Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Súrmjólk að drekka?

Í dag fékk ég að eiga nokkra skrítnar furðuverur. Skyndilega breyttist Fredrik nenfilega í Zorro og eftir leikskólann varð hann Battman og risaeðla! Í dag var karnival dagur í leikskólanum, eins konar öskudagur eða svo, allavega allir í búningum og slóu nammi úr tunnu. Held að það hafi þó ekki verið sungið fyrir namminu eins og heima. Öskudagurinn í "gamla daga" var alltaf svo æðislegur. Við æfðum okkur í marga daga og vorum náttúrlega besta liðið í bænum öll árin, hehe. Man að eitt árið komum við heim með 39 kíló af nammi og vorum að rifna úr stolti :) Einhvernstaðar á ég nú mynd af herlegheitunum þar sem þetta ár fylgdi okkur blaðamaður úr Reykjavík til þess að sýna blöðunum hvernig almennilegur öskudagur væri á Akureyri! Og sjómannaliðið, ætli það sé ekki eftirminnilegast. Þegar við vorum öll sjómenn eða síldarkonur, önguðum af fiskilikt og pabbi og Stebba frænka keyrðu okkur 14 um allan bæ á bílaleigubíl. Haha, ekki allir sem nutu svona lúxuss! Í dag er þetta hins vegar versti dagur ársins í huga margra. Foreldrarnir kvíða því að þurfa að hafa til búninga og æfa börnin að syngja og búðareigendur hafa eyrnatappa við hendina til nota þegar síguldu lögin hafa verið sungin nóg og skelfilega oft. Þess má þó geta að ég var nú bara stolt af bræðrum mínum og þeirra liði þegar ég heyrði í þeim í gegnum símann á öskudaginn heima. Dálítið öðruvísi að ákveða að syngja Queen lag og eitthvað með kiss ef ég man rétt, veit nú ekki alveg hvað það er en.... svo skyldist mér að eitt lagið hafi verið frumsamið á ensku! Ji minn einasti ef þeir hafa bara ekki alveg verið að brillera. En það verður náttúrlega aldrei til betra lið en það sem æfði í Heiðarlundinum hér áður fyrr :) Úff, gott að hafa sjálfsálit annað slagið, hehehe. Þó líklega hafi ég átt minnstan þátt í þessu sjálf, ævinlega yngst á svæðinu öll þessi ár.


Ég borðaði mjög svo spes mat í kvöldmatinn í dag. Já vitiði, þessi tíbíski norski matur er kannski ekki alveg að gera sig. Þarna voru einhverjar hvítar bollur úr hveiti og hráum kartöflum sem er kramið saman í bollur og soðið. Með þessu voru beikonbitar, endalaust feitir með afskaplega miklu feiti á. Ja líklega eins og beikon annarsstaðar í heiminum. Svo voru þarna einhvernskonar feitar pylsur. Karteflur, gulrætur og eitthvað sem ég var ekki viss um hvað var. Fannst mér þetta bragðast fekar furðulega og ef beikonbitarnir hefðu ekki bjargað þessu bollusulli hefði ég örugglega dottið niður dauð. Hehe. Ég hélt nú bara að þetta væri einhver misskilningur þegar ég sá súrmjólkur fernu á matarborðinu. En nei, mér var tilkynnt að með þessum mat drykkju allir norðmenn súrmjólk!!! Ég hélt ég yrði ekki eldri. Súrmjólk með kvöldmatnum, í glas og enginn sykur. Ég hélt nú ekki og fékk mér vatn. Þetta var skemmtilegt að sjá. Gaman að smakka þetta en ég held að ég eldi ekki svona handa ykkur þegar ég kem heim. Var bent á að ég yrði orðin vön þessu þegar ég færi, en nja... jú víst mun ég borða þetta ef það er í boði en líklega langt þangað til þetta kemst á minn helsta vinsældarlista.

Bestustu kveðjur heim til ykkar allra..... Valborg Rut sem drekkur ekki súrmjólk en borðar hana hins vegar með weetosi á næstum hverjum morgni. Og má bæta því við til gamans að ég er hætt að setja sykur!!

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Bóla og Knútur

Hvert sem ég lít, hvar sem ég er, hvernig sem mér líður, hvenær sem er. Það er þetta líf sem mætir mér fullt af tækifærum, gleði, ágægju, leiða, væntumþykju, erfiðleikum, þakklæti.....

Okey, að daglegu lífi í netheimum og gleymum því að ég ætlaði að vera gáfuleg. En jæja. Hér í sveitinni í Norge er bara fínt að frétta. Dagurinn í dag fólst nú til að byrja með í inniveru og sjónvarpsglápi. Mikið lifandi ósköp er ég fegin að hér er ekki horft á stubbana. Nei, hér er víst margt aðeins betra. Ég gleymi því ekki þegar allir krakkarnir sem ég passaði áttu söngvaborg. Ég er viss um að ég kunni fyrstu spóluna ennþá utana. Svo ótaljandi skiptin sem ég horfði á þetta og auðvitað gat ég ekki þagað og söng því með og stundum gerði ég örugglega hreifingarnar líka. Hehe já kannski ég þurfi að rifja upp gamalr stundir einhvern daginn.

