldrei séð annað eins! svo ekki sé nú minnst á pabba hennar sem var undirleikari og svona hinn stjórnandi, þvílík tjáning sem hann notaði þegar hann var að spila. Svipbrigðin og ja ég get allavega sagt að hann var alltaf á fleigi ferð þarna við píanóið. Hehe þetta var bara mjög gaman að prófa og líklega nóg til þess að ég mæti aftur.

Í fréttum er nú ekki mikið annað svo fréttatilkynningum er hér með lokið vegna mikillar þreytu fréttaritara.

Enda þetta á mynd af mér og Baldri og svo auðvitað Gleitni sem virðist nú myndast mun betur en við sistkynin í þetta skiptið ;)



Góða nótt...... Valborg Rut

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Færsla dagsins

Í gær höfðum við hitt og þetta fyrir stafni og enginn sat því heima aðgerðarlaus. Við drifum okkur af stað, ég, Agnes, Fredrik og Leona og keyrðum til Molde. Ja eða hálfaleið þar sem maður þarf að taka ferjuna yfir fjörðinn, en maður keyrir bara bílinn inní og tekur hann með sér ;) Agnes fór svo í skólann og ég fór með krakkana í einhverja verslunarmiðstöð á meðan. Ekki hef ég nú séð marga krakka sem finnst svona gaman í búðum. Hehe hann Fredrik var sko alls ekki að væla heldur skemmti sér stórvel við að skoða alls konar hluti. Í H&M leist honum svo vel á húurnar að hann mátaði örugglega 10 ;) Keyptum svo bara ís og svona til að okkur leiddist ekki. Þegar Agnes var búin í skólanum tók gardínuleiðangurinn við. Aðal tilgangur ferðarinnar var semsé að kaupa allt sem vantaði í herbergið mitt. Rúm og gardínur og svona :) Eftir að hafa labbað búð úr búð og í allar gardínubúðirnar minnst 2-3 sinnum fundum við allt sem okkur vantaði og gátum loksins haldið heim á leið. Svo maður var bara dauðþreyttur í gærkvöldi eftir allt búðarrápið en þetta var náttúrlega mjög gaman og góð tilbreyting í sveitalífið :)

Annars er ekki mikið að frétta. Hér snjóar og snjóar og kominn hörku vetur. Trén öllútí snjó og rosa flott. Ægilega kalt eitthvað svo maður er ekki of duglegur að drífa sig eitthvað út. Mamma er að farað senda dótið mitt sem ekki komst með í töskuna mína. Reiðbuxurnar, hjálminn minn, ullapeysuna og sitt lítið af hverju. Alltaf gaman að fá pakka :) Annars er ég langt komin með bókina sem ég er að lesa. Komin á blaðsíðu 250 eða eitthvað svoleiðis. Rosa ánægð með mig að vera búin að lesa svona mikið síðan ég kom, greinilega alltof auðvelt að gleyma sér yfir góðri bók.

Annars segi ég þetta gott í bili og bið að heilsa öllum :)

Valborg Rut sveitaprinsessa í Noregi ;)

mánudagur, janúar 22, 2007

Danaveldis-minningar





Nokkrar Danaveldisminningar riðfjaðar upp í því tilefni að Leifa var að senda mér disk með helling af myndum sem við tókum þegar við skvísurnar þrjár brölluðum hitt og þetta í fyrra :)

Byrjum á ævintýrinu með hjólið. Leifa kom til mín afar dugleg að hjóla. En heimleiðin var skrautleg og skemmtielg. Leifa hjólaði niðrá bryggju og ég kom á litla tveggja dyra bílnum mínum. Þar hófumst við handa við að leggja sætin í bílnum niður og troða hjólinu inn. Og viti menn!.... það tókst!! Keyrðum svo heim í sveitina með hjólið og héldum deginum áfram :)

Verslunarferðin til Århus fyrir jólin. Æðisleg ferð með skvísunum báðum. Þræddum búð úr búð í leit af jólagjöfum og auðvitað urðum við að fá eitthvað líka! Nokkrir þúsundkallar flugu í þessari ferð en við vorum yfir okkur ánægðar með okkur og allt saman :)

Ferðin á Hjerl Hede safnið er eftirminnileg. Ótrúlega gaman að koma á þetta safn. Svo mikið hægt að skoða og við náttúrlega alltaf í ofur stuði!!

