Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

föstudagur, ágúst 31, 2007

Karlmenn

Auðvitað á þetta ekki við um alla karlmenn. Sem betur fer. Þá yrði ég án efa piparjónka alla mína ævi. En hver veit. Kannski lærir maður með tímanum að sætta sig við allt. En eins og svo margir vita er ég kröfuhörð og læt helst ekki yfir mig ganga. Ja nema þá að láta í mér heyra. Við myndum okkur skoðanir á öllu. Sumt erum við ánægð með, annað ekki. Sumt getum við umborið, en annað alls ekki. Og það er svo gott að það eru ekki allir með sömu kröfur.

Á heimilinu mínu er kvennfólk í minnihluta. Ég og mamma á móti pabba og tveimur bræðrum. Karlmennirnir á heimilinu hafa af einhverjum ástæðum sloppið mjög vel við allt heimilishald, matargerð, tiltekt, uppvask og innkaup. Ótrúlegt. Kannski endar það með því að pabbi hendir mér út. Ég veit það ekki. En ég geri mitt besta í að siða hann til eftir öll þessi ár. Augljóst að mamma getur það ekki ein. Enda virðist faðir minn láta sérlega illa af stjórn. Eins og hann er nú liðlegur að gera eitt og annað fyrir mann. En þegar maður reynir að skipa honum að taka t.d. diskinn af borðinu er ekki séns að hann hlýði. Furðulegt.


Undanfarin kvöld hef ég beðið föður minn og bræður um að fara með diskinn, glasið og hnífapörin á bekkinn við hliðiná vaskanum áður en þeir láta sig hverfa úr eldhúsinu. Bræðurnir voru tregir til en létu að lokum undan. Faðirinn hins vegar sagði þvert nei og neitaði dóttur sinni alfarið um þetta verk. Það væri nú tveir kvennmenn í húsinu sem gætu vel tekið af borðinu. Faðirinn fór en eftir smá tíma sást hann á labbinu. Ég bað hann að koma aðeins og hann kom inní eldhúsið þar sem við mamma sátum enn að spjalla. En þegar hann komst að því að tilgangurinn var að láta hann taka diskinn af borðinu fór hann að hlægja og ætlaði augljóslega ekki að láta eftir þessari kröfuhörðu dóttur sem vill allt gera til að ala karlmenn heimilisins betur upp.

Ég bannaði mömmu að vaska upp diskinn hans pabba. Við gengum frá og vöskuðum allt upp (eigum ekki uppþvottavél!) nema einn disk, eitt glas, og ein hnífapör. Það var haft á sínum stað á borðinu og sagði ég að þetta yrði ekki tekið fyrr en pabbi tæki það sjálfur. Hann hló að þrjósku minni og ætlar sér líklega ekki að láta mig vinna þetta mál. Seint um kvöldið var diskurinn enn á borðinu og endaði þannig seint um síðir að mamma tók diskinn af borðinu. Faðirinn tekur greinilega ekki þátt í "kvennmannsverkum".

Ég ætla að minnast á þetta á hverju kvöldi, alveg þangað til allir hjálpast að við að ganga frá. Í það minnsta að hver taki sinn disk af borðinu. Kvennfólkið á heimilinu er ekki þjónustufólk. Karlmenn eiga líka að kunna að elda, þrífa, skreppa í búðina og að taka diskinn af borðinu og vaska upp. Ég er ekki hætt og ætla hér eftir að sjá til þess að bræður mínir læri þessa sjálfsögðu hluti. Og pabbi auðvitað líka. Já, hér stjórnar dóttirin með harðri hendi þangað til mér verður hent út.

Auðvitað gerir faðir minn marga ágætis hluti, t.d. fer hann með bílinn á verkstæði einstaka sinnum en vitanlega er sjálfsagður hlutur að hjálpa til við að halda heimilinu snyrtilegu og að taka diskinn sinn af borðinu.

Ef ég einhverntíman verð kennd við karlmann skal hann kunna að taka af borðinu, vaska upp og vera liðlegur við hinar ýmsu hliðar heimilishalds. Ég er kröfurhörð í takt við nútímann. Kynjaskipting fortíðar er liðin undir lok og jafnrétti á að gilda jafnt utan heimilis sem innan.

Ég stend föst á mínu og held áfram að siða karlmenn heimilisins til. Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja, en það er pottþétt hægt. Eins er það með illa upp alda karlmenn. Gengur hægt, en gengur samt ;)

Njótið þess að vera til elsku fólk :)

Valborg Rut

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Góðan daginn!


Hinar einu sönnu "við" settumst að á gamla "heimilinu" okkar tvo daga. Ljúft var að setjast að í sunnuhlíðinni aftur og vorum við fljótar að leggja undir okkur hlíðina og láta fara vel um okkur. Góðir dagar með góðum og skemmtilegum uppátækjum. Í gær var síðasti frídagurinn minn. Við skvísurnar vöknuðum hressar og kátar, fluttum útúr sunnuhlíðinni og héldum á vit nýrra ávintýra. Mývatnssveitin var skoðuð, gengið um í Dimmuborgum og við Höfða og verið til í frábæru veðri. Ekki gátum við látið jarðböðin fram hjá okkur fara og sulluðum þar í dágóðan tíma, söfnuðum nýjum freknum og flatmöguðum í sólinni. Nú er Helga strokin af norðurlandinu enn og aftur.
Í dag var fyrsti vinnudagurinn minn á Hólmasól. Lýst mjög vel á svona við fyrstu kynni og fá þau stóran plús fyrir góðar móttökur á nýju fólki. Það er alltaf líf og fjör á leikskólunum svo engum ætti að leiðast. Verður gaman að komast betur inní þetta og kynnast krökkunum og fólkinu betur.
En nú þarf ég að þjóta..... mætingarskylda í afmæli kallar.... ;)
Valborg Rut

sunnudagur, ágúst 26, 2007

Fíflin í Fíflabæ

Leiðin liggur í dalinn góða. Svarfaðardalurinn bíður mín, laugaselið okkar og hestarnir. Hluta af deginum mun ég eyða á einum af mínum uppáhaldsstöðum. Þangað til elsku besta Helga mín kemur í bæjinn. Þá mun ég snúa til Akureyrar og knúsa hana að mér. Þykir mér ekki ólíktlegt að sest verði að í Sunnuhlíðinni þá daga, þar sem einu sinni var sameiginlegt "heimili" okkar. Já ómældum mínóntum, klukkutímum og dögum höfum við eytt á þeim góða stað.