Annars mætti hin bráðskemmtilega Bóla mér á sjónvarpsskjánum í dag. Vá hvað ég var búin að gleyma hvað mér fannst hún mikið æði. Bóla og Knútur, bestu vinir í heimi, ótrúlegt hvað mér finnst þau ennþá frábær. Allt í einu rifjuðust allir gömlu þættirnir sem ég horfði á fyrir mörgum árum þegar ég sá þetta aftur. Ég meira að segja hló upphátt því mér fannst þetta svo fyndið. Fredrik skyldi nú ekkert hvað mér fannst svona ótrúlega fyndið en ja eitthvað var það við þessi tvö tröllabörn sem fékk mig að lokum til að grenja úr hlátri. Ég elska þáttinn þar sem Knútur er að skammast út í Bólu um að hún taki aldrei til. Föt og þvílíkt rusl og drasl út um allt og aumingja Knútur bara kemst ekki fyrir í stólnum fyrir fötum og ákveður því að taka til. Honum dettur náttúrlega fyrst í hug að setja þetta bara allt undir rúm, en viti menn, var ekki bara troðfullt þar líka, og í bakarofninum og á borðinu og.... jæja hann setur fötin á gólfið og ákveður að nota sem fótskemil. Svo mætir Bóla og verður þvílíkt hneiksluð því hann Knútur sé bara búin að drasla þvílíkt til og hún hafi sko verið nýbúin að taka til!!! Haha ef þetta bætti ekki bara skapið fyrir allan daginn.

En dagurinn fór nú ekki bara í að horfa á sjónvarpið. Þegar Agnes kom heim skellti ég mér uppí hesthús og fór á hestbak með stelpu sem er að vinna þar. Fannst nú bara alvegt ótrúlegt hvað við gátum talað á norsku og held að við höfum nú bara talað næstum allan reiðtúrinn ;) Ef ég verð ekki bara orðin þvílíkt norskuséní þegar ég mæti aftur heim á besta landið ;) hehe.

Bestu kveðjur í bili....... Valborg

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Þakklæti

Pælið í því hvað það skiptir miklu máli að geta þakkað fyrir allt sem við höfum. Hvernig það væri ef við myndum aldrei þakka fyrir neitt. Við getum þakkað fyrir svo óendanlega margt. Við getum meira að segja þakkað fyrir gallana okkar. Líklega væri nefnilega ekkert gaman ef við værum gallalaus. Líklega værum við þá bara allt of fullkomin. Auðvitað væri ég meira en til í að taka alla gallana mína og skipta þeim út fyrir kosti en ég verð bara að sætta mig við að það er ekki hægt. Við getum endalaust fundið eitthvað til að þakka fyrir en kannski eru þakkarefnin stundum of ósýnileg eða of hversdagsleg til að tekið sé eftir þeim.

Það kunna ekki allir að þakka. Því miður hafa ekki allir lært það. Sumum finnst svo eðlilegt að hafa það sem þeir búa við og að þiggja af öðrum svo það hvarflar ekki að þeim að þakka. Þeir finna hvorki til innra þakklætis né færa öðrum þakkir fyrir góðviljann. Það er líka mjög ólíklegt að þeir geti fundið til hamingju. Þökkin geymir leyndardóm ekki síður en gjöfin og í henni felst máttur. Þakklæti veitir gleði þeim sem finnur til þess og þeim sem þiggur það. Þakklætið fullgerir því verkið með þeirri tilfinningu sem það kallar fram.

Lýtum í kring um okkur og þökkum fyrir allt það sem við höfum. Allt það góða fólk sem við þekkjum, frábæra landið okkar, kostina okkar og galla og allt annað sem okkur dettur í hug að sé ekki sjálfsagður hlutur að hafa.

Sá sem finnur fyrir þakklæti gagnvart lífinu getur jafnframt notið þess.

Bestu kveðjur á heim í snjóinn.... Valborg

laugardagur, febrúar 24, 2007

Samfélagsmenning

Í dag sá ég ekta sveitasamfélagsmenningu. Jú víst finnst mér margt hérna mjög frábært en sumt svolítið fyndið. Því get ég nú ekki neitað. Í dag héldum við á einhvernskonar basar. Þar voru margir af íbúum nágrenissins mættir til leiks og sátu við borð í samkomuhúsinu. Nokkrar konur seldu kökusneiðar, vondan hvítan graut og annað góðgæti. Allir keyptu númer til að geta átt möguleika á litlum skrítnum vinning. En líklega var þó aðal málið að styrkja eitthvað málefni sem notar peningana í hitt og þetta sem þarf að gera. Svo var sýnt karate atriði af nokkrum krökkum og athygglissjúkum þjálfara. Hef nú ekki mikið álit á þessari íþrótt en held nú samt að það væri gaman að kunna eitthvað svona. Kannski ég gæti þá snúið niður alla þá sem eitthvað færu í taugarnar á mér. Svo kom söngatriði frá fjórum litlum stelpum og fannst mér nú bara frábært að þær legðu í að fara svona uppá svið og syngja augljóslega ekki búnar að æfa neitt mjög mikið. En ágætt þrátt fyrir það. En þá var komið að fólkinu í salnum að hefja upp raust sína og synjga eitt lag. Textinn var á blöðum á borðunum svo allir norðmenn hefðu nú átt að geta sungið með. En ji minn einasti. Þarna misst ég nú allt álit á sönghæfileikum basarunnenda. En jæja, það heyrðist allavega í einni konu og svo nokkrum hræðum sem hvísluðu textann niður í bringu sér. Langdregin samkoma en fínt að mæta, sýna sig og sjá aðra. Það er ekki svo mikið sem gerist hér svo það er um að gera að mæta þegar eitthvað er um að vera :)

Í dag er ég búin að dunda við að hengja myndir á veggina mína svo nú getiði mörg verið viss um að kannski vill svo til að hér hangi mynd af ykkur ;) En ég er náttúrlega af svo fallegu fólki komin að þið eruð mikið veggprýði ;)

