Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

laugardagur, júní 30, 2007

Fríið senn á enda

Þetta er dalurinn minn, hann er dalurinn þinn, hann er öndvegi íslenskra dala.....

Dagurinn var tekinn snemma og héldum við á smá þvæling áður en við fórum heim, hentum nauðsinja sveitafötum í töskur og brunuðum á besta bílnum í Svarfaðardalinn. Það ótrúlegasta er þó að þegar við mætum í sveitina verða allir þetta líka ofvirkir. Varla er tími til að setjast niður eða borða fyrir hamagangi í reitnum okkar. En lífið í dalnum er nú voða friðsælt og fer allt fram með ró og spekt. Hestarnir fengu vitanlega hreyfingu og tókum við æðislegan reiðtúr niðrá bakkana og sveitina. Veislumatur eins og vant er og þeir sem ekki nenntu að gera neitt að viti lágu bara í sólbaði og létu fara vel um sig.

Á morgun mun ég halda af landi brott. Er þó ekki byrjuð að pakka og ekki einu sinni búin að þvo allt. En það reddast. Flýg suður um kvöldið, út um nóttina, meira er óákveðið. Þarf að breyta ferðalaginu mínu aðeins og get því ekki tekið innanlandsflugið mitt svo ég þarf að finna eitthvað ögn fljótlegra til að vera komin fyrr til Molde. En hvernig þetta verður mun bara koma í ljóst á flugvellinum í Osló á mánudagsmorguninn.

Í alla næstu viku verð ég netsambandslaus. Vá, það verður þolraun þar sem ég er orðin svo háð tölvunni minni. Erum að fara á Noregsmeistaramótið í hestaíþróttum og verðum að ég held í viku. En ég minni á að ég á síma. Í hann má endilega hringja eða senda sms. Það er ódýrara en ég hélt að senda sms á milli landa ;)

Pælið í því hvað lífið yrði miklu skemmtilegra ef allir þeir sem kíkja hér inn myndu skilja eftir sig eina línu í kommentinu. Það væri yndislegt ;)

Hefur verið frábært að vera hérna heima í smá fríi, takk elsku besta fólk fyrir allt og þeir sem ég næ ekki að kveðja, sjáumst í ágúst :)

Kveð að sinni úr bestasta besta herbergi veraldar..... Valborg Rut

föstudagur, júní 29, 2007

Elsku besta Sunna!



Elsku besta uppáhalds dúkkan mín á afmæli í dag. Sunna er orðin 14 ára! Vá, mér finnst svo stutt síðan ég var 6 ára, 29. júní í dótabúðinni í Kringlunni í Reykjavík að velja mér nýja Sunnu dúkku. Daginn sem við komum frá Þýskalandi. En í þeirri ferð gleymdi ég Sunnu hinni, undir vaska á almenningsklósetti. Man þegar ég var að þvo mér um hendurnar og lét Sunnu standa á gólfinu fyrir neðan vaskann. Svo fórum við og keyrðum lengi lengi. Ég fattaði ekki að ég hefði gleymt henni fyrr en við vorum komin alltof langt til að snúa við og sækja hana. Ég grét og grét í marga daga. Þetta var hræðilegt. Pabbi var að verða gráhærður því ég grenjaði og mamma vorkenndi mér svo rosalega mikið. En þegar ég kom heim, fékk ég um leið nýja dúkku. Vitanlega var hún látin heita Sunna líka en fékk þó eftir nafn svo ekki þyrfti alltaf að segja Sunna gamla eða Sunna nýja. Svo Sunna Lind situr hér enn í hillunni minni og er ekki á förum á næstunni.

Sunna er ekki eins og hvert annað dót. Uppá hana var passað betur en allt, oftar en ekki klædd í náttföt á kvöldin og klædd eftir veðri á daginn. Þegar Baldur fæddist fórum við mamma út að labba, hún með barnavagn en ég með dúkkuvagn. Báðir bláir og vel búið um þá báða. Uppáhalds dúkkurnar og dótið síðan ég var yngri en ennþá í herberginu mínu. Núna eru Sunna og Tinna hilluskraut sem þurrkað er af og skipt um lúkk stöku sinnum.

En það var líka annar góður vinur minn sem hefði átt afmæli í dag. Það er Skundi. Hundurinn sem Stebba frænka átti. Man alltaf að Sunna og Skundi eiga sama afmælisdag. Skundi var þó orðin svo gamall að hann er bara núna í fallegri kistu í Laugaselinu okkar. En engu að síður gaman að þessum degi þeirra ;)


Dagarnir líða, ég mun snúa til Noregs á sunnudagskvöldið, út um nóttina, Molde miðjan mánudag.

Enda þetta með mynd af hillunni minni, Sunna og Tinna ráða þar ríkjum..... fallegastar ;)

Bestu kveðjur, Valborg Rut

miðvikudagur, júní 27, 2007

Brostu :)



Þeir virðast svo glaðir. Svo hamingjusamir og ánægðir. Þeir eru svo krúttlegir og kjánalegir. Svo góðir vinir, standa svo vel saman í öllu.


En.


"Guð hlýtur að elska venjulega menn úr því hann hefur gert þá svo marga."

þriðjudagur, júní 26, 2007

Besti vinur þinn er sá sem þekkir galla þína en er samt vinur

Hugmyndir, langanir, allt í klessu, hvað er best, hvað vilja aðrir, hvað vil ég, hvað er gáfulegast, á hverju læri ég mest, hvað er skemmtilegast, óákveðni, erfitt val.

  • Ég veit ekki hvað ég á að gera í haust.
  • Nokkrir hlutir sem koma til greina en ég get ekki valið því mig langar svo margt.
  • Mig langar að vinna á leikskóla.
  • Langar að vinna í blómabúð við blómaskreytingar.
  • Mig langar að geta verið með í barnastarfinu í kirkjunni.
  • Það væri fínt að flytja bara í Vatnaskóg.
  • Er ég barn eða fullorðin?
  • Mig langar í mína eigin íbúð.
  • Mig langar að vinna starf sem tekið er eftir og lætur gott af sér leiða.
  • Mig langar að vera eitthvað. Er ég kannski eitthvað?
  • Best væri að lenga sólarhringinn um nokkra tíma og komið öllu fyrir.
  • Þá myndi ég vinna á leikskóla, vera í kór, vinna í blómabúð, vinna í barnastarfinu, skreppa í skóginn um helgar auk þess að njóta þess að vera til.
  • En þetta er of mikið í einu. En á hverju á ég að byrja?
  • Ég ræð fram úr þessu. Í málið verður gengið á morgun.
  • Ég þoli ekki þegar eitthvað er óskipulagt.
  • Vil hafa allt planað og ekki neitt í lausu lofti.

Mig langar að læra á gítar. Gítarinn minn er svo falskur að á hann er ekki einu sinni hægt að glamra. Hann er of falskur til þess að ég geti stillt hann. En þó ég kunni örfá grip þá kann ég samt ekki neitt. Langar að geta spila vel og gripið í gítarinn við ólík óformleg tækifæri. Aldrei að vita nema ég taki mér þetta sem langtíma aukaverkefni.

Í dag var gengið gegn hraðakstri og slysum í umferðinni. Gott framtak sem ég hefði þó viljað að hefði borið meira á auglýslingalega séð. Í fréttablaðinu í morgun rakst ég til dæmis á þetta og kom þá aðeins fram að gengið væri í Reykjavík. Ég hugsaði, nú asnalegt, ég myndi mæta ef þetta væri á Akureyri líka. En seinna um daginn, aðeins tíu mínótum áður en gangan átti að byrja frétti ég að því að þetta væri líka á Akureyri. Nei of seint, ég niðrí kirkju, illa klædd og í ógönguhæfum gelluskóm. Glatað. En ég horfði þó á viðburðinn þegar á ráðhústorgið var komið. Táknrænt virtist þetta úr fjarska og gott framtak. Vonandi að viðburðir sem þessi vekji fólk til umhugsunar og á einhvern hátt dragi úr slysatíðni í umferðarslysum.