Gelluferðin til Thyboron með Leifu. Nú mynd af mér í kirkju... skrítið! Nú ég vildi auðvitað skoða kirkjuna þarna eins og á svo mörgum öðrum stöðum. Skoðuðum sneglehuset, þetta stóra hvíta og skemmtum okkur bara ótrúelga vel :)

Lilja litli skódýrkandinn gat bara alls ekki valið hvora skóna hún vildi. Veit ekki hvað við fórum í margar verslunarferðir til Holstebro. Ja stelpur.... eigum við kannski aðeins að renna í Bilka?? hehe. Ótal frídagar í ferðir til fólksins okkar í Struer og í bæjinn í Holstebro. Stelpur, einhvern daginn kem ég og við endurtökum þetta allar þrjár :)

Vá ótal margt fleira gæti ég rifjað upp en geymum það til seinni tíma ;)

Knús í klessu til Íslands og Danmerkur :)

sunnudagur, janúar 21, 2007

Hversdagsleiki helgarinnar

Jæja. Þá skulum við nú ekki hafa pælingafærslu í þetta skiptið, enda líklega nóg komið af því í bili. Hér kemur því hversdagslegt yfirlit um allt og ekkert.

Byrjum á veðrinu. Hehehe.... skýjað, blautur snjór á förum, kalt en samt ekki ofurkalt. Í gær áorkaði ég það að lesa einar 116 blaðsíður í bókinni Maður að nafni Dave sem er framhald af Hann var kallaður þetta. Líklega held ég lestrinum eitthvað áfram næstu daga þar sem þessi bók er töluvert lengri en hin. En á milli þess sem ég las vafraði ég um netheima og tók góðan tíma í að krifja nokkrar síður eða svo. Verð samt að segja að mér finnst vanta meira af einhverjum gáfulegum lesningum sem maður getur fundið á netinu. Líklega er nóg af þeim en ja kannski betra ef ég vissi um þær. Svo ekki sé nú minnst á það að þær þurfa að passa við hugsunarhátterni mitt svo þar verður vandinn meiri. En ég hékk nú ekki inni allan daginn í gær heldur skellti ég mér á hestbak. Ekkert smá langt síðan ég fór á hestbak síðast svo ég neita því ekki að smá strengir séu að segja til sín. Gott og gaman að þessu í kuldanum :)

Ég held ég sé að breytast í sjónvarpssjúkling. Hélt nú að það myndi afar seint gerast en þar sem hér er afar oft kveikt á sjónvarpinu og oft sem allir horfa saman á sjónvarpið á kvöldin lærði ég einfaldlega að horfa líka. Hér er svolítið skemmtielgur þáttur sem heitir Farmen. Það er raunveruleikaþáttur hér í Noregi um fólk sem á að lifa eins og í gamla daga. Vinna alls konar verkefni, fara á markaðinn og skipta einu og öðru fyrir annað. Ef þau ná að klára verkefni vikunnar og gera þau vel fá þau pening til að kaupa mat á markaðnum, annars ekki. Í hverri viku keppa svo tveir sem hafa verið valdir við hvorn annan og sá sem tapar er sendur heim. Gaman að þessu.

En í gærkvöldi var líka horft á Gullfiskinn. Verlaunahátíð fyrir sjónvarpsauglýsingar. Hehe já ég er ekki að djóka. Hér er greinilega mikið lagt í hugmyndir og skemmtilegar auglýsingar. Búið var að velja bestu norksu auglýsingu hvers mánaður og svo vann ein mynd úr hvenjum þremur mánuðum og komst í úrslit. Á milli þeirra auglýsinga var svo valin vinnings myndin. Áhorfendur kusu jafnóðum hvaða auglýsing þeim fannst best. Þetta mættu nú íslendingar taka sér til fyrirmyndar því ég verð að segja að auglýsingarnar hér eru mun betri en heima. Veit ekki hversu mikið ógeð ég er komin með af lottó auglýsingunni heima þar sem hinn frægi Lýður Oddson (Jón Grarr) er í aðalhlutverki.