Annars læt ég þetta nægja í bili.... góða nótt og sofið rótt í alla nótt :)

föstudagur, febrúar 23, 2007

Föstudagur í Norðmannalandi


Nýjasta mubblan á heimilinu er komin í gagnið svo nú er svaka hlýtt og kósí hjá mér hér í herberginu. Au-pair stelpan sem er búin að setja allt á annan endan hérna hlýtur nú að hafa allt sem hún þarnast og gott betur en það. Nú er herbergið enn á ný þvílíkt hreint og fínt, búið að laga til enn einu sinni eftir stórframkvæmdir. En nú er þetta loks á enda og ekki reiknað með meiri ursla næstu daga frá nýjasta "fjölskyldumeðlimnum".
En jæja, í dag var haldið til Álasunds þar sem var farið í búðir, borðað góðan mat, kíkt í keilu og haft gaman. Fínt að hafa smá tilbreytingu í lífinu og kíkja í borgarferðir annað slægið :) Við vorum náttúrlega þvílíkir snillingar í keilu þrátt fyrir að Agnes hafi nú rústað okkur hinum með þessari svaka snilli sinni en við verðum greinilega bara að æfa okkur meira! Ég skil nú ekkert af hverju það er ekki keiluhöll á Akureyri, það myndi nú verða staður staðanna, hehe! Æ nei vitiði líklega myndi ég aldrei þora að láta sjá mig þar, hehehe. En þegar líða fór á kvöld var haldið heim á leið, geispað þvílíkt í bílnum á leiðinni því allir voru svo þreyttir því víst tekur það á sveitafólkið að vera í stórborgum. Nú er svo bara þvílíkt leiðinlegt sjónvarpsefni eins og ævinlega hér í Noregi á föstudagskvöldum. Ég sem hélt að heima væri hrillilegt sjónvarp á þeim dögum og lélegar myndir fyrri partinn en þetta toppar nú allt skal ég segja ykkur. Nammipokinn góði togar þetta nú aðeins upp og maður lætur sig hafa sjónvarpsglápið þangað til maður gefst upp og kíkir í tölvuna eða les fáeinar blaðsíður.
Eigið góða helgi nær og fjær..... myndir frá keilunni detta vonandi inn fljótlega, tók bara örfáar en þó eitthvað ;)
Kveðja Valborg Rut í norðmannalandinu.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Fátt að gerast

Líklega tími til að blogga fyrir lifandi löngu. En jú jú hér í sveitinni hef ég bara alltaf svo brjálað að gera að það er aldrei tími! Hehe nei ókey kannski ekki alveg. Ætli enn einu sinni sé ekki hugmyndaleisi um að kenna. Held að flestum þyki líka skemmtilegra að lesa eitthvað um lífið hérna í norge en endalausar pælingar eða sögur. Hehe. Annars þakka ég fyrir góð viðbrögð við síðustu færslu, fannst þetta nú ekki merkileg saga hjá mér, en jú aldrei að vita nema ég leggi drög að bók einhvern daginn. Annars gerist ekki mikið hérna en heilsuleysi herjar þó á krakkana þessa stundina. Keppast um að hósta hvert í kapp við annað en eru voða hress á milli. Reyndar kannski of hress, hehe. Í gær fannst mér Leona nú aðeins of handóð og ákvað því að teipa fastar tvær skúffur eða svo. Líklega taka nú allir krakkar svona skúffu og skápaæði og finnst þetta sérstaklega spennandi þegar þau vita að þetta má ekki og einhver kemur hlaupandi til að loka... hehe ;)

Tónleikarnir á sunnudaginn gengu vel og við náttúrlega sungum þvílíkt vel. Jú jú maður verður nú að hafa álit á þessu þó svo að ég viti vel að ég á það til að setja markið svolítið hátt. En þetta var bara mjög gaman og tókst vel. Ég var þó ekki að fíla aðal söngkonuna á svæðinu og horði því stöku sinnum á loftið til að gleyma þessum ógnar löngu lögum. Án djókst þá var hvert lag örugglega 5-6 mínótur.... Eftir tveggja tíma tónleika hélt maður svo heim á leið frá Måndalen.

Það er vetrarfrí hérna núna og allt í lamasessi ef svo má segja. Iðjuleisi landans þessa 9 daga er að öllum líkindum mis mikið en mér finnst þó eins og það séu bara tveir dagar í þessari viki, laugardagur og sunnudagur. Jú líklega því það eru einu dagarnir sem maður er vanur því að enginn þurfi að hlaupa út úr húsi fyrir allar aldir. En þetta er góð tilbreyting en þó hefði verið fínt að fá aðeins betra veður. Snjórinn er eiginlega allur farinn og hér er bara eftir ískaldur vindur og skítakuldi.

Hvernig finnst ykkur annars nýja lúkkið á síðunni? Hvort er flottara að hafa myndirnar svona fyrir ofan eða á hliðinni?? Endilega segið ykkar álit á þessu :)

Nóg af tilgangslausu þvaðri í bili..... Valborg Rut verðandi tölvunörd.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Saga?

Ég mætti konu á förnum vegi í dag. Hún var frekar ósmart í taujinu og bar fötin alls ekki vel. Hún brosti ekki, heldur leit hálf grimmdarlega út. Leit þó snöggt á mig og virti mig fyrir sér. Ég brosti til hennar og vonaði að ég gæti veitt henni eitthvað með þessu litla brosi. En hún brosti ekki. Hún leit aðeins niður á götuna og hélt áfram leiðar sinnar. Ég hélt áfram og virti fyrir mér trén og fjöllin allt í kring. Ég hugsaði um þessa konu sem ég hafði mætt. Fyrst hugsaði ég að þessi kona hlyti nú að vera eitthvað biluð. Kynni hvorki að klæða sig né hugsa um útlitið og í þokkabót hefði hún verið grimmdin ein og laus við allt sem kallaðist góð nærvera. Ég var hálf smeik við þessa dularfullu mannveru. En svo skaut annarri hugsun upp í kollinn á mér. Kannski var konan bara illa upplögð í dag. Kannski átti hún fátt, leið ekki vel og var einmanna. Já, kannski bara óvön því að fólk horfði beint í augun á henni og brosti á förnum vegi.