Herbergið mitt er orðið íbúðarhæft, ryklaust ef svo má að orði komast, ekkert drasl og nokkrar hillur hafa verið fíniseraðar og lagfærðar. Ég var þó vinsamlegast beðin um að pakka glerdóti úr glugganum ofan í skúffu áður en ég færi svo það yrði heilt þegar ég kæmi heim svo ekki þyrfti að hlusta á skammir frá prinsessunni ef eitthvað ólagaðist.

Á morgun mun ég lifa, annað er ekki ákveðið í bili.

Verið góð við allt og alla......

Valborg Rut

mánudagur, júní 25, 2007

Helgin í myndabrotum



Brunuðum í Laugaselið okkar í Svarfaðardalnum á laugardaginn.









Móðirin reynir fyrir sér í garðyrkjunni og bíður spennt eftir jarðaberjunum.







Fjölskyldan í hnotskurn..... bíllinn telst sem fjölskyldumeðlimur....








Agnar smíðastrákur.... kofinn þjakast áfram :)








Ég og elsku bestu hestarnir mínir :)








Pabbi og Baldur..... eitthvað þreyttir eftir hörku vinnudag í sveitinni ;)






Góðir dagar í sveitinni, ég og Agnar keyrðum inní botn á Svarfaðardal og svo hringinn í dalnum, ég kíkti á litla sæta draumahúsið mitt á Dalvík, borðaði endalaust mikið af góðum mat, fór í frábæran reiðtúr með Sigga niðrá bakkana, hoppaði í þúfunum og málaði felgurnar á snjósleðakerrunni. Draumalíf ;)

Bestustu kveðjur......... Valborg Rut sveitastelpa

laugardagur, júní 23, 2007

Heyrst hefur....

Eftir mikla, langa og stranga leit að nýjum gallabuxum fannn ég loksins fullkomnar buxur í dag. Dýrustu buxurnar í bænum en ég lét mig hafa það. Þegar ég kom heim tilkynnti ég sigri hrósandi að ég ætti loksins nýjar buxur. Heyrist þá kallað úr herberginu hans Baldurs: Eru þær olía, bensín eða diesel? Hehe ég var ekki alveg að fatta þessa hugmynd strax en kallaði svo að þetta væru diesel. Nú af hverjur ekki bensín? hehe, skondin hugmynd.

Agnar sagði í fyrradag við matarborðið: Valborg hvað ertu eiginlega gömul. Ég: Bráðum verð ég tuttugu ára! Agnar: Þú þarft að finna þér kærasta!! Hehe, þegar bræður mínir eru nú farnir að spá í þessu. Ég spurði Agnar hvort hann ætlaði ekki að finna sér kærustu en honum leist nú lítið á það. Hann væri ekki jafn gamall og ég!

Pabbi sagði að ég væri eins og kettlingur. Það mætti ekki koma við mig því þá myndi ég eiga það í hættu að brotna! Hehe, hef nú ekki orðið vör við það en jæja.....

Mamma vill meina að ég sé sérviskupúki. Það veit ég vel, málið er bara að hún er lítið betri sjálf ;) hehe. Einnig vill hún meina að ég sé ofdekrað stelpuskott en ég er ekki alveg sammála. Svo á ég að vera með uppfinningadellu og óframkvæmanlegar hugmyndir. Svo er hún ekki sammála þeirri hugmynd að ég sé að verða stór. Allavega ekki þegar sú hugmynd kemur að flytja að heiman. Þá verð ég skyndilega 10 ára.

Marengstertan mín er að tilbúnast og þegar hún er klár getum við rennt í dalinn. Líklega þarf ég að finna nokkur föt eða svo. Skilst að ég eigi að mála snjósleðakerru. Já já, kerran getur nú ekki verið með rauðum járnum lengur þar sem við eigum núna bláan bíl!! Verður nú allt að vera í stíl hjá litlum pjattrófum. En í þetta sinn er það pabbinn svo augljóst er að ég hef ekki langt að sækja þetta.....

Ég hrósa sjálfri mér fyrir frábæra bloggframistöðu þrátt fyrir engin komment.

Kveðja úr besta herberginu.......... Valborg Rut

föstudagur, júní 22, 2007

Frábær dagur

Byrjaði daginn á elsku besta kirkjugarðinum mínum. Sólveig mætti á svæðið og við skutluðumst í garðinn. Tókum nokkrar myndir, röltum um garðinn og trufluðum fyrrverandi samstarfsfólk og aðra við vinnu sína. Gaman að hitta alla þarna og komast aftur í kirkjugarðahúmorinn. Verst að við öfunduðum þau svolítið af bláu vinnusmekkbuxunum. Sólveig, hlakka til að fá myndirnar og takk fyrir æðislegtan morgunn ;)

Kom svo heim og brunaði af stað á Vestmannsvatn. Gaman að hitta Öbbu og Hauk þar og komast í snert við sumarbúðalífið. Við Abba skruppum til Húsavíkur og röltum smávegis þar og kynntum okkur líf smábæjarins. Sá bær heillar nú ekki og myndi ég ekki velja þann stað til að búa á. En ágætur bær þrátt fyrir það. Lífið á Vestmannsvatni virtist eitthvað svo frjálst, en um leið svo agað og skipulagt. Væri gaman að fá að vera lítil stelpa í sumarbúðum. Þó ekki væri nema eitt skipti. Eitthvað sem ég prófaði aldrei. Takk fyrir daginn elsku besta fólk :)

Stefnan er sett á Laugaselið okkar í Svarfaðardalnum okkar bestasta á morgun. Hlakka til að koma þangað. Sveitin mín, dalurinn minn, hestarnir mínir og þúfurnar mínar. Verður varla mikið betra.

Ætla að gera tilraun til þess að hafa þessa færslu ekki ofur langa eins og flest allar færslur á þessu ágæta bloggi. Svo ég læt hér staðar numið.

Passið vel upp á ykkur sjálf........... Valborg Rut

fimmtudagur, júní 21, 2007

Við getum aðeins breytt einni manneskju í heiminum - það erum við sjálf.

Ligg hér í rúminu mínu heima í besta herberginu. Alltaf jafn gott að koma heim í herbergið sitt. Finnst það samt hálfs skrítið núna. Ekki alveg eins og vanalega. Uppáhalds hlutirnir mínir eru í Noregi og aðrir hlutir hafa af einhverjum ástæðum fengið samastað í herberginu þar til ég kem aftur heim. En þegar ég kem nú aftur verður nú öllu umturnað. Þegar ég ligg samt hérna í miðju þessa alls, horfi á herbergið mitt í heild sinni með öllu þeim húsgögnum og magni af dóti og hlutum sem því fylgir bíður það sennilega ekki uppá marga breytingarmöguleika. Ég sem hafði stóra hluti í hyggju verð að öllum líkindum að fresta þeim þangað til ég fæ mitt eigið heimili.

Í gær kannaði ég fasteignamarkaðinn. Þar sem ég er nú að verða stór og afskaplega sjálfstæð prinsessa langar mig að eiga mitt eigið heimili. Ég vinn bara í lottó ja eða þeir sem eiga nóg geta gefið mér smá. En allavega komst ég að ýmsum hlutum. Ég komst að því að lítil 3 herbergja blokkaríbúð kostar að meðaltali 12-13 milljónir. Vá. En 4 herbergja einbílishús með bílskúr á Dalvík kostar rúmar 10 milljónir. Enda heillaðist ég af þessu húsi og talaði ekki um annað í gær en þetta hrikalega litla sæta gamla hús. Rosalega væri nú gaman að geta keypt sér hús. Hef því komist að niðurstöðu um að líklega sé ég betur sett á Dalvík en Akureyri þar sem íbúðarverð þar er töluvert lærra. En ég á nú enn eftir að safna fyrir þessu. En þó ætla ég að leggja leið mína til Dalvíkur um helgina og kíkja aðeins á þetta hús. Langar svoooooo mikið í svona fullkomið mitt heimili.