Alþjóðlega auglýsing er þó að gera mig brjálaða og kemur ekki á óvart að það mun vera einn og aftur kellogs spessjal key auglýsingin. Ekki þó sú sama og ég var með óbeit á síðast heldur held ég að þessi sé mun verri. Tágrönn kona reynir að renna upp kjólnum sínum sem er örugglega í stærð númer 8. Tekst vel en þegar hún byrjar að dansa rifnar kjóllinn. Svo grennist hún ennþá meira og loks getur hún dansað í kjólnum. Ji minn einasti ef það ætti ekki að banna þessar auglýsingar. Það hefði að minnsta kosti verið hægt að taka breiðara dæmi en það hefði samt ekki réttlætt þessa sýn. Er þessi auglýsing sýnd heima?

Jæja nóg af þvaðri í bili.

Hafði það sem allra best, verið dugleg að kommenta, hringið sem oftast og komið vel fram við allt og alla.

Valborg Rut kveður frá Noregi.

föstudagur, janúar 19, 2007

Ómerkileg hugleiðing frá mér til mín.

Ég man þegar ég ákvað að hætta að trúa á Guð. Það kom allt í einu svo sterk minning þegar ég las Hann var kallaður “þetta”. Þetta var alveg örugglega árið sem ég var í 7. bekk. Árið áður en ég byrjaði í fermingarfræslu. Frá því ég man eftir mér hef ég trúað á eitthvað stærra og meira. Eitthvað sem mér var sagt að væri Guð. Góður maður sem skapaði heiminn, gaf öllu sem hreyft sig getur líf, heyrir allar bænir og þekkir okkur best af öllum. Og þessu trúði ég og trúi enn þann dag í dag.

En þegar manni finnst allt ganga illa, allt leiðinlegt og eins og ekkert sé að virka ákvað ég einn daginn að þetta hlyti bara að vera þessum Guði að kenna. Ég þoldi ekki þennan ömulega skóla sem ég var í, brjálaðist alltaf ef kennararnir ákváðu að hafa skyndipróf, nennti ekkert að læra og við krakkarnir í bekknum áttum alls ekki svo vel saman. Ég hraðaði mér heim úr skólanum til að varast ógnun bekkjarfélaganna. Eins gott að það var stutt heim. Hvar var þessi Guð eiginlega?

Ég velti þeim kostinum fyrir mér að hætta bara að trúa á Hann. Það yrði örugglega miklu betra. Um áramótin byrjaði það. Áramótaheitið var að gleyma þessum góða sem skapaði allt. Ég hætti að velta mér uppúr þessu og jú stolt af sjálfri mér fannst mér allt ganga miklu betur. Um haustið fór ég í fermingarfræðslu. Auðvitað velti ég því ekkert fyrir mér hvort ég ætti að hætta við að fermast. Þetta var jú sjálfsagður hlutur. Við fórum með prestunum úr kirkjunni á Vestmannsvatn part úr degi. Eftir smá fræðslu og leiki fengum við lítinn miða sem átti að skrifa á bænir. Bænirnar átti svo að setja á altarið í Grenjaðarstaðskirkju, færa Guði þær og svo ætlaði presturinn þar að brenna þær. Ég vissi nú ekkert hvað ég átti að skrifa og tók eftir því að margir voru bara að teikna eða skrifa brandara á blaðið. Akkurat þarna ákvað ég að byrja aftur að trúa á Guð. Skrifaði pínulitlum stöfum á allt blaðið. Guð var til. Guð er til. En einhverra hluta vegna ákvað ég að gleyma honum. Það besta er þó að ég sættist við hann aftur.

