Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika

laugardagur, mars 31, 2007

Rafmagn og haustið

Ég var einfaldlega búin að gleyma því að það væri ekki hægt að hafa þvottavélina og örbylgjuofninn í gangi á sama tíma. Allavega slær rafmagnið alltaf út við þessa heiðarlegu tilraun mína. En núna er þetta sýnist mér að virka þar sem ég ákvað að slökkva ljósin til að geta haldið áfram að sjóða mjólkurgraut í hádegismatinn. Við skvísurnar erum einar heima í sveitinni núna og vöknuðum svona líka hressar klukkan 7 í morgun. Ætli við reynum svo ekki að fara út að arka smá á eftir. Um að gera að hreyfa sig í góða veðrinu, ja og líka náttúrega ef maður leyfir sér að missa sig í namminu.... ! Fredrik kemur svo heim á eftir, finnum uppá einhverju sniðugu til að brasa. Hinn hluti fjölskyldunnar mun vera á hestamóti í Osló, koma heim á morgun.

Oh sló út aftur, þetta var greinilega ekki alveg að virka. Ég fæ líklega ekki að borða fyrr en þvottavélin er búin.

Annars hef ég verið að velta því fyrir mér hvað á að gera í haust. Þó mér finnist nú eiginlega alltof snemmt að hugsa það því ég á enn eftir að njóta sumarsins áður en þetta blessaða haust ákvarðanna kemur enn og aftur. Ég bara hef ekki glóru um hvað mig langar að gera. Mér finnst svo alltof stutt síðan ég var í Skóginum í fyrra að láta mér detta eitthvað í hug. Rakst á au-pair auglýsingu og ákvað að sækja bara um það næstum óhugsað. Þá lenti ég í Lemvig en svo vita líklega flestir framhaldið. Ég er að minnsta kosti ekki enn þar, heldur á miklu betri stað. Ég er allavega ekki á leið í skóla alveg strax. Sá áhugi kemur bara þegar hann kemur. Ja nema ég taki upp gamlan draum og skelli mér í blómaskreytinganám. En ég verð víst ekki iðjuleisingi á meðan skólinn bíður það eitt er alveg víst. Svo hér með þygg ég hugmyndir og atvinnutilboð og býst náttúrlega við því að ég fái að lokum ótrúlega skemmtileg verkefni eða vinnu.

Meira er ekki í fréttum að sinni......... Valborg

fimmtudagur, mars 29, 2007

Óheillandi?

Hér ligg ég uppí rúmi að frjósa úr kulda. Enginn eldur vildi koma í ofninn minn og ég hafði ekki lengri þolinmæði í þetta. Hvernig getur verið svona kalt þegar sólin skýn og út um gluggann sést svona gríðarlega fallegt veður? Líklega er þetta svokallað gluggaveður í dag. Þó það sé nú mjög hlítt þá er ég bara í einhverju kuldastuði núna. Svo nú mun ég skrifa mér til hita. Pikka hratt og mikið og læt umræðuefnið vera mat og dýr.

Ég ætla mér ekki að fá mér brauð með mæjónesi. Ég hélt að þetta væri eitthvað djók fyrst þegar ég kom og ég sá fólk hrúa mæjónesi á brauðið sitt. Spægipylsa og mæjónes..... já nei takk.

Ég borðaði hestakjöt um daginn. Þetta var ekki eins og reykta folaldakjötið sem ég ældi öllu upp samstundis við matarborðið heima hér í den. Nei ekkert í líkingu við það. Úff, sem betur fer. Ég man þó ekki betur en að mér hafi þótt það mjög gott, en hef þó ekki bragðað það í mörg ár sökum þess að nú gengur það undir nafninu gubbukjöt. Ji, girnilegt!! hehe. Það sem vakti hins vegar athygli mína var að hestafólk borðaði hestinn sinn. Verð nú samt að viðurkenna að ég gæti aldrei borðað eitthvað dýr sem ég vissi hvernig leit út áður og þekkti "fjölskyldu" þess. En jú jú, líklega geta bændur ekki bara hætt að borða kjöt, nei af af frá. Þetta er víst gangur lífsins.... hehehe ;)

Það voru rækjur í matinn um daginn. Svona heil dýr í skál, með haus og hala, augu og allt! Ja ég hafði nú aldrei séð svona dýr, hvað þá í fullum skrúða á matarborðinu. Mér fannst þetta nú alls ekki mjög girnilegt en ákvað nú samt að tékka á þessu. Maður þurfti sem sagt að taka kjötið/fiskinn út úr sjálfur. Mörgum sinnum því margar pínulitlar rækjur þarf á eina brauðsneið. Og svo byrjaði ég, ákvað að harka af mér. Tók rækjuna í hendurnar, hélt í hausinn og tók hann af. Ég fékk alveg klíu. Henti þessu frá mér og hrollur fór um mig. Hinir hlóu bara, enda var þetta kannski svolítið fyndið. Hehe. Ég gafst þó ekki upp og hélt áfram, tók halann af, svo hitt alveg þangað til ég náði matnum útúr. Þá leit þetta loksins þokkalega út. Ég lagði þó ekki í að taka hausinn af fleirum eða halda þessum dýrum í höndum mér. Ég tekst á við klíufóbíuna næst. Þetta bragðaðist þó betur en ég þorði að vona þegar þetta var komið á brauð með salati, örlitlum mæjónesi og sítrónusafi yfir. Jú forvitnileg máltíð. Eitthvað sem ég hafði aldrei séð. Verð að festa þetta á mynd við tækifæri.

Mér finnst líka erfitt að taka kjótið af kjúkling. Ekkert mál að skera smá af þessu og svona en þegar ég þarf svo að hreinsa beinagrindina..... ja þá verður þetta töluvert erfiðara. Sé alveg dýrið fyrir mér og á mjög erfitt með að meðhöndla uppistöðu líkama þess.

Ég borða heldur ekki fisk sem bræður mínir veiða niðrá bryggju eða pabbi veiðir í merkri á. Jú kannski ef það er grafinn lax eða eitthvað. En soðið, steikt, heilt dæmi heima á eldhúsbekknum... Nei takk.

Ég gleymi því ekki þegar pabbi fékk svartfuglsæðið. Ekki það að honum þætti þetta svona gott á bragðið, heldur var aðal skemmtunin falin í því að skjóta þetta á bát og sigla svo og tína upp dýrin. Koma svo heim með svartann ruslapoka fullann af fuglum dótturinni til mikillar skelfingar. Og til að kóróna allt var mér tillkynnt að tyggja varlega því það gætu verið höggl í þessu. Ji enn girnilegt. Þá gafst ég endanlega upp að pína í mig þennan viðbjóðslega mat sem mamma lagði sig þó mikið fram við að elda.

Ég er mjög fegin að það eru ekki borðaðar rjúpur á heimilinu mínu á jólunum. Eitthvað sem ég hefði kannski horft á hangandi útá svölum í marga daga fyrir jólin. Finnst reyndar ekkert verra en dauðir fulgar, hvað þá hangandi við híbýli fólks. Ég lít þá skelfd í aðra átt og reyni eftir bestu getu að gleyma þessari sjón. Langar samt alveg að smakka þetta en þá má ég ekki hafa séð þetta ómatreitt.