Eftir skamm stund þegar ég var algjörlega kominn í minn eigin heim heyri ég óstyrka rödd kalla að baki mér. Ég hægi á mér og sný mér rólega við. Þarna stendur konan. Konan sem ég brosti til en fannst eitthvað svo vonlaus. Nú stóð hún allt í einu nokkra metra frá mér og horfði á mig. Hún gekk til mín hægum skrefum og spurði mig hvers vegna ég hafi brosað til hennar. Ég vissi ekkert hvað ég átti að segja og fannst ég allt í einu vera á stærð við lítið skordýr. Ég vék þó ekki undan döpru augnarráði konunnar og svaraði að það gæti gefið manni svo mikið þegar aðrir brostu til manns. Að ef maður myndi brosa myndi maður kannski ná að smita út frá sér. Að hvert einasta litla ókeipis bros gæti kannski vakið hlýja tilfinningu gagnvart lífinu sjálfu. Ég sagði henni að einu sinni hefði ég verið á gangi hálf döpur í bragði þegar ég mætti lítilli stelpu sem starði á mig og brosti svo hlýtt til mín. Þegar ég horði á litlu stelpuna brosa fann ég að það var virkilega þess virði að lifa lífinu lengur og að það væri til raunveruleg gleði. Konan hélt áfram að horfa á mig hugsunaraugum og svo læddist fram lítið bros á andlit hennar. Ég brosti á móti, gekk til hennar og faðmaði konuna að mér. Ég kvíslaði í eyra hennar að hún væri mikilvæg og að hver og einn hefði sinn tilgang. Að góður Guð myndi vaka yfir henni og að hún ætti svo margt hlýtt að gefa. Að þessu loknu sleppti ég takinu, snéri mér hægt í átt til sólarinnar og hélt ferðinni áfram.

Ólíkar hugsanir komu hver á eftir annarri í huga minn og vöktu með mér furðulegar tilfinningar. Þessi kona. Þessi kona sem ég hafði dæmt svo hart og talið vonlausa og fannst nú ekki mikið til koma af klæðaburði og útliti að dæma. Enn einu sinni hafði ég staðið sjálfan mig að því að dæma hlutlausa manneskju sem ég þekkti ekki neitt. Ég sá eftir því en var ánægð með að hafa brosað til hennar. Ég vonaði bara að viðbrögð mín við kalli konunnar hefðu gefið henni eitthvað. Veitt henni eitthvað sem hún gæti nýtt sér. Ég leit upp í himininn og óskaði þess að góðir englar mögnuðu það litla bros sem ég veitti konunni.

Göngum upprétt, brosum hlýtt, dæmum ekki, hugsum fallega og óskum öllum þess allra besta.

En jæja, þetta var nú bara skáldskapur þar sem ekki er mikið að frétta úr daglegu lífi. Knús til ykkar allra heima.... skvísan í Norge :)

föstudagur, febrúar 16, 2007

Hugmyndasnauð?

Ekki veit ég hvað ég á eiginlega að skirfa. En víst ákvað ég að blogga svo ég verð að nota humyndaflugið. Fyrst setti ég inn fullt af eldgömlum myndum af einhverjum skrítnum vinkonum. Svo tók ég þær út því ég hélt kannski að þá sæi fólk hvað við erum í raun stundum klikkaðar. Þannig að ég valdi aðeins betri myndir en leifði hræðilegustu mynd sem hefur verið tekin af okkur að fljóta með. Hehe já myndin sem var tekin í svíþjóð eftir svefnlaust 48 tíma ferðalag er án efa einna verst. En að lokum ákvað ég að líklega gæti ég ekki látið þessar snilldar myndir á netið svo niðurstaðan varð ein mynd, tekin í Finnlandi 2004.

Þess má geta að síðusta daga hafa pakkarnir streymt til mín, takk amma og afi, mamma og Helga frænka. Íslenska nammið var borðað við miklar vinsældir og mikla græðgi ;) hehe. Ég kom þó með þá hugmynd að við myndum farað flytja inn íslenskt nammi því ég er viss um að við eigum bestasta nammi í öllum heiminum! Og eitt er víst að við eigum helmingi meira úrval en norðmennirnir svo það væri örugglega hægt að græða vel á þessu stórgóða nammi ;) Verst að þá myndi ég alveg missa mig í namminu og blása út líkt og flóðhestur! Svo það er kannski ágætt að ég komsti ekki skyndilega í svo mikið magn af nammi frá besta landinu.

Ég hef lokið við lestur bókar númer fjögur síðan ég kom hingað. Er byrjðu á þeirri fimmtu svo líklega ætti ég að taka saman fjölda lesnra blaðsíðna á þessum eina mánuði. Aldrei að vita nema bókagagnrýnin láti sjá sig á næstu dögum.
En ég kveðj jafn hugmyndasnauð og ég byrjaði á þessari færslu.....
Valborg Rut

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Made in China/made in Iceland?