Þetta eru síðustu frídagarnir mínir. Á miðvikudaginn kem ég til með að byrja í nýju vinnunni minni. Hlakka mikið til að byrja á Hólmasól og kynnast stefnu hjallaleikskólanna. Full af bjartsýni tekst ég á við ný verkefni og ætla mér að standa mig vel.

Akureyrarvaka var í gær. Mér leist stór vel á að breyta Akureyrarbæ í Fíflabæ. Já því ekki það. Þetta skemmtiatriði var stórkostlegt og þvílíkt hugmyndaflug. Keyrandi bátur, furðufugl sem tilkynnti að bæjarstjórnin hafi sagt af sér og hann yrði hinn nýji bæjarstjóri. Breytti merki bæjarins, hinum fúla og grimmdarlega erni í blómlega fífla. Já fíflin í Fíflabæ myndu nú nokkuð standa undir nafni, eða hvað? Fljúgandi hjólhýsi með konu með þrifnaðaræði innanborðs, æðisleg flugeldasýning og meira til. Ég missti af ómenningu unga fólksins þar sem ég ákvað að vera gömul og halda heim á leið með eldra fólkinu. Ágætt það.

Foreldar mínir eiga 18 ára brúðkaupsafmæli í dag. Vá, 18 ár! Lætur þetta í ljós að þau séu að verða gömul? Eða segir kannski að þau voru alls ekki svo gömul þegar þau giftu sig. Aðeins tvö ár í 20 árin. Frábært, en vá hvað tíminn virðist líða hratt. Reyndar man ég lítið eftir brúðkaupinu þeirra en var nú lítil stelpuskotta að trítla þarna í kringum þau í bleika kjólnum mínum á þessum degi. Fyrir nokkrum árum mátaði ég brúðarkjól móður minnar (þegar ég var með sítt hár, fyrir fermingu) og viti menn hann var bara rétt aðeins of stór. Líklega smellpassar hann núna, væri gaman að tékka á þessu uppá gamanið. En ég get nú samt þrátt fyrir allt fullyrt það að í þessum kjól gifti ég mig ekki. Þó hann þyki mjög flottur, eða hafi þótt og verið nýjasta tíska á þessum tíma er þetta ekki alveg ég. En gaman að vita af honum hérna uppí skáp ;) hehe.

En nú þarf ég að grípa til hestafötin og þjóta í dalinn......

Hafið það gott um víða veröld, njótið þess að vera til og passið uppá ykkur sjálf.....

Valborg Rut

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Pikknikk

Með teppi og nesti í farteskinu var haldið út í óvissuna. Hlægjandi stelpur sem oftast brosa þegar þær koma saman voru á leið í piknikk ferðalag. Já ekta gamaldags ferðalag með teppi og nesti. Við Sólveig keyrðum og lentum hjá Þorgeirskirkju við Ljósavatnl. En mikið fer í taugarnar á mér að kirkjur hér á Íslandi séu alltaf læstar. Það er staður sem mér finnst að alltaf eigi að vera opinn öllum. Svo við urðum að sætta okkur við að leggjast á altaristöfluna og kíkja á það sem fyrir innan var. Í Þorgeirskirkju er nefnilega gluggi með æðislegri íslenskri náttúru altaristaflan. Svo auðvelt er að sjá bæði inn og út. Við duttum í þvílíkan berjamó. Já við gæddum okkur á gómsætum bláberjum í boði Guðs eins skemmtilega og Sólveig vildi orða það. Eftir kirkjuskoðun og mikið bláberjaát og myndavélaflipp var haldið að Goðafossi. Þar nutum við þess að vera "túristar" á milli hinna túristanna. Löbbuðum um allt þarna og vitanlega var myndavélin með í för. Svo var gengið út í móana með teppið og nestið og setið rétt eins og í gamla daga flötum beinum og notið þess að vera til þar sem lyktin af náttúrunni fangaði vit okkar. Líða tók á daginn svo ferðalangarnir ofsahressu héldu heim á leið.

Kvölda tekur og sest er sól.... en til að enda daginn var farið með Hrefnu á bláu könnuna. Gaman að hitta hana eftir allan þennan tíma! Nóg var af fólki á uppáhalds kaffihúsinu mínu og svo ótrúlega langt síðan ég settist þar niður með kakóbollann minn. Það er svo skrítið að þó maður hafi verið svona lengi í burtu er næstum eins og maður hafi bara alltaf verið hérna. En ætli það sé ekki að þakka öllu því góða fólki sem er í kringum mann.

Nú ligg ég hér í rúminu mínu sem er akkurat í miðju alls. Já enginn getur hreyft sig án þess að ég verði vör þið það. Við erum að tala um að rúmið mitt er á holinu uppi beint fyrir framan öll herbergin svo eiginlega verður að klifra yfir mig til að komast ferða sinna. Ójá það er búið að rífa parketið af herberginu mínu, mála loftið og einn vegg og skáp sem á að vera hvítt. Undir parketinu leyndist þetta líka flotta gólf!! Haha ég var búin að láta mér detta margt í hug, en ekki þetta! Svartur og hvítur köflóttur dúkur takk fyrir pent! Æ nei því miður fær þetta ekki inngöngu í prinsessuherbergið svo ætli niðurstaðan verði ekki plastparket þangað til ég verð ögn ríkari. Ég meina, hvaða stelpuskottta tímir þessum óskapar pening í gólf sem er gengið á og fullt af húsgögnum svo gólplássið litla varla sést.... ;)

Á morgun verður haldið áfram með herbergið.... veggfóðrinu klístrað á og málað yfir! Jebb vonandi er hægt að klára alla mállingar vinnu á morgun, enda er ég orðin alveg eðal málarameistari eftir daginn ;)

Góða nótt bestu þið....