Ég man þegar ég fór í heimsókn með matvælabrautinni á Norðlenska. Sá svínin nýdauð alheil veltast um í græjunni til að taka hárin af. Og líka þegar þau voru skorin í parta. Og alveg þangað til það var búið að gera úr þessu álegg og kjöt sem ég borða með bestu list flesta daga ársins. Ég gat ekki borðað kjöt í tvær vikur á eftir. Ég var alveg ónýt. Fór illa með mig að sjá þetta.

Já já ég er náttúrlega stórskrítin. En svona er þetta nú bara. Ég borða nú samt flest allt kjöt og gæti aldrei orðið grænmetisæta. Nei ji minn einasti, grænmeti í öll mál væri alveg skelfilegt!! En núna eruði að minnsta kosti margs vísari um mig og mat sem einu sinni var fagurt dýr.

Valborg Rut meðpínumatardýrafóbíu

miðvikudagur, mars 28, 2007

Litadýrð

Skvísurnar í sveitinni skelltu sér í pæjuferð til Molde í dag. Eins og annað kvennfólk á það til að gera, ja og líka karlmenn dag og dag æddum við búð úr búð í leit að hinu og þessu. Mér tókst allavega að fjárfesta í íþróttaskóm og get þar með lagt kuldaskónum í bili. Einnig fann ég líka langþráð vax til að fjarlægja ósmart hár af fótunum. Ég var virkilega farin að halda að svona dóterí væri bara alls ekki hægt að kaupa í Noregi. En núna get ég haldið píningunum áfram. Já, hvað gerir maður ekki fyrir útlitið? Það myndi nú auðvelda töluvert ef það þætti bara fínt að vera með hár út um allt. Ég meina, erum við ekki komin af öpum? En vissulega legg ég þetta fúslega á mig, mín vegna og annarra. Hér er alltaf þessi svaka blíða og komið sumar í augum íslendings frá Akureyri. Í gær fékk allavega flíspeysan hvíld og sumarfötin fengu að njóta sín. En ég tek það nú fram að ég er bara Íslendingur. Norðmenn eru enn klæddir í flíspeysu og húfu. Mig langar í hvítar buxur og pæjuskó. Það er bara ekki alveg að gera sig í sveitinni. Enda get ég ekki keypt annað en íþróttabuxur núna eins skelfileg og buxnatískan heldur áfram að vera. Ég sem hélt að þetta niðurþrönga dæmi myndi láta sig hverfa. En ónei mér virðist ekki verða við ósk minni. Ég læt það því kyrrt liggja að kaupa mér buxur og enda örugglega uppi með þúsund pils eftir sumarið.


Þótt ég talaði tungu manna’ og engla
En hefði ekki kærleika
Væri ég sem hljómandi málmur
Eða hvellandi bjalla.


Þótt ég hefði spádómsgáfur,
Vissi alla leyndardóma
Og ætti alla þekking
En hefði’ ég ekki kærleika
Þá væri ég ekki neitt.


Kærleikurinn er langlyndur.
Hann er góðviljaður, öfundar ekki,
Breiðir yfir allt, trúir öllu,
Vonar og umber allt.

Munið eftir kærleikanum..... Hann skiptir svo miklu máli ;) Það jákvæða og góða í fari hvers manns er það sem við eigum að taka eftir og finna. Allir eru mikilvægir. Jafn mikilvægir til þess að skapa samfélag og gera heiminn af því sem hann er. Ef þú værir ekki hérna, þá væri enginn eins og þú. Ekki gleyma því að við erum jú sérstakar uppskriftir hvert og eitt. Við erum ekki fjölfölduð eintök eða öll eins eins og baunir í niðursuðudós virðast vera.

Endalaus væntumþykja og bestu kveðjur.... Valborg Rut

þriðjudagur, mars 27, 2007

Nakin umferðarskilti

Hvernig í ósköpunum datt fólki þetta í hug?? En allavega þá hafa allir ráðherrar danmerkur og jafnréttisráðherrar úr öllum áttum samþykkt að nota naktar stúlkur sem umferðarskilti til að vekja athyggli á hraðamörkum. Ji minn einasti. Er ekki allt í lagi með fólk? Ég verð nú að segja að mér finnst þetta ekki alveg heilbrigt. Á Íslandi þykir ekki leyfilegt að fólk fari nakið í sund. En væri þá í lagi að sjá naktar konur hér og þar um bæjinn? Líklega myndi þetta eflaust vekja athyggli. Ég efast ekkert um það að einn og einn strákur myndi hægja á sér og virða þetta fallega skilti fyrir sér og jú jú örugglega einhverjar stelpur líka. Og þá myndi hraðinn líklega haldast innan marka. En væru ekki bara meiri líkur á að einn og einn ljósastaur yrði keyrður niður? Ég meina, fólk gæti nú gleymt því hvert athyglin ætti að fara.... ;) Ég er líka á móti því að líkami fólks sé notaður í þessum tilgangi. Ef þetta er niðurstaðan með hvað virki til að hægja umferðarhraða held ég að samfélagið okkar sé að verða svolítið klikkað. Ég ælta að vera alfarið á móti þessum skiltum. Ég þyki kannski skrítin, eða þyki ekki sjá húmorinn í þessu en jú okei, ég hló alveg fyrst en svo sá ég bara hvað þetta er í rauninni vitlaust. Hvort sem um kvenmanns eða karlmannslíkama væri að ræða.

Er þetta sú fyrirmynd sem við viljum hafa í samfélaginu okkar? Er þetta það sem við viljum að börnin okkar alist upp við? Þætti eðlilegt ef ég tæki upp á því að ganga nakin? Telst þetta ekki lítilsvirðing við líkama fólks og persónu þeirra? Er þetta heilbrigð hugmynd? Mynduði vilja að börnin ykkar tækju að sér að vera nakið umferðarskilti?


Jæja ég held að ég slútti þessari umræði áður en ég missi mig alveg í þessu.


Bestustu kveðjur heim á klakann.......... Valborg

mánudagur, mars 26, 2007

Vorið er komið

Til fjalla ég fer ef mig fanga tregi, og fagnandi syng ég á minni leið, ég blessa þá óma á björtum degi, blíðan tónaseið.

Ég raula oft þetta brot af lagi þegar ég arka hér um í sveitinni með háu fjöllin allt í kring. Þetta er þó bara skrifað eftir minni. Minni sem lifir síðan 98 þegar ég fór á Söngvaseið (The sound of music) í leikhúsinu heima. Svo var þetta líka fyrsta videospólan mín. Svo ónýt og ofnotuð að það er ekki horfandi á hana lengur. Ef ég sé þetta einhverntíman í búð mun ég án efa fjárfesta í nýrri mynd. Lögin, krakkarnir, nunnurnar, umhverfið, gardýnufötin, María.... allt lifir þetta í minnungunni.