Hér í Norðmannalandi er þetta líka fína veður. Ég hef smitast af íþróttaálfinum sem hoppar um sjónvarpsskjáinn og búin að vera rosa aktív í gönguferðunum. Í gær vorum við svakalega dugleg að vera úti og í dag fórum við Leona aftur í gönguferð í sólinni :D Ekkert smá gaman að fá þessa sól allt í einu, ja nema þegar maður er að keyra, þá má hún alveg fá smá pásu ;)

En héðan er bara fínasta að frétta. Allir hressir og kátir svo við höfum víst yfir litlu að kvarta. Stefnan er sett á að syngja á tónleikum á sunnudaginn svo líklega er eins gott fyrir mig að reyna að læra textana og góla þetta eitthvað þar sem þetta eru aðeins fleiri lög en á síðustu tónleikum og ég fékk bara örfáar mínótur á æfingunni til þess að læra þetta. Annað hvort er því málið að syngja ekki með eða vera rosa klár og læra þetta á nó tæm. Auðvitað stefni ég að seinni kostinum enn sem komið er :)

Þegar ég var í þann veginn að klæða mig í 66°N peysuna mína í dag veitti ég skyndilega miðanum innan í henni aukna athygli. Stendur ekki á fjárans miðanum, MADE IN CHINA!! Sko, ég viðurkenni fúslega að ég virkilega hélt að ég væri í AL-ÍSLENSKUM fötum. En nei nei tek ég þá ekki bara eftir því að ég er BARA í fötum frá Kína. Okey, kannski ekki bara en sko, það eru næstum því öll fötin manns frá Kína eða slíkum löndum. Hvers vegna, ef þetta er búið til í Kína eru þetta svona afskaplega dýr föt?? Í örskamma stund velti ég því fyrir mér að hætta að versla við 66°N þar sem ég varð skyndilega mjög fúl. En ég ákvað þó að vera ekki með svona vitleysu og klæddi mig í tvær 66°N peysur og hélt út í góða veðrið. Og jafnvel þó svo að hluti fatnaðarins sé framleiddur í Kína eru þetta afskaplega góð föt og ég langflesta daga í peysu með þessu merki þar sem ég á nú fjórar eða svo. Ég brosi því enn og held því fram að ég sé staðfastlega ekki merkjafrík. Sem ég er nú alls ekki þrátt fyrir að þykja eitt og annað merki meira spennandi en annað. Gæðin og útlitið er það sem skiptir mestu máli. Sem er samt kannski ekki því það sem er innan í fötunum, sem sé persónan við er það sem á auðvitað að taka eftir og vera gott. Jú víst skiptir það mun meira máli en flíkurnar sem við klæðumst.

En þar sem ég er nú alltaf svo afskaplega dugleg þá setti ég inn nokkrar myndir í dag. Tók þær í dag og í gær ;) Þær eru í febrúaralbúminu og svo þónokkrar útsýnismyndir í albúminu þar sem myndir eru af öðru en fólki ;)

Bestu kveðjur frá heimili í Noregi þar sem allir eiga margar íslenskar 66°N flíkur.

Valborg Rut

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Grand prix og fleira

Þá er helgin senn á enda og um að gera að koma með helgaryfirlitið. Hér er allt eins og það á að vera. Rólegheitin en samt ekki of rólegt, lestu þriðju bókarinnar hafinn, tölvuvera og þvílíkur tæknisnillingur sem ég er að verða. Kannski tími til kominn að ég tæknivæddist smávegis, en ég vona nú þó að ég eigi eftir einn daginn að verða aðeins klárari. Ekki get ég þó kvartað héðan af vegna tölvugetu minnar. Hér er fínasta veður og mesti ískuldinn á förum. Ekki get ég þó sagt að það sé heitara en annan dag því eitt er víst að það er bara aðeins minna kalt. Ennþá frost og snjór en óskög fallegt þrátt fyrir kulda. Í gær var innivera en við skruppum nú aðeins í hesthúsið og fórum í reiðtúr. Gaman að því ;) Svo var það bara sjónvarpspláp fram eftir kvöldi því hér var jú farmen og júróvísjón í loftinu.

Grand prix eða eurovision var mjög skemmtilegt. Úrslitin voru í gærkvöldi og er ég nú bara nokkuð ánægð með lagið sem "við" norðmennirnir ætlum að senda í keppnina. Verð ég að segja að lögin í úrslitunum hérna voru nú töluvert miklu betri en lögin sem keppa í úrslitunum heima á Íslandi næsta laugardag. Ég var þó ekki alveg að fíla byrjunina á laginu okkar hérna fyrst en eftir að hafa hlustað á lagið nokkrum sinnum finnst mér það bara mjög gott. Ég vildi þó helst senda kúrekana sem voru fullorðnir kallar í kúrekafötum með alveg ægilega fyndið og skemmtilegt lag. Ekki spillti fyrir að þeir dönsuðu svo fínt með! hehe. En jæja, það verður bara gaman að sjá hvað kemur út í þessum úrslitum heima. En ef þið hafið áhuga getiði horft á keppnina sem var í noregi: http://www1.nrk.no/nett-tv/klipp/227970. Þarna aftast er svo lagið sem vann, en endilega gefið ykkur tíma til að finna káboí kallana ;) hehe.

En hér í Norege er mæðradagurinn í dag. Við náttúrlega búin að vera þvílíkt dugleg í dag og gera alveg helling af hlutum! ja .... eða næstum því. Nei nei ekki get ég sagt að ég hafi reynt mikið á mig í dag en þrátt fyrir að hafa afrekað akkurat ekki neitt, jú nema að tala við Leifu í meira en klukkutíma var ég við það að sofna í sófanum fyrir kvöldmat. En í tilefni mæðradagsins fórum við í mat til Björns og Helenu (amman og afinn). Það var fínt eins og áður en þótti mér maturinn nú pínu furðulegur. En bragðaðist nú samt vel. Eitthvað svona kjöt sem minnti kannski á kjötsúpu og svo var líka hreindýrakjöt. Aldrei að vita nema ég verði farin að borða ótrúlegustu hluti þegar ég kem heim aftur. Ekki myndi ég nú segja að ég væri matvond en ég hins vegar lagði það á mig að smakka brúnost í morgun. Ja segjum bara að ég fái mér alveg örugglega ekki svoleiðis aftur. Herre guð (eins og fólkið hérna segir alltaf), þetta var sko alltof líkt mysingi!! Oj bjakk... hehe. En það er nú gott að það er til nóg af öðru til að setja á brauðið sitt ;)

En nú er maður að farað horfa á sjónvarpið, aldrei þessu vant. Sjónvarpsgláp mitt hefur aukist um 78% eftir að ég flutti hingað út.... hehe ;)

En jæja, góða nótt alle sammen....... Valborg Rut í kuldanum.

laugardagur, febrúar 10, 2007

Tæknivædd??