Valborg Rut

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Breytingar

Þegar ég loks kom mér í gang í morgun vissi ég ekkert hvað í ósköpunum ég ætti að gera næst. Hér er allt út um allt. Búið er að yfirfara hverja einustu skúffu, hverja einustu hillu og fataskápa í þessu herbergi. En svo skemmtilega vill til að þegar maður er að laga til virðist maður frekar vera að drasla til. Og þannig er það einmitt hér. Allt óþarfa dót og föt sem aldrei er notað er farið úr herberginu, sumt gefið, öðru hent. En svo er sumt sem maður getur ekki látið frá sér en hefur samt ekki stað fyrir. Það ásamt allskyns fleiri hlutum sem á eftir að ganga frá liggur hér á víð og dreif. Tvær mállingarprufur eru komnar á vegginn. Var staðráðin í að mála ólífugrænt eða brúnt. Nú finnst mér báðir litirnir vonlaustir og ætla á morgun að finna eitthvað ljóst með brúnum keim ekki brúnt en ekki hvítt. Gólfið er aðalvandamálið. Þetta hrikalega skemmda parkett verður ekki lengur í þessu herbergi. Verður hent út á næstu dögum. En hvað kemur í þess stað? Ég tékkaði á verði á nýju parketi. Þegar það var komið á litla 12 fermetra herbergið mitt kostaði það 75 þúsund!!! Er ekki allt í lagi?? Þessu tími ég nú alls ekki. Svo jæja, ég ríf bara hitt af og hef það sem er undir. Hvað það er kemur bara í ljós síðar. Ji minn. Ég verð að finna góða lausn á þessu.

Ég hef samt komist að því að það er lítið mál að byrja. Tæta upp úr skúffum og henda og henda. Þegar líða fer á daginn og dagarnir verða orðnir fleiri við sömu seinlegu verkefnin minnkar áhuginn og maður vildi að maður hefði aldrei byrjað. Ég var þetta líka áköf í byrjun, ætlaði bara að drífa í þessu.... en nú sé ég að þetta gerist ekki eins hratt og ég ætlaði mér. Skrítið, ég sem er svona einn tveir og nú manneska. En ég gefst ekki upp. Herbergið verður klárað, 14 dagar til stefnu. Þegar þeim er lokið, þá á ég afmæli. Líklega betra að hafa ekki allt á hvolfi hérna þá. Já ég er alveg að verða gömul. Ég væri til í svona 5 ár 19-20 ára. Þá hefði ég tíma til að leika mér og gera allt annað sem ég vildi áður en ég byrja að eldast meira. En það er líka jákvætt.

En hér væri góður leikur að farað sofa svo ég geti vaknað full af orku í fyrramálið til að drífa í öllu því sem þarf að gera hérna.

Góða nótt fallega fólk.... Valborg Rut

mánudagur, ágúst 20, 2007

Akureyri

Ég er komin til Akureyrar. Það er skrítið. Veit ekki alveg hvort tilfinningin sé góð eða full af söknuði frá Noregi. Auðvitað er gott að koma heim. En ég á líka heima annarsstaðar. Erfitt að útskýra þetta og kannski erfitt að fatta það líka. En svona er þetta. Ólíkar tilfinningar. Fínt að koma hingað, en langar líka að fara aftur. Á erfitt með að halda aftur af tárunum þegar ég hugsa heim til Noregs. En núna er ég á Íslandi og ætla að reyna að njóta þess. Það tekur bara smá tíma að venjast þessari breytingu.

Ég veit ekki hvað tekur við næstu daga. Ég þarf að taka herbergið mitt algjörlega í gegn. Taka úr skúffum dót sem aldrei er notað. Gefa föt sem aldrei eru notuð. Reyna að koma öllu dótinu mínu fyrir og gera herbergið að heimili. Það er reyndar fínt núna, en dótið mitt fyllir bara stofuna í staðinn. Ferðatöskurnar blýþungar á stofugólfinu, opnar og búið að róta eftir hinum og þessum hlutum. Mín bíður mikið verkefni.

Ég er hálf ringluð á þessu öllu saman. Langar eiginlega bara eitthvað lengst út í sveit þar sem eru ekki þessi læti og hamagangur. Kannski ég ákveði að fara í fjallgöngu á morgun. Hver veit hvar uppátækjasama ég endar. Þarf að passa að gera ekki útaf við foreldrana. Held nú samt að ég verði búin að því áður en langt um líður. Ég á það til að vera atorkusöm manneskja. Vil drífa í hlutunum og finnst minnsta málið að mála smávegis eða þeysast um og koma hlutunum í lag. En stundum þyki ég full fljótlát og fljúgandi hugmyndir skjótast á milli orða.

Eflaust fækkar bloggunum hér eitthvað. Veit þó að hér koma til með að detta inn þónokkrar línur af og til. Gaman að segja frá því að síðan ég fór til Danmergur í september í fyrra og þangað til ég skrifaði lokabloggið frá Noregi lentu hér hvorki meira né minna en 240 blogg! Nokkuð góður árangur finnst mér :)

Læt þetta nóg í bili, hlakka til að sjá ykkur öll....

Valborg

föstudagur, ágúst 17, 2007

Leiðarlok

Herbergið mitt er afskaplega tómlegt. Fjölskyldumyndirnar eru farnar af veggjunum og fataskáparnir eru tómir. Fallegu hlutirnir mínir eru vel pakkaðir ofan í tösku og pabbi ber dótið mitt í bílinn.

Ég er á förum frá Vågstranda. Það er skrítin tilfinning. Ég er er í raun ekki búin að fatta ennþá að ég sé að fara. Þetta leið alltof hratt. Það er komið að kveðjustund og líklega finnst okkur öllum það jafn skrítið. Þau eru vön að hafa mig á heimilinu og ég er vön því að búa hér með þeim í sveitinni. Ég á eftir að sakna þeirra alla mikið. Helst vildi ég að ég gæti haft þau öll með mér. En við hittumst á Íslandi eða í Noregi áður en langt um líður. Að koma til Noregs verður alltaf eins og að koma heim.

Í lífinu kynnumst við ógrinni af fólki. Sumir stoppa lengur við en aðrir. Sumir koma en eru farnir jafn skjótt aftur. Öðrum kynnist maður betur og þeir skilja eftir sig spor í hjarta manns.

Lífinu er skipt í ótal kafla. Í dag líkur einum þeirra. Ég flyt heim til Íslands og hef nýjan kafla af lífinu. Tekst glöð á við ný verkefni og hlakka til að sjá hvað mætir mér. Sumir kaflar eru svo góðir að maður vill helst ekki að þeir endi. En þeir gera það samt. Allt endar einhverntíman.

Ég kveð glöð og ánægð sveitina og fólkið í Jakobsgarden. Hlakka til að koma heim og takast á við ný verkefni.

Bestu kveðjur í síðasta sinn í bili frá Hjelvik.....