Maður má ekki hætta að trúa og biðja, jafnvel þó svo að allt sé ekki eins og við viljum. Dave í bókinni (síðasta færsla) hélt að Guði væri illa við sig. Fyrst hann þyrfti að þola allar þessar barsmíðar og þetta ömurlega líf væri enginn Guð til. Hann hélt þó alltaf áfram. Hélt áfram að biðja og vona. Varð reiður við Hann en gafst ekki upp. Dag einn losnaði hann. Ekki eftir einn dag, ekki eftir viku, heldur eftir mörg ár. Kannski var þetta bænunum að þakka.

Mér finnst skrítið að mér hafi dottið í hug að kenna Guði um allt. Ég átti allt og skorti ekkert. Fékk allt það sem börn þurfa. Samt var eitthvað sem sagði mér að hætta þessu “rugli” um manninn á himnum. Ég man ekki eftir því að mér hafi verið kenndar bænir heima. Líklega samt þar sem ég kunni lítil bænavers. En seinna lærði ég að biðja í sveitinni hjá vinkonu minni. Þar breiddi maður varla sængina yfir sig fyrr en búið var að koma og biðja með okkur. Eitthvað var það sem fékk mig til að halda því áfram, hvar sem ég var.

Þetta var leyndarmál. En leyndarmálið er afhjúpað.

Segiði svo að börn geti ekki hugsað. Það sem veltist um í litlum kollum sem stundum virðast óttalega vitlausir og yfirborðskenndir getur verið meira en maður heldur. Maður fattar það bara ekki fyrr en eftirá.

.....og frelsa oss frá illu..... Amen.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Hann var kallaður "þetta"

.... Það var ekki fyrr en hún lokaði dyrunum og bannaði mér að opna sem mér varð órótt. Inni í lokuðu herberginu breyttist loftið fyrr en varði. Ég lagðist á fjóra fætur út í horn og starði á fötuna. Grá gufumóða þyrlaðist upp í loftið. Þegar ég andaði gufunni að mér hneig ég niður og fór að gubba. Það var eins og hálsinn á mér logaði. Hann varð strax helaumur. Ég fékk tár í augun af stybbunni. Og ég var á nálum út af því að mér tækist ekki að þrífa baðið á tilsettum tíma. Eftir örlitla stund fannst mér ég vera að æla lifur og lungum. Ég vissi að mamma myndi ekki láta undan og opna dyrnar....

.... Stundum fyllti hún bðakerið af vatni. Ef hún var í reglulegu stuði útbjó hún handa mér gasblönduna í baðherberginu. Ef henni leiddist að hafa mig heima sendi hún mig út að leita að slátturvinnu. En fyrst barði hún mig. Nokkrum sinnum hýddi hún mig með hundakeðjunni. Það var voða sárt en ég gnísti bara tönnum og lét mig hafa það. Verst var þó þegar hún barði mig aftan á fótleggina með kústskaptinu. Stundum var ég svo aumur eftir höggin að ég lá á gólfinu og gat varla hreyft mig....

.... Trú mín á Guð tók að dofna. Mér fannst að honum hlyti að vera illa við mig. Hvernig gat annars staðið á því að líf mitt var eins og það var?.....

Ég hef setið stjörf með bókina Hann var kallaður þetta og ekki tók það langan tíma að klára hana. Ég varla gat hætt að lesa svo mikið lá mér á að vita hvernig þetta endaði. Að hugsa til þess að nokkur einasta manneskja geti gert barninu sínu svona hryllilega hluti og að einhver þurfi að ganga í gegnum og alast upp við svona líf er fáránleg. Þetta vekur upp reiði og biturð. Af hverju geta ekki bara allir haft það gott? Hvers vegna eru mörg börn í heiminum sem þurfa að þola ofbeldi á heimilum sínum? Hvers vegna getur það góða ekki sigrað hið illa?