Aðrir eins þvílíkt tæknivæddir hlutir hafa nú varla gerst í mínum tölvuheimi. Haldiði ekki að mér hafi tekist að ná mér skype og allt ;) úff hvað maður er orðinn klár. Svo núna get ég talað frítt! Jess ekkert smá æðislegt, af hverju fattaði ég þetta ekki fyrr? Ja það er spurning. Talaði við Helgu í næstum klukkutíma í gær, vorum búnar að reyna þvílíkt að láta þetta virka með msnið á fullu og loks þegar við gátum komið þessu í lag og gátum báðar hyert og talað höfðum við næstum ekkert að segja lengur. Hehe. Nú væri því sniðugt fyrir fjölskylduna mína heima að fjárfesta í einni tölvu eða svo til að geta orðið ögn tæknilegri ;)

Annars er búið að ryka herbergið mitt allt út og bora í vegginn og svona því nýji viðarofninn er kominn í hús ;) Þvílíkt búið að snúa öllu við út af mér hérna, hehe. Það lýtur út fyrir að ég verði orðin ansi dýr í rekstri þegar allt er orðið klárt!

En talvan straumlaus.... meira seinna!

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Tími á blogg?

Í dag fannst mér í skyndilega vera opinberuð í samfélaginu hér í Hjelvik/Vågstranda. Þannig er að hér þekkja næstum allir alla og allir heilsa öllum. Litla sveitabúðin í Vågstranda er mjög svo heimilisleg. Þar kemur fólk saman og spjallar, konan á kassanum þekkir alla og spjallar við hvern og einn. Tekur sér góðan tíma í símanum þrátt fyrir að einhver bíði því hér er jú ekkert stress. Komi maður í búðina hefur maður lítið annað að gera en að dunda sér, stoppa og tala og aldrei að vita nema maður setjist niður með kaffibolla og spjalli við hina á meðan þeir versla. Í dag kom ég í búðina og setti pakka í póst. Pósthúsið er semsagt líka í búðinni, bara á bak við kassann. Þegar ég var búin að bíða töluvert eftir konunni sem brosti til mín og hélt áfram að spjalla við vonkonu í símanum afgreiddi hún mig í rólegheitunum. Síðan rölti ég inn í búðina og keypti fáeina hluti og fór að kassanum til vitanlega sömu konu. Þá vissi ég að ég er orðin opinber. Hún byrjaði að spjalla við mig rétt eins og hina í búðinni. Reyndi eins og hún gat að auðvelda norskuna fyrir mig og ég svaraði eftir bestu getu á dönsku/norsku/íslenskunni minni. Já hún veit alveg örugglega hvaðan ég kem, hvar ég bý og hjá hverjum, og jafnvel gæti hún munað hvað ég keypti í búðinni í síðustu viku. Jú víst er ég boðin velkomin og líkar vel. Þetta var þó aðeins í fjórða skiptið eða svo sem ég kom í þessa búð. Vissulega pínu skrítið en um leið nokkuð notalegt og heimilislegt án skarkala stórbæjanna.

Ég fékk pakka í dag. Sendendurnir engir aðrir en skvísurnar mínar í Danalveldi. Í pakkanum var rétt hárþurrka... hehe já Leifa sendi mér áður pakka með sinni hárþurrku svo við áttum víst eftir að senda hárrþurrkur hvor annarrar á réttan stað ;) En í kassanum voru líka Kærlighed ved förste hik myndirnar. Þrjár ótrúlega skondnar myndir sem gaman er að horfa á aftur og aftur. Smartísbangsímoninn fékk að fljóta með og nokkrir litlir skrítnir bangsar sem ég skildi eftir í Lemvig. Og svo auðvitað póstkort frá Lemvig með kveðju frá skvísunum. Takk fyrir þetta stelpur :)

Það er ískalt í Noregi þessa dagana og ég er ekki frá því að ég eigi eftir að detta í sundur af kulda. Hitastigið í herberginu er líka bara rétt fyrir ofan frostmark, hehe en ég hef núna tvær sængur og ullarteppi svo ég lifi þetta nú líklega af ;) Svo eru það bara hlýju náttfötin og ullarsokkarnir og svo er búið að ákveða að setja svona viðarofn svo ég geti nú hitað smávegis :)

Kvöldið byrjaði ég með því að missa mig yfir súkkulaðikexpakka. Eftir hálfan pakkann ákvað ég að þetta væri löngu komið nóg. Svo kom smá pása þangað til ég stóð upp og opnaði ísskápinn. Þar horfði ég á kókið en tók appelsínusafann. En áður en ég lokaði ísskápnum skilaði ég safanum og fékk mér vatn. Ég ætlaði líka að fá mér appelsínu í staðinn fyrir kex. Það bara mistókst. Ég er að reyna að standast allar þessar freistingar hérna. En ef maður er súkkulaðifíkkill og nammigrís af fyrstu sort gengur það kannski ekki svo íkja vel. Enda ætla ég aldrei að hætta að borða nammi. Bara agnarlítið að hollusta þetta upp!!! Yndislegt orðatiltæki í miklu uppáhaldi. Það er sko búið að hollusta þetta upp! Oft sagt við kókapöffsinu í Vatnaskógi síðasta sumar þegar hollusturáðskonan mikla var við völdin.... ;)

En ég kveð héðan úr hlýrri stofunni og óska ykkur velgengni í hollustu og hreifingu..... en æi allt er nú gott í hófi.

