Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

sunnudagur, september 30, 2007

Ferðadagur :-)



Ferska fólkið í fjölskyldunni hélt úr húsi fyrir níu í morgun með heitt kakó og smurt brauð meðferðis. Jeppaferð með vinnunni hans pabba var að hefjast í þessu æðislega sunnudagsveðri. Haustlitirnir léku við okkur og Ísland stendur alltaf fyrir sínu. Ég væri til í að hætta bara að vinna og ferðast um landið og njóta haustsins. Hvenær verður lífið svo ljúft?

Eftir hlykkjótta vegi, upp og niður brekkur, uppá fjöll, ár og læki og steingrýtta fjallvegi, ef vegi mætti kalla, komum við loks að Seljahjallagili (efsta myndin). Þar var arkað um, skoðað og sumir tékkuðu á klifurhæfileikum sínum (stórhættulegt!).




Hluti bílaflotans..... hörku smíði allt saman!! (LandRover eigendur í meirihluta, hehe)







Eftir lengri keyrslu, hoppandi og skoppandu um allt í bílnum sökum stórgrýtis og landbúnaðartækis var stoppað í kofa ferðafélagsins á Húsavík í Heilagsdal (eða Heylaxdal?, í það minnsta borið svona fram...).

Hörku hús þar og ég gerðist mikill harðjaxl. Já takk fyrir, ég harkaði af mér og pissaði á kamri!!! Haha, ég var nú ekki á því en þar sem allir aðrir létu til leiðast gat ég nú ekki verið verri. Ég lifði af lyktina, en skyndilega kom að því að taka lokuna/læsinguna frá hurðinni. Ó nei.... hversu margir hafa eiginlega snert þetta??? Ég ætlaði ekki að geta opnað. Tugir fólks, allir búnir að ferðast um hæðir og fjöll og enginn þvegið sér um hendurnar! Úffame. Ég opnaði, hljóp að læknum, setti hendurnar ofaní og gerði mitt besta til að þvo af mér sýklana. Svo var ég spurð. hvað helduru eiginlega að það hafi margir setið þarna? Úff, ég gat ekki hugsað um að hugsa það.


Að lokum var snúið heim á leið og sömu hlykkjótu leiðirnar keyrðar aftur. Skemmtilegra en það virðist í skrifuðum orðum, en þetta var alveg hörku stuð skal ég segja ykkur ;)

Á myndinni eru bílarnir í fjarska.... tekið úr göngunni uppí Seljahjallagil :)

Kveðjur frá útivistarklæddri mér :)

laugardagur, september 29, 2007

Þú getur líka orðið falleg/ur

Mynd af leikkonunni Michelle Pfeiffer birtist á forsíðu tímarits með fyrirsögninni, „Það sem Michele Pfeiffer skortir er.....ekkert!“

Blaðamaður nokkur komst þó síðar að því að leikkonuna vantaði nokkuð þrátt fyrir allt. Myndin af Pfeiffer var nefnilega lagfærð fyrir 1500 dali áður en hún var birt. Á reikningi þess sem lagaði myndina má sjá lista yfir þau atriði sem hann þurfti að lagfæra til að fegra Michelle Pfeiffer: Lagfæra húðlit, milda augnlínu, milda broslínu, skerpa varalit, skera af höku, fjarlægja hálslínur, milda línu undir eyrnasnepli, auka lýsingu á eyrnalokkum, bæta við kinnalit, hreinsa hálslínu, hreinsa hár sem stóð uppúr, fjarlægja hár af kjól, lagfæra háralit, bæta við hári ofan á höfði, bæta við hliðar kjóls til að fá fallegri línur, stækka ennið, bæta á öxlum á kjól, milda hálsvöðva, hreinsa og milda krumpur í kjól undir handlegg og bæta við saumi á merki á hægri hlið.

Samtals: 1.525 dalir.

Allir geta orðið fallegir ef mynd þeirra er lagfærð fyrir 1500 dali. Við megum ekki bera okkur saman við stjörnur hvíta tjaldsins og þá sem virðast hafa allt sem okkur dreymir um. Þetta fólk er rétt eins og þú og ég. Innst inni þráir það væntumþykju og tilgang. Sumir halda að þeir geti öðlast þessa hluti með frægðinni. Það er mesti misskilningur.
Það er ekki allt ekta sem við sjáum. Við horfum aðdáunar augum á þessar fallegu verur í blöðunum eða á stórum auglýsingaskiltum um allann heim. Hugsum, vá hvað þau eru heppin að vera svona falleg! En við megum ekki grípa við þessu öllu. Við sjálf erum alls ekki síðri. Líttu á innihaldið, hjartað frekar en línurnar. Er ekki miklu mikilvægara að vera náttúrulegur og vel innrættur?