Dagurinn fór að mestu leiti í að uppfæra útlitið. Var orðið heldur léleg umgjörð eftir mánuðina í Noregi. En nú er ég búin að gera það sem ég get, klipping, strípur, litun og plokkun. Á enn eftir að nenna að fara í bæjinn og leita að nýjum gallabuxum. Því eins og daglegir lesendur vita eru hinar einu sönnu gallabuxur að gefa upp öndina. Vonandi að ég finni mér nokkrar flíkur eða svo.

Á morgun mun ég halda á vit ævintýra á Vestmannsvatni. Hlakka mikið til. Í fyrramálið verður svo eflaust kíkt í garðinn góða með Sólveigu. Fór einmitt í gærkvöldi með Sólveigu og Maríu á rúntinn, Eyjafjarðarhringinn og fleira. Hörku stuð eins og við mátti búast :) Takk fyrir kvöldið stelpur!

Jæja, mamma mín er víst búin að gera ljómandi góðan fiskrétt handa mér svo ég er farin í eldhúsið.....

Valborg Rut

miðvikudagur, júní 20, 2007

Akureyri!

Eftir margra klukkutíma ferðalag, bátsferð, leigubíl, innanlandsflug, millilandaflug, rútuferð og bílferð komst ég loksins í Vatnaskóg á mánudaginn. Það var yndislegt. Frábært að koma þangað og þá var maður eiginlega bara kominn heim. Í gær tók svo við bílferð heim í besta bæjinn. Mamma búin að taka heimilið allt í gegn sökum þess sem litla prímadonnan prinsessa var að koma heim. Ekkert betra en að koma heim og sjá allt hreint. Svo var haldið í mat til ömmu og afa og borðað íslenskt lambalæri. Fólk fer örugglega að verða þreytt á að hlusta á mig því ég tala svo mikið og þarf að segja frá svo miklu. En þau losna við mig aftur svo ég vorkenni þeim ekki neitt ;) hehe.

Í nótt byrjaði ég á því að vakna við eitthvað þrusk við gluggann minn. Opnaði augun og sá að það var köttur sem langaði mikið inn og hafði stungið hausnum inn til að kanna aðsætður. Ég þurfti ekki annað en að líta á hann og þá fór hann út. En nokkrum mínótum seinna kemur hljóð frá mjúkri lendingu. Stendur þá ekki kattarkvikindið uppá sjónvarpinu mínu, risastór svartur og hvítur köttur. Ég glaðvaknaði og sagði reiðinlega við hann að hann ætti vinsamlegast að koma sér út og það væri ekki í boði að heimsækja mig að næturlagi!! Foreldrar mínir skildu nú ekkert í þessu og mamma kom og spurði hvort ég hefði verið að tala uppúr svefni. Nei nei, ég var bara að reka út kött!! Við erum að tala um að herbergið mitt er á annarri hæð og það var rúllugardína fyrir glugganum. En ekki virtist það nú stoppa þennan ákafa kött. Hér eftir verður glugginn ekki svona mikið opinn þegar ég er að reyna að sofa. Ég hef nú sofið með litla kettlinga uppí hjá mér, en ókunnugum risaketti er alls ekki boðið.

Vaknaði og keyrði mömmu í vinnuna í morgun. Heim í sturtu og vakti Agnar fyrir tíu til að fá hann með mér í Skálateiginn. Bróðirinn skyldi nú ekkert í þessum asa, að hann þyrfti að vakna fyrir tíu! Haha, nú verður sko ekki sofið svona lengi. Við til ömmu og afa en enginn heima svo við fórum til ömmu gömlu. Hún var vitanlega í skýunum yfir heimsókninni og það er nú alltaf gaman að kíkja til hennar. Agnar er að farað keppa í fótbolta svo ætli ég fari ekki eitthvað út þangað til ég sæki mömmu í vinnuna. Eflaust kíki ég í Hagkaup í von um að vinkonurnar séu að vinna.

Læt þetta nægja í bili úr besta herberginu....

Valborg Rut heima á Akureyri :)

sunnudagur, júní 17, 2007

17. júní.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:/: Íslands þúsund ár, :/:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Greinaskil
Ég óska ykkur öllum til hamingju með þjóðhátíðardaginn. Mesta hneiksli dagsins er þó að ég steingleymdi að flagga íslenska fánanum hér í útlandinu. En ég vona að Íslendingar hafi verið duglegir við fánaiðjuna í dag og staðið sig betur í verkinu en ég. Ég hafði þó ekki hugsað mér að fara nánar útí þessa miklu hátíð því ég er jú ekki svo mjög með sögu landsins á hreinu sökum gleymsku og lærdómstregðu. En nóg um það.
Greinaskil
Nýstúdentar Menntaskólans á Akureyri fá líka bestu kveðjur. Abba, Halla, Hulda, Þóra, Gunna, Hrefna, Elín.... og aðrir MA-ingar innilega til hamingju með daginn :) Þetta er mikill og stór dagur. Framtíðin getur haldið áfram, fólk er búið að mennta sig og getur farið í háskóla. Vá hvað allir eru að verða stórir. En ég læt mér nægja að útskrifast ekkert og hafa engan stúdentatitil. En ef það mun gerast einhverntíman seinna þá er ég ákveðin í því að gera sem minnst úr þeim degi. Annað hvort er ég bitur út í að vera ekki búin með þetta sjálf og reið við lærdómshæfileika mína og áhuga eða mér finnst bara of mikið lagt uppúr því að allir hafi endilega lokið hinu og þessu prófi. En engu að síður samgleðst ég þeim sem stóðust það sem ég stenst ekki. Ég vildi að ég gæti verið að vinna í Höllinni núna og fylgst með fyrrverandi bekkjarsystkinum og vinum fagna þessum degi. Vona að þið hafið átt góðan dag og séuð í þessum skrifuðu orðum að skemmta ykkur voða vel í Höllinni ;)
Greinaskil
Í fyrsta skipti á ævinni lendi ég ekki í pökkunarvandræðum! Já ég er loksins að geta pakkað án þess að þurfa að pakka upp aftur eða nota alla mín krafta til þess að loka útstoðinni töskunni þó með því að rennilásinn haldist samann. Nú stefnir allt í að þetta takist, taskan er ekki full og aðeins örfáir hlutir eiga eftir að fara ofaní.
Greinaskil
Á morgun kem ég heim til besta landsins og ég er að springa úr tilhlökkun. Þó það sé nú afskaplega gott að vera hér er nú alltaf gott að koma heim og hef ég alls ekkert á móti smá fríi. Hlakka til að hitta alla og vera með ykkur í nokkra daga. Mamma ég minni á marengstertuna sem ég hlakka til að fá..... ;) Annað matarkynnst sem væri vel þegið..... fiskur, lambalæri með brúnni sósu og karteflum, pönnukökur, sjoppuhamborgari, litlar kjötbollur í súrsætri sósu, kjúklingabringur í rjómaostasósu, nóa kropp..... já og alveg örugglega eitthvað fleira. Hehe ótrúlegt, maður saknar matarinns heima fyndilega mikið. Greinilega dýrar vikur í vændum hjá foreldrunum þar sem dóttirin óskar sér alls hins besta í þessu fríi sínu. En ég er nú svo sjaldan heima að það er allt í lagi ;) Og get ég líka fengið soðnar kjötbollur með káli þó að pabba finnist það vont?
Greinaskil
Hlakka til að sjá bræður mína. Vá er viss um að þeir hafi stækkað heil ósköp. Hlakka til að fara með Sólveigu í kirkjugarðinn, að fara í heimsókn á Vestmannsvatn til Öbbu, að fara í Vatnaskóg á morgun, að lenda á Íslandi, að vera jeppagella, að sofa í rúminu mínu og eiga yndislegt frí í nokkra daga. Og ég ætla að kaupa ís með súkkulaðisósu og jarðaberjum í Leirunesti.
Greinaskil
En nú ætla ég að pakka tölvunni, halda áfram að setja föt og skó niðrí tösku og fara ekki ofur seint að sofa.
Greinaskil
Bestu kveðjur frá Norðmannalandi.... næstu skrif frá Íslandi :)