Bestustu kveðjur, Valborg Rut súkkulaðiunnandi.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Fegurð

Hvað skal skrifa, hvað skal segja, hvað viljiði vita? Ja það er spurning. Eitthvað langar mig nú að skrifa en spurning hvað það verður. Merkilegt eða ómerkilegt? Líklega verður hver og einn að dæma um það.

Nú er nýtt fegurðarár að hefjast og stelpur víðs vegar um heiminn sem taka þá ákvörðun að keppa í fegurð. Þær æfa að kappi, vilja fá eins flottan líkama og þær mögulega geta fyrir hið mikla keppniskvöld. Sýna sínar bestu hliðar og æfa sig í marga klukkutíma að ganga á háhæluðum skóm.

,,Kæri keppandi.

Þú ert falleg!- Þú þarft ekki taka þátt í fegurðarsamkeppni til að vita það.


Nú þegar umræður um fegurðarsamkeppnir eru allsráðandi getur maður ekki annað en velt fyrir sér inntaki þeirra. Hverju nákvæmlega er verið að keppa í? Út frá hverju er verið að dæma? Hver hefur það guðdómlega vald til að segja til um það hvað sé fallegt og hvað ekki? Dómararnir sem dæma keppnirnar? Hafa þeir lokið skóla í fegurðarfræðum? Nei. Dómararnir eru bara eins og þú og ég. Venjulegt fólk sem er uppfullt af kreddulegum samfélagshugmyndum um staðlaða ímynd fegurðarinnar.

Kjarni málsins: Það er engin uppskrift sem að dómnefndin getur farið eftir í því hver sé fegurst. Maður gæti skilið það ef að sú sem grennist mest, er með mesta hárið eða getur labbað hraðast ynni. Þá væru fyrirfram gefnir staðlar sem stúlkurnar gætu allar unnið hörðum að. Allar stúlkurnar kæmu að keppninni á sama grundvelli og ættu allar jafn mikla möguleika. Eins og staðan er í dag þá er það bara huglægt mat hvers og eins dómara sem að ræður för.

Ert þú til í að láta það í hendurnar á ókunnugu fólki að segja til um hvort að þú sért nógu sæt eða ekki?

Fegurð þína er ekki mælanleg. Hún felst í þroska og góðri sjálfsímynd og fer einungis batnandi með árunum. Spurningin er ekki um fatastærðir, kílóafjölda, hæð eða háralit, heldur er hún spurning um að læra að elska sjálfa sig frá toppi til táar.

Þannig að: Líttu í spegil og ákveddu sjálf að þú ert falleg.

Þetta bréf afhenti Femínistafélag Akureyrar stelpunum sem tóku þátt í Ungfrú Norðurland fyrir keppniskvöldið í fyrra. Ég verð að segja að það er ótrúlega mikið til í þessu. Hvers vegna að láta aðra dæma um útlit okkar og hvort við virkilega lýtum vel út? Þurfum við virkilega þá staðfestinu frá ókunnugu fólki að við séum fallegar? Ég viðurkenni fúslega að mér finnst lúmst gaman að þessum keppnum og það vita nú líklega allir þeir sem þekkja mig eitthvað. Varla fer fram keppni án þess að ég kynni mér eitthvað um hana eða keppendurnar. En ég hef í raun aldrei vitað ástæðu þess. Eitthvað fær mig til þess að horfa á þetta. Ég er alls ekki á móti þessum keppnum en samt er eitthvað svo ferlaga "apsúrd" við að keppa í fegurð.

Valborg Rut fegurðarspekúlant

mánudagur, febrúar 05, 2007

Mega svín gifta sig?


Tvö svín gengu í það heilaga í litlum bæ í Taívan í dag við hátíðlega athöfn og voru hundruð manna viðstödd athöfnina. Það var dómari í bænum sem vígði brúðhjónin. Eigandi galtarins, Hsu Wen-chuan, segir svínin eiga farsæla framtíð fyrir höndum.
Parið var síðan blessað af kaþólskum presti í þorpinu og voru 400 gestir viðstaddir. Hver þeirra færði brúðhjónunum 100 taívanska dollara, um 200 krónur, en féð verður notað í kaup á sendiferðabíl fyrir kirkjustofnun sem aðstoðar fötluð börn. Ár svínsins hefst 18. febrúar.
Ji minn einasti hvað þetta samfélag er ruglað. Hverjum í ósköpunum dettur það í hug að gifta svínið sitt? Ja það er allavega gott að það eru ekki allir eins. Tók þessa grei af mbl.is og ákvað að hafa þetta blogg dagsins. Öllu heldur það sem hneikslaði mig mest í dag. Held að sumt sé nú að ganga út í öfgar. Ekki getur svínið sagt að því langi til að gifta sig, og hvernig í fóru þau að því að játast hvort öðru? Æi þvílíkt rugl, skemmtilegt samt, ég allavega var við það að hlægja.
En jæja, þetta finnst fólki spennandi, allavega kemst þetta í blöðin.
Kveðja frá Norge, Valborg

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Syngjandi hér, syngjandi þar...

...syngjandi er ég allstaðar.... sí og æ, æ og sí, aldrei fæ ég nóg af því.....

Líklega er um að gera að skirfa hérna nokkrar línur um viðburðarríka helgi áður en maður verður endalega yfir sig þreyttur. Var að horfa á sjónvarpið og alveg orðin stjörf yfir einhverri furðulegri gamalli mynd. En tókst nú samt að halda mér vakandi og sjá þennan þurrpumpulega endi. En allavega, í gær var vaknað og hluti fjöslkyldunnar átti að fara á hestanámskeið. Ég fór bara með og krakkarnir líka og héldum bara til í reiðhöllinni og kaffistofunni þangað til við fórum heim einhverntíman eftir hádegi. Þegar heim var komiðtóku við vöfflur og fínerí og seinna mikið sjónvarpskvöld. Jú víst er það ágætis sjónvarpsefni hér á laugardagskvöldum, en föstudagarnir, það er nú ekki sitjandi fyrir framan sjónvarpið þá!