Hugsað um stund..... Valborg Rut

(Sagan og hluti færslunnar var fengin að láni á www.kirkjan.is)

föstudagur, september 28, 2007

Stelpa eða kona?

Samtal systkina:
Valborg: Þú þarft nú að fara í klippingu!
Agnar: Hvað þá þú?
Valborg: Ég má hafa sítt hár, ég er stelpa...
Agnar: Stelpa?
Valborg: Já...
Agnar: Þú ert kona!

Þar hafiði það, ég er hér með orðin kona. Í það minnst finnst litla bróður mínum ég greinilega orðin frekar gömul. Ég þvertók fyrir þetta og sagðist vera stelpa. Ég yrði ekki kona strax!!! Nei takk fyrir, ég verð ekki kona fyrr en ég verð orðin frú!

En þetta virðist nú vera raunin. Mér finnst nú alltaf jafn fyndið þegar fermingarkrakkarnir segja að konan sé að koma.... og ég hugsa, já konan, konan sem er aðeins sjö árum eldri en þau! Verð ég þá orðin kelling eftir 5 ár? Ji minn, það vona ég ekki. Ég er ennþá stelpa, stelpuskotta flakkandi um allt með öllum sínum uppátækjum. Seint verð ég kölluð kona í mínum huga. Umræðu slitið :)

Valborg Rut stelpa langt fram yfir giftingu. (ef ég gifti mig einhverntíman, annars verð ég ennþá stelpa þegar ég verð áttræð... hehe ;)

miðvikudagur, september 26, 2007

Ef við hjálpum ekki hvert öðru, hver gerir það þá?

Allt sem þú þarft til að finnast hamingjan vera hér og nú er einlægt og nægjusamt hjarta.

Mig vantar eitthvað. Ekki hluti. Ekki einhver veraldleg gæði og munað. Mig vantar jákvætt viðhorf til lífsins. Vitnesku um hæfileika mína og notagildi í lífinu. Ef mig langar eitthvað stoppar það stundum á þessu. Er ég rétta manneskjan í þetta? Tæki einhver eftir því ef ég léti mig hverfa í nokkra daga? Kannski er ég of kröfuhörð. Kröfuhörð út í lífið, við mig sjálfa, út í aðra.

Allar ferðir hefjast með einu skrefi.

Veikindi í upphafi vetrar

Veikindadagar eru ekki í sérstöku uppáhaldi í mínu umdæmi. Ég get reyndar ekki kvartað þar sem veikindadagar mínir hafa verið afar fári síðasta árið. En þegar veikindi herja á neyðist maður til að sætta sig við þau þangað til þau hverfa á braut. Kvefdagarnir eru augljóslega ekki á undanhaldi, er bókstaflega að kafna úr kvefi og leiðindum. Gaf mig þó ekki í morgun og mætti í vinnu rétt við meðvitund. En allt kom fyrirr ekki, það var ekki nokkurt vit í veru minni á leikskólanum. Eftir hádegismatinn lét ég því tilleiðast og hélt heim á leið. Þar er ég nú í náttbuxunum mínum, liggjandi uppí rúmi, reyni að safna kröftum og losna við kvefið. Kvef og kvef er nefnilega ekki það sama.

  • Mig er farið að langa mikið að fara á hestbak. Hef ekki enn komist í dalinn til að láta verða af því. Tek eflaust einn hestadekurdag fljótlega.
  • Mig langar í Landroverinn okkar sem er svo mikið sem bilaður. Nú kann ég ekki lengur að eiga einn bíl. Auk þess líkar mér betur við landbúnaðartækið en litla hvíta skröltið.
  • Mig langar í heimsókn til Noregs.
  • Mig langar í verslunarferð til Glasgow með Helgu.
  • Mig langar að vera ofur dugleg að hreyfa mig, lyfta og hlaupa, endurheimta flottu magavöðvana mína og bæta upphandleggsvöðvana ögn meira.
  • Mig langar að það sé til hellingur af skemmtilegu félagsstarfi fyrir fólk 18-25 ára.
  • Mig langar að taka þessar glötuðu hraðahindranir á götum Akureyrar sem fjölga sér með hverjum deginum.
  • Mig langar að breyta flestum 30 km skiltum í 50 km því ég tel að á flestum stöðum á Akureyri þar sem eru aðeins 30 km sé það algjörlega óþarfi. Brátt verður maður fljótari að ganga en keyra. Í það minnsta ef allar götur verða götur fyrir fólk á sniglahraða.

Kveð úr herberginu....