Vertu til er vorið kallar á þig.... Ég hef nú aldrei nokkurntíman þolað þetta lag en jú ég er til þegar vorið kallar. Og nú kallaði vorið og góða veðrið á hreyfingu. Og ég játaði og lét hrífast. Síðustu daga hefur verið arkað hinn eina sanna labbiveg og stefnan að fríska upp á vetrarútlitið og láta sólina vinna pínu verk. Ég er því afar stolt að mér þessa dagana hvað hreyfinguna varðar. Arkaði út á Vågstranda í gær og örfáum dögum áður en í dag var ég með svo skelfilega mikla strengi að ég nennti bara að labba hálfa leið. Við erum sko að tala um hörku göngu, klukkutíma og 10 mínótur fram og til baka!! Man ekki betur en að ég hafi verið 3 og hálfan tíma þegar ég labbaði þetta fyrst í ausandi rigningu. En nú er góða verðrið í heimsókn, blár himinn, grasið og allt líf jarðarinnar að vakna af værum vetrarblundi, fuglarnir syngja og fagna sumarkomunni, vetrarfötin hafa verið lögð til hliðar og útiveran tekur yfirhöndina. Ég hugsa þó að ég neyðist til að kaupa sólarvörn. Ja allavega ef ég ætla ekki að brenna eða fá endalaust of margar freknur. Það er eins gott að það fáist rétt sólarvörn hérna, ja annars verður mamma bara að senda mér svona! Vanafastur og gæðafastur ef maður byrjar á einhverju vissu ;)

Sumarið er eiginlega svona formlega komið hjá okkur. Búið að breyta klukkunni aftur svo núna er ég tveimur tímum á undan ykkur heima. Frekar óhentugt en dagurinn hjá okkur virðist lengjast helling svo það er bara rosa fínt ;) Páskar á næsta leiti en ég ekkert að fatta það. Ótrúelga lítil páskastemming í mér núna eitthvað.

Það er komin nótt í norðmannalandi svo ég kveð í bili.

Valborg Rut

sunnudagur, mars 25, 2007

Jafnrétti?

Um daginn vakti athygli mína norskur spjallþáttur í sjónvarpinu. Ég hlustaði þó ekki til enda eða með miklum áhuga þar sem skilningur minn á málinu er ekki upp á tíu. En ég vissi þó að þarna voru prestar, biskup og samkenhneigður maður. Umræðuefnið var hvort ætti að leyfa samkynhneigðum að starfa sem prestar og gifta sig í kirkju. Bíddu vó. Hvar er eiginlega jafnréttið? Mega samkynhneigðir ekki starfa við það sama og aðrir? Ég viðurkenni að ég hafði ekki einu sinni leitt hugann að þessu. Líklega því mér fyndist bara ekkert athugavert við það þó svo ég vissi að samkynhneigðu fólki innan kirkjunnar minnar. Þetta er fólk. Fólk sem á að hafa sömu réttindi í samfélaginu og allir aðrir. Er haldið að samkynhneigður prestur komi röngum skílaboðum til fólks? Eða er hann ekki jafn góð fyrirmynd og aðrir prestar? Ég verð að viðurkenna að orðin um að allir séu jafnir frami fyrir Guði kemur sterkt upp í huganum við þetta. Ég skil hins vegar alveg að það sé pínu mál þetta með giftingu samkynhneigðra. Sem mér finnst þó eiga fullan rétt á sér. En að banna fólki sem heillast frekar af persónum af sama kyni en gagnstæðu að starfa við ákvaðna hluti finnst mér glatað. Ég vona að þessir hlutir fái samþykki. Að samkynhneigt fólk megi gifta sig í kirkju, hafi sömu atvinnumöguleika og aðrir, megi ættlæða börn rétt eins og annað fólk og hljóti allann þann rétt sem gagnkynhneigðir hafa í samfélaginu.
Þegar streymir frá þér kærleikur og skilningur, færðu það margfalt til baka. Þegar streymir frá þér gagnrýni og neikvæðni, mun það einnig koma margfalt til baka.
Það sem er djúpt innra með þér, mun speglast út á við í lífi þínu.
Kveðja, Valborg í fjarskanum.

laugardagur, mars 24, 2007

Vaknaðu!!!


Það er ekki á hverjum degi sem fólki gefst tækifæri til að styrkja gott málefni og fá eitthvað gott í staðinn. Ég mæli allavega með því að allir í höfuðborginni og víðar láti sjá sig á styrktartónleikum FORMA 1. apríl ;) Málefni sem vert er að styrkja og er um að gera að kynna sér :) Annars bara www.forma.go.is og kynnið ykkur málið!!!
.....Greinaskil.....
Ég flétti í gegnum nýjan H&M bækling sem lét sjá sig í póstkassanum okkar hér um daginn. Ég vitanlega horfði á flíkurnar á flottum líkömunum og í fljótu bragði gerði ég upp skoðun mína hvort mér þætti þetta flott eða ekki. En ég horfi víst ekki alltaf bara á fötin. Niðurstaðan var að ég gat alveg hugsað mér að panta tvo líkama eða svo. Annar var handa sjálfri mér. Allt virtist í svo pörfekt hlutföllum, sólbrún, flott mitti, grannir fætur, hvítar tennur og flott bros. Hinn líkaminn var karlmaður. Þar sem ég yrði svo flott í nýja líkamanum þyrfti ég nú kærasta sem gæfi ekkert eftir í fegurðinni. Innihald líkamans ætlaði ég svo bara að panta í öðru blaði. Ef ég gæti nú bara pantað mér manneskjur. En það er víst ekki þar sem sagt að þó svo að einhver sé ómótsæðilega fallegur og flottur að innihaldið sé upp á jafn marga fiska. Því það er jú án alls efa innihaldið sem skiptir máli.

Svo kom önnur pæling. Mikið væri frábært ef við gætum bara keypt okkur það sem okkur fyndist vanta í persónuleika okkar. Víst gæti ég örugglega fundið einhverja kosti sem mig langaði í. En svo kom það. Ég áttaði mig loksins á því að við værum ekki þær persónur sem við erum ef við gætum bara pantað inn í persónu okkar. Innrætið okkar er það sem við erum. Ég væri ekki ég ef ég hefði annað innræti eða aðra hæfileika. Þá væri þetta aðeins líkami minn en ekki raunverulega ég. Svo verðum við að sætta okkur við líkama okkar og útlit og eigum ekki að þurfa að óska þess að við gætum pantað nýtt lúkk úr auglýsingalista. Verum bara sátt við okkur eins og við erum. Við getum alltaf bætt okkur í einhverju. Ásett okkur það markmið að gera eitthvað aðeins betur en við megum hins vegar ekki fara fram úr okkur sjálfum. Brosum út í heiminn, ánægð með okkur sjálf eins og við erum, bæði útlit og innræti.