laugardagur, júní 16, 2007

Slúðurheimurinn

Við Leona Dís eigum okkur sérstakt áhugamál. Í dag höfum við örugglega skoðað Hér og nú blaðið 10 sinnum. Litla skvísan ætlar greinilega að verða slúðurdrottning og kemur hlaupandi með blaðið hvað eftir annað og vill endilega kynnast fólkinu betur. Í dag hef ég því sagt henni smávegis um Jennifer Aniston, Prad Pitt, Paris Hilton, Britney Spears, Sonju drottningu og Vendelu Kirsebom. Kannski ég tileinki slúðurheiminum skrif mín í þetta skiptið.

Paris Hilton: Hvað er eiginlega að því furðuverki? Ég verð að viðurkenna að mér finnst lúmskt gaman að fylgjast með þessari gellu og öllum þeim heimskupörum sem hún finnur uppá. Þetta með fangelsið finnst mér nú alveg met og fáránlegt að hún eigi að komast upp með að sleppa þarna út útaf einhverju væli. Hún hefði eflaust átt að hugsa sig betur um áður en hún framkvæmdi alla þá hluti sem urðu til þess að hún var sett bak við lás og slá. Það þýðir ekkert að kvarta, maður verður að taka afleiðingum gjörða sinna. Alveg sama hversu mikið hún og mamma hennar ætla að grenja. Hún á víst að vera eitthvað veik, ekki nóg og sterk andlega til að vera þarna inni, grenjar bara, borðar ekkert og þorir ekki á klósettið. Æi kommon.

Hvað er að gerast með ungt frægt fólk í heiminum? Paris Hilton, Britney og Lindsay Lohan eru allar orðnar klikkaðar. Búnar að klúðra lífinu sínu á margan hátt. En hvað varð til þess? Allar eiga þær það sameiginlegt að vera óábyrgar fyrir lífi sínu og lifa óheilbrigðum lífsstíl. Þær eru ekki alveg að gera sér grein fyrir því að þær eru eflaust fyrirmyndir margra. Þó þær verði þreyttar á frægðinni, er samt ekki málið að reyna að vera góð fyrirmynd?

Þó ég sé ekki fræg og þekki í raun alls ekki svo marga þá lifi ég samt ekki óheilbrigði á götunni. Ég veit t.d. að það þekkja mig mörg börn úr kirkjustarfi og öðru. Ég myndi ekki gera sjálfri mér það að ganga um miðbæjinn á Akureyri með bjór eða vínflösku við hendina t.d. á menningarnótt, 17. júní eða versló. Því fleiri en maður heldur vita hver maður er og fylgjast með. Ég myndi ekki vilja að þetta væri það sem fyrirmyndin mín legði fyrir sig. Ég vil ekki að þau börn sem ég vinn með sjái óheilbrigða lífið mitt eða það slæma í fari mínu. Maður verður að læra að haga sér með tilliti til annarra. En það þarf þó varla að taka það fram að ég drekk náttúrlega ekki. Var bara tekið sem dæmi. Þessu þurfa þær aðeins að pæla í. Jú vissulega er þeim líklega alveg sama um þetta allt en þær verða samt að gera sér grein fyrir því hversu óheilbrigt þetta er og að líf eins og þær lifa núna er ekkert sem fólki er bjóðandi að horfa á. Hvað gerir maður þegar fyrirmyndin bregst? Hvað gera allir þeir sem litu upp til þeirra? Ég vona að þeir fylgi ekki á eftir og geri sér grein fyrir því að fyrirmyndin hefur brugðist og finni sér heilbrigðari fyrirmynd.

Það sem þessar þrjár umtöluðu manneskjur ættu að gera er að taka sig til og slútta þessu líferni. Draga sig úr sviðsljósinu, hjálpa hvor annarri að komast í átt að betra lífi. Þær þurfa augljóslega allar mikla hjálp með lífið sitt og ættu án efa að finna hana. Ekki eins og þær hafi ekki efni á því. Ef þær ætla að lifa áfram held ég að þær verði að taka sig á. Mig langar í það minnst ekki að heyra frá þeim aftur fyrr en það gerist eitthvað jákvætt í fari þeirra. Því lengi hefur það verið þannig að öll umfjöllun um þær er neikvæð.

En yfir að öðru.

Það er ótrúlegt hvað nýji kærasti Jennifer Aniston er ótrúlega líkur hennar fyrrverandi Brad Pitt. Vó, við erum að tala um að þeir eru næstum því alveg eins! Hvernig er hægt að finna bara annan nákvæmlega eins? Það er í það minnst augljóst hvað útlit það er sem heillar hana. Ég vona bara að þeir séu ekki alveg eins inní líka því eins og við vitum hélt hitt sambandið ekki.... hehe.

Sonja drottning hefur á gamalsaldri misst mörg kíló. Ótrúlegt að 69 ára kona nenni ennþá að vera í megrun. Fyrirgefið en er það markmið okkar að vera í eilífðarmegrun? Allt okkar líf? Vissulega lítur hún vel út, því er ekki hægt að neita. Ég vona að ég verði svona flott þegar ég verð gömul. En eitt er víst að ég verð ekki eilífðarmegrunarfíkill. Það gerir manni ekki gott, hvorki líkamlega né andlega. Vona að fólk fari að átta sig á því.

Vendela Kirsebom er norskt súpermódel sem reyndar hefur lagt ferilinn næstum á hilluna en er enn vel sýnileg og gerir allskyns góða hluti. Það er gaman að fylgjast með henni því hún hefur alltaf jákvæða umfjöllun. Er ekki í þessum heimskupara bransa heldur lifir lífinu heilbrigðu og jákvæðu. Manni finnst miklu skemmtilegar að lesa um svoleiðis. Hvers vegna er ekki sett meira af því góða? Hún á allavega hrós skilið fyrir að vera alltaf hún sjálf og lifa eins lífi sem margir góðir þættir eru til í. Kannski aðdáendur stelpnanna með heimskupörin ættu frekar að kynna sér lífsstíl Vendelu.

Vona að þið vitið núna huga minn um slúðurheiminn.......... hehe.