Valborg Rut

mánudagur, september 24, 2007

Um allt og ekkert

Hvernig í ósköpunum stendur á þessu bloggleysi? En þrátt fyrir það er talvan opnuð á hverju kvöldi. Stundum finnst mér ég bara ekki hafa neitt að segja. Aðra daga hef ég gert svo mikið eða gæti skrifað um svo margt að ég veit bara ekkert hvar ég á að byrja. Ég hef frá mörgu að segja og hef mikið um að tala. En áhugi annarra virðist vera takmarkaður enda skilja kannski ekki allir umræðurnar. En þegar eitthvað af þessu gerist fyllist maður vonleysi og kemur sér ekki í það að byrja skrifin hér.

En allavega. Hið yndislega nýuppgerða herbergi hefur næstum verið fullkomnað. Myndirnar eru komnar á veggina og fjögur ný listaverk hengd upp. Mér er sagt að ég sé eyðslukló en líkist Helgu frænku minni að mörgu leit. Finnst gaman að eiga eitthvað flott til að hafa í kringum mig. En ég er algjörlega á því að ef maður á pening og langar í eitthvað sem endist alla ævi, því ekki að gera stundum vel við sjálfan sig og leyfa sér að kaupa það? Einhvern daginn ætla ég að eiga heimili líkast ævintýri. Myndin er aðeins til í hugmyndaformi.

Ég er byrjuð á hinu mikla hilluverkefni. Norsku tröllin mín sitja í grjótinu á milli ljósanna sem lýsa upp glerhillurnar. Er þó langt í frá búin, en byrjunin lofar góðu.

Það er eitthvað kvef að angra mig. Og hósti sem heldur vöku fyrir fjölskyldumeðlimum í öðrum herbergjum. Yfir því kvartaði Baldur allavega, sagðist ekki getað sofið því við Agnar hóstuðum til skiptis og það bergmálaði um alla efri hæðina. En... flest er betra en hálsbólga ;) Er á meðan er.... :) Veikindi er þó langt því frá á dagskrá, spurning um að rifja vítamínið upp við tækifæri.... ;)

En í fréttum er ekki meira að sinni.......

Valborg Rut

föstudagur, september 21, 2007

Hver þá?

Stundum get ég verið afskaplega dugleg. Föstudagur og allir hlakka til nýrrar helgar. Hversu margir myndu taka föstudagskvöldið sitt í að laga til og skúra annarsstaðar en heima hjá sér á þessu mikla kvöldi? Jú mér datt það í hug. Um leið og ég hafði lokið vinnu minni klukkan fimm, fór ég heim, skipti um föt og fór svo í Sunnuhlíðina þar sem ég dvaldi ein með sjálfri mér að ótöldum skítnum. Þar hóftst ég handa við að laga og þrífa. Eflaust sést ekki svo mikið að ég hafi eytt þarna heillöngum tíma, en það er svosem í lagi ef ég veit að það er búið að laga þetta til og þurrka af því helsta. Sumir eru þannig gerðir að þeir sjá ekki rykið, er nokkuð sama þó hlutirnir séu einhvernegin í hillunum og svo framvegis. Mér er ekki sama. Ég vil hafa hlutina alla á sínum stað, vel setta í hillurnar og sem allra minnst ryk. Margir taka ekki einu sinni eftir breytingunni sem verður. En sem betur fer eru aðrir sem hafa auga fyrir þessu. Á þó eftir að laga þetta aðeins og eyða töluvert meiri tíma í þessa iðju mína. Jafnvel þó svo að ég væri búin að skúra fannst mér ennþá hálf skítugt. Spurning um að gefa sér tíma í að skúra þetta aftur svo ég verði ánægð. En ekki í kvöld, dagar kemur á eftir þessum degi.

Nú eru flestir í þessu húsi sofnaðir. En ég er hér ennþá í myrkrinu. Búin að tala endalaust oft við Helgu í símann í kvöld og ófá sms á milli landshluta í dag. Hvernig er hægt að slíta okkur svona í sundur? Skil bara ekkert í þessu. Eftir skógardagana virðumst við hafa um nóg að tala enda getum við talað, hlegið ja eða jafnvel þagað eins og okkur listir. En fólk virðist samt vera búið að greina okkur í sundur núna. Það er hægt að tala um okkur í sitthvoru lagi. Hehe, einu sinni vissi fólk bara að æ já stelpurnar frá Akureyri, eða Helga og Valborg, sumir vissu ekki hvor var hvað, eða bara að talað var alltaf um okkur saman þar sem við gerðum flest allt saman. En nú eru tímarnir aðrir, við búum ekki saman, við búum á sitthvorum landshlutanum, um tíma í sitthvoru landinu og þekkjum sitthvort fólkið þó okkur finnist við þekkja alla sem hin þekkir þar sem við tölum nú mikið saman... hehe. En get nú alveg sagt að það er stórskrítið að vera alein á Akureyri. Ekki alein, en án Helgu! Hver á að hanga með mér í sunnuhlíðinni? Liggja uppí sófa með mér og tala um allt og ekkert? Hver á að þegja með mér án þess að það sé vandræðalegt? Hver á að kaupa endalaust oft ís með mér, labba með mér í kjarna, fíflast, syngja, keyra og vera? Þetta lærist, við getum allt!