Bestu kveðjur heim á klakann til ykkar allra...... :)

Valborg Rut hugsunarprinsessa



föstudagur, mars 23, 2007

Góður dagur


Tunglið er svo bjart og virðist svo brosandi í kvöld. Stjörnurnar eru líkt og demantar þar sem þær lýsa upp himinhvolfið. Græn norðurljósin fullkomna svo tilveruna á svartir nóttinni. Já það er fallegt hérna í kvöld til að fullkomna verðrið sem við fengum í dag. Mér leið í smá stund eins og ég væri virkilega heima á Akureyri. Líklega gerðu norðurljósin það að verkum. En ég er víst mitt á milli hárra fjalla, þúsund trjáa og stóra hafsins hér í fjarskanum í Noregi. Góður staður rétt eins og bærinn minn heima. Sveitalífið var þvílíkt að gera sig í dag þegar við skvísurnar örkuðum alla leið til Vågstranda í góða veðrinu. Ég einfaldlega tímdi ekki að snúa við. Það var bara of yndislegt að ganga þarna aleinn, anda að sér hreinu sveitaloftinu, heyra fuglasöng á góðum vordegi og sjá nokkrar hræður undirbúa vorverkin. Er ég lúmskt mikil sveitastelpa í mér?


Þarna stóð hún og söng. Kona á miðjum aldri íklædd þjóðlegum fötum. Tónarnir fylltu kirkjuna af einhverju góðu. Svo bjartir og hreinir. Ég sat bara og fylgdist með. Það var gaman að horfa á þessa einföldu veru sem ljómaði af gleði, gaf manni hvert orð og hverja nótu. Norskir sálmar sem mér fannst flest allir ágætis lög. Kvöldið gekk vel, og okkar stutti partur af söngvakvöldinu gekk vel. Mér fannst gott að heyra orgeltónlist aftur. Það er eitthvað svo viðkunnarlegt og eitthvað sem maður þekkir svo vel að syngja með. Mig langaði að leggjast á gólfið, loka augunum og leyfa tónlistinni að sigra allt. En skerandi birta loftljósa var ekki að gera sig á kvöldi sem þessu. Hefur fólk ekki lært að lýsing skiptir miklu máli? Ég hefði allavega látið kertaljósin duga.


Annars ligg ég uppí rúmi, í bestu uppáhalds náttfötunum mínum, með tvær sængur, dauðþreytt og löngunin til þess að slökkva ljósið, loka augunum og láta sig svífa inn í heim drauma og hvíldar vex við hvert skrifað orð.


Þykir vænt um ykkur öll.


Valborg Rut.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Minning í blandi við tónlist

Ég ætlaði að koma með svaka gáfulegt blogg fyrir löngu. Svo gleymdist það eða ég gaf mér ekki tíma. Núna er hugmyndin á bak og burt og ég ekki búin að finna aðra. Ekki það að ég hugsi ekki mikið þessa dagana, ójú það er víst langt þangað til pælingarnar mínar verða á undanhaldi. En pælingabloggsins í stað kemur þakkarblogg.

Mér barst skemmtilegur pakki í gær. Umslag sem innihélt geisladisk og ísbox frá bestu vinkonu í heimi þó víðar væri leitað. Geisladiskurinn Hooked on classics mættur á svæðið. Við eigum svolítið fyndnar minningar frá þessari tónlist. Þriðjudagurinn eftir versló í fyrra og við á leið í Vatnaskóg, komnar út úr húsi löngu fyrir sex. Svolítið þreyttar eftir þriggja eða fjagra tíma svefn. En við vorum hressar, á leið í skóginn okkar síðustu viku sumarsins. Tónlistin á fullu í bílnum og fundið upp á öllu mögulegu til að veita okkur hressleika svona snemma morguns keyrandi á milli landshluta. Það var þá sem okkur datt í hug að skella þessu í græjurnar. Klassíkin að gera sig, verk merkra snillinga blönduð saman og úr varð svolítið skondin útkomma. Við allavega hlógum mikið, mest yfir uppátækinu að setja þetta í tækið svo ómaði um bílinn, en takmarkinu var náð og við glaðvöknuðum og vorum komnar í hláturskast. Í gærkvöldi setti ég þetta svo í græjurnar í bílnum á leið á kóræfingu og rifjaði upp þennan skemmtilega morgun. Mörgum þætti þetta líklega ekki skemmtilegasta tónlist í heimi en mér finnst þetta nú bara nokkuð fínt, allavega svo að ég hlustaði á öll lögin þrátt fyrir að hafa fundist þau sum hver aðeins of löng, en ég skipti þá bara um lag ;) En ég held að ég hlusti nú ekki á þetta á hverjum degi, enda skemmtilegra þegar Helga er á staðnum líka :)

Ísboxið innihélt þó ekki ís eins og ætla mætti fyrir ísaðdáanda eins og mig. Líklega hefði mér ekkert litist á ísinn eftir ferðalagið á milli borganna og hafsins sem aðskilur okkur. En það var ekki verri sjón sem mætti mér. Haldiði ekki að ég hafi fengið páskaegg! Það var nú reyndar komið í þúsund mola en það er allt í lag! Páskaegg er alltaf páskaegg og fer hvort sem er í smærri einingar í maganum ;) Held ég borði það samt bara fljótlega þar sem mér gengur afar erfiðlega að eiga eitthvað svona freistandi :) Takk fyrir sendinguna skvísin mín :)

Héðan úr sveitinni er annars lítið að frétta. Heilsan öll að koma til en pensilíndraslið verður tekið inn nokkra daga í viðbót. Ákvað að drýfa mig á kóræfingu í gær þar sem ég er loksins farin að heyra eitthvað! Það er samt ennþá eitthvað slímógeð í hálsinum mínum með kvefinu sem er ekki alveg að gera sig, en þetta er allt að koma!! Enda tvær vikur síðan þetta byrjaði allt saman. Vorum að æfa fyrir söngvakvöld í gær sem verður í kirkjunni á morgun. Frekar rólegt allt saman, margt á norsku, en ég er þó að ná þessu öllu saman. Frekar fyndin æfing í gær. Ég sat ekki hjá þeim sömu og alltaf heldur kom ein frekar gömul kona á milli. Hún söng stundum svo viltaust að ég hélt ég yrði ekki eldri. Svo einu sinni kom eitthvað alveg út úr kú og ég gat ekki haldið hlátrinum í burtu lengur en svo sá ég að ég var ekki ein um að farað hlægja. Hehe sem betur fer. En til að toppa þetta allt sat gellan frá Sómalíu hinum megin við mig. Ég hef nú aldrei heyrt hljóð frá henni og heyrði ekki alla æfinguna svo þetta var eiginlega eins og að sitja á enda utan við öll skringilegu augnarráðin sem ég held að sé bara eitthvað svona frá hennar landi. Stundum eins og hún sé að reyna að tala með augunum. Verst að ég skil bara ekki svoleiðs orð. En þetta var nú bara fínasta æfing þrátt fyrir fyndin augnablik en það er nú bara til að lífga upp á hlutina ;)

Núna er hins vegar málið að kíkja í bók. Þessa stundina er ég að lesa Eyðimerkur dögun, framhaldið af bókinni Eyðimerkurblómið. Hálf misheppnað samt að hafa ekki lesið það fyrst, en ég les það bara seinna ;) Þess má geta að Waris, konan sem bókin er um er einmitt frá Sómalíu, hehe.

Bestu kveðjur út um allan heim, Valborg.

mánudagur, mars 19, 2007

Til hamingju með daginn elsku Agnar!