Valborg Rut

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Yfirlit síðustu daga

Ég er ástfangin. Svíf um á bleiku skýji rétt eins og stelpurnar sem leiða kærastana og nýju eiginmennina um heim og geima. Tilfinningin ólýsanleg, svo fallegt, svo flott, einstakt, já næstum fullkomið. Við erum búin að þekkjast í svolítinn tíma. Ég vissi strax að hann væri einstakur í janúar þegar ég kom hingað. En alla þessa mánuði höfum við verið að kynnast betur og höfum nú fallið. Eða allavega ég. Ég er ástfangin af Noregi. Landinu sem hefur verið mér heimili síðustu átta mánuðina. Ég sé alltaf betur og betur hversu ævintýralegt þetta hefur verið.

Í gær keyrðum við Trollstien sem er vegur upp og yfir fjall, oft kennt við tröll. Svo flott. Keyrðum niður í Geiranger og fórum með ferju í gegnum Geirangursfjörðinn. Ótrúlegt að vera staddur á þessum fræga stað.

Annað eins bloggleisi hefur ekki sést á þessari síðu í langan tíma. En hér í sveitinni hefur verið mikið að gera og lítill tími gefist fyrir tölvuveru. Mamma og pabbi komu á mánudaginn. Það var gaman að sjá þau og krökkunum fannst gaman að sjá hér loksins annað fólk. Á miðvikudaginn voru allir fjölskyldumeðlimir komnir heim af heimsmeistaramótinu og upphófst mikil veisla meistaranum til fögnuðar. Síðustu dagarnir mínir hér hefðu ekki getað verið betri.

En ferðalagið er ekki búið. Nú mun ég halda til Lillehammer, síðar til Osló og að lokum til Íslands.

Sjáumst heima.... Valborg Rut

sunnudagur, ágúst 12, 2007

Heimsmeistarar :-)



Það var mikil gleði á meðal Hjelvikabúa í dag þegar Stian og Jarl urðu heimsmeistarar bæði í tölti og fjórgangi. Vitanlega eru allir í skýjunum, bæði í Hollandi og hér í Jakobsgarden. Þetta er náttúrlega alveg frábært og hefði ekki getað gengið betur :) Já í dag er maður nú bara stolur að vera agnarlítill norðmaður í sér, hvað þá á heimili heimsmeistara. Í morgun horfðum ég með krökkunum á fjórganginn síðan í gær og fannst þeim nú hálf skrítið að sjá mömmu, pabba og Jarl þarna á tölvuskjánum. Viðtal við pabba og allt og horfðum við á þetta mörgum sinnum. Í dag var ég langt frá því að vera sátt við ruv.is því allt beint íslenskt efni á nú að vera sýnt beint út á netinu. Þetta var sýnt beint í sjónvarpið, en kommon, hefði ekki verið hægt að gleðja okkur hér í útlöndum og senda þetta út á netinu líka. Ekki að þeim hefði munað eitthvað um þá vinnu. En engu að síður, við fyldumst með úr fjarska, lágum á netinu í leit að nýjustu myndunum, fengum fullt af símtölum frá Íslandi þar sem fjölskyldan mín fylgdist spennt með og heyrum við smá beint í gegnum símann til Hollands. En nú hlökkum við bara til að fá fjölskylduna heim og óska þeim enn og aftur til hamingju með titilinn :)

Mamma og pabbi eru lögð af stað í hið langa ferðalag. Með fulla tösku af skyri og sviðasultu. Já, þetta var efst á óskalista íslendinganna í Noregi. Hlakka mikið til að sjá þau á morgun og vona bara að þau finni litla sveitahúsið mitt eftir að hafa keyrt allaleið frá Osló. Líklega ætti ég að byrja að pakka. Í það minnsta ná í ferðatöskurnar mínar og tékka á því hversu miklu ég komi ofaní þær. Líklega ekki nema helmingnum. Svo mikið af dóti sem ég einhverra hluta á hérna. Hef aldrei verið svona sein að byrja að pakka þegar um flutninga er að ræða. En mér finnst bara svo skrítið að ég sé að flytja héðan. Er strax farin að sakna þeirra og kvíða deginum sem ég þarf að kveðja alla hér. En þetta er ekki alveg búið enn, við höfum ennþá fimm daga. Þá förum ég og foreldrarnir til Lillehammer þar sem við ætlum að vera fram á laugardagsmorgun. Þá verður stefnan sett á Hadeland þar sem eru glerverksmiðjur. Já mig hlakkar mikið til að komast þangað og eyða nokkrum krónum um leið og ég þyngi ferðatöskurnar enn meira. Svo verður það Osló, eflaust einhverjir þekktir ferðamannastaðir, en vitanlega ætlar prinsessan að draga foreldrana í nokkrar búðir eða svo. Enda á ég náttúrlega ekki neitt ;) Án djóks þá gæti ég skilið eftir nánast öll fötin mín hérna ef ég myndi tíma því. Flest hafa þau ekki verið notuð í marga mánuði. Skrítið. En svona er lífið :)


Bestu kveðjur til ykkar allra úr Jakobsgarden.....
Valborg Rut

föstudagur, ágúst 10, 2007

Atvinna og húsnæði á silfurfati

Fyrir nokkrum dögum síðan rakst ég á áhugaverða atvinnuauglýsingu í netheimum. Lítill einkarekinn leikskóli með tveimur starfsmönnum vantaði liðsauka. Leikskólinn er í Garðabæ og er rekinn í sérinnréttuðu tvíbílishúsi og er fyrir litla krakka á damömmu aldri. Furðulegt, fannst mér þetta heillandi? Þar sem ég er í raun í atvinnuleit, kannandi hina og þessa möguleika og efast einhverra hluta vegna alltaf um það að ég fái góða og skemmtilega vinnu á Akureyri ákvað ég að senda fyrirspurn um þetta. Byrjaði á að kynna sjálfan mig og segja hvað reynslu ég hafði af vinnu með börnum. Að ég væri eiginlega á leið heim til Akureyrar í haust en væri alveg til í að skoða aðra möguleika ef ég finndi skemmtilega vinnu og góðan stað til að búa á. Hafði þetta ekki margar línur en svo virðist sem þetta hafi hljómað ágætlega.

Ég fékk svo svar til baka þar sem konan sagði að henni litist mjög vel á þetta og langaði mikið til að fá mig í vinnu enda virkaði ég nú frekar aktív og dugleg. Hehe. Mátti endilega koma í viðtal um leið og ég kæmi heim og byrja 1. september ef okkur litist báðum vel á. Einnig gat ég fengið að búa í einu herberginu á leikskólanum. Frítt húsnæði og hefði 90 fm hús út af fyrir mig þegar ekki væru krakkar á staðnum. Þetta fannst mér heillandi. Kona að ráða í vinnu og bíður manni húsnæði þegar maður nefnir að maður þyrfti stað til að búa á. Ég velti þessu mikið fyrir mér. Fram og til baka, aftur á bak og áfram.