Nóttin bíður, brátt dett ég inní draumaheima svífandi í upplýstum himni stjarnanna.

Elskið ykkur sjálf.....

Valborg Rut

fimmtudagur, september 20, 2007

Tímaskortur

Mér finnst ég eiga að gera svo mikið. Eins og ég verði að vera alltaf á fullu eða það eigi eftir að gera svo mikið hérna. En samt ekki svo mikið. Þegar ég kem heim úr vinnunni klukkan fimm á daginn byrja ég yfirleitt á því að finna eitthvað smá að borða sökum hungurs. Svo gleymir maður sér yfir einhverju, fer í sturtu, skiptir um föt.... og hvað? Dagurinn er búinn áður en maður veit af. Í gær meira að segja steingleymdi ég mér í mínum eigin heimi og fattaði ekki fyrr en seint og síðar meir að ég gleymdi að gefa strákunum að borða í kvöldmatnum, reyndar fékk ég ekki bein skílaboð um það en var bent á það að systir þeirra væri nú á þrítugsaldri!!! En það þarf nú samt að segja mér þá að fara í búðina, að það sé ætlast til þess að ég eldi matinn og gefi hálf fullorðnum bræðrum mínum að borða. Auðvelt að gleyma sér þegar einn horfir á sjónvarpið, annar í tölvunni og systirin herbergiskær, talandi í símann með tölvuna opna og heyrir ekki orð frá bræðrunum enda þeir uppteknir við sínar eftirlætis iðjur. En ji minn, ekki skrítið að mér finnist ekki nokkur hlutur komast í verk.

Ég þarf að laga fataskápinn minn. Ég á ennþá eftir að hengja upp myndir og annað sem gegnir því hlutverki að gera herbergið mitt að því sem það er. Get ekki ákveðið hvar ég vilji hafa hvaða mynd. Er líka með eina mynd í láni úr listabúð ó óákveðið langan tíma þar sem ég vildi tékka á því hvort hún fúnkeraði í herberginu. Niðurstaða ekki komin í málið, myndin er reyndar mjög flott, en ég vil þá helst setja hana í annan ramma svo hún verði í stíl við hinar. Já já ég er vel skrítin á köflum. Ég þarf að hitta þessa fáu vini sem ég á hérna á Akureyri. Sólveig, eru ekki tvær til þrjár vikur síðan við ætluðum að kaupa ís? Fer alveg að gefa mér tíma í þetta! En í raun hef ég ekkert að gera. Nema reglubundnar skyldur auðvitað, vinna, borða, sofa. En samt finnst mér ég ekki hafa tíma til neins. Þó ég hafi nógan tíma.

Kannski ætti ég að hefjast handa við hillugerð í kvöld. Einni hillu hefur ekki verið gefið sérstkakt hlutverk. En hlutverk hennar verður líkelga það sama og áður. Grjót og minni steinar, eitthvað með ljósi til að lýsa upp glerhillurnar. Kvíði fyrir að byrja, en er samt staðráðin í því. Síðast þegar ég tók mér þetta verkefni fyrir hendur tók það margar vikur. En að lokum var ég svo ánægð að þetta hefur fengið að rykast í tvö ár því vitanlega er ekki hægt að þurrka af þessu! En tímdi ekki að taka þetta fyrr en núna, tímar breytinga, þetta skal lífga uppá eins og margt annað.

Mér er alltaf kalt. Skil ekkert í þessu. Mér finnst bara ekkert gaman að vera í lopapeysu og ullarsokkum innandyra þó það virðist oft vera raunin. Vil frekar vera á tásunum og ekki í þykkri peysu.

Ji minn einasti, hvað er ég að eyða tíma í þetta? Er farin að gera eitthvað gáfulegra! En hvað?

Knús á ykkur öll....... Valborg Rut

miðvikudagur, september 19, 2007

Skógardögum lokið

Ólíkar persónur, ólík í útliti, ólík utan sem innan. Glaðleg fermingarbörn hafa full af orku hafa litað daga mína. Vatnaskógur tók á móti okkur með roki og rigningu. Skógarganga í sliddu og drullu var mis vinsæl en flestir stóðu sig með príði. Skítug, blaut og köld komumst við að hlýjum húsunum. Sumir glaðir eftir skemmtilega göngu, aðrir reiðir yfir "lífshættulegri" skógargöngu í "ógeðisveðri". Söngurinn fyllti vit okkar á kvöldvökum, andlitin hlógu og brostu.