Í morgun fóru svo Agnes og Stian aftur á námskeiðið en við hin vorum heima. Um hádegi tók ég mig svo til í flýti og hélt til Molde. Ekki seinna vænna en að byrja að gaula með þessum kór mínum opinberlega eftir að hafa mætt á tvær æfingar. Ég var nú að hugsa um að fara ekkert en sé nú alls ekki eftir því núna að hafa skellt mér með :) Við tóku æfingar þegar við komum til Molde í svona stóru tónleikahúsi. Svo fengum við pitsu til að deyfa hungrið sem hafði tekið völdin áður en dagskráin byrjaði. Við sungum bara 3 lög í upphafi og svo kom dansatriði áður en aðalatriðið byrjaði. Það var æðislegur gospelkór sem mér skilst að sé einn besti kór í Noregi. Ekki er nú erfitt að trúa því eftir að hafa setið á þessum frábæru tónleikum :) Vá þvílíkt úthald sem þetta fólk/krakkar hafa, dansandi og þvílíkt syngjandi af ótrúlegum krafti í næstum klukkutíma. Góðir söngvarar þarna á ferð. Annars stóðum við okkur held ég bara vel, vorum allavega mjög ánægð sjálf, tókst að koma næstum öllum textanum út úr mér og gat hreyft mig þarna á efsta pallinum með míkrafón í hendinni. Ójá það var önnur hver manneska með míkrafón! En ég lét það nú ekki angra mig mikið og söng bara af fullum krafti ;) auðvitað, þýðir víst lítið annað! Eftir allt saman var haldið heim á leið með kórfélugum sem voru svo góðir að leifa mér að fá far með sér. Ferjan, keyra og loksins heim í náttbuxurnar og uppí sófa að horfa á sjónvarpið. Núna tekur við langþráður svefn eftir tölvustúss kvöldsins.

Góða nótt góðir Íslendingar..... :)

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Myndir - herbergi - útivera


Jæja þá er ekki hægt að kvarta lengur yfir trassaskap. Myndirnar detta inn hver á eftir annarri og að lokum verða líklega þónokkrar samansafnaðar. Er bæði búin að gera albúm með nokkrum janúarmyndum af Fredrik og Leonu Dís og líka albúm með myndum af herberginu og nokkrum af húsinu. Á þó eftir að muna eftir myndavélinni þegar ég fer út svo þið sjáið nú umhverfið og húsið mitt hvíta líka ;) Svo auðvitað hinir fjölskyldumeðlimirnir sem sjaldnar eru heima þegar mér dettur í hug að draga fram myndavélina en þau verða nú örugglega mynduð fyrr eða síðar ;) Smá sýnisorn hér til hliðar af Leonu með eitthvað eldhúsdót, rosa dugleg skvísan að rífa allt upp úr skúffunum ;)

Í gær var sko tekið á því í rigningunni miklu. Þegar allir voru farnir út fyrir níu og ég og litla skvís aleinar eftir var ég ekki að nenna að vera bara heima í allan dag og klukkan ekki meira. Ég leit út um gluggan og sá að ja það var einmitt ekki rigning! Ákvað að tékka á því hvað ég væri lengi að labba í búðina á Vågstranda. Niðurstaðan var rúmur klukkutími í ausandi rigningu. En maður er nú íslendingur og lætur ekki smá bleytu stoppa sig ;) Þegar ég kom svo í búðina hafði ég náttúrlega ekkert að kaupa svo ég lét súkkulaðistykki nægja og gæddi mér á því á heimleiðinni. Úr morgninum varð hörku gönguferð í tæpalega 3 klukkutíma. Maður á nú hrós skilið fyrir þessa framkvamd ;)

En dagurinn var ekki búinn þrátt fyrir að ég væri komin heim og mætti finna þurr föt. Áfram leið tíminn og að lokum keyrði ég til Åndalsnes á kóræfingu (eða þar rétt hjá). Fjör þar auðvitað eins og fyrri daginn, dansað og klappað, sungið og næstum hrópað. Um tíu keyrði maður svo heim á leið og þá var farið að flytja á neðri hæðina. Herbergið mitt orðið rosa flott og greinilega algjört prinsessuherbergi. Það hefur fengið smá lit frá mér en ég á nú eftir að fínisera þetta allt saman, hengja eitthvað á veggina og svona. Eins gott að maður tók með myndir af hinni íðilfögru fjölskyldu og vinum, hehe ;) Einnig er fataskápurinn í rúst þar sem ég henti bara öllu inn til að geta losað töskurnar. En eins og margir vita eflaust er ég með algjört ofnæmi fyrir illa skipulögðum fataskápum svo hér á víst eftir að flokka allt, brjóta saman og raða, hver flík veðrur nú að eiga sinn stað :) Ja rétt eins og hlutirnir mínir og hver annað drasl sem ég á það til að safna að mér. Nauðsinlegt er þó að hafa eina rusla drasl skúffu til að henda í hinum og þessum blöðum og slíku. Alltaf er þó takmarkið að ná að eyða henni út en ja... líklega er það mannlegt og afar seinlega gert og framkvemt.

Innivera í dag, enginn dugnaður eins og í gær ja nema hvað að myndirnar eru komnar inn. Hvernig væri svo að taka smá kommentátak hérna??? Heimsóknirnar á síðuna eitthvað töluvert fleiri en kommentin.... kannisti eitthvað við að hafa ekki skilið eftir ykkur spor? Er ekki tími til að bæta úr því?

Bestustu kveðjur, knús og kossar......

Valborg Rut dugnaðarfárkur