Kveð í bili, Valborg á besta landinu á mánudaginn :)

föstudagur, júní 15, 2007

Hreyfing


Án efa dagur dugnaðar og hreyfingar. Það er margt sem gerist hér í sveitinni þó lífið virðist nú alltaf frekar rútínerað. En alltaf má nú finna eitthvað að gera með uppátækjaseminni. Eins og flest alla daga var farið í gönguferð og slóust Katrín og litla krúttið með í för. Héldum svo af stað og niðurstaðan varð þessi: Hjelvik-Vågstrandi - búðin - uppá Talberg - yfir Vikåsen - Hjelvik. Og það gera nákvæmlega 9,8 kílómetra :) Hélt nú um tíma að ég myndi deyja þetta var svo erfitt þar sem við löbbuðum í krinum fjall og meira en það..... helling uppímóti og við með barnavagna ;) En ég er náttúrlega alveg að komast í þolform svo ég er vel lifandi núna :) Kannski ég leggi þetta fyrir mig, töluvert gaman að fara í svona þriggja tíma göngu. Ég er að minnst kosti laus við samviskubit síðustu daga því vegna veðurs hefur ekki verið hægt að hreyfa sig svo mikið!.... og ég í heilsuátaki..... hehe.
Greinaskil
En Leonu Dís fannst nú ekki nóg komið eftir gönguna og vildi nú fá að hreyfa sig eitthvað sjálf. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún tekist á við líkamsræktartækið í stofunni og gerir allt til þess að láta það virka. Verst að hún er ögn of lítil ennþá. En nóg er klifrið í litla fiðrildinu mínu þessa dagana. Uppá tækið og helst að festa fótinn eða hausinn hvar sem það er hægt. Hún ætlar greinilega að vera alla æfina í góðu formi og ekki veitir þá af að byrja snemma..... hehe :)
Greinaskil
Lestur Þrettándu sögunnar gengur betur en ég átti von á. Hef þó ekki lesið mikið síðustu daga vegna annríkis en er þó komin á blaðsíðu 150. Bókin er svolítið ólík öllu öðru sem ég hef lesið en mér líkar hún vel og hlakka til að halda áfram að lesa. Nóg og jarðbundin er hún og engir fljúgandi kústar eða galdrakallar.
Greinaskil
Ég stefni að því áður en ég fer héðan að lesa eitt af skáldverkum Halldórs Laxness. Ég veit ekki af hverju og í raun hafa bækurnar eða umtalið um hann aldrei heillað mig. En verður maður ekki að lesa í það minnst eina bók eftir þekktasta nóbelskáld Íslendinga? Svo vill til að allar bækurnar hans eru til hér á heimilinu en má þess nú geta að margar eru enn í plastinu. Hehe enda ekki það sem maður grípur sér til skemmtunar og yndisauka. En það ætla ég mér þó að gera þótt síðar verði. Hvaða bók verður fyrir valinu hef ég þó ekki enn ákveðið enda á ég 300 blaðsíður eftir enn í Þrettándu sögunni.
Greinaskil
Ég og Daim súkkulaðið kveðjum í bili......

fimmtudagur, júní 14, 2007

Skrif úr sveitinni

Ég get allt og ég er allt. Ég er au-pair stelpa og þessa dagana gegni ég hlutverki bæði móður og föður. Ég fer út að leika, elda matinn, laga til, stundum skemmtileg, stundum leiðinleg, hátta, baða og klæði, þvæ þvott, kaupi inn og held lífinu og heimilinu gangandi. Ég get allt og ég reyni að vera allt. En vitanlega kem ég ekki í staðinn fyrir rétta foreldra. En geri mitt besta í að vinna hlutverk þeirra sem staðgengill.

Ég er ofdrekuð au-pair stelpa. Fæ næstum allt sem ég vil. Núna mun það vera heimsins mesta boð fyrir óhöfuðborgarvæna mig sem þekkir varla nokkurn mann þar um slóðir. Nú er búið að redda fyrir mig skutli frá borginni og í Vatnaskóg á mánudaginn. Amman kemur til bjargar og ætlar að taka við ofdekrinu. Æðislega takk fyrir þetta ef þú kíkir hérna inn ;)

Deginum fer að ljúka, börnin sofnuð og ég sest niður með tölvuna inní stofu með nammi í skál. Skrítið, ég með nammi. En ég hef komist að því að ég er líklega er ég háð súkkulaði. Í það minnst ef ég fæ hausverk þarf ég bara að hugsa til þess að eflaust hafi ég ekki borðað súkkulaði í tvo daga. Þá fæ ég mér súkkulaði og hausverkurinn hverfur. Vanabindandi ósiður sem ég ætti að venja mig af. En svo vill nú til að mun auðveldara er að segja það en framkvæma og standast. Stundum langar mig ekki einu sinni í nammi en ég fæ mér það samt. Það er einfaldlega meira freistandi að ná í súkkulaði en epli. Þennan viljastyrk hef ég ekki en jú hann er kannski og viljinn er en ég fer samt í öfuga átt. Því miður, súkkulaði verður það þangað til það verður tekið af markaðnum. Því er nú ver og miður.

En sá tími er kominn að ég held áfram stutta leið í gegnum netheiminn og bið að heilsa á besta landið.....

Valborg Rut sem getur allt nema sumt.

þriðjudagur, júní 12, 2007

Merkis dagur


Fyrir akkurat 13 árum í dag var ég send til Stebbu frænku í pössun. Tilefnið var að 7 árunum mínum sem einkabarn foreldra minna var senn að ljúka. Ég var svo spennt, hlakkaði svo til að sjá barnið sem ég var búin að bíða eftir í marga mánuði. Loksins var það að koma. Síminn hringdi og ég hafði eignast lítinn bróður. Úff hann var svo sætur. Pínu lítill og ég stoltust í geiminum þegar ég hélt á honum glænýjum klukkutíma gömlum. Með hvítar hitabólur á nefinu og hvíta snuddan virtist svo risastór í þessum litla munni. Tíminn leið og barnið var lengi vel í miklu uppáhaldi. Þangað til dótið mitt mátti víkja því barbídúkkur og aðrir smáhlutir voru í stórri hættu ef skæruliðinn birtist. En þrátt fyrir allt hefur hann nú oftast verið góður. Vitanlega höfum við rifist eins og hundur og köttur, öskrað og gargað, ég hent honum á hausnum út úr herberginu mínu, skellt höfum við hurðum, lamið og barið.... en svo var mér hollast að gefast upp og láta hann í friði. Sá dagur kom að litli bróðir minn varð bæði stærri og sterkari en ég svo ég réð víst ekki við hann lengur.

En nú eru merkis tímamót. Litli bróðir minn er alls ekki lítill lengur og ætli það megi ekki telja hann ungling. Enda getur hann gert mann alveg kreisí á gelgjunni en vonum að það gangi fljótt yfir.
Elsku Baldur, til hamingju með afmælið í dag :)

Bestu kveðjur til allra heima........ Valborg Rut besta systir.

Hugmyndaflug


Á myndinni er pappadiskur. Fyrst var hann hvítur, en á nokkrum mínótum var hann litaður og/eða krassaður til með tússlitum. Ekki var þetta nú hugsað neitt heldur fólst þetta aðalega í að finna uppá hljóðlátri afþreygingu með Fredrik í dag. Þetta verkefni hef ég þó tekið mér áður fyrir hendur og má þess geta að það var í flugvél. En það er hægt að gera meira en bara að lita. Það er hægt að finna út eitthvað sem krassið manns gæti táknað eða af hverju það var svona munstur eða þessir litir sem lentu þarna. Ég ákvað að reyna þetta og í huganum bjó ég til útskýringu.
Þarna er manneskja. Hún er litirnir í miðjunni. Litirnir gætu táknað ólíkar tilfinningar sem reyna hvað eftir annað að íta hver annarri í burtu. Reyna að ráðast yfir á yfirráðarsvæði hinna og allar vilja þær ráða. Þess vegna eru litirnir ekki í beinum röndum. Heldur í óreglulegri lögun eins og tilfinningar geta verið. Guli og svarti hringurinn í kringum manneskjuna er lífið. Guli liturinn er það sem er bjart eða gott. Allt jákvætt, manni líður vel og fer brosandi áfram á þeirri löngu leið. En lífið er ekki alltaf gott svo svartir og dimmir blettir koma inn á milli. Þeir eru þó í miklum minni hluta en góði liturinn því þannig viljum við jú hafa lífið. Oft finnst manni samt kannski að maður sé lengur að komast í gegnum kaflann með svarta litnum. En þá skiptir máli að horfa áfram og sjá að það góða er ekki svo langt í burtu. Svona gengur þetta hring eftir hring. Gott og slæmt, gleði og sorg.
Svona má auðveldlega nota hugmyndaflugið og sjá eitthvað út úr því sem maður gerir. Það þarf ekki að vera erfitt. Þarf ekki að taka langan tíma. Þarf ekki að vera vandað eða flott. Heldur getur verið auðvelt verkefni sem segir samt svo mikið. Hvet ykkur til að prófa þetta. Þetta er lúmskt skemmtilegt og útkomman getur verið skrautleg, allt eftir því í hvernig skapi maður er. Áfram svo, út í búð að kaupa pappadiska því á þá er miklu skemmtilegra að lita en blöð :)
Læt þetta nægja í bili og kveð úr ógeðslegu veðri, 9 gráðum, roki og rigningu.
Valborg Rut