"Stelpur, nú vil ég að þið slökkvið á gelgjunni." Mér varð svo á orði þegar gelgjustælar í messuratleik voru að yfirbuga mig. Það er ekkert mál að hlægja stundum og mikið, minnsta mál að vera svolítil gelgja á þessu tímabili. En einhvernsstaðar verða mörkin að liggja. Þögnin og alvarlegri hliðin verður að vera til þegar það á við.

Hressar og kátar eldhússtelpur, elduðu, bökuðu, sungu og jafnvel dönsuðu við vinnu sína. Með gítarinn héldu þær í vakningu og sungu hárri raust við opnar dyr sofandi stelpna. Sygjuð andlit teigðu sig að dyragættinni, undrandi yfir morgunhressleika þessa fríða starfsfólks.

Verkefni mín voru fjölbreytt og ólík. Öll skemmtileg, unnin með frábæru fólki. Endurnærð og full af orku og gleði er ég komin heim og held áfram venjubundnum Hómasólardögum.

Takk fyrir skemmtilega vinnudaga besta fólk :)

Valborg Rut

miðvikudagur, september 12, 2007

Hugsaðu jákvætt það er léttara.



Þessi orð eiga það til að mæta mér þegar ég opna ísskápinn. Á honum hanga geðorðin 10 síðan þessi segulplata datt innum bréfalúguna. Hugsaðu jákvætt, það er léttara. En það er ekki alltaf léttara. Í raun er auðveldara að hugsa neikvætt. Að sjá að fyrra bragði hvað okkur líkar ekki, hvað er neikvætt. En líklega er ekki átt við það svona. Heldur er hugurinn léttari og skemmtilegra að lifa ef við hugsum jákvætt. Jafvel þó stundum sé erfiðara að hugsa jákvætt en neikvætt. Hugsum jákvætt, það er léttara til lengri tíma.

Látum ekki mótlæti á lífsins göngu slæva okkar innri gleði. (Pétur Þórarinsson)


Verum jákvæð, lífið er eitt stórt JÁ!

Fyrst fannst mér engillinn á myndinni frekar ólíkur þeirri englaímynd sem maður gerir sér dagsdaglega. Þangað til mér fannst hann lýsa baráttu, ekki gefast upp heldur berjast hetjulega þar til við náum árangri.

mánudagur, september 10, 2007

Sá sem fremur kýs að brosa en reiðast, ber ætíð sigur úr bítum.

Eftir rólega helgi í dalnum með tilheyrandi marengstertuáti og sófaspjalli hefur ný vika tekið við í bæ erils og þeytinga. Kindurnar komu móðar og másandi af fjöllum, svo þreyttar að halda þurfti á nokkrum þeirra síðasta spölinn. Hestarnir þeystu um með glaðbeitta gangnamenn eftir árlegan atburð. Hestarnir voru frelsinu fegnir enda sveittir og blautir eftir vætusamar göngur þegar þeim var slept á túnið við réttina. Glaðbeittir gangnamenn, börn og aðrir sveitungar hófu að koma kindunum í rétt hólf áður en rekið var heim á bæjina. Karlarnir hófu upp raust sína með pela í hönd og söngurinn ómaði innan úr miðju Tunguréttar. Það er alltaf viss stemning á stað sem þessum. Fólk stoppar og spjallar, heilsar, horfir á þreyttar kindur og dáist af duglegum hestunum sem hjálpað hafa til við reksturinn. Hundarnir blautir og þreyttir, margir hverjir hásir eftir daglangt gelt á tregar rollur. Alls konar fólk, fólk úr sveitinni, fínna fólk og fólk eins og ég. Ég sem þekki mörg andlit en fæstir þekkja mig. En finnst samt tilheyra þessum árstíma að kíkja í Tungurétt, einfaldlega því það er sveitísk upplifun.

Það eru um 7 flugur í kringum mig. Það er því miður ekkert svo vinsælt. Ég veit vel að það er afskaplega gaman að setjast að í herberginu mínu og að þar er gaman að vera fluga á vegg. En ég vil bara alls ekki að það sé flugnaskítur á nýmálaða loftinu mínu, ja eða loftlistunum sem ég eyddi miklum tíma í að mála! Eða dauðar flugur í ljósinu.... nei takk því ég nenni alltof sjalfan að losa þær úr. Mig hefur reyndar alltaf langað í gæludýr. En húsaflugur sjaldnast verið efst á lista. Ótrúlegt að þær geti bara boðið sér sjálfar. Ekki getur hundirnn sem mig langar í boðið sér sjálfur. Honum yrði eflaust umsvifalaust hent út. En flugurnar... bara því þær fljúga, eru litlar, svartar og skrítnar komast þær upp með að dvelja hjá okkur. Einfaldlega því ég hef ekki list á því að hoppa um allt með flugnaspaða eða glas.