Það er merkis barn sem á afmæli í dag. Enginn venjulegur krakki heldur furðuverkið og snillingurinn hann bróðir minn. Ójá litli minnsti bróðir minn er alls ekki svo lítill ennþá og er orðinn 10 ára! En mér finnst eins og það sé alls ekki svo langt síðan ég mætti á fæðingardeildina að skoða yngsta og nýjasta fjölskyldumeðliminn. Yfir mig stolt af að eiga loksins tvo bræður. Ég man meira að segja ennþá í hvaða fötum ég var. Rauðar buxur og bleika benetton peysan með húsinu ef ég man rétt. Fyndið. Já við eigum víst stórafmæli á sama ári en alltaf verð ég 10 árum eldri. En þó svo að Agnar sé orðinn 10 ára þá verður hann víst alltaf litli bróðir minn. Litla krúttið á heimilinu sem kemst upp með mun meira en ég gerði. Baldur er svo í miðjunni og kemst upp með eitt og annað en þó ekki allt.

Þökk sé skype og myndavélinni gat ég bæði sungið fyrir afmælisbarnið og séð það. Verst að ég gat ekki knúsað hann líka. Núna ætlaði hann að fara með foreldrunum að skoða hjól. Útiverubarnið en þó ekki síður tölvuaðdáandi mun að öllum líkindum fá hjól í tilefni dagsins. Litli peningamaðurinn ljómaði af ánægðu þegar hann sveiflaði öllum seðlunum sínum framan við tölvuna. Ekki þótti honum nú leiðinlegt að hafa eignast pening. Verst að maður á ekki afmæli nema einu sinni á ári, hehe ;)

Hvað skildi ég nú hafa brallað síðustu daga? Ja það er spurning. Ætli það hafi ekki eitthvað lítið verið gert sem vekur athygli ykkar. Allavega varð skarð brotið í inniveru síðustu viku. Ójá við erum að tala um enga gönguferð alla síðustu viku vegna leiðinlegs veðurs og heilsuleysis sem leiddi til leti og inniverulöngunar. En í dag var komið að því að rífa sig upp og halda út hvernig svo sem viðraði. Sem betur fer fengum við ágætis veður. Hér er þó smávegis snjór og rigning inn á milli. En akkurat núna þegar ég lýt út um gluggann minn sé ég glitta í bláan himinn sem vekur ánægju mína. Fórum þó bara helminginn af því sem við örkum flesta daga þar sem ég er komin með meira en nóg af veikindum og tók ekki sénsinn í fyrstu atrennu að vera lengur í kuldanum.

Látum þetta nægja í bili, Valborg Rut

laugardagur, mars 17, 2007

Litla lirfan ljóta


Fyrir nokkurum árum þegar ég horfði fyrst á teiknimyndina Kata, litla lirfan ljóta fannst mér það frekar leiðinleg mynd. En maður á það til að skipta um skoðun. Núna finnst mér þessi mynd miklu betri en mér fannst hún áður. Kannski vegna þess að núna sé ég allt innihaldið. Ólíkt mörgum teiknimyndum þá hefur þessi innihald. Ég sá það ekki fyrst, en ég sé það núna. Innihald sem tengis einmitt einu af áhugamálum mínum. Útliti. Þessi mynd sýnir svolítið vel að það er ekki útlitið sem skiptir máli.
Þarna kemur rosalega falleg maríubjalla. Ánægð með sjálfan sig og gagnrýnin á aðra. Tilkynnir litlu lirfunni að hún sé með því ljótasta í öllum garðinum. Og af því að hún sé bæði feit og ljót og hafi ekki vængi ráði hún engu. Bjallan var ókurteis og leiðinleg. Talaði niður til Kötu og setti mikið út á hana. Litlu lirfunni þykir þetta mjög leiðinlegt, því hún gat víst ekki ráðið útliti sínu. Seinna þegar Kata verður orðin af fallegu fiðrildi kemur bjallan aftur. Þá kemur hún og lýsir hrinfingu sinni og að hún sé örugglega það lang fallegasta í öllum garðinum. Bjallan er kurteis og góð og veit jú ekki að þetta er bara litla ljóta lirfan. En Kata bara brosir og skilur lítið um hvaða fegurð er verið að tala. Hún sem var alltaf svo feit og ljót. En svo sér hún að nú er hún fallegt fiðrildi. Og þess vegna hefur Bjallan allt í einu tekið hana í sátt. Vill allt fyrir hana gera, kemur vel fram og er kurteis og hlýleg.

Þetta sýnir að við eigum ekki að dæma eftir útliti. Lirfan og fiðrildið voru allan tíman sama persónan. Sama innihaldið og sami persónuleiki. Bjallan hins vegar dæmdi Kötu eftir útlitinu. Á meðan henni fannst hún ekki falleg átti að vera í lagi að vera dónaleg en þegar hún sá þetta fallega fiðrildi vildi hún koma vel fram og sýna velvilja. Maður getur lært á þessu. Við getum lært að koma vel fram við alla. Hvort sem þeir eru svartir eða hvítir, ljóshærðir eða dökkhærðir, feitir eða grannir, samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir, heilbrigðir eða fatlaðir, kristnir eða múslimar, með mikið sjálfstraust og álit eða ekki.

Lærum að meta náungann. Að finna það góða í öllum, burt séð frá fyrstu hugsun um útlit eða klæðaburð. Við skulum ekki dæma, það er slæmur eiginleiki. Komum vel fram við allt og alla, brosum og reynum að láta gott af okkur leiða.

Það er hættulegt að dæma aðra, ekki svo mjög sakir þess að þér gæti skjátlast heldur af hinu að þú kannt þá að leiða í ljós sannleikann um sjálfan þig. (Filemon)

fimmtudagur, mars 15, 2007

Þetta eilífa útlit

Ég var ekki langt frá því að fá ógeð af sjálfri mér í dag. Stundum getur maður bara ekki þolað hvernig maður er eða lítur út. Ekki að mér finnist ég alveg vonlaus eða lýta eitthvað skelfilega út. Nei alls ekki. En í morgun fannst mér ég líta hræðilega út. Mig langar í klippingu, litun og plokkun, flotta magavöðva, aðdáunarverða upphandleggsvöðva, heilsusamlegt mataræði, hagræða betur nokkrum fitukílóum á líkama mínum, nokkrar freknur og frískleika sem skýn í gegn og smitar út frá sér.

Ég gat þó ekki fengið neitt af þessu. En ég gat hins vegar farið í sturtu, í hrein föt, þurrkað á mér hárið, tannburstað þrisvar, skipt um hálsmen, sett á mig krem með góðri lykt, þurrkað af í herberginu mínu, litið í spegil og brosað. Þegar brosið var komið gat ég sætt mig við útkommunua. Ég hætti að pirrast eins mikið út af öllu því sem mig langaði að breyta og sætti mig við það sem ég get ekki breytt. Hitt kemur, ég er bara að bíða eftir kraftinum til þess að breyta því sem ég get breytt.