sunnudagur, júní 10, 2007

Hinn mikli örn

Það er greinilega komið sumar í bloggheiminum. Bæði hjá lesendum og bloggurum. Góða veðrið og sumarvinnan dregur okkur til sín og við eyðum ekki jafn mörgum mínótum í tölvuheimi eins og við gerum í snjó og kulda. Ég ætla þó að reyna að halda blogginu gangandi hvort sem einhver gerir sér ferð hingað eða ekki. En ef einhver kemur hér við myndi ég þiggja eins og smá kvitt.

Á laugardaginn var ég í sakleysi mínu úti að labba með Leonu. Ég bara geng þarna þennan eina og sama veg sem við löbbum næstum hvern dag þegar mér verður litið upp í himininn þar sem mikið fuglagarg truflaði mig. Ég hélt ég myndi detta niður dauð mér brá svo mikið. Beint fyrir ofan mig, aðeins örfáum metrum var þessi líka heví stóri örn. Vá. Ég bara starði og fraus, óviss um hvort ég ætti að snúa við og hlaupa til baka eða halda göngunni áfram. Ég ákvað að halda áfram en gat þó ekki hætt að hugsa um þennan ógnvekjandi fugl. Ég meina það er ekki eins og maður mæti erni á hverjum degi!! Ég ímyndaði mér auðvitað að þessi grimmi fugl myndi bara ráðast á mig. Pældi í því hvað ég ætlaði eiginlega að gera ef hann myndi fljúga niður til mín og gera mér eitthvað. En ég komst heim að lokum og vona bara að ég rekist ekki á þessa furðuveru aftur :)

Hver bóndabærinn á eftir öðrum fer nú að taka fram slátturgræjurnar og æða úm hvert túnið á eftir öðru. Túnið fyrir ofan húsið okkar var slegið um helgina og eru nú fyrstu rúllubaggar sumarsins komnir í plast. Mér hefur alltaf þótt slátturtíðin spennandi. Eitthvað svo mikið að gera og virðist vera svo mikil stemming í kring um þetta. Hver veit nema ég læri einhvern daginn að keyra traktor og láti til mín taka í sumarslætti íslenskra sveitabæja. En ætli þetta sé ekki leiðigjarnt til lengdar eins og flest annað. Ég man eftir einu skipti þegar ég var lítil í Svarfaðardal og verið var að heyja. Það var á þeim tíma sem gerðir voru baggar með baggabandi og engu plasti. Baggarnir voru tilbúnir og maður stóð uppá svona litlum pallvörubíl og þeir sem voru niðri hentu böggunum uppá til okkar svo hægt væri að raða þeim. En ætli ég hafi ekki aðalega þvælst fyrir þar sem ég var nú ekki há í loftinu á þessum tíma. En skemmtilegt var þetta :)

Eftir akkurat viku mun ég taka mér smá sumarfrí hér í sveitinni. Mun ég leggja leið mína til Íslands þar sem ég mun heiðra ættingja og vini með nærveru minni í tvær vikur. Er nú farin að hlakka mikið til þó það sé gott að vera hér. En smá frí á besta landinu kemur sér vel. Í gær héldu 15 hestar úr hesthúsinu okkar til Svíþjóðar ásamst Stian og fullt af aðstoðarfólki. Agnes lærir þessa stundina undir síðasta prófið sitt og mun halda til Svíþjóðar ásamt Ísak á miðvikudaginn. Hér verður því fámennt, aðeins ég, Fredrik og Leona. En ættum við að finna okkur eitthvað að bralla þó ekki sé spáð neitt mjög fínu veðri. Ég læt mig svo hverfa um leið og bæði hestar og menn koma í hús á sunnudagsnóttina og held á vit ævintýra á Íslandi. Og já meðan ég man, er einhver góðviljaður suðurlandsbúi sem gæti hugsað sér að sækja mig til Keflavíkur og keyra mig í Vatnaskóg?


Því lífið hefur kennt mér að, lifa bara fyrir það, sem flestir telja orðin ein. Leita hærra, finna svar, losa um allar spurningar, þar leynist sannleikurinn.

Valborg á Íslandi eftir 7 daga :)

föstudagur, júní 08, 2007

Finnst þér stundum að eitthvað vanti?

Í dag hófst ég handa við það mikla verkefni að lesa metsölubókina Þrettánda sagan eftir Diane Setterfield. Hef oft horft á þessa bók hérna í bókahillunni en einhverra hluta vegna valið flest aðrar en þessa. Kannski vegna þess hversu stór og þykk hún er. Í dag ákvað ég hins vegar að slá til þar sem ég hef ekki haft neitt að lesa síðustu daga að undanskildu Ísafoldblaðinu sem ég er nú búin með upp til agna. Ég gekk að bókahillunni, tók bókina og settist í sófann. Varlega opnaði ég svo þessa stóru bók og byrjaði að lesa. Ég skildi ekkert. Vá hvað mér fannst þessi byrjun eitthvað furðuleg. Hugsaði bara, vá er þetta djók að þetta sé metsölubók? Virtist svo flókin samsetning eitthvað. En mundi þá eftir því að þegar ég las Da Vinci lykilinn að mér þótti byrjunin þar líka frekar fráhrindandi. Svo ég var/ er ekki á því að gefast upp og ætla mér að halda áfram allt til enda bókarinnar. Nú er ég komin á blaðsíðu 22 og er bókin farin að vekja meiri áhuga minn og mig farið að langa að lesa meira. Hvenær ég klára þetta mikla meistaraverk er þó enn óljóst en niður blaðsíðu 423 ætla ég mér að fara. Hlakka verulega til :)

Þetta veður hérna er yndislegt. Án nú eflaust eftir að sakna þess smá þegar ég fer héðan og heim í kuldann á Íslandi. Við erum að tala um 20 gráður, bláan himinn og sól hvern einasta dag. Í dag voru 25°c og næstum alveg logn. Fór út að labba með Katrínu og litlu skvísunum okkar og ji ég hélt ég myndi deyja. Allavega upp brekkur! Full mikið fyrir Íslending eins og mig ;) En um leið var þetta nú samt ótrúlega yndislegt. Ég er greinilega í útlöndum! En samt heima, en samt í raun ekki. Skrítið.

Du gav meg, Gud, eit liv i denne verd, her har du lagt eit verk i mine hender....
Eg står så oft rådlaus, Gud, og spör om din meining i den gjerning eg lyt gjere.....
Du skapte oss, du veit den samenheng som du har sett imellom stort og lite....
(Brot úr lagi sem fannst á röltinu í gegnum norsku sálmabókina)

Bestustu kveðjur til ykkar allra, Valborg Rut bókaormur.

fimmtudagur, júní 07, 2007

Lifnaðarhættir

Fylgdu þeim lifnaðarháttum sem gera þig sterkan og færan um að meta líf þitt og bæta það.