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Klárlega snillingur

Haldiði ekki að snillingurinn sé búinn að setja teljara á síðuna :) Rosalega er maður orðinn klár. Ja eða kannski aðalega Sólveig þar sem hún á nú allan heiðurinn af því að ég gat þetta. Þetta er þarna neðst til hliðar, leitið og þér munuð finna... Annars veit ég ekki alveg hvernig þetta virkar, prófum þetta allavega :) Held samt að maður sjái bara hvað það koma margir í heildina en ekki svona dag og dag en ja maður veðrur þá bara að muna töluna og reikna dag frá degi ;) hehe ji minn einasti hvað maður yrði einhverfur þá. En allavega.... takk Sólveig fyrir upplýsingarnar :)

Svo gleymdi ég að segja ykkur nýja símanúmerið. Norskt númer komið í hús svo nú er um að gera að vera duglegur að hringja í mig. Alltaf svo gaman að spjalla við einhvern :) Og stafirnir eru: oo47-95819242.

Hér dynja hamarshöggin neðan úr verðandi herberginu mínu. Parketið á leiðinni á gólfið svo þetta er allt að koma, húsgögnin að málast svo brátt líður að því að ég geti flutt á neðri hæðina með allt mitt dót. Hef ekkert tekið upp af hlutunum mínum svo spennandi að sjá hvort þeir komust heilir frá danaveldinu. Ætla nú rétt að vona það.

Alltaf gaman að heyra í stelpunum í Lemvig, búin að spjalla þó nokkuð við þær á msn. Alltaf jafn hressar og kátar skvísurnar, manni hálflangar að keyra með þeim í bílnum heim úr skólanum aftur, það var alltaf svo ofsamikið stuð á okkur þá ;) Svo ekki sé minnst á Lionbar ísbrjálæðið ;) hehe. Leifa sagði mér að kennarinn minn í skólanum hefði beðið að heilsa, hehe hann saknar mín örugglega því ég var svo afskaplega góður nemandi! Úff þvílík lærdómsmanneskja náttúrlega....

En hér er komin nótt svo best að láta sig svífa inn í draumalandið fljótlega....

Góða nótt, sofið rótt í alla nótt :)

Valborg Rut

Lífið í sveitinni

Lífið í sveitinni gengur sinn vanagang. Við sofum, vökum, borðum, leikum.... ja svona hér um bil eins og á öðrum heimilum. Í gær var fyrsta tilraun mín gerð til þess að skoða mig aðeins um. Það gekk fínt en ég fann nú þó ekki leikskólann sem ég ætlaði að æfa mig að rata á. En þegar Agnes var búin í skólanum tókum við bara annan rúnt svo núna rata ég alveg örugglega ;)

Einhverra hluta vegna get ég sagt svo lítið núna. Ég veit ekki hvers vegna en hér er kannski minni sem þarf að undrast en í danaveldinu. Hehe já hér er góður matur, fínt fólk og krakkarnir alveg eins og börn eiga að vera. Líklega er því minna sem ég þarf á fá útrás fyrir á veraldarvef tjáninganna. Sennilega verð ég þá að vera duglegri að koma með pælingafærslur. Þegar bloggandinn nær yfirhöndinni á ný vona ég að hér verði eitthvað skemmtielgra að lesa. Ég verð líka að játa að sjálfri finnst mér skemmtilegra að lesa blogg með innihaldi en bara yfirliti yfir daginn. Þetta á jú að reynast skemmtileg lesning. Vonandi hættiði ekki að lesa vegna óheillandi færslna. Einn daginn detta vonandi inn myndir hér á síðuna. Víst verður maður að standa sig í dugnaðinum og taka myndir og koma þeim í tölvuna.

Haldiði ekki að hún mamma mín sé orðin svona líka tæknivædd. Búin að fá sér msn á gamalsaldri, náttúrlega alveg fertug konan, hehe ;) Henni hefur nú alltaf fundist afskaplega spennandi að horfa á tölvuskjáinn minn þegar ég er að tala við einhvern og skilur stundum alls ekki af hverju hún má ekki lesa allt. En jú það er víst ekki í boði, en nú getur hún sjálf pikkað! Núna erum við mamma því í góðu sambandi og skrifum á milli landa um allt og ekkert.