En svona er lífið....

Heimasætan í prinsessuherberginu.

laugardagur, september 08, 2007

Kosnaður flugmiða og önnur speki

Leið okkar liggur ekki um grængresið mjúka, hún er fjallvegur og talsvert grýtt. En hún liggurr uppí mót, áfram í sólarátt.

Er á leið í Svarfaðardalinn. Mamma er að baka, ég á að verað pakka. Settist hins vegar við tölvuna örstutta stund. Tekur svosem ekki langan tíma að finna til einar buxur, bol og ullapeysu. Og náttföt, ætlum að vera þangað til á morgun. Komum til með að kíkja á fólkið í Tungurétt á morgun. Þó ég þekki ekki marga er viss stemning í því að mæta í réttirnar og sjá uppáhalds hestana sína koma með uppáhalds syngjandi sveitakallana mína og nokkrar rollur. Þó mér finnist þær nú ekkert skemmtilegar nema rétt á meðan lömbin eru.

Ég er brjáluð yfir því hvað innanlandsflug hefur hækkað mikið. Það er ekki nokkur leið fyrir fætæka leikskólastarfmenn, hvað þá skólafólk að fljúga suður. 25.000 takk fyrir pent. Fyrir sömu upphæð get ég flogið til Glasgow. Kommon, þetta er nú á sama landi og fullt af fólki sem þarf að skreppa suður nokkra daga. Þetta er nú ekki langt í burtu. En jæja, þýðir lítið að svekkja sig yfir því sem maður getur ekki breytt. En.... ef þú ert á leið suður næsta föstudag og leggur af stað um 17:15 máttu endilega láta mig vita.

En nú þarf ég að hafa hraðann á og skella mér í sveitina. Hafið það gott um víða veröld.... :-)

Valborg Rut á leið í uppáhalds Laugaselið sitt.

föstudagur, september 07, 2007

Helgarfrí

Föstudagar eru dagar gleðinnar. Frídagar framundan og börnin á leikskólanum í föstudagsskapi. Svo virðist sem þau séu ögn háværari á föstudögum enda vita þau að framundan eru samverustundir með fjölskyldunni. Það sama á við á mínu heimili. Við reynum að finna okkur eitthvað til dundurs, saman eða í sitthvoru lagi. Baldur labbaði í dag uppí Laugafell með skólanum. Agnar er á leið á skautadiskó með vinum sínum, mamma fór í golf með vinnufélögunum. Eftir sitjum við pabbi aðgerðarlaus í kotinu. Ég er að verða þreytt á þessum heimakvöldum. Í umhverfi þar sem maður er vanur því að hafa nóg að gera er allt í einu ekkert. Það er vægast sagt skrítið. Maður bara er. Svo ef þig langar í félagsskap sem er "út úr húsi" máttu endilega láta mig vita. Einnig ef þú hefur skemmtilega kvöld eða helgarvinnu handa mér.



Mér skilst að helgarplön fjölskyldunnar séu að fara í dalinn góða á morgun. Gista og tékka á fólkinu í réttum á sunnudaginn. Kannski maður ætti að skella sér í ræktina á Dalvík, hehe ætli það séu ekki passlega fáir þar? Kannski of fáir....hehe.



Alþjóðlegi engladagurinn er á morgun. Ég mun sóma mig vel á þeim degi með alla þá engla sem búa í herberginu mínu. Einhverra hluta vegna hafa þeir komið hingað hver á eftir öðrum, ólíkir, en hver og einn sérstakur á sinn hátt.

Ég vona innilega að bloggandinn komi brátt aftur yfir mig. Finnst línurnar mínar hér alltaf verða ómerkilegri og ómerkilegri. En fyrst þú ert að lesa þetta finnst þér þetta líklega skemmtilegt. Því annars væriru líklega ekki hér.

Úr herberginu besta, þó útsýnið mætti vera betra.