Sólin heldur áfram að skína og lífið er yndislegt. Hvers vegna að finnast eitthvað annað? Við lifum jú aðeins einu sinni og ættum ekki að þurfa að eyða lífinu í annað en eitthvað gott. Ég ætla að lifa lífinu mínu ánægð og sátt við allt og alla. Það vil ég afmarka að sé stærsti partur þess þegar ég lít til baka, þann tíma sem ég held í það mikla ferðalag til himnaríkis. Ég vil að mín verði minnst sem manneskju sem gerði eitthvað gott. Ég vil að fólki detti í hug glaðlynd stelpa sem var ánægð með lífið sitt. Ég vil ekki að þegar minnst verði á mig detti fólki í hug vandamál, letidýr, óheiðarleiki, óstundvísi, blótsyrði eða aðrir gallar. Ég vona að mér takist að gera eitthvað gott í þessum heimi. Það þurfta ekki allir að taka eftir því. Bara að þeir sem oftast eru í kringum mig sjái að ég er eitthvað. En mestu máli skipti þó að maður sé ánægður sjálfur.

Stundum rekst ég á fólk sem ég einfaldlega get ekki þolað. Það gerum við öll. Það getur ekki öllum komið vel saman, við erum einfaldlega ekki öll að leita eftir því sama í fari fólks og hvert og eitt erum við jafn ólíkir persónuleikar og við erum mörg. En þó mér líki ekki vel við alla eða eigi það til að vera alveg að missa mig við einhvern sem fer í taugarnar á mér reynir ég að halda aftur af mér. Okkur þarf nefnilega ekki að líka vel við alla en eigum að koma vel fram við alla. Ég vona að mér takist það.

Við veljum okkur lifnaðarhætti. Við veljum það hvernig lífi við viljum lifa. Veljum okkur áhugamál, veljum okkur vini, ráðum því sjálf hvernig við hugum um heilsu okkar og líkama, ráðum því sjálf hvernig við komum fram við aðra og hvernig við mótum okkur sem meðlim samfélagssins. En við getum ekki ráðið öllu. Sumt verðum við einfaldlega að sætta okkur við og taka með jafnaðargeði. Sumt hefur nefnilega verið fyrirfram ákveðið. Við höfum kosti og við höfum galla.

Mitt aðal markmið er að finna lifnaðarhætti sem gefur mér það sem setningin segir. Fylgdu þeim lifnaðarháttum sem gera þig sterkan og færan um að meta líf þitt og bæta það. Segir þetta ekki allt sem þarf?

Lífið kemur aldrei aftur, það er einmitt þetta sem gerir lífið svo unaðslegt. (Emily Dickinson 1830-1886)

Valborg Rut.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Hitt og þetta í belg og biðu

  • Það er búið að vera kreisíness heitt hérna í dag. Hélt án djóks að ég myndi kafna. Var úti í nánast allan dag og baðaði mig í sólinni. Ég er þó enn slatta sólbrennd síðan um daginn þegar ég gleymdi að ég væri í útlöndum. Þar af leiðandi gleymdi ég alveg sólarvörninni. En í dag brann ég ekkert enda sólarvörnin aldrei langt undan.

  • Mér finnst skrítið að þegar maður liggur í sólbaði hérna þá sjá mann allir sem keyra eftir þjóðveginum. Það truflaði mig svolítið að vita að hver einasti vörubílstjóri myndi án efa verða litið á mig þarna hjá húsinu mínu fyrir neðan veginn. En mér var svosem alveg sama, ég var nú í smá fötum.

  • Ég elska allt sem er hreint.
  • Ég hata drasl.
  • Þess vegna er aldrei drasl í herberginu mínu.
  • Ef allt er á sínum stað og ekki út um allt líður manni miklu betur, verður ánægðari og glaðari.
  • Skipulagið í fataskápnum mínum er yndislegt.
  • Er ný búin að taka hann alveg í gegn og henda öllu rusli sem vill þar safnast saman.
  • Ég hlakka til að þurrka rykið af öllum glerhillunum mínum heima.
  • Það er ekki leiðinlegt að laga til í herberginu mínu. Það er nefnilega alveg ótrúlega skemmtilegt.

  • Ég á fullann skáp af fötum.
  • Finnst samt engin passa eða vera klæða mig nóg og vel.
  • Kannski er það vitleysa. Líklega bara endalaus löngun í nýjar tilbreytingar og ekki alltaf það sama.
  • Mig langar í ný föt, verslunarferð til Glasgow, Edinborgar eða Dublin væri vel þegin.
  • Langar reyndar mikið til Parísar en ég er ekki milli.
  • Mér finnst ég reyndar ekki eiga krónu.
  • Kannski ætti ég að sleppa þessari hugsun um föt.

  • Mig langar að innrétta eitthvað.
  • Finnst fátt skemmtilegra en húsgagnabúðir með endalaust úrval af öllu milli himins og jarðar, stóru og smáu.
  • Mig langar í íbúð.
  • Er staðráðin í því að hluti hennar yrði veggfóðraður.
  • En enn og aftur..... ég er ekki milli.
  • En myndi án efa standa mig vel sem heimilisríkjandi stelpuskjáta.

  • Ég sagði við mömmu og pabba að ég ætlaði að setja nýtt gólf á herbergið mitt og mála þegar ég kæmi heim.
  • Þau urðu strax hrædd.
  • Framtakssemi dóttur þeirra veldur þeim stundum hugarangri. Ónei, uppá hverju tekur hún núna.
  • Þau byrjuðu bæði með að segja mér að koma nú ekki með þessa vitleysu einu sinni enn um að flota gólfið.
  • Ég kom með aðra hugmynd. Að setja veggfóður á gólfið. Hella svo lakki yfir.
  • Held að það gæti verið ótrúlega töff.
  • Foreldrarnir báðu mig vinsamlegast að bíða með svona furðuvitlausar framkvæmdir þangað til ég flytti að heiman.
  • Ókey, en hvað fer þá á gólfið? Úff ég veit það ekki. Ekki parket eins og er á allri íbúðinni allavega. Það passar ekki við húsgögnin mín og er að mínu mati ekki fallegt á litinn.
  • Ekki má það veggfóðrast og ekki flotast. Það gæti verið flott flísalagt. Finn eitthvað brjálað flókið og bið pabba um að skella því á gólfið. Hehe.
  • Nóg af vitleysu, ég lofa að setja ekki allt á annan endan um leið og ég kem heim.
  • Bara henda öllu út og lagfæra smá ;)

  • Þetta er einstaklega skrítið blogg.
  • Úr einu og yfir í annað. Allt í belg og biðu með engu samhengi.
  • En þetta get ég. Haft stundum eitthvað óskipulagt eða draslaralegt. Eins og þetta blogg er einmitt í dag.

Bestu kveðjur á klakkann og víðar..... Valborg í sólinni :)

þriðjudagur, júní 05, 2007

Að borða naglalakk

Kannski hef ég borðað of mikið af naglalakki upp á síðkastið. Síðan ég hætti að naga neglurnar hef ég alltaf þurft að passa vel uppá að hafa á þeim glært naglalakk og endurnýja það reglulega. Tilgangurinn með naglalakkinu er mikill og felst hann í því að í stað þess að naga get ég dundað við að kroppa eða skrapa það af með tönnunum. Já ég er nú ekki alveg svo klár ennþá að geta bara hætt að vera með hendurnar í andlitinu eða munninum. En neglurnar eru í það minnsta ekki nagaðar. Gallinn er hins vegar að ég held að ég borði mest af naglalakkinu þar sem það er erfitt að spíta því út úr sér þó svo ég reyni það nú oft. Og hefur þetta þann hæfileika að festast í hálsinum og valda manni óþægindum þangað til maður nennir að standa upp og fá sér að drekka. En einmitt þegar allt lakkið er búið af nöglunum er augljóslega tími til að setja nýtt, laga og pússa. Á eftir þessu bloggi verður það verkefnið. Dugleg er ég að vera að sigra baráttuna við neglurnar.