Er ég tilbúin til þess vera lengur í burtu frá Akureyri? Langar mig að búa í borginni? Ég ákvað að lokum að mig langaði heim til Akureyrar þó það sé eitthvað við þetta sem togar í mig. Þar sem ég á fjölskyldu og yndislegt herbergi. Mig langar til þess að búa með öllum hlutunum mínum. Öllu fallega dótinu mínu. Mér finnst eins og ég sé skildug til þess að fara heim núna. Hvað myndi Agnar sega ef ég kæmi bara ekkert aftur? Fannst eins og ég væri að bregðast ef ég færi eitthvað annað. Eftir mikla umhugsun vildi ég ekki halda þessari vingarnlegu konu í óvissu ennþá þar sem ég vil að hún fái góða starfsmanneskju á leikskólann sinn. Að lokum sendi ég henni í gærkvöldi að því miður gengi þetta ekki upp. En mér hafi litist mjög vel á þetta og langaði til að koma. En svona er lífið, maður getur ekki gert allt. Vonaði að hún finndi góða stelpu á leikskólann sinn.

Í dag var ég búin að fá meil frá henni. Það var svona: Æjæj!!! Var svo að vona að þú kæmir til okkar, því að það er sko greinilegt að þú hefur mikinn áhuga á börnum og ert örugglega hörkudugleg:o) Við bóndinn vorum einmitt að tala um þig í dag að ef þú hefðir komið þá vorum við að spá í hvort þú hefðir frekar viljað leigja tæplega 30 fm bílskúr á kannski ca. 30.000.-, heldur en vera í einu herberginu, því það getur verið gott að komast út af vinnustaðnum þegar maður er búinn að vinna:o) Annar bílskúrinn hjá okkur er nefnilega innréttaður sem íbúð.
Takk samt innilega fyrir auðsýndan áhuga og gangi þér rosa vel með allt sem þú ferð að gera!!! :o)

Þegar ég las þetta langaði mig eiginlega að snúa ákvörðun minni við, mæta á staðinn og flytja í bílskúrinn. Svona fólk langar mig að vinna fyrir. Þá sem vilja allt gera fyrir þá sem þau þekkja ekki neitt. Þá sem óska manni góðs gengis í öllu sem maður kemur til með að taka sér fyrir hendur. Í rauninni fékk ég á nokkrum dögum spennandi vinnu og húsnæði fært til mín á silfurfati. En ég neitaði. Draumavinnunni. Svolítið mikið líkt mér að vilja vinna á svona litlum stað fyrir litla krakka. Sé ennþá svolíð eftir þessu. Finnst eins og kannski hafi þetta verið mikið tækifæri sem ég var að glata. Kannski var þetta bænasvarið mitt. En ég fór ekki rétt með það. Ég sé eftir því að hafa kastað þessu í burtu og það er mikil löngun eftir þessu starfi. En þegar ólíkar tilfinningar og langanir eiga í hlut, þá verður maður að taka ákvörðun. En svona er lífið. Ef ég flyt suður núna, þá myndi ég kveðja heimili foreldranna alveg. Því ég vil núna búa með öllu dótinu mínu. Það er svo stórt skref. Finnst eins ég ég bergðist, foreldrunum, bræðrunum. Það er eitthvað sem togar í mig. Fjölskyldan sem ég hef ekki búið hjá síðan í maí í fyrra.

Hvað tekur við? Ég vona innilega að ég finni aftur eitthvað sem heillar mig jafn mikið og þetta. Hvers vegna þarf þetta að vera svona erfitt? Hví getur ekki ræst úr þessu og ég fundið eitthvað sem mér líkar á Akureyri? Hvað vill Guð? Hvar er sterka svarið sem ég bíð eftir? Langar mig örugglega heim til Akureyrar? Ég kem alltaf til með að vera Akureyringur og búa þar í framtíðinni. En er ég tilbúin til þess núna?

Mig langar að gera eitthvað gott. Þar sem er tekið eftir starfinu mínu og ég get gefið mikið af mér um leið og ég fæ mikið til baka.

En svona er lífið.

Endar nú dagur, en nótt er nær,
náð þinni lof ég segi,
að þú hefur mér, Herra kær
hjálp veitt á þessum degi .

Vertu nú yfir og allt um kring,
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Góða nótt góða fólk....

Valborg Rut

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Úff

Hvað er að frétta úr sveitinni? Ja ætli það sé ekki ælupesti sem hæst ber að nefna. Sem betur fer hef ég sloppið enn og vona svo innilega að ég fái þetta ekki! Við Leona Dís vöktum semsagt í nánast alla nótt, hún ælandi og ég í því að þrífa, baða, skipta á rúmum og reyna að sofa smá á milli athafna. Fórum svo niður hálf sex í morgun og þar hélt gamanið áfram. Ég á heiður skilið fyrir þennan sólarhring enda búið að vera brjálað að gera. Og ég afar stolt af mér að vera ekki búin að æla sjálf ennþá eftir að hafa þurft að þrífa þetta allt saman. Verst fannst mér þegar ég var að setja öll ælufötin, 5 náttföt, endalaust magn af rúmfötum, sængum og koddum og endalausar tuskur og handklæði í þvottavélina. Er þó ekki búin að ná að þvo þetta allt svo forstofugólfið er vel sett stútfullt af þvotti. Já vonum að það komi ekki margir í heimsókn. Líklega ekki hætta á því, hver vill svosem mæta þegar hann gæti farið heim veikur? Ja ekki myndi ég bjóða mig fram. En við lifum og það er að rætast úr deginu, litla skvísin að hressast og Fredrik fékk að fara til frænku sinnar að leika sér í allan dag sem var frábært. Já lífið er svo sannarlega yndislegt. Hehe.