Valborg Rut

miðvikudagur, september 05, 2007

Tvítug afmælisstelpa :-)

Ég á afmæli í dag. Já ég er formlega orðin gömul og amma gamla tilkynnti mér að nú væri ég komin á giftingaraldur. Furðulegt, ég sem er ekkert á leið að gifta mig. Enda er ég svo ung ennþá og ætla að eiga mörg stórafmæli í viðbót. En þó maður eigi afmæli þurfti maður víst að vinna í dag og kom ekki heim fyrr en rétt til að komast í sturtu og í skárri föt áður en familían kom í mat. Já það er án efa gott að búa heima á svona stundu, mamma búin að standa á haus við að elda og baka í nótt og í dag á meðan ég var að vinna. Fínt að koma heim og veislan bara tilbúin ;) Svo hér er búið að vera nóg að gera, nóg að borða og nóg að tala um. Elsku besta fólk, takk æðislega fyrir mig :)

Rétt í þessu var ég að klára að hjálpa Agnari að læra. Ótrúlegt allt þetta heimanám, kem aldrei til með að skila þetta til fulls. Jú jú menntun er mikilvæg og allt það, en hvernig eiga börn að vilja koma beint heim að læra eftir marga klukkutíma í lítilli kennslustofu? En sem betur fer er þetta oftar gert á daginn, nema svona öðruvísi daga. En eitt virðumst við systkinin hafa sameiginlegt, þessi heilmikli námsáhugi og fullkomnunarárátta gagnvart náminu.....!! hehe. En eitt má ég eiga sem ég hef fram yfir þá að hver einasta vinnubók var vandlega lituð, allar forsíður litaðar og skreyttar, vel merktar og allt í röð og reglu. En sennilega tengist þessi kostur því að ég er stelpa. En um það má lengi deila.

En nú er dagur að kveldi kominn.... og því mun ég hætta þessum skrifum. En hver veit nema ég lesi smávegis í norsku bókinni (já Helga, ég er alveg að komast inní þetta). Á morgun er vinna, líka daginn þar á eftir, svo kemur helgin og á sunnudaginn eru réttir í tungurétt í Svarfaðardal. Ég er á því að við Laugaselsbúar eigum að fara og sýna okkur, sjá aðra svo við sýnum nú smá lit í sveitinni. Og já, var ég búin að segja ykkur að ég fann sveitabæ til sölu í Svarfaðardal sem mig langar mikið í? Í það minnsta, ef þið eigið hellings pening eru frjáls framlög vel þegin. Hehe ;)

Sólveig, hvernig var það með ísferðina okkar???

Jæja, góða nótt :-)

Valborg Rut tvítug sveitastelpa í "borg".

sunnudagur, september 02, 2007

Mamma, megum við fá hund?

Tárin spíttust úr augunum þegar ég þaut niður háskólabrekkuna á hjólinu mínu. Kaldur vindurinn gerði það að verkum að augun mín fóru alveg í klessu og ég sá næstum ekki neitt. En það var gaman að láta sig renna niður brekkuna áður en ég mátti hjóla heim á leið uppímóti. Já, í dag fór ég út að hjóla. Já þið lásuð rétt. Ég af öllum fór út að hjóla. T'imi til kominn að finna sér einhverja hreyfingu hérna á Íslandinu. Er þó ekki viss um að ég leggi hjólasportið fyrir mig en það er ágæt tilbreyting. Mér finnst þó alltaf jafn hræðilegt að vera svona úti á meðal fólks að hreyfa mig. Bara það að það er fólk í bílum sem gæti hugsanlega verið að velta því fyrir sér hver sé að hjóla þarna upp brekkuna veldur mér hugarangri. Ég gæti farið út að hlaupa. En þá mjög snemma morguns svo sem fæstir séu á ferli. Ég gæti farið í ræktina en þar er svo margt fólk. Ég gæti reynt að venjast því að láta aðra horfa á mig. Og ég gæti vanist því að vera í líkamsræktarstöð með helling af öðru fólki. En ég sé samt ekki fyrir mér að það gerist á næstunni. Ég finn einhverja lausn. Mig langar að hreyfa mig en veit bara ekki hvar. Hvar er pláss fyrir fólk eins og mig? Mig langar heim í sveitina mína í Noregi. Þar var alltaf hægt að hreyfa sig án þess að hafa áhorfendur.