Hér með óska ég eftir bloggandanum sem virðist hafa gleymst heima á Íslandi. Þangað til hann lætur sjá sig kveð ég í bili.

mánudagur, janúar 15, 2007

Mánudagur

Þetta er nú ekki draumaveðrið hér í dag. Brjálað rok og leiðindi. Ja maður nennir allavega alls ekki út þegar veðrið er svona. Vonandi verður þetta ekki lengi svona. Í gær höfðum við nú bara nóg að gera. Borðuðum góðan mat og fórum í heimsókn til ömmunnar og afans. Fínasta fólk og ekki leiðinlegra að þau skilja smá íslensku og afinn getur talað smá ;) Svo er maður búinn að skoða heimsmeistara hestanna, rosa flottur enda ekki við öðru að búast.

Annars herjar ælupesti á norðmenn þessa stundina og núna eru allir búnir að fá þetta hér á heimilinu nema ég. Ætla nú rétt að vona að ég sleppi en það sögðu þau hin víst líka. Ég tók veikindin út í Danmörku og það var nú bara alveg nóg fannst mér. Ég allavega hrúa bara í mig vítamínunum mínum og vona að ég sleppi ;)

Vonandi er allt gott að frétta að heiman, vonandi sakniði mín smá og verðið dugleg að hringja í mig og kommenta. Fæ vonandi norskt símanúmer fljótlega, set það hér inná þegar það kemur.

Kveðjur úr rokinu...

sunnudagur, janúar 14, 2007

Sunnudagur

Lífið í Noregi fer rólega af stað. Hér kemur öllum vel saman bæði mönnum og dýrum. Fínt að vera ekki í svona stresssamfélagi. Hlutirnir einfaldlega gerast þegar þeir gerast. Er búin að skoða smá hérna í kring og lýst vel á. Einhverra hluta vegna minna sum húsin mig samt á Grænlænd. Veit ekki alveg af hverju en fyrir stuttu skoðaði ég myndir frá Grænlandi og þar voru húsin eitthvað svo sérstök. Þess má þó geta að ég bý í afar venjulegu húsi sem líkist nú ekki mikið "Grænlandshúsunum".

Ég hef eitthvað voða lítið að segja. Vildi bara aðeins láta heyra í mér og já kannski segja Helgu frænku og hinum veðurathuganarfólkinu mínu að hér er pínu snjór. Svo er hellingur af fjöllum og tré út um allt. Mjóir vegir og hús í litlum þyrpingum eða á víð og dreif. við fyrstu kynni norðmanna virðist svo vera að þeir séu mun opnari en danir. Virðist vera glaðlynnt fólk, kannski vegna þess að þau syngja pínu þegar þau tala. Ekki þó eins mikið og íkjurnar heima ;)

Líklega ætti ég að finna eitthvað annað að gera. Kannski ég byrji á saumadótinu sem ég kom með með mér. Ja... ég sé það nú samt ekki alveg gerast þar sem þetta virkar allt í einu svo erfitt. Hehe ég kann greinilega ekki svo mikið svona, amma meira að segja byrjaði fyrir mig ;) En jafnvel þó svo ég geti ekki heklað eða prjónað má ég eiga það að ég get vel saumað eitthvað aðeins stærra :) En ég gefst ekki upp alveg strax og kíkka á þetta þegar andinn kemur yfir mig.

Knús til ykkar allra..... Valborg Rut

laugardagur, janúar 13, 2007

Noregur :)