Á mánudaginn koma mamma og pabbi. Skrítið að það sé alltí einu svona stutt þangað til. Er held ég ekki alveg að ná því ennþá. Á sunnudaginn eftir viku verð ég á Íslandi. Ævintýrinu er að ljúka. Starfi mínu sem au-pair stelpa ásamt því að vera húsmóðir og mamma í forföllum er að ljúka. Það er alveg stórskrítið. Hvað tekur við? Jú, eitt er víst að það verður Ísland í bili allavega. Vonast til að geta verið í fríi í nokkra daga, andað án hindrana að mér norðlenska loftinu og notið þess að vera til. Svo hefst atvinnuleitin. En ég er komin með ógeð af þeirri hugsun. Fleiri fréttir síðar, þvottavélin bíður fyrir myrkur því þá þori ég ekki út.... ;)

Hafið það gott, vonandi laus við veikindi og ælupesti....

Valborg Rut á Íslandi eftir alltof fáa daga.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Punktabogg!

  • Lífið hér í sveitinni gengur vel.
  • Góða veðrið er loksins komið og við brosum við sólinni og njótum þess að ganga um léttklædd á tásunum.
  • Í gær keyrðum við til Åndalsnes og lékum okkur þar, keyptum ís og fórum í nokkrar búðir.
  • Sáum brjálæðislega stóran örn og ég þakkaði mikið fyrir að vera inní bíl enda var hann bara rétt fyrir utan!!!!
  • Þegar heim var komið fórum við að sulla í sjónum.
  • Ég hata fjörur en harkaði þetta af mér.
  • Þreyttir en ánægðir krakkar sofnuðu eftir hörku dag.
  • Au-pair stelpan lagaði til eftir daginn, hreyfði sig á líkamsræktargræjunni í stofunni, varð svo hrein og fín og settist niður með fulla skál af ís og ávöxtum.
  • Ís og ávextir eru algjörlega málið á hverju kvöli :)

  • Við sváfum alltof lengi í morgun.
  • Gaman að eiga svona góða krakka sem sofa til tíu!!!
  • Gerist nú ekki oft en voru greinilega alveg extra þreytt... hehe.
  • Ég sló hraðamet, kom okkur öllum út hálftíma eftir að við opnuðum augun.
  • Skunduðum í leikskólann með Leonu Dís í aðlögun.
  • Gekk vel en var þó mjög glöð að sjá mig aftur eftir að ég lét mig hverfa í smástund.
  • Var þó ekki á því að hætta að leika sér í sandinum til að fara heim.
  • Bleiku fötin og gallapilsið sem ég setti krúttið mitt í í morgun var hrikalega skítugt eftir leikskólann.
  • Dísin var klædd úr öllu í forstofunni svo allt heimilið yrði ekki eins og sandkassi.
  • Borðuðum hakk og spagettí í kvöldmatinn og gólfið fékk líka smá.
  • Leona Dís voða dugleg að gefa svona með sér.... ;)
  • Tveir skítugir krakkar voru settir í bað og ilmuðu að lokum af jarðaberjalykt og hreinleika.
  • Hreinu börnin fóru voða góð að sofa enda verðum við að vakna snemma í fyrramálið til að mæta á réttum tíma í leikskólann. Leona í sinn og Fredrik í sinn.
  • Ég hlýt að njóta þess að liggja í sólbaði á meðan þau verða á leikskólanum.
  • Vonum bara að það verði sól :)

  • Er ég búin að laga allt til fyrir nýjan dag.
  • Nú mun ég fara og sækja póstinn.
  • Svo þríf ég baðherbergið.
  • Fæ frí frá líkamsræktinni í kvöld.
  • En hlakka til að setjast með niður með ís í skál en ávextirnir eru búnir.
  • Verður keypt meira á morgun.
  • Ó nei, dansþátturinn er í sjónvarpinu.... öllu frestað um klukkutíma ;)

Hafið það gott um víða veröld.....

Valborg Rut

sunnudagur, ágúst 05, 2007

Kærleikur er lykill lífsins


Hugsun er miklu sterkari krafur en þú gerir þér grein fyrir. Rektu því allar neikvæðar hugsanir á brott en gefðu jákvæðum, kærleiksríkum og skapandi hugsunum þínum kraft. Sjáðu alltaf björtu hliðina á lífinu. Því meira sem þú geilsar af gleði og kærleika, því meiri gelði og kærleika laðar þú að þér. Elskaðu alla í kringum þig og þú munt finna að allir bregðast vel við kærleika að lokum.

Kærleikur er lykill lífsins.

Við eigum það til að sökkva í neikvæðnina. Að finnast kannski allt svo tilgangslaust og eins og við séum í raun ekki neitt. En þannig er það auðvitað ekki. En það er þá sem við gleymum að líta á jákvæðu hliðarnar. Ég held að sama hversu slæmt eða neikvætt eitthvað er þá séu samt til jákvæðar hliðar á því líka. Því hvaða erfiðleika sem við göngum í gegnum held ég að við komum út úr þeim sem sterkari og mótaðri persónur. Það er jákvætt. Jákvættað geta nýtt erfiðleikana til góðs.

Kærleikur er eitthvað sem við getum ekki snert. En líklega búum við öll svo vel að eiga hann innra með okkur. Og við erum svo heppin að við getum gefið af honum til annarra, og aðrir geta gefið okkur til baka. Við þurfum ekki að rétta út hendina og segja: Hérna, ég gef þér hnefafylli af kærleika. Þetta er eitthvað sem við smitum út frá okkur, stundum ómeðvitað. Það er gaman að tala við fólk sem er fullt af gleði og kærleikaog þeim líður vel ef þeir geta gefið með sér af þessum góðu eiginleikum.

Höfum þetta að leiðarljósi. Smitum frá okkur kærleika, byggjum með okkur gleði og sjáum það jákvæða við allt og alla.

Án þess að vita hvert ég stefni, á hvað eða hvernig, þá stefni ég hátt.

Knús úr sveitinni, Valborg Rut.

laugardagur, ágúst 04, 2007

Lífið í dag

Í dag hefjast dagar mínir tíu þar sem ég gegni öllum hlutverkum á heimilinu nema því að vera barn. Nú er meiri hluti fjölskyldunnar í Hollandi eða á leiðinni til Hollands. Þar verður nýr heimsmeistari krýndur eða endurkrýndur sem við vonum náttúrlega! En við erum hér heima í fullu stuði og fengum þær fréttir í dag að það er spáð hitabylgju! Jibbý!! Nóg komið af kulda í bili!