Ég hef hafist handa við að endurskipuleggja fataskápinn. Hann er samt ekki fullkláraður. En allt óþarfa drasl er horfið og allt er brotið saman flokkað eftir stærðum og gerðum. Ég flokka þó ekki nærfötin mín eftir litum eins og ég hef heyrt dæmi um. Þá fyrst væri ég orðin biluð. Verkið verður fullkomnað í kvöld. Er strax farin að hlakka til.

Veðrið er að batna. Vonandi hef ég þá löngun og nennu til að fara út á morgun. Orðið langt síðan ég fór í gönguferð síðast. Ég sem reyni að arka smá sem flesta daga vikunnar. Kvefið heldur áfram en er þó aðeins að skána. Hálsbólgan er farin en kvefhljóðið heyrist þó glögglega ennþá. Það fylgir þessu hausverkur. Ég hata hausverk rétt eins og önnur veikindi. Hóstinn er ekki jafn óheillandi ennþá og bráðum vonast ég til þess að geta losnað við þetta allt. Ánægðust væri ég þó að losna við ónýta magann minn sem finnst afar skemmtilegt að pína mig smá á hverjum degi nú orðið. Ég vil fúslega skipta um maga, samt bara innihaldið. Ég get orðið ánægð með útlitið.

Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

Ekki gleyma að brosa, það skiptir svo miklu máli.

Bestu kveðjur, Valborg Rut.

þriðjudagur, mars 13, 2007

Það búa litlir dvergar...

Ég komst að svolítið fyndnum hlut um daginn. Þannig er að ég syng stunum Það búa litlit dvergar í björtum dal..... lagið, enda er þetta mjög skemmtilegt lag. Verst að þegar ég var að rifja það upp fyrir ári síðan eða svo, líklega um það leiti sem ég vann á leikskólanum var ég ekki alveg viss á textanum þar sem þá voru mörg ár síðan ég söng þetta síðast.
Rétti textinn er svona:

Það búa litlir dvergar í björtum dal,
Á bak við fjöllin háu í skógarsal.
Byggðu hlýja bæjinn sinn,
Brosir þangað sólin inn,
Fellin enduróma allt þeirra tal.

Ég hins vegar hef síðasta árið sungið síðustu línuna á þennan veg: Regnið fellur óða á þeirra dal. Hehe ji hvernig gat ég haldið að það væri alltaf rigning þarna? Og hvernig gat mér dottið í hug að þetta passaði í textann? Jæja þetta passaði allavega og ekki setti Erik neitt út á það þegar ég var að syngja þetta í Danmörku. Hehe en ég veit þá núna hvernig rétti textinn er. Hér eftir ætla ég að syngja þetta lag rétt ;-)

Annað svona dæmi er þegar ég vann eitt kvöld á Brodway þegar ég bjó í Reykjavík. Ég og Berglind sem var að vinna með mér á leikskólanum ákváðum að skella okkur eitt kvöld þangað. Stuðmenn voru að spila og svo kemur lagið þarna íslensk fönn. Ég stoppaði hins vegar og skildi bara hvorki upp né niður í því að fólkið væri að leika snjó. Svo lít ég eitthvað á Berglindi og spring út hlátri. Ég hugsaði þetta lag semsagt eitthvað pínu vitlaust. Ég einhverra hluta vegna ákvað að það væri verið að syngja um skemmtun út frá enska orðinu. En ekki alíslenskan snjó. Æ æ stundum er ég kannski pínu ljóska ;) En það er nú allt í lagi, enda hef ég nú ekki átt svo mörg stór-ljóskuleg augnablik í gegnum ævina ;)

Annars fínt að frétta utan við skelfilegt kvef sem hrjáir mig mikið þessa dagana. Hálsbólga og hósti. Mikið hlakka ég til að fá röddina mína aftur. Og þeir sem þekkja mig vita hvernig ég verð þegar ég kvefast.... eiginlega bara alveg ónýt! En ég sé ennþá sem er góðs viti. Vonum að sjónin haldist og augun verði til friðs í þetta skiptið. Hér rignir og rignir, allt of mikið og ég bíð bara eftir að við drukknum í rigningardropum. Betra að halda sér innandyra þessa dagana, hvað þá ef maður ætlar að losna við þetta heilsuleysi fljótlega.

En jæja ég er hálfnuð með að plokka/naga naglalakkið af nöglunum svo líklega ætti ég að fríska aðeins uppá útlit handanna minna. Ég er þó afar stolt af mér að hafa ekki nagað eina einustu nögl í rúma tvo mánuði!!! Ef þetta er ekki bara allt að takast :) En eins og ég hef oft sagt þá er það fíkn að naga neglurnar og afar erfitt að hætta. Líkt og fyrir reykingarfólk að hætta sínum ósið. Ég vann baráttuna við neglurnar enn sem komið er :)

Hafið það gott út um allann heim..... Valborg Rut einstakasinnumpínuljóska.

mánudagur, mars 12, 2007

Mánudagur

Dagarnir líða og hér rignir endalaust að mínu mati. Allavega finnst mér langt því frá að vera spennandi veður í dag. Laugardagurinn fór í búðarferð til Álasunds. Þar gengum við næstum af okkur fæturnar því margar búðir, langir gangar og vá, endalaust margt fólk. Manni fannst næstum eins og jólin væru að nálgast, Þorláksmessukvöld og allir að þeysast um og redda síðustu hlutunum. En þetta var bara blekking. Ósköp venjulegur laugardagur. Agnes kom heim í gærkvöldi og Stian nálgast fljótlega. Þessir dagar gengur nú bara voða vel hjá hjá okkur hérna einum í sveitinni, eiginlega betur en ég þorði að vona. En nú tekur hverstaksleikinn og rútínan við aftur sem er líka fínt.

Veikindi eru óþolandi. Ég er viss um að þetta er vítamíninu að kenna. Ég nefnilega gleymdi að taka það í nokkra daga og líkaminn kannski ekki þolað þennan missi. Jæja, ég sit allavega uppi með mikla hálsbólgu, vondan hósta og kvefið fylgir fast á eftir. Hvernig svo sem á öllu þessu stendur svo. En ég get allavega þakkað fyrir að hafa sloppið vel hingað til. Nú er bara að vona að þetta láti mig fljótlega í friði.