Sælt veri fólkið. Þá mun maður nú gera tilraun til þess að blogga á þessari síðu frá Noregi. Sjáum til hvort það takist. En allavega þá byrjaði ferðalagið þannig að ég mamma og pabbi keyrðum suður eftir að ég náði loksins að klára að pakka. Við komumst svo suður á endanum og vitanlega vildi ég aðeins sjá lífið í búðunum við fyrsta tækifæri. Ekkert var þó keypt í þeirri búðarferð enda ekki pláss fyrir svo mikið sem bréfsnepil í töskunni minni. Héldum svo ferðinni áfram í snjóugri Reykjavíkurborg og fórum að borða á pottinn og pönnuna. Mjög góður matur en ég leit en ég gat þó ekki annað en undrast yfir þjónustinni á stað í þessum gæðaflokki. Líklega hefðu vinnubrögðin verið fagmannlegri á pizza hött. Hehe ok nú er þjónagagnrýnin liðin undir lok. Við fórum þó afar glöð út enda södd og ánægð með matinn. Eftir að hafa sofið í örfáa tíma héldum við svo til Keflavíkur, ég kvaddi og hélt í flugvélina.

Noregur tók á móti mér í öllu sínu veldi. Ótrúlega flott að fljúga hérna yfir. Tókst að komast án allra vandræða í næsta flug og er ég líklega að nálgast það að verða heimsborgari hvað varðar skyndilega ferðahæfni mína. Ég mátti þó á öllum stöðum fara úr skónum, taka tölvuna uppúr og á einum stað leist þeim nú ekkert á þetta íslenska nammi í tölvutöskunni en ákváðu þó að leyfa mér að hafa það með áfram. Í Molde hitt ég svo Agnesi og eftir smá þvæling komst ég á nýja heimilið mitt. Lýst ágætlega á þetta allt saman en á auðvitað eftir að venjast öllu og læra allt betur. Yfir mig ánægð með þráðlausanetið sem tók og móti mér :)

Talvan batteríslaust..... bestustu kveðjur til allra heima :)

Valborg Rut flækingur

sunnudagur, janúar 07, 2007

Bloggskipti

Þannig er staðan að aðalsbloggarinn hefur fært sig um set og skipt um bloggkerfi til lengri eða skemmri tíma. Vonandi halda einhverjir áfram að lesa skrifin mín og fylgjast með tjáningarþörf minni. Vangaveltur hafa einnig verið um að læsa því bloggi en hef ég ekki enn tekið ákvörðun. Gaman væri ef fólk myndi kvitta fyrir sig á hina síðuna ;)

Noregur nálgast.....

Valborg Rut kveður yfir og út á www.valborgrut.blog.is

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Vesen og úrræði

Ég er að verða brjáluð á þessu bloggkerfi. Svo virðist sem færslurnar mínar vilji bara alls ekki festast hér inni og gera mig ánægða lengur. Ef þetta heldur svona áfram skipti ég um bloggkerfi eða hætt að blogga. Þegar það sem maður gerir gengur ekki upp er það oft ekki gaman lengur. Þannig er það líka með bloggið. Ég ákvað að búa til nýja síðu þar sem færslan neitaði að búa hérna. Þetta getiði lesið á www.valborgrut.blog.is . Líklega nenna þó fáir að lesa þessa málefnalegu færlsu. En það er í lagi, kommentin eru hvort sem er ekki svo mörg hérna. Ef þetta síðuástand lagast held ég þó vitanlega áfram með þetta kerfi þar sem mér líkar það vel. Auðvelt þegar maður hefur lært á það jafnvel þó svo það sé ekki á íslensku. Kannski ég setji bara þessa einu færslu inn á hitt og eyði því þegar von er úti með lesningu. Kemur allt í ljós.

Ómerkilegt blogg í dag. Fór þó skemmtilega kaffihúsaferð með Öbbu sem lífgaði tiluvert upp á daginn.

Valborg kveður ósátt við bloggkerfið.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Laugasel

Stefnan var sett á hesthúsið í Svarfaðardalnum. Ekki vildi það heppnast. Þá var ákveðið að kíka í löggubústaðinn en þegar við ætluðum að leggja af stað löngu komin í ferða og útifötin komumst við að því að það gengi ekki upp heldur þar sem aðrir höfðu fengið þá hugmynd á undan okkur. Loks sátum við í útifötunum og veltum fyrir okkur öllum mögulegum kostum. Enduðum svo á því að drífa okkur í Svarfaðardalinn og kíkja bara í Laugaselið okkar. Það var fínt, svakalega jólalegt þar og mikið dundað sér. Sátum og spiluðum, borðuðum smákökur og annað góðgæti svo ekki sé minnst á þegar við borðuðum páksaeggið hans Sigga síðan síðustu páska. Þrátt fyrir að styttra sé í næstu páska en síðan þeir síðustu voru var ákveðið að þetta gamla egg mætti vel hafa sem jólanammi. Bragðaðist bara svo vel, það fannst bræðrum mínum allavega sem hámuðu þetta í sig með bestu lyst.