Í dag heyrði ég að Agnar var niðrí eldhúsi að biðja mömmu um hund. Aumingja foreldrar okkar. Fyrst kem ég og bið um næstum öll möguleg dýr. Hund, hest, páfagauk, kanínu, kött, gullfiska, hamstra og já, meira að segja kú því ég sagði að mér finndist beljumjólk góð. En held að það hafi bara verið rugl, ég hef hvorki drukkið beljumjólk né bæjarmjólk í mörg ár. Foreldrar mínir létu undan með gullfiskana. Ég hef alltaf mátt eiga fullfiska, minnsta málið. En þegar ég grenjaði stanslaust í tvær vikur því mig langaði svo í páfagauk.... þá var foreldrunum öllum lokið og létu undan. Við fórum í dýrabúðina þar sem ég valdi þennan líka fallega græna páfagauk. Ég hélt náttúrlega að hann yrði jafn gæfur og páfagaukar foreldra minna sem ég hafði heyrt ófáar sögur af. En svo varð ekki. Ég var skíthrædd við þetta litla dýr. Það beit mig og ég öskraði af taugaveiklun þegar pabbi leyfði honum að fljúga um íbúðina. Tveimur vikum síðar skilaði ég fuglinum í búðina. Eftir allt það sem ég hafði lagt á mig. Furðulegt. Nokkrum árum seinna fékk ég kanínu með því skilyrði að hún yrði í sveitinni. Það gekk eftir og það var náttúrlega voða gaman. Verst að ég veit ekkert hvað varð um hana að lokum því vinkonurnar tvær fóru í sitthvora áttina.

Það er eitthvað við dýr sem heillar mann. Öllum krökkum langar einhverntíman í dýr. Nú skil ég alveg af hverju ég mátti ekki fá öll dýrin sem mig langaði í. Ég myndi aldrei leyfa öll þessi dýr á mínu eigin heimili. Ef ég hefði fengið þetta allt hefði ég örugglega viljað skjaldböku. Við systkinin höfum öll viljað fá hund.

Mig langar ennþá í hund. Hitt er allt dottið uppfyrir. Nema náttúrlega hesturinn, en það er óskiljanlega dýrt dæmi. Það bíður þangað til ég eignast á gamalsaldri einhvern pening. En hund langar mig í og skildi ég bróðir minn vel þegar hann bað mömmu um hund í morgun. En hér á heimilinu er nú allt bannað nema fiskar í búri. En annað slagið tökum við systkinin upp og biðjum um hund. Því miður verður svarið alltaf nei. En einn daginn kem ég til með að fá mér hreinræktaðan hund. Jafnvel þó svo ég viti nánast ekkert um hundauppeldi er ég viss um að ég gæti staðið mig vel í því, það gæti veitt mér félagsskap og dregið mig út að hreyfa mig.

Ég hef því ákveðið að setja enn og aftur hest og hund á afmælisóskalistann bara því það hefur verið þar síðan ég man eftir mér. Ójá, eftir þrjá daga verð ég tvítug.

laugardagur, september 01, 2007

Virðing

Það er oft talað um að maður eigi að bera virðingu fyrir öðrum. Að bera virðingu fyrir sjálfum sér er jafn mikilvægt. En það má bera virðingu í raun fyrir öllu. Stundum verður maður að sýna hlutum virðingu. Ég vil að herberginu mínu og hlutunum mínum sé sýnd virðing. Ég vil að það sé komið vel fram við dótið mitt og farið vel með það. Jafnvel þó svo það sé ekkert merkilegra en eitthvað annað dót sem aðrir eiga. En herbergið mitt er minn griðarstaður. Þar er ég endalaust marga klukkutíma. Jafnvel þó ég hafi allt húsið vel ég samt herbergið mitt. Þannig hefur það verið á heimilum mínum á Íslandi, Noregi og í Danmörku. Þar sem hlutirnir mínir eru, þar vil ég vera og búa. Líklega er best að venja sig á að koma vel fram við allt og alla. Menn, dýr og hluti. Blómum getur maður sýnt virðingu með að ganga ekki á þeim. Að geta borið virðingu fyrir einhverju/m er kostur í fari fólks. Reynum bara að bera virðingu fyrir sem flestum. Og munið að gleyma ekki ykkur sjálfum.

  • Mig langar að geta spilað á gítar.
  • Mig langar í Vatnaskóg.
  • Mig langar í ný föt til fínni nota.
  • Mig langar til Noregs.
  • Mig langar að fá Helgu mína til Akureyrar.
  • Mig langar að sitja á kaffihúsi í góðra vina hópi.
  • Mig langar að syngja.
  • Mig langar í hund til að fara með mér út að hreyfa mig og veita mér félagsskap.
  • Mig langar að losna við líkamsræktarstöðvafóbíuna.
  • Mig langar út að labba í fallega verðinu.
  • Mig langar að finnast grænmeti gott. En súkkulaði er bara miklu betra.

Það er í boði að kvitta fyrir sig við komuna á þessa síðu. Eflaust er bloggmenningin að deyja. Enda hef ég ekki sömu gleði við skriftirnar hér og áður. Jafnvel þó ég þekki þig ekki neitt, skildu eftir þig spor. Það veitir mér gleði. Spurning um að hætta þessum skrifum.

Takk fyrir að vera til góða fólk.

Valborg.