Það er alltaf gott að stefna að einhverju. Í þetta skiptið stefni ég á að taka til í fataskápnum mínum. Jebb, enn og aftur. Ég bara skil ekki hvernig mér tekst alltaf að rusla svona í þessu. Óskiljanlegt. En á móti kemur hins vegar að það þarf alls ekki svo mikið að vera í ólagi til þess að mér finnist þetta illa skipulagt og vonlaust. Ég hef jú lengi vel haft mikla fullkomnunaráráttu gagnvart fataskápnum mínum. Svo hafa nú sumar frænkur lúmskt gaman að því að kíkja alltaf í fataskápinn þegar þær koma í heimsókn! Enda alltaf gaman að kynna sér skipulagið og fatasafnið. Hehe, furðuleg fjölskylda ;)

En jæja, nóg í bili af ekki gáfulegri orðum en þetta ;)

Bestustu kveðjur úr rigningunni í sveitinni..... Valborg Rut

föstudagur, mars 09, 2007

Molde

Þá er maður búinn með verkefni dagsins og sestur með súkkulaðið fyrir framan tölvuna. Í morgun þegar heimasæturnar voru tilbúnar héldum við til Molde. Fórum með hraðbátnum yfir og kíktum í nokkrar búðir eða svo. Ég kláraði þó fátt af öllu því sem ég ætlaði að gera. Ég á því enn enga íþróttaskó, amma gamla fær ekkert póstkort (finnast ekki póstkort í Molde) og Agnar fær enga afmælisgjöf í bráð. En jæja, þrátt fyrir það tókst mér að eyða nokkrum peningum. Ég get allavega sagt að ég er nokkrum fötum ríkari og nokkrir vel valdir hlutir fengu að fylgja með. Eftir nokkra klukkutíma í Molde var haldið heim á leið. Bátsferðir eru ekki í uppáhaldi. Líklega fannst fólki þessi ferð þó ekki slæm en mér fannst öldurnar þó í mesta lagi. Var dauðfegin þegar ég komst á fast land aftur. Svo var það bara heim að leika smá og svo fórum við í mat til Katrínar. Leona fór beint að sofa þegar við komum heim en ég tók smá þrifnaðarkast eða svo. Ef allir tækju nú föstudagskvöldin í að skúra, vá hvað heimurinn væri góður þá ;) hehe.

Á morgun er ferðinni heitið til Álasunds. Katrín bauð okkur skvísunum með sér í smá verslunarleiðangur og auðvitað vorum við ánægðar með það :) Líklega ætti ég að farað sofa núna, enda löngu komin nótt á mínum mælikvarða ;)

Bestu kveðjur frá prinsessunum í Jakobsgarden :)

fimmtudagur, mars 08, 2007

Sveitalífið í höllinni


Spurning hvort að sumir hafi verið svolítið þreyttir? Ja allavega er litla Dísin ekki vön að sofna þegar hún á að vera að leika sér. Hehe. Líklega verður maður þreyttur á því að vera svona rosalega kvefaður. Annars erum við skvísurnar einar í höllinni þessa dagana. Agnes og Stian eru í Danmörku á hestamóti og koma aftur á sunnudaginn. Strákarnir eruí dekri hjá afa sínum og ömmu þangað til á sunnudag. Við höfum það gott hér í rólegheitunum og finnum uppá einhverju til þess að bralla.
Annars er lítið að frétta. Ekkert slúður, gott veður, blár himinn, sól, örlítill vindur. Fór á kóræfingu í gærkvöldi. Katrín kom og passaði á meðan ;) ég er nú alveg að ná þessum lögum á norsku, hehe. Erum að farað syngja á einhverju söngkvöldi í lok mars með einhverjum fleirum sem ég náð ekki alveg. Finnst nú samt hálf fyndið að maður þurfi að borga til að vera í þessum kór. Ekki vissi ég það nú en svo fengu bara allir reikning í gær! Hehe fyndið sístem. En jú víst borga ég glöð í bragði þar sem mér finnst þetta mjög gaman.
Hef eitthvað voða lítið að segja. Ég sem var með helling af hugmyndum. Jæja, þær koma í minnið seinna og það kemur dagur á eftir þessum degi og blogg á eftir þessu bloggi ;)
Bestustu kveðjur, Valborg Rut.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Froskasaga


Hópur froska lagði af stað í geysimikið kapphlaup. Kapphlaupið tók á líkamlega og andlega. Áhorfendur höfðu litla trú á froskunum og tóku að æpa "þið náið þessu aldrei" og "þið verðið dauðir áður en þið náið í mark". Einn af öðrum gáfust froskarnir upp og hættu við kapphlaupið þangað til aðeins einn froskur var eftir. Hann kom loks í mark móður og másandi, enda var þetta erfitt hlaup. Furðu lostnir áhorfendurnir kölluðu á sigurvegarann og spurðu hvernig hann hefði farið að þessu. Þegar þeir fengu ekkert svar varð þeim ljóst að froskurinn var heyrnarlaus. Þessi froskur komst einn í mark vegna þess að hann heyrði ekki neikvæðnina og svartsýnina sem að honum var fleygt.


"Að vera sterk er ekki það að detta aldrei, ekki það að vita alltaf og geta alltaf.
Það að vera sterk er það að geta hlegið, hoppað hæst eða sýnt mest æðruleysi eða mestan viljastyrk. Að vera strerk er að sjá lífið eins og það er, að viðurkenna kraft þess og nýta hann. Að vera sterk er að detta, meiða sig, en rísa upp aftur. Að voga og vona, jafnvel þegar trúin er sem veikust. Að vera sterk er að sjá ljós í myrkrinu og berjast alltaf fyrir því að ná þangað." (orð í gleði)
Farið vel með ykkur í einu og öllu, knús og kossar frá Vågstranda :)

sunnudagur, mars 04, 2007

Það er gott að vera....

... sem gleðin býr, þar sem gerast sögur og ævintýr, það er veröldin okkar sem lafar og lokkar svo ljúf og hýr.... Lítill heimur ljúfur hýr, lítill heimur ljúfur hýr, lítill heimur ljúfur hýr, eins og ævintýr. (syngist upphátt!!)

Góðan daginn fólkið mitt :) Þá er helgin að líða og fátt eitt búið að brasa. Í gær fórum við upp á fjall. Fyrsta skipti sem ég kem þangað og alveg ótrúlega gaman að sjá þetta allt. Þetta er semst svona "hittuhverfi" sem Helena og Björn eiga (amman og afinn). Mér leið pínu eins og ég væri komin í eitthvað ævintýri. Svo endlaust norskur stíll og allt svo vinalegt eitthvað. Nokkur hús sem þau leigja út og eru svo með svona hestaferðir fyrir fólkið ;) Engir gestir þarna núna, bara þau í aðal-hittunni sinni. Hellingur af snjó þarna uppá og Björn þeittist þarna um á snjósleða. Langaði nú pínu að rifja upp snjósleðataktana og langaði eiginlega bara að senda familíuna mína heima hingað með sleðana okkar og leika mér! Mamma, þið eruð velkomin í heimsókn um páskana ef ykkur langar ;) hehe.

Strákarnir urðu eftir uppá fjalli svo hér er eitthvað afar hljótt og rólegt núna. Þeir koma svo seinni partinn í dag aftur. Það er æðislegt veður hérna. Langar nú eiginlega pínu út að leika en ákvað frekar að taka smá þrifnaðarkast á meðan ég var ein heima og fjalægja ryk úr herberginu mínu og skúra og svona. Núna er því allt fínt eins og venjulega, bara aðeins minni ryk ;) Annars hef ég það bara gott, Queen í græjunum og ég að blogga og borða nammi. Gæti nú ekki verið mikið betra ;)

Bestustu kveðjur heim á besta landið........ Valborg Rut.

Abba, við verðum pottþétt aðra gelluferð um landið þegar ég kem heim! Góðar minningar á myndunum okkar :)

laugardagur, mars 03, 2007

Mig langar í....