Agnar litli bróðir minn sem er alls ekki svo lítill ennþá (9 ára) er alltaf jafn mikill snillingur. Við vorum að spila Pictionary, “ungir” á móti “gömulum” þegar litli bróðir minn átti að teikna. Hann bað pabba að lesa á spjaldið fyrir sig og var hann ekki í neinum vafa um hvað átti að lenda á blaðinu. Svo byrjaði hann og ég giskaði og giskaði. Jú þarna var kall með opinn munninn og ákvað ég að þetta væri einhver að syngja. Svo varð það ópera og svo þegar tíminn leið tilkinnti bróðir minn stoltur að þetta væri óperusöngkona.... Mona Lisa!!!

mánudagur, janúar 01, 2007

Nýja árið hafið

Nýárstónleikarnir í Vínarborg hljóma hér um allt húsið í öllu sínu veldi. Það er einhver sérstök stemming yfir þessum árlega viðburði í sjónvarpinu. Glæsileg og tignarleg tónlistin eitthvað sem maður heyrir ekki svo oft og því er ég farin að tengja þessa frábæru tónlist við fyrsta dag ársins. Foreldrar mínir kveika yðulega á þessu og ég man ekki betur en að mamma hafi stundum verið farin að stjórna með og ímynda sér að það væri hún sem stæði fyrir framan allt þetta góða tónlistarfólk og stjórnaði þessum tónum. Vissulega væri það æðisleg upplifun og gaman væri að prófa að vera stödd á þessum tónleikum eitthvað árið og drekkja sér í tónlistinni. Miðað við þetta mætti kalla okkur hámenningar og tónlistarmikla fjölskyldu. Svoleiðis fólki erum við nú reyndar skyld en einhverra hluta vegna ekki erft mikið af þessu þó því skjóti upp stöku sinnum.

Í gærkvöldi héldum við eins og önnur áramót í mikið fjölskylduboð hjá ömmu og afa í ásveginum. Vissulega góð hefð og skemmtileg. Eins og aðrir sprengjuglaðir Akureyringar skunduðum við út stax eftir skaupið og hófumst handa. Þarna stóðum við og horfðum aðdáunaraugum á himinninn sem þakinn var fögrum ljósum. Þúsundkallarnir hurfu hver á eftir öðrum í himininn og eftir klukkutíma sprengjuæði, þúsund kossa, hávaða og læti héldum við inn í hlýjuna á ný. Ég er alveg laus við þá löngun að standa yfir stórhættulegum hlutum, kveikja í þeim og hlaupa í burtu. Um ævina hef ég ekki svo mikið sem kveikt í ílu eða öðru smádóti sem bærður mínir dýrka og dá um þessar mundir.

Hér arkar mamma um húsið með gestgjafasvuntuna sína, klappar með tónlistinni og trallar með uppáhaldslaginu sínu á nýárstónleikunum. Ég er nokkuð sammála henni með uppáhaldslagið. Annars er hér eldað í gríð og erg og ekki nóg með að við höfum borðað afar mikið og verið í endalasum veislum þessa miklu hátíð heldur er nú komin röðin að okkur að taka við gestum. Það er nú lítið mál þar sem okkur mömmu finnst sérstaklega gaman að elda og fá fólk í mat. Ég er þó búin að taka af mér svuntuna sem amma gamla gaf mér í jólagjöf og leyfi mömmu að sjá um þetta. Það er þó komið að mér að dekka eitt borð eða svo.