Fredrik pælir mikið í því þessa dagana hvað klukkan sé og spyr stundum oft á hverjum 5 mínótum. Það skrítna er að hann tengir klukkuna alltaf við peninga. Svona samtal var mjög oft í dag: F: Hvað er klukkan? V: Hún er hálf þrjú. F: Vá! Það kostar mikla peninga!! Hehe svona er hann mikið krútt. Ég var þó að reyna að útskýra að það væri lítið sem ekkert samhengi á milli klukku og peninga. En hann stóð eins og svo oft áður fastur á sínu og klukkan kostar semst ennþá peninga.

Það var pitsa í kvöldmatinn. Þið getið séð fyrir ykkur litla skottið mitt sem oftast er mjög sjálfstæð. Öll út í rauðri pitsusósu og ekki bara andlitið heldur líka hárið og já meira að segja inní eyrunum. Svo ekki sé minnst á ermarnar á peysunni hennar. Þegar matartímanum lauk mátti því taka góðan tíma í að þvo ljósu lokkana með þvottapoka og ná öllum rauðu klessunum úr andlitinu við litlar vinsældir.

Mamma sagði að ég þyrfti örugglega að búa í tösku eftir að ég kæmi heim. Þegar ég spurði af hverju tilkynnti hún mér að þó svo ég væri með mikið af fötum í burtu þá væri skápurinn samt ennþá fullur og ég kæmi aldrei öllu því sem ég væri með með mér í hann. Ég vissi þetta nú alveg fyrir, enda má hreinsa vel út úr þessum skáp. Það virðist bara vera svoleiðis að maður tímir ekki að taka þetta allt. Hversu glatað er að taka helling af heilum fötum oft keypt í einhverri merkjabúð og mæta með á hljálpræðisherinn eða rauða krossinn? Finnst það eitthvað svo yfirdrifið. Að sumir geti leyft sér að taka bara úr skápnum heilan helling á meðan aðrir berjast við að eiga fyrir einni flík sem þau nota upp til agna. En svona er lífið. Svo er það líka þannig að sumt einfaldlega passar ekki lengur eða manni langar bara ekki að nota það lengur. En samt tímir maður ekki að taka þetta allt úr skápnum. Sumt er maður bara svo vanur að hafa þarna. Ja eða stendur í þeirri trú að kannski, kannski einhverntíman langi mig að fara í eitthvað af þessu. Sénsinn. Ég er á því að það sem maður hefur ekki farið í í ár eða tvö fari maður í flestum tilfellum ekki í aftur. En svo er líka einn flokkur enn og það er geymt til að líði ekki yfir mömmu. Ha bíddu þú varst að kaupa þetta og hefur eiginlega aldrei verið í þessu!!! Hehe en svona er lífið ;) Sum föt elskar maður bara meira en önnur ;)

Ég gæti eflaust í iðjuleysi mínu skrifað hér í allt kvöld þar sem börnin eru sofnuð og búið að koma öllu á sinn stað svo nýr dagur geti hafist í röð, reglu og hreinindum. En held þó ég fái mér ís og ávexti í stóra skál og setjist fyrir framan sjónvarpið.

Bestustu kveðjur heim á besta landið.....

Valborg Rut

föstudagur, ágúst 03, 2007

Sérstök klukkustund

Maður nokkur kemur heim úr vinnu, þreyttur og pirraður. Kemur að syni sínum þar sem hann bíður eftir honum við dyrnar.

"Pabbi, má ég leggja fyrir þig spurningu ?"

" Já að sjálfsögðu, hvað er það ?" svaraði faðirinn.

" Pabbi, hvað færðu borgað fyrir klukkustundina ?" "

Það kemur þér ekkert við. Því ert þú að spyrja svona hluti ?"svaraði faðirinn reiður.

" Mig langar bara að vita það. Gerðu það segðu mér hvað þú færð mikið fyrir klukkustundina ?" bað litli drengurinn.

" Ef þú þarft endilega að vita það, þá fæ ég 3.000 kr. á klukkustund."

" Ó, sagði sá stutti, og lítur niður. Lítur upp til pabba síns, og segir

" Pabbi, villtu vera svo vænn að lána mér 1.500 ?"

Faðirinn brást illur við. " Ef að það er ástæðan fyrir spurningu þinni, að þú gætir fengið lánaðan pening til að kaupa eitthvert bjánalegt leikfang eða einhverja aðra vitleysu, þá skaltu fara beint inní herbergið þitt og fara að hátta. Og hugsaðu um það hvers vegna þú ert svona sjálfselskur.

Ég vinn langan og erfiðan vinnudag alla daga og hef ekki tíma fyrir svona barnaskap!"

Litli drengurinn fór hljóðlega inn í herbergið og lokaði á eftir sér.

Faðirinn settist niður og varð eiginlega reiðari útaf spurningu litla drengsins.

Hvernig vogaði hann sér að spyrja svona bara til að fá lánaða peninga ?

Eftir um það bil klukkustund eða svo, róaðist faðirinn og hann fór að hugsa um að kannski hafi hann verið full harður við son sinn.

Kannski var eitthvað sem hann þurfti nauðsynlega að kaupa fyrir þennan 1.500 kr. og hann bæði ekki oft um pening.

Faðirinn gekk að herbergi sonar síns og opnaði dyrnar.

"Ertu sofandi vinur ?" spurði hann.

"Nei pabbi, ég er vakandi" svaraði drengurinn.

"Ég var að hugsa, að kannski hafi ég verið of harður við þig áðan sagði faðirinn. Þetta er búin að vera langur dagur og ég tók pirringinn minn út á þér. Hérna eru 1.500 kr. sem þú baðst um.

Litli drengurinn settist strax upp,brosandi. Oh, takk pabbi !" hrópaði hann.
Þreifaði undir koddann sinn og dró fram krumpaða seðla.
Það þykknar í föðurnum þegar hann sér að drengurinn á þegar pening. Litli drengurinn telur peningana sína rólega, og lítur á pabba sinn.
" Hvers vegna vildir þú fá pening fyrst þú áttir hann þegar .?"rumdi faðirinn.
" Vegna þess að ég hafði ekki nóg, en núna hef ég það," svaraði litli drengurinn.
" Pabbi, ég á núna 3.000. Get ég keypt klukkustund af tíma þínum ?
Villtu vera svo vænn að koma snemma heim á morgun mig langar til að borða með þér."

(Fékk þetta lánað á bloggi nokkru, en veit ekki hvaðan þetta kemur upphaflega

Knús í sveitinni....