Í gærkvöldi sat ég hérna í tölvunni eins og flest önnur kvöld. Nema skyndilega gat ég ekki verið kjurr lengur og fór út að hlaupa. Þá var klukkan orðin ellefu en kvöldsólin leyfði mér að njóta nærveru sinnar þangað til hún sofnaði. Ég er á því að þessi aukna hreyfing sé við það að virka og í gær tókst mér að hlaupa alveg ótrúlega mikið. Allavega meira en ég átti von á hjá mér sem er/var með mínusþol. Í gær fór ég semsagt tvisvar að Kormeset og aftur til baka (um 6 km), fyrra skiptið um morguninn með litlu dísina og síðar labbandi, skokkandi eða sprettandi. Ótrúlega skemmtilegt finnst mér. Hvers vegna hef ég ekki verið aktívari við þessa hreyfingu um ævina? Ja kannski vegna þess að hlaupaleiðin hérna er alveg sérstaklega skemmtilegt og hæfir mér einstaklega vel, sem sé, maður hittir engann ;) Áfram með dugnaðinn!!!

Fékk Ísafold blaðið í póstinum í dag. Takk amma :) Tók daginn í að lesa það frá byrjun og til enda. Já ég sló líka persónulegt met og las þjóðmálakaflann líka (var reyndar frekar stuttur). Mest vakti þó athygli mína viðtal við Ágústu Evu fyrrverandi Sylvíu Nótt. Ég verð að segja að ég hef aðrar skoðanir á henni eftir þetta. Greinilegt að þau voru ekki alveg að koma hugsuðum boðskap á bak við persónuna til skila á meðan þessu furðulega ævintýri stóð. Margt hefur mér þó fundist fyrir neðan allar hellur og ekki vera borin virðing fyrir öllu fólki. En í raun hefur fólkið í samfélaginu ekki borið virðingu fyrir Sylvíu Nótt heldur, þó hún hafi jú vissulega fengið umdeilda athygli og aðdáun. Ég sá þó vel í viðtalinu hverju þetta átti að skila og fannst hugmyndin bara nokkuð góð. Margt sýnir líka hversu góð leikkona Ágústa Eva er þar sem þetta er jú ekki raunveruleikinn. Á bak við þetta skrautlega furðudýr hefur allan tíman verið ósköp venjuleg stelpa í leit að ævintýrum. Mest þykir mér þó aðdáunarvert að hafa haldist svona lengi í þessum óþolandi karakter og þurft marga daga í röð að vera einhver annar en hún í raun er. Ég yrði þreytt á sjálfri mér ef mér hefði verið falið þetta verkefni. Ég er þó nokkuð ánægð með að þessu rugli um Sylvíu Nótt sé lokið og orðið að fyndinni fortíð Íslendinga. En jafnframt hefur það sýnt okkur mikið og kennt okkur helling á ólíkan máta. Hvað verður hver og einn að finna út sjálfur.

En núna ætla ég að skella mér í hlaupafötin þar sem þetta fallega veður á bak við stóra gluggann minn heillar mig meira en netheimurinn restina af kvöldinu.

Bestustu kveðjur..... Valborg dugnaðarfárkur

mánudagur, júní 04, 2007

Dagar í myndum

Ein mynd jafngildir oft mörgum orðum svo nánari lýsingar á síðustu dögum er varla hægt að fá ;)

Stundum er fallegt hjá okkur :) Tók þetta út um gluggann minn eitt kvöldið :)






Leona Dís að borða sjálf.....







Stundum svolítið skrautlegt en alltaf mjög skemmtilegt!









Ef maður er ekki mesta krútt í heimi..... ;)







Litla Dísin sofandi í dótinu sínu....









Fredrik flottur á íþróttavellinum :)








Gott veður og allir að leika....







Rosa stuð í sandinum :)








Fótboltinn er vinsæll....








.... upprennandi stjarna!








Læt þetta nægja í bili..... hafið það gott :)

Valborg Rut í fjarskanum.

sunnudagur, júní 03, 2007

Færsla dagsins....



Mig langar í Vatnaskóg :)



Knús á ykkur öll úr sveitinni :)

föstudagur, júní 01, 2007

Njótið dagsins!

Sumarið er í einhverjum stórum vafa hvort það eigi að láta sjá sig hérna hjá okkur. Það veit ekki alveg hvort það vilji sýna sig og gleðja okkur með nærveru sinni. Þvílíkt góðir dagar inn á milli en svo er bara byrjað að rigna aftur. Man ekki eftir því að ég búi í regnskógunum en vonandi hættir bara að rigna fljótlega svo sólin geti fengið að komast að.

Ég ákvað að setja brúnkukrem á mig í gær. Er nú alltaf að tæknivæðast í þessum kvennmanns snyrtiheimi og ákvað nú að tékka á þessu þar sem ég verð nú aldrei brún. Ákvað þó að þetta yrði bara sett á fæturnar. Verð ég nú að segja að mér líður bara eins og ég sé skítug. Hehe, annað hvort er ég bara ekki vön því að vera með pínu lit á mér eða þetta krem var bara ekki alveg að virka. Svo setti ég augljóslega aðeins meira á tásurnar en hitt svo ég verð að vera í sokkum svo það lýti ekki út fyrir að ég hafi stigið í drullupoll. En annars kemur þetta nú bara nokkuð vel út held ég svo ef til vill get ég lagt það á mig að vera í stuttbuxum í sveitinni.

Agnes, Stian og Ísak héldu til Drammen í gær með tvo hesta í farteskinu á leið á hestamót. Ég, Fredrik og Leona ráðum því öllu hér í sveitinni þangað til á sunnudag. Hefur okkur nú gengið vel hingað til svo þetta verður örugglega ekkert mál. Á sunnudaginn mun ég fara með þau í fermingarveislu. Ég var nú ekki alveg að kaupa þá tillögu í byrjun en ákvað svo að ég gæti vel sýnt mig á meðal ættinga þeirra svona rétt til að sýna börnin. Mínar helstu áhyggjur eru þó eins og oft áður, í hverju á ég eiginlega að fara? Því eins og alltaf þá á ég bara alls ekki neitt þó ég eigi fullan skáp. En ekkert virðist hæfa þessu tilefni eða hrífur til sín löngun mína.

Stian sagði í gær að ég ætti örugglega aldrei eftir að vilja eiga börn eftir þessa dvöl mína hér. Ég fengi örugglega nóg af börnum fyrir lífstíð og myndi ekki nenna að eiga nein sjálf, þetta væri komið gott. Hef heyrt að þeir sem hafi farið út sem au-pair segi að þetta sé besta getnaðarvörn sem maður geti fengið og hún virki í minnst tvö ár. Ég er þó ekki alveg á sama máli. Mér finnst þetta nú eiginlega virka öfugt. Ég held að ég fái nú bara slæm fráhvarfseinkenni þegar ég fer héðan og heim á besta landið þar sem ég hef engin lítil börn til að knúsa lengur. Ég verð því að játa að þessi svokallaða getnaðarvörn er ekki að virka í þessu tilfelli. Það er því augljóst að einhver í fjölskyldunni verður að koma með krakka svo ég geti fengið að halda áfram þessu barnastússi.

Ætli hugmyndir mínar séu ekki á þrotum og líklega fer tími minn í tölvuveröld að renna út. Litla fiðrildið vaknar ef til vill á næstu mínótum og þá mun leið okkar liggja í búðina, svo heim að leika þangað til við sækjum Fredrik í leikskólann.

Njótið þess að vera til, þakkið fyrir það sem þið hafið og munið að brosa því það kemur margfallt til baka.

Knús úr sveitinni, Valborg Rut