Í dag er 3. mars og þar af leiðandi sá dagur sem Helga frænka verður ári eldri enn á ný. Það eru ekki allir jafn heppnir að eiga jafn æðislegar móðursystur og ég. Ég á nefnilega næstum því þrjár mömmur ;) Varð náttúrlega að láta fylgja mynd af þessari merkiskonu og litla stóra bróður. Innilega til hamingju með daginn Helga og ég bið að heilsa öllum heima í graut til ömmu ;) Kannski þið sendið mér smá í pósti ef þið getið ;) hehe.

Annars langar mig í: Fiskréttinn hennar mömmu, litlar kjötbollur í rauðri sósu, mjólkurgraut hjá ömmu, endalaust mikið af nýjum fötum, ofurdugnað til að fara út að hlaupa, marensísteruna hennar Helgu frænku, Svarfaðardalinn minn, Helgu vinkonu í heimsókn, bæjinn minn bestasta, súkkulaðiköku, lion bar ís með stelpunum í Danmörku, sjálfvirka rykmoppu sem maður setur í gang og hún keyrir alveg sjálf um gólfið og tekur rykið, bræður mína sem stækka óðum, íslenskt nammi, saumavél og flotta efnabúð, fleiri símhringingar og karteflur í ofni með tómatsósu.

Svo langar mig á tónleika með kórgellunum mínum og við erum að tala um að ég er að missa af æskulýðsdeginum á morgun. Ellen Kristjáns og stelpurnar á tónleikum, væri gaman að sjá það. Jafnvel þó svo að mér hafi verið alveg sama þegar þær sungu með Megsi, ég hefði ekki fyrir mitt litla líf getað mætt á það! hehehe. En jæja, æskulýðsdagur aftur að ári, mæti bara á allt þá ;) Endilega fjölmennið í kirkjur landsins á morgun :)

Annars gengur lífið sinn vanagang og eitthvað lítið að frétta. Komið vel fram við hvort annað, lifið í sátt og samlyndi, hugsið hátt og brosið út í daginn :D

Kveðja, Valborg Rut

föstudagur, mars 02, 2007

Kraftur hollusta?

Hér kemur störnuspáin mín fyrir árið.....

Þú ert yfirfull/ur af lífsorku árið 2007. Þú dreifir kröftum þínum og stundum þverr þig máttur svo að þú heldur þér oftar en ekki gangandi á taugunum einum. En með aðstoð hugleiðslu eða slökunar og heilsusamlegs mataræðis getur þú gert kraftaverk með þinni óhemjulegu orku árið framundan.

Þetta á að einkenna mig....
  • Sjálfsfórn einkennir þig
  • Lífsorka þín er mjög öflug
  • Heilsa þín og líferni hefur áhrif
  • Hjarta þitt galopnast
  • Gagnrýnir nánast allt
Ég vona að það sé eitthvað til í þessu því þetta hljómar nú bara svolítið vel :) Ef ég gæti nú smitað krafti út um allt, ekki væri það nú slæmt. Heilsusamlegt mataræði, ja líklega þyrfti ég þá aðeins að taka mig á ;) Gagnrýnin hef ég líklega alltaf verið, þó líklega mest á sjálfan mig en geri án efa kröfur til annarra.

Og þetta á ég að betrumbæta....

  • Viðurkenndu réttmæti tilfinninga þinna
  • Hugaðu betur að forgangsverkefnum þínum
  • Slakaðu á í meira mæli
  • Hugaðu betur að lífsstíl þínum

Jæja, kannski ég verði að liggja oftar uppí sófa, hehe ekki eins og ég geri það ekki nóg og oft! Hugsa betur um lífsstílinn, jú kannski það, komast að því hvernig hann í rauninni er væri ágæt byrjun, viðurkenna réttmæti tilfinninga, á ekki orð fyrir komment á þetta, forgangsraða, ja það er spurning, hvað á ég að setja fyrst?

Fékk skyndilega löngun í að komast í gott form fyrir sumarið, hehe. Ég var ekki fyrr búin að renna þessu í gegnum hugann fyrr en ég ákvað að leggja dauminn niður. Ég verð líklega bara í engu formi aðeins lengur og veit alveg að ég myndi örugglega aldrei koma mér af stað út að hlaupa hérna. Gleymi nú ekki hvað ég ætlaði að vera aktív í Lemvig en fór svo tvisvar eða þrisvar hlaupandi um allt og dó næstum þegar ég kom heim, hehe. En ég er nú voða dugleg í góðu veðri að æða um sveitina með barnavagninn svo ég dey allavega pottþétt ekki úr leti :) Enda frekar aktív típa hér á ferð sem finnst skemmtilegra að hafa eitthvað að gera ;)

Ég gerði merkilegan útreikning í dag. Komst að því að ég hef lesið nákvæmlega 1.288 blaðsíður síðan ég kom hingað. Já ég verð að segja að ég er afar stolt af mér með þetta afrek á minna en tveimur mánuðum. En vá hvað tíminn líður hratt. Kominn mars áður en ég veit af! Búið að líða alveg ótrúlega hratt svo það lítur allt út fyrir að mér líki bara afskaplega vel hérna ;)

Gerði líka mjög vísindalega tilraun. Ætlaði að telja hvað ég þvæ mér oft um hendurnar á dag en þegar klukkan var hálf tíu var ég búin að þvo mér sjö sinnum, á einum og hálfum tíma. Hehe það er örugglega svolítið oft en svona er þetta allan daginn. Ég komst því ekki lengra í talningunni því ég gafst upp en er staðráðin í að komast að niðurstöðu eftir einhvern daginn. Úff klikkað áhugamál.

Jæja, bestustu kveðjur frá Noregi, Valborg

fimmtudagur, mars 01, 2007

...og þökk til þín...

Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.
Það var merkis maður sem lést í dag. Séra Pétur Þórarinnsson í Laufási. Mér hefur alltaf fundist hann svo merkilegur. Þegar ég var yngri þótti mér líklega merkilegast að prestur gæti verið í hjólastól. Fólk sem mér fannst einu sinni alltaf eiga að vera svo fullkomið. Svo sá ég að hann var ekki með alvöru fætur. Mér fannst það merkilegt en vandist því auðvitað fljótt. Ég man þegar ég sá hann í sjónvarpinu þegar hann var nýbúinn að fá nýjann traktor. Vá hvað mér fannst hann duglegur. Ekki allir sem fá traktor þar sem hægt er að gera allt með höndunum ;) Hversu oft ætli maður hafi sungið lagið hans, í bljúgri bæn? Eitt uppáhaldslagið mitt líklega því það hefur fylgt manni eitthvað svo lengi. Á svo endalaust margar minningar frá þessu lagi. Þegar ég lá á gólfinu í kirkjunni í svarta myrkri með stelpunum, unglingaflokkur í skóginum, endalaust margir kfuk fundir, Hólavatnsferðir, glamrað á gítarinn með góðu fólki..... lagið lifir en skáldið ekki. Blessuð sé minning manns sem virtist alltaf svo lífsglaður.
Annars allt fínt að frétta, hellings útivera í dag. Sandkassinn, fótbolti, gönguferð og ótrúlega gott veður. Það lítur allt út fyrir að það styttist óðum í sumarið ;)
Bestustu kveðjur, Valborg í sveitinni.