Valborg Rut

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Spice girls og Nylon


Spice girls stelpurnar snúa aftur og verð ég nú að viðurkenna að ég væri meira en til í að fara á tónleika með þeim. Að rifja upp gamla takta syngjandi Spice girls lögin og dansandi með. Já það voru nú ekki fáar stelpurnar sem lifðu fyrir þessar skrítnu stjörnur. Ég var þó aldrei fremst í aðdáendahópnum og gekk nú alls ekki jafn langt og margir aðrir í dýrkuninni. Ég t.d. átti ekki bol með mynd af þeim eða myndir af þeim á herbergisveggjunum. En einn geisladisk átti ég og í dag var hann settur í græjurnar þar sem hann reyndist óvart meðferðis í útlandinu neðstur í geisladiskabúnkanum. Nauðsin í ferðalög ef svo skildi vera að flippstuðið og gelgjutaktarnir myndu brjótast út þó mest sé hætta á því í algjörri stelpuútilegu. Hehe. Hef nú lúmskt gaman að þvíað fylgjast með Viktoriu Beckham og öllum hennar uppátækjum, eða hneikslast á þessum óþolandi svip hennar og yfir því að hún sé alltaf með þennan skelfingar stút á munninum í stað þess að brosa eða í hvaða efnislitlu fötum hún gengur þann daginn. Finnst nú svolítið fyndið að þær hafi tekið saman aftur og séu á leið í ferðalag margra barna mæður á leið í gelgjuferðalag. Jú vitiði, ég væri alveg til í að líta þær augum. Hvort ég myndi hneikslast eða dá þeir yrði svo bara að koma í ljós. Í það minnsta skemmti ég mér við að spila lögin þeirra hér í dag.

En í framhaldi af þessu....

Ég óvart fór að fylgjast með ferðum Nylon hljómsveitarinnar þegar ég rakst á að Emilia ætlaði að hætta. Fékk svo séð og heyrt blaðið þar sem voru myndir frá brúðkaupinu hennar og svo skilst mér að eigi að gera sjónvarpsþátt um það þegar ný stelpa verður valin í stað Emiliu. Skrítið, maður er orðinn svo vanur að sjá akkurat þessar stelpur og er ekki að sjá fyrir sér nýtt andlit í hópnum. En allt er hægt og maður hlakkar nú baratil að sjá hvernig þetta á að fara fram. Rifjaði upp að þegar ég vann á Sólbrekku sungu krakkarnir lög með Nylon og loks vorum við skvísurnar á deildinni farnar að taka undir þeim til samlætis. Í dag var því úr að ég skellti Nylon disknum sem mér áskotnaðist einhverra hluta vegna í græjurnar og leyfði honum að klárast til enda. Reyndar sá ég að Leona var líklega aðeins of lítil fyrir Nylon ennþá. Ég hef nú ekki verið mikill aðdáandi þessarar hljómsveitar en finnst mér nú alltaf meira og meira til þeirra koma. Og kom mér verulega á óvart þegar ég sá að í myspace heiminum eru endalaust margar síður tileinkaðar þeim og skyndilega fannst mér eins og þær væru heimsþekktar stjörnur. Verða þær næstu Spice girls stelpur? Hehe já já ætli ég hætti ekki að tjá mig um þetta í bili.

Kveð úr stelpnahljómsveitapælingunum.......

Valborg Rut

miðvikudagur, ágúst 01, 2007

Ágúst!

Við erum að tala um að það er kominn ágúst. Ótrúlegt. Vá hvað þetta ár er að fljúga áfram á mettíma. Rosalega líður þetta hratt. Og ég er bara rétt að fatta að í þessum mánuði flyt ég til Íslands. Og ég er líka búin að taka eftir því að ég segji að ég sé að flytja aftur til Íslands en ekki að ég sé að flytja heim. Því í raun finnst mér ég alveg eins mikið eiga heima hér þó svo að auðvitað þekki ég fleiri heima og eigi nú allt dótið mitt og fjölskyldu þar. En svona er þetta skrítið.

Leona Dís er sérstaklega mikill fluguaðdáandi. Þegar fluga sést á borðinu eða einhvernsstaðar kjurr er hlaupið af stað í von um að fanga dýrið. Þegar verið er að borða er svo skyndilega ekki tími til þess lengur..... það er fluga... enn skemmtilegt! En það segir sig líklega sjálft að henni hefur ekki enn tekist að fanga flugu. Jafnvel þó svo að hún sé líka búin að æfa taktana með flugnaspaðann.

Ég er ekki alveg sammála henni með flugurnar. Ég verð eiginlega bara mjög pirruð á þeim því maður má vart setjast niður þá eru þær komnar og vilja vera með. Inni sem úti. Uppáþrengjandi þessi furðuverk. Setjast bara á mann án leyfis eða suða við andlitið á manni, það verður ekki langt þangað til ég verð orðin ansi góð með flugnaspaðann.

Það kom pínu blár himinn í dag. Jibbý!!!! Loksins!!!! Enda hélt ég uppá daginn og var ekki lengi að koma okkur skvísunum út í gönguferð til Vågstranda (8 km). Þýðir nú lítið annað en að byrja af hörku þegar heilsan er loksins komin í lag. (7, 9, 13) Og nú er ég næstum friðlaus því mig langar svo út að hlaupa. En ætli ég yrði ekki talin frekar biluð þá. En ég er náttúrlega pínu biluð fyrir svo það er kannski ekkert mál að fara nokkra kílómetra í viðbót :)

Stian er lagður af stað í langt ferðalag. Já heimsmeistaramótið er handan við hornið og hann er lagður af stað keyrandi til Hollands. Agnes og Ísak fara svo á laugardaginn og verða 10 daga. Hver veit nema við fáum endurnýjaða heimsmeistara til baka ;)

Eftir 12 daga koma mamma og pabbi til Noregs. Áætla að sækja prinsessuna þar sem hún hefur safnaða að sér svo miklu dóti að hún myndi eflaust aldrei komast heim með allt ein. Og svo er nú ekki leiðinlegt fyrir þau að kynnast landinu mínu og heimili síðustu sjö mánuðina. Þau koma hingað og verða í nokkra daga, svo keyrum við til Lillehammer og verðum þar eina nótt og svo til Osló ein nótt áður en við komum á klakann. Stefnan er svo að fara til Hadeland í glerverksmiðju og hlakka ég mikið til að þyngja töskuna aðeins þar. Eflaust á ég eftir að draga foreldrana í nokkrar búðir í Osló auk fleiri "túrista"staða sem á eftir að kíkja á.

Í fréttum er ekki meira að sinni.....

Valborg Rut sveitaprinsessa.